Plötugagnrýni: Empire Burlesque með Bob Dylan, gefin út 1985.

Þetta er ein af þessum hljómplötum með Bob Dylan sem hafa verið umdeildar frá því þær komu út. Því var haldið fram af mörgum að hann væri útbrunninn um þetta leyti, og orðinn nokkurskonar skrumskæling af sjálfum sér, ekki lengur skapandi listamaður heldur eftirapi tízkunnar og hljóðgervlapoppsins, Duran Duran og slíkra hljómsveita. Sá dómur hefur þó ekki haldizt hvað þessa hljómplötu varðar, og eru miklu fleiri farnir að kalla hana meistaraverk síns tíma, sem sé falda geimsteina í tónum og textum þrátt fyrir umbúðir og útsetningar í anda níunda áratugarins sem fólk telur ekki hafa enzt jafn vel og lagasmíðarnar.

Svo mikið er víst að platan inniheldur rómantískari og melódískari (læagrænni) tónsmíðar en flestar af hans plötum. Síðan koma önnur lög sem ekki eru þannig.

Litskrúðugt umslagið gefur reyndar frekar til kynna einhverskonar tízkufyrirbæri en alvarlega þenkjandi listamann, en það er ekki þannig að platan sé umbúðirnar einar.

Platan fjallar meira um ástina en Infidels frá 1981 eða Shot of love frá 1981. Sumir hafa lýst henni sem endanlegu brotthvarfi Dylans frá kristilegum eða trúarlegum viðfangsefnum, en reyndar hefur hann á seinni plötum einstaka sinnum verið með slík þemu á ný.

Margir eru sammála um að snilld Dylans sem ljóðskálds birtist ekki fyrr en á seinni hlið plötunnar. Fyrri hliðin inniheldur marga texta sem fara mjög nálægt því að vera klisjukenndir popptextar. Að vísu er þar "Clean Cut Kid", sem er stríðsádeila og afgangslag af Infidels frá 1983, og margir hafa túlkað sem sögu úr Víetnamstríðinu.

Fyrsta lagið heitir "Tight Connection to my heart (Has anybody seen my love)". Það er uppfullt í tilvísanir í gamlar kvikmyndir og er textinn mjög klisjukenndur.

Þetta er endurgert lag frá 1983, frá Infidels plötunni, margir telja það lag betra, sem heitir "Someone's Got a Hold of My Heart". Það er vissulega einlægra lag og með ljóðrænni texta og frumlegri líkingum. Upptakan er þar fyrir utan betri frá 1983, persónulegri.

Það má því með sanni segja að Bob Dylan hafi slátrað eigin lagi frá 1983 og búið til lélega eftiröpun af því 1985 sem birtist sem fyrsta lag þessarar nýju plötu. Enda var hann gagnrýndur allan þennan áratug fyrir að gefa út mörg verstu lögin á plötunum eða verstu upptökurnar af lögunum, og hafa hitt flest óútgefið sem meira væri varið í.

En hvað vakti fyrir Bob Dylan með því að gefa út þessa algjöru klisjuútgáfu af laginu 1985? Bakraddasöngkonurnar eru mjög yfirgnæfandi og útsetningin alltof full af hljóðgervlum og raftrommum í stað lifandi hljóðfæra.

Það fylgir sögunni að hann lét Arthur Baker útsetja og hljóðblanda plötuna, sem kunni til verka að búa til samtímahljóðheim. Einnig hefur hann tjáð sig um að hann hafi reynt að laða að yngri hlustendur, (eða það má túlka það þannig með því að láta Baker hljóðblanda plötuna) nema það mistókst hjá honum að miklu leyti.

Næsta lag plötunnar heitir "Seeing the Real You at Last", textinn er einnig uppfullur af kvikmyndatilvísunum. Lagið er sambland af tölvupoppi og rappi og hans persónulega söngstíl. Það er gott dæmi um pælingar Dylans á þessum tíma, en getur tæplega talizt mjög gott.

Þriðja lagið er "I'll Remember You". Sumum gæti fundizt það væmið, eða hugljúft. Laglínan er óvenju metnaðarfull, eins og hjá Paul McCartney, og söngurinn býsna góður. Þetta er ballaða, sem hljómar vel. Þetta lag skiptir aðdáendum Dylan í ýmsa hópa. Sumir fíla þetta, aðrir telja hann hafa lagzt of lágt við að reyna að búa til nýjan aðdáendahóp.

Fjórða lagið er "Clean Cut Kid". Þetta er virkilega flott stríðsádeila frá Infidels upptökunum, en það má efast um að bezta upptakan hafi verið valin. Það mætti alveg eins segja eins og um hitt afgangslagið frá Infidels tímanum, að betri taka hafi verið tekin upp 1983, og hefði frekar átt að gefa hana út.

"Never Gonna Be The Same Again" er fimmta og síðasta lagið á A-hliðinni. Það er væmið eða hugljúft, en sýnir að minnsta kosti frekar nýja hlið á Bob Dylan. Þó hefur hann ekki spilað þetta mikið á tónleikum, þannig að af því mætti álykta að hann hafi talið þessa tilraun til að laða að sér öðruvísi aðdáendur hafi misheppnazt.

Fyrsta lagið á B-hliðinni er hvorki meira né minna en meistarastykki, finnst mér, það er lagið "Trust Yourself", sem hafði mikil áhrif á mig, og lagið "Náttúran" eftir mig, sem ég samdi 1. janúar 1988 er meðal annars undir áhrifum frá þessu lagi og einnig Stormskersguðspjöllum eftir Sverri Stormsker frá 1987.

Sjöunda lag plötunnar er svo "Emotionally Yours". Þetta er einnig lag sem talið er annaðhvort væmið eða hugljúft. Það er að minnsta kosti mjög vel samið og fallegt, og Dylan hefur ekki farið lengra í þessa átt síðan, á seinni plötum sínum.

Áttunda lagið er "When The Night Comes Falling From the Sky". Hér er á ferðinni lengsta lag plötunnar, yfir 7 mínútur að lengd, og að margra mati eitt það bezta á plötunni. Textinn er margræður, loksins eitthvað fyrir þá sem vilja alvöru ljóð frá Bob Dylan, ekki bara ástarvellu væmna.

Níunda lagið er "Something Is Burning, Baby". Hér er texti með ekta trúarlegar tilvísanir í dómsdag, syndir mannanna og refsingar Drottins. Á sama tíma má túlka það sem venjulegt ástarlag um léttúðardrós eigingjarna og sjálfhverfa með eindæmum og samskipti söguhetjunnar við hana.

Síðasta lagið heitir svo "Dark Eyes". Dylan sagðist hafa samið það um vændiskonu, en ýmsir túlkendur hafa séð í því dýpri merkingu, og ég þar með, sem sagt að það fjalli um dimman og brennandi heim, að jörðin hafi breyzt í Helvíti vegna synda mannanna, og það er víst nokkuð öruggt að Bob Dylan hefur haft eitthvað slíkt í huga, að vændiskonan sem hann orti um hafi í raun verið tákngervingur fyrir Sódómu og Gómorru þegar hann bjó til kvæðið og gerði lagið við það og söng sem lokalag plötunnar, að þessu sinni einn með gítarinn og munnhörpuna, ekki með allri hljómsveitinni sem spilar undir í öðrum lögum.

Þegar allt kemur til alls er þetta margræð og flókin hljómplata og ein af þeim beztu eftir Bob Dylan. Snilldin kemur ekki í ljós fyrr en búið er að hlusta á lögin oft og fyrr en búið er að pæla mjög rækilega í textunum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 78
  • Sl. sólarhring: 117
  • Sl. viku: 516
  • Frá upphafi: 106336

Annað

  • Innlit í dag: 52
  • Innlit sl. viku: 384
  • Gestir í dag: 49
  • IP-tölur í dag: 49

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband