Allt er gott sem endar - Megasartilvitnun - Hríðin eftir Megas frá 1990, túlkun.

Ég er nokkurnveginn viss um að Halldór Benjamín framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins var að vitna í meistara Megas þegar hann tjáði sig um hvernig kjaradeilan leystist með þessum orðum. Einfaldlega vegna þess að í laginu "Hríðin" frá 1990 kemur fyrst fram þessi setning í íslenzku, og er hún megasískur og dæmigerður útúrsnúningur á málshættinum fræga "Allt er gott sem endar vel".

Vísir er með þá frétt sem ekki fer hátt í öðrum fjölmiðlum, að Rússar haldi uppi öflugum hryðjuverkaárásum á borgir í Úkraínu, og kjarnorkuverið í Zaporizhhia varð í sjötta sinn án rafmagns í nótt og varð að reiða sig á varaaflstöð.

Þessi frétt sló mig og að ekki skuli vera sagt frá þessu í öllum fjölmiðlum á Íslandi. Af þessari frétt má glögglega sjá að heimurinn er hársbreidd frá gjöreyðingu, og mörgum sinnum hefur heimurinn verið nærri stærra kjarnorkuslysi en varð í Chernobyl 1986.

Að minnsta kosti 5000 manns dóu beint vegna slyssins, og sennilega er sú tala helmingi hærri ef allt er talið með.

Árið 2005 fengu 19.000 fjölskyldur lífeyri frá úkraínskum stjórnvöldum vegna þess að fyrirvinnan var látin vegna slyssins. Sú tala er stór hluti okkar þjóðar, til dæmis. Slys í stærsta kjarnorkuveri Evrópu yrði á miklu stærri skala.

Eins og lesa má um hefði slysið í Chernobyl getað orðið tvisvar sinnum verra en Hiroshima sprengingin, en fáeinir hugrakkir menn, hetjur, náðu að afstýra því.

Fukushima kjarnorkuslysið í Japan 2011 minnti á að alltaf er maðurinn að leika sér að eldinum með nýtingu kjarnorku. Mikil mótmæli gegn kjarnorkuverum brutust út í kjölfarið víða.

Geislun hefur aukizt á jörðinni síðan kjarnorkuöldin hófst. Fullvíst er að fjölgun krabbameinstilfella útum allan heim má rekja beint til notkun kjarnorku, tilrauna, slysa og sprenginga, þótt ástæðurnar séu fleiri án efa. Kjarnorkumengun þekkir engin landamæri, þótt hún sé verst næst staðnum þar sem slysið varð eða sprengjan lenti.

Eins og margir hafa tjáð sig um eru rússnesk yfirvöld glæpsamlega skeytingalaus þegar kemur að lífi eigin þegna. Þau eru einnig glæpsamlega skeytingalaus gagnvart kjarnorku yfirleitt. Jafnvel má segja það um Úkraínumenn líka, eftir að þeir vilja berjast í þessu stríði til hinzta manns og leggja þessa hættu á sig og heiminn fyrir utan aðrar.

Kvæðið "Hríðin" eftir Megas frá 1990 fjallar um það þegar nokkrir menn urðu úti á milli bæja í stórhríð, ekki vísað í tiltekinn atburð heldur nokkuð sem oft hefur gerzt í Íslandssögunni, því miður.

Kófið er Covid-19 farsóttin kölluð, og svo aðför að mannkyninu, frelsinu og móðursýki af öðrum, og "Stormur" er heimildarmyndin kölluð um Þríeykið og atburðina í kófinu. Þannig að "Hríðin" eftir Megas getur verið tákn fyrir ýmislegt, margskonar hörmungar.

"Þið munið öll deyja", söng Bubbi Morthens árið 1980 með Utangarðsmönnum í laginu "Hiroshima". Megas fer skáldlegri leið að þessu og í laginu "Hríðin" er slíkt skoðað með öðrum hætti.

Eitt sinn fannst mér nýrri verk Megasar verri en þau sem eldri eru. En fréttin um árásir Rússa á orkuinnviði í Úkraínu lét mér skiljast það að Megas er að yrkja um það sem getur gerzt í "Hríðinni" frá 1990.

"Þessi alíslenzka hríð hún er ævinlega í fangið í hvaða átt svo sem þú stefnir - og hvaða guð eða lögmál sem þú nefnir," eins og hann orðar það.

"Allt er gott sem endar", eru lokaorð kvæðisins, fyrir utan viðlagið sem er endurtekið.

Vandinn er sá að jafnvel þótt Pútín myndi tapa stríðinu og stríðið myndi hætta þá eru fleiri kjarnorkuógnir sem steðja að. Fólk er jafnvel farið að mæta þessu með kaldhæðni eins og öðrum ógnum sem steðja að, sturlunin er svo fullkomin hjá okkar mannkyni á flestum sviðum, og hrokinn, að telja sig ekki þurfa á æðri máttarvöldum að halda, að húmanisminn nægi eða mannleg skynsemi eða hæfni eða dugnaður, því fer þó fjarri.

Ég fékk að horfa inní stein í hörgi í fyrra, þegar ráðstefna álfa og manna fór fram á Íslandi, og mætti minna á það þegar fólk taldi geimverur myndu koma til Snæfellsjökuls árið 1993 var skilningur á slíku, en auðvitað sáust þær ekki. Mikill misskilningur er það hjá fólki þegar það telur geimverur helzt birtast sem grænar verur eða gráar eða öðruvísi útlits en fólk er almennt, þótt slíkt sé til einnig og staðfestar frásagnir séu til um slíkt að vísu, sem frægar eru.

Hörgar eru enn starfræktir á þessari jörð, annars værum við ekki lengur til, og hofin eru starfrækt líka, en fáir eru opnir fyrir þessu nú á dögum, enda er þetta helzt á hærri tíðnisviðum í andaheiminum, en snertir þó auðvitað okkar jörð og okkar mannkyn líka.

En ég varð þunglyndur seint á síðasta ári og snemma á þessu ári, því myrkrið sem speglaðist í steininum í altarinu, það sagði ýmislegt.

Skyldi Halldór Benjamín hafa verið ósáttur við miðlunartillöguna sem var samþykkt þrátt fyrir allt, úr því að hann notaði orðtækið "Allt er gott sem endar", sem mætti kalla fullt af bölsýni? Áður fyrr sætti fólk sig ekki við neitt skárra en "Allt er gott sem endar vel."

Níhílísk skoðun Megasar er svo sem víða í nútímanum. Mér finnst hún að vísu uppgjöf.

Jörðin er skóli fyrir sálir, en talið er að fjórðungur eigenda okkar að minnsta kosti vilji útrýma okkur á meðan hinir vilja halda okkur á lífi, en um það er deilt og sumir telja að næstum helmingur eigenda okkar vilji útrýma okkur, þótt það sé nú sennilega bölsýni, en það gæti komið í ljós á þessu ári, að vísu, miðað við ýmsa atburði nútímans.

Mennirnir bera ábyrgð og ekki aðeins þeir sem stjórna og hafa mest völd. Bítlarnir sungu árið 1969 "The love you get is equal to the love you give", í laginu "The End", eða "Endirinn", en skáldið Paul McCartney sýndi þarna sínar allra beztu hliðar, þegar hann vissi að þetta yrði svanasöngur hljómsveitarinnar.

Þannig er þetta með okkar mannkyn og eins manneskjurnar, hverja og eina. "Ástin sem maður fær jafngildir þeirri ást sem maður gefur." Þó er þetta ekki eins einfalt og sumir halda, því ást er hægt að gefa í mörgum myndum.

Fyrsta línan í kvæði Megasar er svona:"Við villtumst í myrkrinu milli húsa."

Þessi eina lína segir allt sem segja þarf um okkar mannkyn. Það er skuggalegt en satt að öll okkar nútímamenning er myrkur á milli húsa, og vinsælustu trúarbrögðin einnig.

Beztu mennirnir og beztu sálirnar hafa dáið héðan í burtu og nú eru fáir eftir sem telzt veig í, ef miðað er við þá hámenningu sem ríkti allt frá Kína til Evrópu, fyrir 1000 árum, og á ýmsum tímaskeiðum mannkynsins áður einnig. Því má segja að óvinir mannkynsins telji þessa tímasetningu góða til að þurrka okkur út, því það kann að breyta veig í alheimslegu tilliti á ýmsan hátt á vogum guða og djöfla og mannkynja af ýmsu tagi.

Það má læra af Megasi að maður hefur yfirleitt ekki efni á því að vera bjartsýnn. Saga 20. aldarinnar sýnir þetta mjög greinilega.

En í öðru erindi kvæðisins "Hríðin" eftir Megas eru þessi orð:"Það er hlálegt hve víða við gátum lífið orðið". Þar á undan er því lýst hvernig sömu sálirnar dóu á mismunandi stöðum landsins.

Í þessum línum er raunar vonin sem Megas er ekki að hafa hátt um í kvæðinu, þar sem viðlagið tekur meira pláss og bendir á bölsýnina og raunsæið. Já, eins og þessar línur sýna þá er lífið klókt, en ekki um of þó.

En í næstsíðasta erindi kvæðisins koma þessar línur:"Allt er gott sem er hverju sinni og ekki verður breytt." Þarna lýsir skáldið þeirri skoðun sinni að allt sé fyrirfram ákveðið.

Þó er þversögn viss í kvæðinu, því í síðasta erindinu þegar ljóðmælandinn segir að allar brýr séu brenndar, þá spyr hann sig hvort nokkuð betra verði sagt en... "Allt er gott sem endar?"

Í þessum lokaorðum kvæðisins kemur fyrst fram efi, um hvort ljóðmælandinn beri ábyrgð, hefði getað haldið sig heima, sleppt því að fara útí hríðina, eða farið á öðrum tíma.

Þannig er nú með okkur næstum öll, að við viljum ekki sjá hvað við gerum rangt, heldur hvað aðrir gera rangt.

Í kvæðinu "Hríðin" er Megas ekki að hvetja fólk til að biðja bæna eða reyna að haga sér betur og skynsamlegar. Hann lýsir því einfaldlega að þannig hagar fólk sér ekki endilega.

Til að kunna að meta mikinn skáldskap eins og kvæði Megasar, þarf maður réttan sjónarhól.


mbl.is „Allt er gott sem endar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 53
  • Sl. sólarhring: 80
  • Sl. viku: 493
  • Frá upphafi: 106247

Annað

  • Innlit í dag: 41
  • Innlit sl. viku: 370
  • Gestir í dag: 34
  • IP-tölur í dag: 34

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband