Bloggfærslur mánaðarins, desember 2021

Margir komnir á þá skoðun að Vinstri græn ættu að kallast Hægri blá.

Ögmundur Jónasson er kominn á þá almennu skoðun að rétt sé að VG breyti nafni flokksins, felli burt "vinstri" og "græn" þannig að eftir standi "hreyfingin". Ég held að mörgum finnist þessi frétt hreinlega fyndin, sem er í DV, "Ögmundur segir réttast að Vinstri græn breyti nafni flokksins".

 

Ögmundur gefur út nýja bók eftir áramótin sem heitir "Rauði þráðurinn" og þar mun þetta koma fram.

 

Það er mjög sjaldgæft að lesendur og virkir í athugasemdum DV séu sammála, en þarna eru allir sammála Ögmundi sem tjá sig, og einn segir:"Hægri blá mætti nýja nafnið vera, nema að HB (VG) hafa aldrei staðið við nokkurn skapaðan hlut af kosningaloforðum. Hægri blá mega fyrir mér fara að gera eitthvað annað en að vera í stjórnmálum og þó fyrr hefði verið".

 

Annar segir: "Það er fátt annað eftir hjá VG en að ganga formlega í Sjálfstæðisflokkinn, ætli það sé ekki það sem búast má við á nýju ári."

 

Ögmundur Jónasson er ekta vinstrimaður, þeim fer fækkandi, eins og ekta hægrimönnum. Miðjumoðið sigrar, að selja hugsjónir sínar.

 

En á hinn bóginn má segja að Vinstri græn séu hinn nýi Framsóknarflokkur, og að samræðustjórnmál eru vænlegri til vinsælda fyrir vinstrimenn, miðað við að ekki græddu þeir flokkar fyrir síðustu kosningar sem neituðu að vinna með Sjálfstæðisflokknum.


Gerir ekki meira (Ljóð, 2. apríl 2020).

Gerir ekki meira.

Gefur ekki meira, launin lítil.

 

Það hefur verið þaggað niður í sannleikanum

og snilldinni.

Áhugaleysið sá til þess.

Þannig gat skekkjan sigrað,

og athyglin farið í tilgangsleysið.

 

Vantar auðmagn fyrir hinn vinnandi mann,

en hinar spilltu afætur fitna meira.

Að meta til fjár slíka hæfni, hæfileika

myndi gera landið merkilegra, þjóðina.

Menninguna annað en ómenningu.

 

Þú tekur ekki eftir þeim sem þegja,

sem ekki hafa þrek eða kjark,

sem hefur verið lækkað niður í,

eða þú telur rök þeirra röng.

Það er ekki alltaf þannig.

Nútíminn skautar oft framhjá sannleikanum.

 

Fátæktin tók allan kraft.

Sjúkdómarnir tóku þá fátæku,

höfðu ekki tíma til að bíða í biðröð,

höfðu ekki efni á að leita læknis.

 

Froðupoppið fékk allar vinsældirnar, peningana.

Auðvelt líf fyrir einfaldar stelpur?

Systurnar einföldu

syngja sama söng

um trúna á böðlana af kvenkyni.

Dásamleg er einfeldnin,

fávissan er sæla.

 

Sæll er sá maður

sem getur þagað,

og sætt sig við afrakstur sinn

og verk sín.

 

Ömurleg er vinna án launa.

Verkamaðurinn í myrkrinu.

Verkalýðsfélög af öðru tagi.


Sagan endurtekur sig

Giordano Bruno skrifaði bækur sínar á latínu og ítölsku. Þegar hann var uppi þótti það í sumum löndum ekki mjög fínt að skrifa á þjóðtungunum og spekingar gerðu það helzt ekki ef þeir vildu vera teknir alvarlega. Enda voru ítölsku bækurnar hans einfaldari og auðskiljanlegri en þær latnesku.

 

Ég fann þýzkar útgáfur ítölsku bókanna hans sem höfðu verið gefnar út um 1900 í Þýzkalandi og með gotnesku letri. Þessar bækur fann ég í Þjóðarbókhlöðunni um 2004.

 

Ég las talsvert í þessum bókum, nóg til að skilja stíl og efni að nokkru leyti.

 

Setningarnar voru langar, oft heil blaðsíða eða meira, í ætt við kanselistílinn sem þá var notaður oft, en ekki er að marka þýzkuna, sem var þannig á þessum tíma.

 

Ég leitaði í þessum bókum að einhverju krassandi guðlasti, því ég vissi að Giordano Bruno hafði verið brenndur á báli fyrir guðlast og að fara útfyrir þrönga heimsmynd kirkjunnar á þeim tíma. Ég leitaði að guðlasti eins og því sem ég dáðist að eftir Sverri Stormsker og Megas, til dæmis, en ég fann það ekki.

 

Giordano Bruno var mjög gætinn í orðavali en mannkynið á hans tímum var brjálað, eða vesturlönd að minnsta kosti. Klikkunin bjó í því opinbera frekar en því óvenjulega.

 

Flest rita hans eru í formi leikrita eða samræðna. Oft stillir hann saman fróðum og ófróðum manni, heimskingja og spekingi. Spekingurinn segir oft eitthvað sem sprengir af sér heimsmynd þess tíma og hinn er eins og froskur sem reiðist eða mótmælir.

 

Þetta er það sem heimspekingar þurftu að gera, til að halda lífi. Þeir urðu að stilla saman andstæðum. Þeir komu með þá afsökun að þeir væru að sýna heilagri valdstjórninni það og öllum sem lásu hversu heimskulegar "vísindalegar" mótbárurnar voru og nýju kenningarnar um að jörðin væri ekki miðja alheimsins eða eitthvað slíkt.

 

Þegar Bruno var fangelsaður og yfirheyrður neitaði hann staðfastlega að taka nokkuð aftur sem hann hafði fjallað um. Hann var fangelsaður í sjö ár, frá 1593 til 1600 og sennilega pyntaður. Alla vega var reynt að fá fram játningu margsinnis og viðurkenningu á villutrú og ranghugmyndum, sem ekki fengust.

 

Af þolinmæði var reynt að fá hann til að afneita skrifum sínum ár eftir ár. Ekki fyrr en árið 1600 var hann dæmdur sem trúvillingur af Clement páfa VIII.

Það las ég í Nýölum dr. Helga Pjeturss að það hafi verið sérstök hátíð kirkjunnar og háttsettra valdamanna þess tíma sem valin var sem aftökutími, 17. febrúar 1600. Rétt eins og á tímum rómverska hringleikahússins þar sem virðulegir, fínir og snobbaðir leikhúsgestirnir fylgdust með þegar þrælar börðust við villidýr fyrir lífi sínu, þannig þótt það mjög Almættinu og elítunni til dýrðar að horfa á slíkan atburð.

Rétt áður en hann var brenndur á báli var höfð eftir honum setning sem varð fræg og er svona: "Það kann að vera að þið sem lesið upp dauðadóm þennan berið meiri skelfingu í hjarta en ég sem tek á móti honum".

 

Síðan var séð til þess að kefli var sett upp í mun hans svo vesalings lýðurinn þyrfti ekki að hlusta á óp hans eða guðlast eða annað sem hættulegt gæti orðið hreinum sálum þeirra og frómum.

 

Bækur hans voru settar í geymslur Páfagarðs yfir bönnuð rit, og þau sem ekki náðist að brenna meðal almennings lifðu meðal almennings. Hann má þó teljast heppinn, því talið er að flest sem hann skrifaði hafi varðveizt þrátt fyrir allt, en sömu örlög fengu alls ekki allir snillingar mannkynssögunnar, langt frá því.

 

Hann byrjaði sem Svartmunkur eins og oft var með fræðimenn þess tíma, en gerðist óvinsæll með því að styðja kenningu Kópernikusar og koma með eigin kenningar sem voru ekki samhljóða valdinu. Hann var á sífelldu flakki og ferðalagi þar til hann var handsamaður, og skrifaði bækur sínar á flakkinu. Oft fékk hann kennarastöður í ýmsum löndum á flakkinu og flóttanum sífellda, því til voru firna margir sem voru þyrstir í þekkingu hans.

 

Valdið er oft ekki að verja neitt sem er merkilegt. Grimmdarverkin eru framin vegna þess að spillingin er orðin svo mikil, rotnunin svo gífurleg að almenningur má ekki skilja, má ekki fá vitneskju, nema að takmörkuðu leyti.

 

Í dag er þetta öðruvísi. Allt er stútfullt af upplýsingum. Til að stjórna eru notuð hugtök sem skipta valdi og valdaleysi í tvo hópa. Falsfréttir tilheyra þeim valdalausu, en mannúð, jafnrétti, kvenréttindi og góðmennska í hinum hópnum. Svo þegar betur er skoðað er þetta ekki þannig. Jákvæðu hugtökin eru notuð sem afsökun.

 

Þrátt fyrir allt eru hliðstæðurnar augljósar. Satan fer aldrei nema þangað sem lífið er. Hann fer aldrei í taparana, hann fer alltaf í sigurvegarana. Á kirkjuöldunum var Satan í kirkjunni. Okkar tímar eru kvennaaldir, og því er Satan í konunum og femínismanum núna, augljóst mál.

 

Þeir sem þekkja þetta út og inn og hafa pælt í þessu lengi vita að þetta er svona. Satan þolir ekki að vera tapari. Grimmdin brýzt fram þar sem ekki er hægt að stöðva hana, þar sem réttlætingin er fyrir valdinu, þar sem hið skelfilega kemur ekki í ljós fyrr en eftir á.

 

Hvort sem fólk er dáleitt eða ekki, sem getur verið rétt og getur líka verið rangt þá er alltaf meirihluti fólks fylgjendur en ekki leiðendur, stjórnendur öðru nafni.

 

Það fólk sem getur ekki unnið vegna andlegra kvilla og sjúkdóma er margvíslegt. Ekki skortir alla rökhyggju, dómgreind eða raunveruleikaskyn. Sumir eru þreklausir, því til er nokkuð sem heitir andlegt þrek, að hafa sig til að gera eitthvað, og það er ekki það sama og leti.

 

En hin duglega alþýða sem unir sér vel í litlum kössum á lækjarbakka vill setja annað fólk í kassa líka. Það er vegna þess að allt þarf að vera skilgreint. Eitt sinn voru geðsjúklingar taldir andsetnir. Það má því segja að um þá skilgreiningu sé hægt að deila mikið.

 

Jesús Kristur væri pottþétt á geðlyfjum eða á hressingarhæli í dag. Hann talaði við ósýnilegan pabba sinn og talaði í dæmisögum sem ekki allir skildu.

 

Dr. Helgi Pjeturss sagði að Íslendingar skildu ekki spámenn sína og andlega leiðtoga og það var alveg rétt hjá honum, enda var hann sjálfur einn slíkur.

 

Við verðum því að læra af þeim þjóðum sem lyftu spámönnum sínum uppá stalla og gerðu þá fræga, virta og elskaða. Landlæg öfund, níð og rógur þurfa að hverfa, smásálarhátturinn.

 

Íslenzka þjóðin verður aldrei það sem henni var ætlað án þess að viðurkenna sína meistara og spámenn. Ekki vantar þýlundina í okkar þjóð, en meira þarf til.


Virðulegur prófessor farinn að efast um bólusetningarnar.

Hérna er íslenzkur prófessor við læknadeild Harvard-háskóla farinn að efast um nauðsyn og gildi bólusetninganna, sem hann var hlynntur áður, að minnsta kosti er hann farinn að efast um gildi þess að bólusetja börn, og hugsanlega hrausta karlmenn yngri en 40 ára.

 

Sigurður Þ. Ragnarsson, Siggi Stormur segir frá því í annarri frétt að sonur hans 29 ára liggur þungt haldinn á Landspítalanum vegna margskonar líffærabilunar, sofandi í öndunarvél. Spurningin vaknar: Er hann bólusettur? Sennilega.

 

Ætli konan sem ég þekkti hafi ekki verið það líka, rétt innan við fertugt þegar hún dó?

 

Annars er auðvitað rangt að draga of miklar ályktanir, en úr því að fólk hefur haldið þessu fram, að mikil áhætta felist í þessum bólusetningum getur þetta mögulega verið skýringin.

 

"Búum okkur undir það versta" segir Harvard prófessorinn. Einnig vitnar hann í grein sem bendir til að sprauturnar geti verið varasamar karlmönnum yngri en 40 ára vegna hjartavöðvabólgu. Þegar prófessor í Harvard er með efasemdir er í því nokkur þungi í umræðunni, að vísu, og Þórólfur ætti að taka tillit til þess, eins og Kári Stefánsson, þessir menn sem oftast er vitnað í, ásamt Ölmu landlækni.


mbl.is Áhættan hugsanlega meiri en ávinningurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hábraut 4, sem hefði átt að verða safn og Reynisdrangar þar utaná

Reynisdrangar eru að verða eitt af þekktari kennimerkjum Íslands, vegna auglýsinga og erlendra bíómynda. Nýlega varð skelfilegt slys þarna, enda vinsæll ferðamannastaður, og þarna er sjórinn úfinn.

 

Málverkið af þessum dröngum sá ég oft sem barn og unglingur, og eftir tvítugt, sem frændi minn Ingvar Agnarsson málaði utaná húsið sitt að Hábraut 4.

 

Ég hef aldrei verið mikið fyrir að ferðast mikið um landið, en þetta málverk hafði ég fyrir augunum oft, því Ingvar Agnarsson, bróðir móðurafa míns, málaði það utaná húsið sitt, sennilega árið 1975 eða svo. Eftir það málaði hann stjörnusambandsstöðvar milli glugganna, með smekklegum hætti. Þetta hús var reist af honum sjálfum og nokkrum öðrum 1946 en rifið 2006, því miður, því óþarfara hús kom í staðinn, safnaðarheimili fyrir kirkjuna, en nóg er af kirkjum, og safnaðarheimilið hefði mátt hafa annarsstaðar.

 

Hefðu ferðamenn viljað skoða þessar myndir.

 

Hann ferðaðist mikið um landið og skrifaði ferðasögur með ljósmyndum, sem eru óútgefnar.

 

Af því að hann kunni allar þessar tröllasögur og þjóðsögur fannst mér þær skemmtilegar og eðlilegar, hluti af lífinu. Ég var aldrei hræddur við tröllin, því mér fannst þetta of skemmtilegar sögur til þess.

 

Háidrangur, Mjódrangur, Landdrangur og Steðji. Þessi orð heyrði ég oft. Það var gott uppeldi að læra ýmislegt af þessu tagi, en ég hálflærði það, gleymdi því, en það rifjast upp.

 

Mér fannst sérstaklega skrýtið að svona klettur skyldi heita Steðji, því ég ólst upp við það að uppi í eldsmiðjunni á verkstæðinu var steðji, og þar voru járnstengur beygðar og réttar af afa mínum sitt á hvað. Hvernig gat klettur heitið það sama og níðþungt járnstykki sem virtist óbrjótandi?

 

Með því að læra jarðfræði og þekkja til fyrirbæra í náttúrunni stilli hann sig til skýrra og vísindalegra drauma sem hann skráði niður. Með því að ræða þessa hluti við fólk sem hann þekkti stillti hann sig til svona drauma enn fremur. Þannig gat hann rannsakað önnur sólhverfi og lífstjörnur, jarðfræði annarra hnatta í draumum sínum.

 

Því miður eru draumar jafnan stuttir, en stórmerkilegir, sé vel eftir þeim tekið og þeir skrifaðir niður.

 

Með því að dreyma svona landslag á öðrum hnöttum fær maður sambönd uppávið, þar sem athygligáfan er góð hjá fólki.

 

Helstefnan á okkar jörð er ekki sízt tilkomin vegna þess að við erum öll meira og minna þolendur en ekki gerendur í eigin lífi, þar sem tækniþróuninni er neytt uppá okkur.


Eyðing Amazonfrumskógarins er verra vandamál en íslenzk vandamál.

Veirufréttirnar eru ekki skemmtilegar um hátíðirnar, en þær eru gamalkunnar orðnar. Ekki er óvissan í sambandi við jarðskjálfta og eldgos heldur skemmtileg, en líka það sem allir á þessu landi þekkja að kemur aftur og aftur.

 

Ein frétt stendur uppúr og hefur valdið mér meiri kvíða en aðrar, frá Brazilíu og Amazonfrumskóginum, sem DV segir frá: "Segir að við höfum fimm ár til að bjarga Amazonregnskóginum". Virkilega skuggalegur boðskapur og gæti verið sannur hvað tímamörk varðar, það er aldrei að vita.

 

Hvernig stendur á því að ábyrgt fólk hefur ekki tekið þetta föstum tökum hingað til? Þegar Árni Waag líffræðikennari fjallaði um þetta 1982 brýndi hann það fyrir okkur krökkunum að þetta væri mikilvægt að berjast fyrir, eins og verndun sjávarins og ózonlagsins. Þetta er búið að vera vitað mjög lengi og samt er svona gráðugt kapítalistafífl eins og Bolsonaro látinn gera illt verra, með því að hvetja til skógareyðingar! Þjóðaleiðtogar hefðu átt að koma á alþjóðlegu umhverfisverndarráði sem hefði völd til að skerast í leikinn þegar svona gerist, þegar eitt land veldur hættu fyrir alla jarðarbúa vegna mengunar og spillingar lífríkisins.

 

Þegar kemur að umhverfisvernd er ég algerlega andvígur kapítalismanum. Auk þess ættu indíánarnir að eiga sín verndarsvæði í friði, og sinn lífsstíl.

 

Þetta er ekki auðvelt, en nauðsynlegt að fjalla um þetta og finna lausnir. Strangar reglur um bann við eyðingu á svona frumskógarsvæðum sem eru lungu jarðarinnar ættu að gilda.

 

Ólafur Ragnar er eini Íslendingurinn með völd og áhrif sem er sammála mér um að Ísland hefur áhrif og Íslendingar, eða hegðar sér samkvæmt því. Katrín Jakobsdóttir er þó vonandi viljug til að reyna sitt bezta í þessu efni eins og öðrum.

 

Stundum er ég mjög ánægður með að Vinstri grænir eru í ríkisstjórn.


Óska gleðilegra jóla

Burtséð frá hvaða sögur eru sannar eða ekki má segja að inntakið í þeim sumum eigi enn við eins og um frið og kærleika. En í heimi sem fer sífellt meira útaf sporinu er kvíði í manni og óeirð, sorg og þverrandi lífslöngun. Maður reynir samt að bera sig vel.

 

Mínar minningar um jól tengjast ekki endilega friði eða slíku. Dramadrottningin hún mamma notaði yfirleitt jólaboðin hjá ömmu og afa til að láta vorkenna sér. Oft þurfti hún að vera með einhverjum mönnum í þá daga, þótt hún sé hætt því núna, sem hún taldi fara illa með sig. Hún hefur þessa frásagnargáfu sem amma hafði, nema vildi hafa sjálfa sig í aðalhlutverki. Afhverju var hún þá að sækjast eftir karlmönnum fyrst hún taldi þá fara illa með sig? Sú saga endurtekur sig í gegnum femínistana sem eru af ýmsum tegundum nú til dags, en gráturinn er þeim sameiginlegur.

 

Góðar eru samt minningarnar um allar smákökurnar sem amma bakaði fyrir jólin og friðsamlegar jólahátíðarnar á því heimili, og fjölmörgum öðrum hjá fjölskyldu og vinafólki.

 

Ég er skilnaðarbarn, en frá 5 til 10 ára aldurs bjó ég þó á heimili þar sem mamma var húsfreyjan en ekki amma. Fyrstu árin var mamma gríðarlega myndarleg og það voru góð jól. En eftir skilnaðinn við seinni manninn fór hún að vorkenna sér mikið. Hún hefur aldrei verið mjög hamingjusöm eftir það.

 

DV er fullt af fréttum þar sem ranghugmyndir kvenna eru allsráðandi. Þeim hef ég fengið að kynnast hjá mömmu. Þegar ég lærði að hætta að taka mark á þvaðrinu í henni skildist mér að kannski stærstur hluti mannkynsins er fullur af ranghugmyndum og eigingirni.

 

En það er gott að reyna að slappa af um jólin, og þá rætist setningin "fáfræði er sæla", því maður veit að Míþrasartrúin er það sem manni er boðið, og gömlu sögurnar um Baldur sem lætur sólina aftur skína eru alveg jafn óraunverulegar. En engu að síður, kannski er öll veröldin skáldskapur, eins og víddafræðingar og heimsfræðingar segja sumir nú til dags, strengjafræðingar og skammtafræðingar, að heimurinn sé ein stór almynd, það er að segja að allt sé byggt úr ljóseindum. En hvað eru ljóseindir? Er heimurinn kannski byggður úr hugmyndum, hugsunum, skoðunum?

 

Já, á endanum sanna kannski raunvísindamenn dulhyggjukenningarnar.


Götuframkvæmdir sem skaða sjálfstæð fyrirtæki

Fréttablaðið sagði frá því í nóvember að Ásmundur Helgason og kaffihúsið Grái kötturinn hefðu tapað fyrir borginni í skaðabótamáli uppá 18.5 milljónir, út af götuframkvæmdum sumarið 2019. "Litli maðurinn tapar alltaf", er yfirskrift fréttarinnar, höfð eftir öðrum eigandanum.

 

Þetta er svo sem merkilegt og lýsandi mál, hvernig valdajafnvægið leikur hér aðalhlutverkið. Svo eru allir hinir sem aldrei hafa efni á slíkum málarekstri eða fara ekki útí hann vegna vissu um að fyrirfram sé málið tapað.

 

Varla hefði þessi frétt vakið athygli mína nema vegna þess að ég þekki svona sögu úr mínum uppvexti. Miklar framkvæmdir stóðu yfir á Digranesveginum árin 1992 og 1993, sem síðar varð Digranesheiði, en þetta gerðist áður en Smáralindin varð til og öll nýju hverfin þar í kring. Sú uppbygging átti sér stað næstu árin og eitthvað eftir aldatugamótaárið 2000.

 

Nema hvað, að skipt var um allar lagnir í hverfinu 1992 og 1993, símalagnir, vatnslagnir og raflagnir, og malbikað þar að auki. Afi minn varð fyrir miklu tapi á þessu tíma á verkstæðinu sínu, því viðskiptavinir komust ekki með bílana, svo hann gat aðeins gert við vélar um nokkurra mánaða skeið. Þá varð hann að taka lán sem tók nokkur ár að borga af. Þannig að þessi frétt um Ásmund Helgason og hans fyrirtæki snerti við mér og rifjaði upp þessar minningar.

 

Sjálfstæðisstefnan er því miður ekki nema svipur hjá sjón miðað við það sem var. Sú þróun að kommúnismi, samþjöppun, stofnanavæðing og ríkisvæðing eflist óhóflega er ekki bundið við Ísland.

 

Það er samt svolítið þversagnakennt að á meðan höft voru ríkjandi um miðja tuttugustu öldina voru menn sjálfstæðari í eðli sínu, meiri persónuleikar, og (Evrópu)reglurnar höfðu ekki þrengt sér útí hvert horn.

 

Það er góð stjórnsýsla þegar sterkir stjórnmálamenn taka tillit til almennings og samskiptin eru góð þarna á milli. Þannig voru beztu ár Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, þegar breiddin var enn meiri og samúðin með lítilmagnanum í þessum flokkum, áherzlan á litlu fyrirtækin ekki síður en þau stóru, og frelsið í sem víðtækastri mynd. Það er pólitískur áróður að segja að ástandið hafi verið endilega verra á Íslandi um miðja síðustu öld en það er núna.

 

Ég vona að Ásmundur Helgason haldi áfram með þetta réttlætismál. Hann er að ryðja brautina fyrir fleiri sem eiga um sárt að binda útaf slíku, og lenda í þessu einnig í framtíðinni.


Alvöru bóluefni komið fram í staðinn fyrir tilraunadjönk?

Þessi frétt er á hálfgerðu veirufræðingamáli þannig að það er vandasamt að blogga um það án sérfræðiþekkingar Kára Stefánssonar, en sumt er þó augljóst ómenntuðum lesanda.

 

Hér er talað um broddaprótín og ferritín-nanóagnir. Mér spurn, eru þessar nanóagnir náttúrulegar veirunni eða manngerðar? Hingað til hafa þær verið taldar til vísindasamfélagsins í vísindaskáldsögum en ekki til náttúrunnar, svo þessu þarf að svara, en úr því að 99% öruggt er að veiran er manngerð og úr tilraunastofu hljóta þær að vera manngerðar þessar nanóagnir. Geta ekki vinstrisinnaðir marxistar menningarinnar sem stjórna eiginlega öllu þá viðurkennt að þetta er drápsaðgerð, að senda veiruna út í andrúmsloftið, en ekki tilviljun náttúrunnar?

 

Gott og vel, ef þessi frétt er rétt þá er þetta alvöru bóluefni en ekki plástur á veikindin. Dálítið leitt að halda öðru fram og bólusetja með tilraunalyfjum margsinnis og árangur lítill af þeim, kannski skaði jafnvel.

En orðið plága í þessari frétt er svolítið vafasamt. Þetta er ný kvefpest eða veiruflensa frekar en plága, en kvefpestir geta verið hættulegar mannkyni með ónæmiskerfi sem skemmt hefur verið með sýklalyfjaónæmi til dæmis, sérstaklega ef þær eru ekki náttúrulegar en með aukinni smitnæmi og öðrum skaðavaldandi einkennum.

Einnig er það áhugavert sem lesa má um í fréttinni að bólusetningar hafa eyðilagt fyrir tilraunum á mannfólki á lyfinu, því bólusetningar með mRNA eitrinu hafa gengið of vel. Þörf er á algjörlega óbólusettum til að gera tilraunir á, og þeim fer fækkandi. Það er greinilega hið versta mál, eins og fram kemur í þessari frétt, og spillir fyrir rannsóknum á svona bóluefnum sem eru sögð muni virka.


mbl.is Endalok plágunnar mögulega í augsýn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaðan kemur nafnið Grinch?

Ég hef svolítið kynnt mér verk Guðjóns Hreinberg. Kenningin hans um að Grinch hafi upphaflega verið Grínskaði er allrar athygli verð, þótt erlendis sé því haldið fram að Dr. Seuss (rithöfundarnafn, hann var víst ekki ekta doktor) hafi fundið upp nafnið í bók sinni frá 1957.

 

Mig langar til að skoða orðið Grínskaði ögn betur. Orðsifjafræðilega gæti þetta verið mjög gamalt orð, því hvorki grín né skaði eru orð sem eru fullkomlega þekkt, merkingarfræðilega eða hversu gömul þau eru.

 

Grín gæti verið komið af ghrei, samkvæmt orðsifjabók Ásgeirs Blöndal, sem er indóevrópskt orð sem merkir að núa, rífa, strjúka, en hefur fengið margar merkingar í mörgu  tungumálum.

 

Skaði er orð sem er ekki jafn augljóst og ætla mætti. Við í nútímanum þekkjum það í merkingunni tjón. Þó var það til forna notað yfir gyðju og tröllskessu, konu Njarðar.

 

Í þeirri merkingu gæti það merkt hin fallega, eða skylt latínu, scatere, vella fram, samkvæmt orðsifjabók Ásgeirs Blöndal. Hins vegar viðurkenndi orðabókahöfundurinn sig sigraðan, eins og þegar þessi skýring kemur: "Uppruni óviss með öllu".

 

Bæði forliður og viðliður eru forn orð, og því gæti þetta verið gamalt nafn á jólasveini eins og kemur fram í sumum fræðum Guðjóns Hreinberg.

 

Jæja, vonandi að sá jólasveinn komi fólki í jólaskap. Ekki veitir af á þessum Covid tímum innilokunar og hörmulegra tíðinda.


Næsta síða »

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 16
  • Sl. sólarhring: 88
  • Sl. viku: 595
  • Frá upphafi: 106071

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 460
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband