Bloggfærslur mánaðarins, september 2023

Frekari pælingar og útskýringar í kjölfar virkjanagreinar Ómars Ragnarssonar og umræðna fyrir neðan hana

Ég er einn af fáum hér á blogginu sem fjalla um umhverfisvernd með sama hætti og RÚV, en Ómar Ragnarsson fjölmiðlamaður, tónlistarmaður og skemmtikraftur og fleira er frægastur úr þeim hópi hiklaust. Því vekja skrif hans meiri athygli en annarra með og á móti. Núna nýlega lenti ég í ritdeilu við þennan Vagn, sem kannski er dulnefni, en hann hefur unnið sér það til frægðar meðal annars að vera duglegri en flestir aðrir að þræta við vinsæla bloggara eins og Geir Ágústsson og Ómar. Þó man ég eftir að hörðustu sennunum á milli Vagns og hins mikilvirka og áhrifamikla bloggara, Halldórs Jónssonar, sem lézt í fyrra, blessuð sé minning hans.

En þannig er að mér fannst margt ósagt í þessum þræði Ómars Ragnarssonar, vegna þess að hinn margfróði Vagn velti upp ýmsum steinum og fróðleiksmolum eins og ég og einhverjir fleiri, og fannst mér sumt af því bara nokkuð gott hjá honum.

Það er nú svo að þegar nýr pistill veltir þeim gamla úr sessi er lítill tilgangur að halda rökræðum áfram, fáir taka eftir því.

Hann orðaði það þannig að hér á Íslandi sé búið að "virkja nokkrar sprænur" og fannst honum það ekki tiltökumál. Þó er búið að virkja Ísland mikið. Óafturkræf náttúruspjöll myndu sumir segja. Mér finnst ekki hægt að skilja við svona umræðu án þess að það komi fram að sumir telja alltof mikið virkjað. Ég frekar hallast að því, en tel mig þó viðurkenna að ef til vill sé skárra að virkja vatnsföll en nota olíu og gas eða kjarnorku eins og gert er í útlöndum.

Hann er kannski ekki vinstrimaður, en þá er hann maður sem alltaf vill hafa rétt fyrir sér og eiga síðasta orðið, einn af þeim. Mér fannst sumt af þessu fanatískt og öfgafullt sem frá honum kom, ekki skrýtið að margir séu honum ósammála. Þó voru þarna fáein fróðleikskorn merkileg sem ekki er auðvelt að mæla gegn. Eins og það að skógarhögg var hér stundað og ofbeit, en reyndar byrjaði ég á því að minnast á það í mínum svörum.

Hann líkti þeirri ofbeit við virkjanir og sagði hana hafa verið miskunnarlausa ágengni á náttúruna. Já, virkjunarsinnarnir snúa þessu sér í hag til að geta virkjað sem mest og til að afsaka og réttlæta slíkt.

En þar er þó munur á. Sauðkindin hélt lífi í íslenzku þjóðinni í gegnum aldirnar, fólk gerði þetta af brýnni nauðsyn, að beita skepnunum miskunnarlaust á landið.

Álver eða gagnaver eða hvað þetta er sem yfirvöld vilja græða stórfé á veitir peningum inní hagkerfið sem fara í allskonar fyrirbæri og lúxus fyrir landsmenn, hjálparstarf til handa Úkraínu og stríðsrekstri Úkraínumanna meðal annars.

Nútímahagkerfið fær gróðann frá mörgum veitum og brunnum, við höfum val um að velja og hafna, frekar en fyrri kynslóðir að minnsta kosti. Því finnst mér Ómar í fullkomnum rétti að spyrja lesendur og sjálfan sig hvort allar þessar virkjanir séu nauðsynlegar.

Auk þess verður það að koma fram að þótt saga skógarhöggs og ofbeitar sé ljót í fortíðinni er það ekki afsökun fyrir meiri mengun í nútímanum og virkjunum sem kannski eru ekki nauðsynlegar. Það er alltaf sama sagan með sumt fólk, ef hægt er að benda á ljótari dæmi í fortíðinni á að vera hægt að afsaka eitthvað í nútímanum! Þessi aðferð er notuð til rökræðna í mjög mörgum málaflokkum.

Vagn skrifaði að sér væri "ómögulegt að sjá hvaða töfra tækni" ég væri að tala um. Þá finnst mér vera betra að útskýra það nánar. Bætti hann því við að sér dytti engin tækni í hug sem væri laus við mengun.

Ja, þetta er spurning um hugtakanotkun.

Það sem ég átti við með orðinu tækni í þessu sambandi var öll sú þekking sem notuð er dags daglega. Ég átti til dæmis við tæknina við að kunna að rækta hér grænmeti og ávexti, suðrænar plöntur, nokkuð sem fólk kunni ekki áður á Íslandi. Er ekki rétt að kalla það tækni, eða þarf það orð að vera bundið við verksmiðjur? Þekking? Jú, vissulega.

Það kalla ég "töfra tækni", allt þetta litla sem kemur saman og myndar stórfljót, ég átti við þá fjölskrúðugu reynslu og þekkingu sem fólk hefur, til dæmis á því hvað landið þolir, og hvernig hægt er að nýta landið miklu betur, með þekkingu og tækni. Lífræn tækni kalla ég það, hitt er ólífræn tækni, sem er gagnrýniverð.

Ég átti við þekkinguna á kornrækt og hvað má rækta og við hvaða skilyrði, til dæmis.

Hann hélt að ég væri að vísa í einhver óskiljanleg vísindi. Nei, ég var að vísa í allt þetta sem nú þegar er gert.

"Nú þegar öll þessi tækni er komin getur þjóðin verið sjálfbær", skrifaði ég.

Þessa setningu vildi hann ekki skilja og snéri útúr henni og spurði mig um hvaða töfra tækni ég væri að vísa í.

Ég held að sumir lesendur hafi skilið þetta rétt þótt Vagn hafi ekki gert það. Ég var að vísa í hversu miklu færari Íslendingar nútímans eru í því að lifa af landsins gæðum en þeir voru áður, vegna nýrra tækja sem eru komin, og nýrrar þekkingar, sem áður var ekki til staðar. Allt þetta var innifalið í orðinu tækni hjá mér. Nú getur Vagn vitað hvað ég átti við og aðrir, þetta var ekki eins fjarlægt og hann og kannski aðrir héldu.

Þeir sem horfa á RÚV vita þetta til dæmis, að sífellt er verið að kynna nýjungar í störfum bændanna og eitthvað snjallt sem þeir eru að fást við.

En sumir vilja bara endilega misskilja það sem maður er að reyna að tjá og túlka, til að sýnast snjallari, eða bara vilja alltaf vera á móti.

En ég vil samt þakka Vagni fyrir að koma með ítarleg mótrök og kappsamlega mótmæla mér. Mér finnst hann hafa verið rökfastur og ég kann vel að meta það.

Ég þarf ekki endilega að hafa rétt fyrir mér. Maður vill samt að minnsta kosti útskýra hvað maður á við svo ekki sé verið að snúa útúr orðum manns.


mbl.is Ný fjárlög ráðstafi minna fé í umhverfismál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almenningur er búinn að fá nóg af óöldinni í Svíþjóð en hefur takmörkuð völd. Hræðsluáróðurinn gegn Svíþjóðardemókrötum nægir að hindra að þeir komist í hreinan meirihluta. Hversu lengi?

Það er merkilegt hvernig stjórnmálamenn í Svíþjóð eru ófærir um að laga ástandið sem þar ríkir, skotbardaga, manndráp, nauðganir, sprengingar... Gústaf Skúlason á Útvarpi Sögu hefur ekki verið að ýkja eins og sumir hafa haldið fram, öðru nær, nú er þessar fréttir frá Svíþjóð komnar í alla aðra fjölmiðla einnig.

Hvenær koma þar öflugri og öfgafyllri slíkir flokkar fram þannig að saga 20. aldarinnar endurtaki sig? Hvenær ætlar fólk að læra sögu 20. aldarinnar? Hægriöfgar sigruðu í Þýzkalandi þegar óttinn við kommúnismann og stjórnleysið varð allsráðandi meðal almennings. Sömu hlutir eru kannski að gerast á okkar dögum víða um heiminn.

Raunveruleikafirring Katrínar og rugludalla sem annarsstaðar eru við völd á Vesturlöndum er algjör. Katrín og slíkir rugludallar fastir í fortíðinni þykjast berjast gegn hatri með banni. Það fyrirbæri er miklu flóknara en að hægt sé að eyða því með boðum og bönnum. Einfeldningar ættu ekki að setja lög fyrir almenning sem ekkert virka, eða sem virka öfugt. Á meðan þykjustu þjóðernisflokkar hafa komizt til valda á Ítalíu (Bræður Ítalíu sem er stjórnað af konu, eins fáránlegt og það er), og í Svíþjóð, (Svíþjóðardemókratar sem verja stjórnina falli) er alvöru stefna ekki til, hörð stefna, eða stefna sem tekur á vandanum.

Vestrænt lýðræði er orðið svo úr sér gengið að þessir flokkar, sem eru hefðbundnir miðjuflokkar eru kallaðir hægri-öfgaflokkar, og samt gera þeir ekkert gagn. Þetta er fyndið, grátbroslegt.

Í vinstrinu virkar þetta hinsvegar, því þar er sama hversu miklir öfgarnir eru, aldrei eru þeir gagnrýndir og alltaf er tekið mark á þeim.

Svíþjóð er gott dæmi um ástandið. Allt á leiðinni til fjandans, kjánar við völd sem ropa útúr sér froðu og loftbólum.

Það er nú ákveðið lögmál sem segir að ef almenningur fær sæmilega mikið af mat uppí kjaftinn og aðrar nauðsynjar, þá gerir hann ekki uppreisn og hlýðir yfirvöldunum. Smátt og smátt eru þó þessi gæði að rýrna. Það er að verða æ erfiðara fyrir fólk að lifa. Miðstéttirnar hrynja niður á lágstéttarsvæðið, leigan hækkar, maturinn hækkar, svigrúmið verður lítið.

Hvað gagnar að virkja meira ef allir peningarnir fara í vasa auðrónanna?

Staðan er þannig að við bíðum bara eftir stórhörmungum, kerfin eru komin á vafasöm stig, hættusvæði, náttúran þolir ekki meiri mengun, fjármálakerfin eru þanin af spillingu. Hvaða kerfin munu bresta fyrst? Náttúran? Fjármálakerfið? Ný farsótt?

Sænsk yfirvöld neita að fullorðnast. Þau taka ekki upp uppeldisaðferðir fortíðarinnar, agann sem gerði börnin vinnusöm, þau taka ekki upp þjóðernishyggjuna sem tilheyrði fortíðinni, sem gerði löndin einsleit og friðsamari í kjölfarið. Eða þá að kirkjan fær ekki sömu völd og áður, sem gaf fólki siðfræði sem það fór eftir.

Almenningur horfir á þjóðfélögin fara í tætlur.

Þetta er umburðarlyndið bandaríska innflutt, bandaríski draumurinn, allir geta meikað það, sama hvaðan þeir koma. Nema jafnaðarmenn stjórna Bandaríkjunum núna. Endurtaktu sömu tilraunina sem mistókst aftur og aftur þangað til hún heppnast, því kenningin fallega segir það. Kenningin segir það, þá hlýtur það að vera rétt, sama hvað veruleikinn segir. Marx sagði það, Stalín sagði það, þá hlýtur það að vera rétt.


mbl.is Svíþjóð ekki hættulegri síðan 1945
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maurar, ljóð frá 3. desember 2018.

Fjandinn á það fólk,

frelsið ekkert, hlýðir vél.

Ýtir takka á einhver fjarri,

ótalmargir fá þá skoðun ranga og sjúka hér.

Gröfumst undir grjótið svo hissa...

greifingjarnir auð sinn missa.

Héldu sig í himnakjarri,

hita upp gamla tólk.

Loksins mínar lausnir tel,

leitt of seint í tengslin, sker.

 

Þeir er vita þjást

er þrútnir halda á einni bók.

Veit að höllin verður sandur,

víða skelfur undirstaða svikaranna þá.

Ekki skaltu aðvörun gefa,

aðrir þurfa sitt að vefa,

Það er aðeins þeirra randur,

þú munt finna ást.

Mér fannst þetta myrkvað djók,

en maurar guðdómsandann skrá.

 

Senda drengjum sök,

saklaust fólk er dæmt af þeim.

Þjófar sleppa, morðsins mýgir,

múgur kýs það lið er pínir, umsnýr fólki, þér.

Drottinn sér og dæmir einn þetta,

dáðlaus þjóð má vart slíkt frétta.

Sá er hetjudáðir drýgir

á djöflum hefur tök,

getur frelsað heljar heim,

en harðar raunir þolir, fer.

 

 

Orðskýringar: Randur, kk: Rönd, jaðar, brún, þjóðfélagskimi, takmarkaður fjöldi einstaklinga, bergmálshellir.

Mýgir:Kúgari, einræðisherra.

Maurar: Hlýðið, undirgefið fólk.


Af hverju eru konur vinstrisinnaðri en karlar?

Þetta hefur komið fram í könnunum á fylgi við flokkanna svo ekki er þetta óstaðfest fullyrðing mín ef einhver skyldi ætla það. Auk þess hafa margir þetta á tilfinningunni sem þekkja marga sem hafa áhuga á pólitík og tjá sig um hana.

Auk þess eru margir kvenprestar frjálslyndir, hluti af Kvennakirkjunni eða aðhyllast frjálslynda guðfræði. Eða þá að margar konur láta ánetjast af kynjafræði án þess að hafa mikla dómgreind hvers eðlis þannig þjóðfélagsverkfræði er og hvað hún gerir manneskjum.

Þetta er einnig orðað á þann veg að óbrúanleg gjá sé á milli kynjanna, að konur séu frá Venus en karlar frá Marz.

Þessi líking er reyndar ekki ný, hún er vísun í goðafræði Grikkja og Rómverja. Hjá þeim var Venus ástargyðjan en einnig hnötturinn sem við þekkjum og hjá þeim var Marz stríðsguðinn þeirra mesti en einnig hnötturinn í sólhverfi okkar.

Það vita færri að Venus hefur verið nefnd Morgunstjarnan og jafnvel Friggjarstjarnan. Sumir hafa því tengt konur og Venus við tilvísun í Biblíunni sem margir telja vísa í Lúsífer, en aðrir mótmæla því: Jesaja 14:10-12, "Hversu hröpuð ertu af himni þú árborna morgunstjarna..."

Orðið Lúsífer er komið beint úr latínu og merkir Ljósberi, og kann mörgum að þykja skrýtið að nota svo fallegt orð um slíkan aðila sem hefur verið hataður innan kristninnar lengi, næstum frá upphafi.

Lúsífer var svo sannarlega persónugervingur stjörnunnar Venusar, og gyðjunnar þar með, sem konur eru almennt kenndar við.

Lúsífer varð sá sem drottnar í Helvíti, og þannig er enn trú margra.

Síðan hef ég heyrt að þessi árborna morgunstjarna hafi í raun verið Babýloníukonungur einn sem missti embætti og féll í ónáð í stjórnartíð sinni (eða konungar voru taldir með guðum og slíkt var sögusviðið) og um hann var fjallað með þessum mjög svo háðuglegu orðum. Þannig var þetta að minnsta kosti í babýlonísku heimildunum sem voru fyrirmynd þessara versa, eða þau tekin úr þessum babýlonísku ritum. Það breytir þó ekki því að kristileg túlkun er oft ekki sú sama og hin babýloníska var þannig að um þetta má deila og fólk er ekki á eitt sátt um túlkun Biblíunnar.

Femínisminn spratt uppúr húmanismanum, mannhyggjunni, sem blómgaðist og sprakk út eftir frönsku byltinguna og svipaða atburði síðar. Jafnrétti átti þá að ná yfir konur líka og þótti þá nýlunda. Fram að þeim tíma og enn meðal sumra þykir það hin mesta svívirða og ósvinna að fólk, hvað þá konur fái völd til jafns við Drottin almáttugan.

Það átti svo eftir að kosta blóð, svita og tár að ná fram þeim "umbótum".

Upphaflega voru konur alls ekki ginkeyptar fyrir kvenréttindum. Það voru menntamenn eins og John Stuart Mill sem áunnu sér virðingu en hatur meðal annarra að halda slíku fram, sem var á fræðilegum nótum upphaflega eingöngu.

Að vísu voru konur og karlar innan frönsku byltingarinnar sem vildu þetta, en þá var það vegna þess að þetta var búið að gerjast nokkuð lengi með frönsku þjóðinni, og hungur almúgans var mikið, stéttskiptingin gífurleg og þessar hugmyndir höfðu verið að ryðja sér til rúms smám saman þannig að bylting var óumflýjanleg fyrr eða síðar.

Ekki má heldur gleyma því að blóðug var þessi bylting, og gapastokkurinn mikið notaður til að taka fólk af lífi sem ýmsir vildu losna við í þessum hroðalegu átökum.

Það tók mjög, mjög langan tíma að sannfæra almennar konur um að þær ættu að berjast fyrir kvenréttindum. Þetta var snobbmálefni upphaflega eingöngu næstum allsstaðar, nema meðal örfárra kvenna af alþýðustétt.

Það fólk sem hefur trú á kynjafræðinni, og hún hefur raunar síazt inní RÚV og opinberar stofnanir, er stjórnað af Satan, segja margir réttilega, með vísun í Biblíuna og guðfræði aldanna.

Svarið við spurningunni hvers vegna konur eru vinstrisinnaðri en karlar held ég að sé að það sé kannski í eðli þeirra en þó að langmestu leyti er þetta komið úr kynjamótuninni og félagsmótuninni. Ég hef nefnilega lært eitthvað í kynjafræði af bókum og vinkonum sem hafa rætt um þetta við mig, þótt ekki hafi ég lært kynjafræði í Háskóla, enda yrði ég þá þeirra málpípa mögulega eingöngu, sem mér finnst ekki nógu fýsilegt. Nóg hef ég þó samið um þetta í dægurlögum, með og á móti raunar. En eitthvað hef ég um þetta lært.

Þessvegna vil ég nota þeirra aðferðir stundum til að útskýra lífið og tilveruna, fólk og málefni.

Konur sem eru mjög miklir Píratar eða kynjafræðingar telja að það sé kvenlegt. Þær spegla sig í siðferði af þessu tagi sem þær telja þá almennt, en er það ekki. Jafnvel vilja þær kalla þetta réttlæti, en þetta er þó réttlæti sumra en ekki allra.

Í gegnum tíðina hefur konum verið kennt það að bleikur sé þeirra litur en blár sé litur stráka. Bleikur er litur Barbie, og heimska ljóskan er mýta af þessari tegund, sem Marilyn Monroe var dugleg að búa til eða efla að minnsta kosti, enda urðu örlög hennar ekki góð, hún framdi sjálfsmorð og var þunglynd, kannski vegna þess að hún þekkti ekki nógu vel sjálfa sig, eða var ekki í nógu góðum tengslum við eðli sitt, aðeins hluta þess.

Það er alveg augljóst og pottþétt að þessari félagsmótun er ýtt að stúlkum, að þær eigi að vera samúðarríkar og umburðarlyndar, tilfinningaverur fyrst og fremst. Þó reyna kynjafræðingar og femínistar að berjast gegn þessu. Það getur jafnvel verið hrollvekjandi hvernig árangurinn verður meðal sumra kvenna og stúlkna.

Á heiðna tímanum var þetta öðruvísi.

Dæmin úr Íslendingasögunum eru mjög lýsandi. Þar eru konur sem standa með hefðinni enn meira en karlarnir, og heimta að karlarnir sinni hefndarskyldunni því heiður ættarinnar sé í húfi. Konurnar voru þá morðóðari en sumir karlmenn, og alls ekki væmnar eða að hugsa um húmanisma eða tilfinningar eða að særa tilfinningar.

Einnig er það mjög merkilegt að orðið Edda merkir langamma, en Eddurnar geyma norræna trú, Snorra Edda skráð af Snorra Sturlusyni en Sæmundar Edda skráð af óþekktum höfundum.

Það bendir eiginlega allt til þess að konur hafi verið íhaldssamari og hafi geymt menninguna enn frekar en karlmenn á liðnum öldum. Hin heiðna menning var líka munnleg geymd að stórum hluta, og það hefur fallið í hlut kvenna að læra kvæðin utanað, læra siðspekina og annað slíkt.

Að vísu voru til narar, karlkyns nornir, valvar, karlkyns völvur, og galdramenn, seiðmenn, barðar, kvæðamenn, drúíðar og sjamanar.

Drúízka hefðin segir aðra sögu, að þetta hafi verið karlastarf. Þeir voru meðal Frakka og Germana almennt fyrir Krists burð.

Heimska ljóskan er fyrirbæri frá 20. öldinni en sú mýta stjórnar fjölmörgum ennþá.

Allir spegla sig í einhverjum kynjahlutverkum. Hinseginfólkið leyfir sér að spegla sig frjálslegar en aðrir, eða þá að því er það eðlislægt.

Langflestir spegla sig í kynjahlutverkum síns eigin kyns. Þær spegilmyndir eru mismunandi íhaldssamar.

Vinstristefnan er bara kvenlegri í eðli sínu, miðað við staðalmyndirnar frá 20. öldinni, sem voru arfur frá fyrri tímum bara magnaður upp. Þessvegna finnst mörgum konum auðveldara og sjálfsagðara að telja sig vinstrisinnaðar og tala máli þesskonar hugmyndafræði. Það er þó ákveðin grunnhyggni.

Ég er sammála sumu sem kynjafræðingar halda fram, eins og að það sé rétt að fólk frelsist að vissu leyti frá hefðbundnum kynjahlutverkum, en mér finnst það bara algjörlega ganga útí öfgar hjá hinseginsamfélaginu. Ég held að fólk geti ráðið þessu sjálft að allmiklu leyti, kynhneigð sinni og tilfinningum, en þó ekki fyrren með mikilli ástundun og íhugun, hvort sem það er Jóga eða eitthvað annað, sem temur hugann og líkamann.

Það er því ekki skrýtið að börn og unglingar láti sannfærast um ýmislegt, því sá aldur er mótunarskeið. Ég tel að sumir hneigist að sama kyni, en mun færri en talið er í samtímanum, þegar þetta er orðið tízkubylgja og eitthvað sem talið er flott, eiginlega, þótt um það sé raunar deilt, en þetta er nokkuð áberandi minnihlutahópur, samkynhneigðir og hinir í hinseginsamfélaginu, áberandi er þessi hópur og fer vaxandi, tölfræðin sýnir það bara.

Mér finnst það mjög ósanngjarnt að segja að það sé vont fólk sem er íhaldssamt hvort sem það er út af kristilegri trú eða einhverju öðru.

Okkar þjóðfélag er komið langt á þeirri braut að vera með skoðanafordóma. Einnig þarf að vinda ofanaf því ástandi að gjáin á milli kynjanna er orðin of breið, alltof breið, svona almennt. Það fer ekki batnandi með kynslóðunum. Það sést á örfáum ungum piltum í skólum nútímans sem eru harðari og ofbeldishneigðari en þekktist meðal eldri kynslóða, eins og hefur komið í fréttum og vakið óhug almennings, og hinar öfgarnar eru kynjafræðiunglingsstelpurnar sem hræðast stráka eða þola þá ekki og vilja sem minnst umgangast þá. Slíkt veldur einnig kvíða og óhamingju, að geta ekki treyst eða þolað helmingnum af mannkyninu.


Vildi þessa vart, ljóð frá 17. maí 2019.

Hallast árið hart,

hef ei nokkuð ennþá reynt.

Klausturbarinn kemur nær,

kynjaleysi, hatur villa þín.

Vildi þessa vart...

verður önnur betri loksins mín.

Telja þær að smjúga smart

ef smjörið mjakast fjær?

Tapað málið, ljóst og leynt,

líka vissir hvað er meint.

 

Andlit er svo frítt,

ógeð leynist, skoðun röng.

Fylgir tímans frenjuslóð,

fer að barma sér og hygla kvon.

Annars ekkert nýtt,

ekki jafnvel kveikir sanna von.

Trúi hennar löngun lítt,

samt leynist víða glóð.

Týndir fara gegnum göng,

gleðisvipan, villan ströng.

 

Stilling segir:Stopp!

Strákar bíða líka þar.

Okkar tími er aðeins ró,

æskan horfin, vinskap samt ég finn.

Kannski slíkan kropp...

kann að lofa... verð að fara inn.

Veltum burtu, hí og hopp,

höfum gefið nóg.

Elska það sem áður var

allra manna réttlátt svar.

 

Heljardaman hýr

hefur ekki vit á því.

Eftir dauðann allt loks séð,

ekki þaðsem birtir vítistíð.

Hann í honum býr,

hefst svo jafnvel annað, meira stríð...

Stundum verður réttur rýr

ef rolur stjórna, geð.

Verð að prófa píu á ný,

partýstand og þrumugný.

 

Fyrrum var hann fús,

fannst svo heilagt stúlkna mas.

Allar eru skreyttar nú,

ef ekki hamur, að minnsta kosti sál.

Ásta, rjómi og rús,

rosalegt var unglinganna bál.

Man ég það svo mildur, krús,

en mjög til vinstri ert þú.

Ekki snerti annað glas,

yndi vekur samt þitt fas.

 

Orðaskýringar: Kvon: Kona, eiginkona.

Stilling: Samstilling fjöldans eða þjóðfélagsins.

Smjúga: Reyna að gera lítið úr ágreiningi og misklíð, forðast hreinskiptin orðaskipti.

Smjör: Það sem er eftirsóknarvert í samskiptum.

"Hallast árið hart"...:Orðaleikur sem merkir hallæri. Eitthvað gengur verr en ætlað er eða vonazt er til.


Silfur Egils á að vera deiluþáttur og þáttur um menn og málefni sem koma á óvart, ekki svæfandi samtöl

Egill Helgason er sá eini sem ætti að sjá um Silfur Egils. Þegar þessir þættir hófu göngu sína hafði Egill Helgason gaman af því að láta ósammála fólk mæta í settið til sín og rífast. Þannig var það frægt þegar Páll Vilhjálmsson, sá bloggari sem hefur án efa verið einn sá hæfasti hér um áraraðir mætti í Silfur Egils fyrir meira en 10 árum, og athyglin sem sá þáttur fékk má merkja á því að Spaugstofan gerði grín að honum. Það var virðuleikavottur, sýndi að þá voru þetta mjög góðir þættir hjá Agli, þegar hann mátti fá fólk í þáttinn sem kom fram með eitthvað nýtt, fólk sem ögraði, en Páll Vilhjálmsson hefur verið einn af þeim, svo sannarlega, og sérstaklega ögrað vinstrimenningarmafíunni.

Þessi þáttur er alveg dauður og bældur í hel núna. Þetta er framhald af Kastljósi og algjörlega óþarft, peningaaustur til einskis.

Valgeir Örn, Sigríður Hagalín, Bergsteinn og fleiri af þeirra kynslóð hafa ekki þennan brodd sem Egill hafði þegar hann var uppá sitt bezta með þessa þætti. Þau spyrja VENJULEGRA spurninga, reyna ekki að fá fólk til að fara á yztu nöf, reyna ekki að etja saman ólíku fólki sem fer að hnakkrífast. Þannig gerist eitthvað í sjónvarpssal, þannig sjá áhorfendur nýjar og óvæntar hliðar á málum og fólki, þannig þættir fá áhorf, ekki sama þvaðrið sem er búið að æfa.

Annar góður sjónvarpsmaður er Heimir Már Pétursson á Stöð 2. Hann hefur unnið meira gagn í sáttasemjaramálum en ríkissáttasemjari, að því er virðist. Heimir Már og Egill eru sérstakir og með sinn stíl.

Maður hefur það á tilfinningunni að allir séu múlbundnir á RÚV núorðið. Fyrirframákveðnar spurningar og svör, ekkert nema æfð leikrit.

Ef hnignun heldur áfram á sjónvarpsstöðvunum hefur maður meira gagn af því að eyða tímanum í eitthvað annað, og þá segir maður þessu upp. Línuleg dagskrá er á undanhaldi um alla veröld. Fréttirnar eru eiginlega það eina sem ég nenni að horfa á núorðið, og þættir um líðandi stund eins og Silfrið, því jafnvel SCFI þættir hafa orðið wokehryllingnum að bráð og eiginlega allt bandarískt sjónvarpsefni, gjörsamlega óþolandi.

Sú var tíðin að allt það efni sem RÚV sýndi fannst manni áhugavert og gott að einhverju leyti. Þá var Derrick sýndur, Ráðgátur, fræðsluþættir frá BBC, dýralífsþættir, náttúrulífsþættir, gamanþættir, allt í vönduðum þýðingum, og svo gott íslenzkt efni með.

Nú er allt orðið lapþunnt moð, wokeruglið gegnsýrir allt. Það er gengið út frá því sem vísu að allir áhorfendur séu börn í anda sem trúa öllu sem er sagt og haldið fram, áróðrinum.

Oft fer ég yfir bækur á hundavaði. Bækur eru að verða mér dýrmætari en sjónvarp og útvarp, og líka gamlar hljómplötur eða hljómdiskar.

Þegar maður les bækur getur maður velt hverju orði fyrir sér. Maður getur spurt sig hvað sé rétt eða hæft í því sem þarna kemur fram.

Sjónvarpsefni sem er mjög yfirborðskennt og þar sem almennra spurninga er spurt, það hreyfir ekki við manni.

Á Netinu er mýgrútur af áhugaverðu efni á ensku, til dæmis á Youtube. RÚV gæti valið miklu áhugaverðara efni til að sýna, efni sem myndi sýna allskonar viðhorf og kima ólíkra samfélaga og skoðana.

Nei, það er ekki gert. Þess í stað er eins og Evrópusambandið stjórni RÚV, eða sænskir öfgajafnaðarmenn, eða þesskonar rugl-lið sem hefur keyrt sín þjóðfélög í þrot.

Það er ekki lengur komið fram við sjónvarpsáhorfendur eins og viti bornar verur, heldur eins og dýr í búri, eða fanga sem eru lokaðir inni af pólitískum yfirvöldum sem varpa á veggina sömu setningunum endalaust. Það eru aðferðir sem einræðisstjórnir nota til að heilaþvo fólk, þó sérstaklega pólitíska andstæðinga.

Þannig er barnaefnið líka. Á sama tíma verður þjóðin óhamingjusamari. Rannsóknir sýna að unglingsstúlkum líður jafnvel enn verr en strákum í skólum.

Menningin er hrunin. Því fyrr sem málsmetandi fólk áttar sig á því, þeim mun betra.

Því miður er það svo að það virðist ekki hægt að stöðva þessa helstefnuþróun.

Eftir svo sem 30 ár verður enska töluð á Íslandi. Hér verða aðeins fátæktarhverfi og gettó. Þá verður Indland mesta velferðarríki í heimi ásamt Kína, Evrópa verður á botninum ásamt Bandaríkjunum.

Nema fólk spyrni við fótum og geri uppreisnir.


mbl.is Silfrið á nýjum tíma og án Egils
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipaðar ræður og áður í gær

Þessar ræður þingmannanna í gær voru ekki spennandi. Þær minntu á endurteknar ræður ár eftir ár sem ekkert breytast. Það er auðvitað hægt að taka undir margt af því sem þarna kom fram, eins og venjulega. Samt skein í gegn að fæst af þessu yrði framkvæmt sem kom frá þeim sem voru í stjórnarandstöðunni, orð á blaði en ekki efndir.

Píratar veðja á þann hest að gera út á vaxandi hóp vinstriöfga í heiminum sem hefur smitazt hingað til lands.

Vinstri grænir leika undarlegan Framsóknarflokksleik, að standa með annan fótinn í íhaldinu og hinn í vinstriöfgum.

Áherzlur Sjálfstæðisflokksins eru kannski örlítið meira áberandi á þessu kjörtímabili en áður, en þó er ekki gott að segja. Katrín er eins og áður fær í því að hafa sem flesta góða.

Miðað við allt er þetta kannski skárri ríkisstjórn en sumar aðrar sem gætu náð völdum. Ef almenningur í landinu verður þjóðernissinnaðri, sem sumt bendir til, einsog ýmsar kannanir á viðhorfum fólks, þá verða flokkarnir skárri, sama hvað nafni þeir nefnast.


mbl.is Jakob Frímann: Hættum að skattleggja fátækt fólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er búið að finna Fensali, bústað gyðjunnar sem heitir Frigg?

Merkileg frétt á DV segir frá því að elzta þorp sem fundizt hefur í Evrópu var reist ofan á fornu vatni og á stólpum, nokkuð sem nútímafólk kannast minna við, þannig byggingarlag. (Fréttin heitir:"Elsta þekkta þorpið í Evrópu stóð á staurum fyrir 8000 árum"). Það er talið 8000 ára gamalt og svæðið er á Balkanskaga, á landamærum Albaníu og Norður Makedóníu.

Það sem mér finnst mjög merkilegt við þetta er gyðjudýrkunin sem þarna liggur til grundvallar. Í Eddum okkar Íslendinga, sem lýsa Ásatrú og Vanatrú er að minnsta kosti tvisvar lýst því hvernig gyðjudýrkun tengdist vatni til forna á hinum heiðna tíma.

Það eru bústaðir tveggja gyðja sem gefa þessar upplýsingar. Sága, sem talin er hafa verið ástkona Óðins, viðhaldið hans, eitt af mörgum, er talin hafa búið á stað sem heitir eða hét Sökkvabekkur. Hún er talin gyðja spádóma og vizku, og nafn hennar tengt sögninni að sjá. Tákn hennar eru bollar, fiskar og vatn.

Bústaður hennar heitir Sökkvabekkur. Orðsifjafræðilega má túlka það orð á margvíslegan hátt. Þannig merkir orðið sökkvir fjandmaður, og orðið gæti því þýtt óvinalækur eða eitthvað slíkt, en miklu fleiri merkingar koma til greina. Flestir hafa talið orðið þýða borg sem er sokkin eða djúpur lækur eða hylur, neðansjávarstaður í vatni eða djúpur dalur.

Ef orðið merkir bústaður eða borg á vatni eða í vatni þá passar það ótrúlega vel við þessa nýju frétt um að elzta borgin í Evrópu sem hefur fundizt hafi verið reist á staurum yfir vatni.

Fleira er merkilegt í þessu. Eiginkona Óðins á bústað þann sem heitir Fensalir samkvæmt heimildunum. Einkennisgripir hennar eru lyklar, mistilteinn, valshamur og rokkur sem hún notar til að spinna skýin.

Fensalir er talið merkja höll á vatni eða í vatni eða fenjum. Raunar er ég ósammála þessu, ég tel að orðið fen eða faen á latínu kunni að opna merkinguna, sem getur þýtt fé, gróði, auður. Því gæti bústaður hennar merkt: Hin ríkulega höll, eða peningahirzlan jafnvel, eða staður hinna efnislegu verðmæta.

Hvað sem öllum djúpum pælingum líður um merkingar þessara orða má telja sennilegt að bústaðir þessara gyðja séu tengdir vatni, þótt það sé einhverjum vafa undirorpið.

Sumir segja að mæðraveldið sé að verða allsráðandi í nútímanum. Verður þá Frigg í Fensölum aðalgoðmagnið í framtíðinni og verða hörgar og hof reist henni til heiðurs í stað kirknanna?

Ennfremur, ef tilgáta mín er rétt um að bústaður hennar merki "höll ríkidæmisins" verður þá Mammonsdýrkunin trú framtíðarinnar, eða er hún orðin trú nútímans, kannski öllu heldur?


Menning, efnahagsmál, fall Berlínarmúrsins 1989, tónlist og fleira

Ég er langt frá því að vera sérfræðingur í efnahagsmálum - mér leiddust þau fög í skóla. Það er þó alveg ljóst að þegar menn deila um hvort stöðnun eða örlítill hagvöxtur sé í Þýzkalandi er þar ekki allt í blóma. Núverandi kanzlari vill draga úr skrifræði og létta byrðum af atvinnulífinu. Undarlegt að kanzlarar Þýzkalands skuli sjá þörfina á slíku síðastir allra, á meðan jafnvel erlendir spekingar hafa verið að benda á þetta lengi.

Mér finnst fáir hafa betur spáð fyrir um hnignun ESB en Gunnar Rögnvaldsson, og hann fjallaði um þetta oft í pistlum sem voru fróðlegir.

Þýzkaland er þó enn með stærsta hagkerfi Evrópu eins og kemur fram í þessari frétt. Allt sem viðkemur Þýzkalandi og efnahagslífinu þar hefur einnig áhrif á Íslandi. Hagstjórn demókrata í Bandaríkjunum sem hefur nú þolað þunga gagnrýni víða hlýtur einnig að vera til umræðu. Veröldinni hlýtur því að vera hættara við stórri heimskreppu nú en oftast áður.

Það er staðreynd að 1% jarðarbúa eiga 99% auðævanna, og stjórna gríðarmiklu, til dæmis Bill Gates.

Ef manngildið er metið eftir peningum má segja að þessir einstaklingar séu ofmetnir svo mjög að þeirra mannvirðing og manngildi byggist á froðu uppblásinni að næstum öllu leyti. Einnig mætti kalla þetta glæpafólk, þessa auðróna, því einhversstaðar kemur auðmagnið frá.

Fólk sem stritar ber ábyrgð, og það fær oft ekki nægileg laun, en það heldur hjólunum gangandi. Gleymum þó því ekki að það er til andlegt strit, og það hef ég lagt á mig alla mína ævi, og samið dægurtónlist sem engum nýtist í von um frægð og frama. Ég held að það sé að miklu leyti vegna þess að ég hef sjálfstæðar stjórnmálaskoðanir sem ég hef ekki orðið landsfrægur og get því ekki lifað af listinni, tónlistinni. Það er einnig vegna þess að ég hef ekki lifað fyrir að markaðssetja sjálfan mig, en markaðssetningin virðist skipta mestu máli.

99% af minni tónlist og mínum textum er óútgefið. Örfá lög hef ég gefið út og þau eru aldrei spiluð á neinum útvarpsstöðvum. Það er algjört offramboð á tónlistarfólki. Örfáir fá athygli, og það er háð tízkusveiflum í samfélaginu hverju sinni hverjir fá athygli og spila í þætti Gísla Marteins á RÚV, til dæmis. Jafnvel þótt ég myndi reyna að vera sammála öllum femínistum eða öðrum sem menningarvöldin hafa dygði það ekki til. Og þó, kannski.

Ég hef verið að endurskoða hljómplötuna "Jafnréttið er framtíðin" lengi, sem kom út 2003. Ég hef verið að gramsa í gömlum demóupptökum sem ég hyggst nota í endurútgáfunni, ef af henni verður, sem ég ætla að stefna á. Ég á nefnilega meira en nóg af lögum sem voru hljóðrituð fyrir hverja plötu og voru ekki notuð. Þar á meðal eru einmitt lög sem falla betur í kramið, eru meira í samræmi við harðan femínisma, eins og lagið "Konur þurfa miklu hærri laun" frá 2003, en var aldrei gefið út.

Á þessum þremur hljómdiskum um jafnrétti gaf ég einnig út lög um ofbeldi. Lífið er ekki rósadans þótt reynt sé að halda því fram. Þó hyggst ég ekki endurútgefa þau lög, ef ég gef út endurskoðaðar útgáfur þessara platna sem komu út 2001 til 2003, "Jafnréttið er eina svarið" frá 2001, "Við viljum jafnrétti" frá 2002 og svo "Jafnréttið er framtíðin" frá 2003.

Það er bara sumt sem fólk skilur ekki og vill ekki skilja og mun ekki skilja og sem þýðir hvorki að syngja um né boða fólki. Samt mun ég aldrei sjá eftir því að hafa gefið út svona verk, því þetta er mín skoðun, að það sé ekki hægt að vera einsog Bubbi Morthens alltaf og þykjast, eða gefa út það sem fjöldinn vill, selst bezt.

Það er nú margt annað sem vakir fyrir mér en að reyna að gefa út í endurútgáfunni það sem gæti verið spilað á RÚV. Það er listrænn metnaður sem stýrir gjörðum mínum mikið. Sem betur fer samdi ég líka mörg lög og marga texta þannig og hef alltaf gert, þar sem listrænn metnaður er aðalmálið.

Maður þarf að vita hvað hlustandinn á að fá þegar hann kaupir skífuna. Tónlist er nefnilega eins og að mála málverk. Flókin lög og flóknir textar er það sem mér finnst nauðsynlegt að sækjast eftir og stefna að.

Hvert lag og hver texti þarf að þjóna þessum markmiðum. Góð málverk eru þannig að maður getur séð í þeim smáatriði 40 árum eftir að maður keypti þau. Þannig er góð tónlist líka og góðir textar.

Megas er almennt talinn meistarinn í þessu. Ýmislegt sem hann samdi áður fyrr lýsir nútímanum vel og betur en samtímanum sem það birtist í.

Til að ná þessu fram hef ég vandað textagerðina hjá mér sífellt meira, en það gerði ég reyndar alveg frá upphafi að vanda hana.

Eitt sinn þegar ég kunni ekki á gítarinn notaði ég mína eigin aðferð til að spila á hann. Ég fór að læra venjuleg grip 1986, og stilla gítarinn eins og aðrir gera. Ég tók yfir allar gömlu spólurnar mörgum sinnum, en hirti hvert lag í styttri útgáfu, þannig að aðeins fyrsta erindið heyrðist, til að lögin gæti ég lært og tekið upp síðar. Það var skortur á spólum hjá manni á þeim árum og maður var ekki að eyða spólum í óþarfa.

Ég var vanur að semja lög með sérstökum hætti árið 1985, kominn með hljóðnemann og Crown græjurnar. Ég var vanur að syngja aldrei sömu laglínu við erindin, sem helgaðist af því að ég byrjaði að taka upp áðuren lagið var samið. Ég hafði yfirleitt textann nýsaminn fyrir framan mig á skrifborðinu, og byrjaði svo að hljóðrita, og spilaði á gítarinn flatan og vitlaust stilltan án gripa, og stillti hann uppá nýtt fyrir hvert lag. Þannig komu undarlegustu hljóð úr honum, og gripin fann ég upp á staðnum og lögin. Síðan hlustaði ég á hvert lag fyrir sig oft.

Því miður tók ég yfir þetta á sínum tíma flest, eftir að ég lærði gripin og setti þau inní lögin og endurhljóðritaði allt. Þó notaði ég brot úr þessum laglínum, yfirfærðar í ramma gripanna.

Þessa aðferð endurnýtti ég þegar ég fór að greina á milli demótakanna og stúdíótakanna. Stúdíótökurnar voru þannig að reynt var að ná fram fullkomnun. Þá tók ég oft upp jafnvel 50 tökur af sama laginu, til að ná fram fullkomnun, og hvert erindi undir sama lagboðanum.

Demóupptökurnar voru meira í ætt við fyrstu upptökurnar, hráar og gerðar hratt, þegar lögin voru nýsamin, og mikið um ósamræmi, og jafnvel aðeins fyrsta erindið sungið, hin erindin röppuð eða töluð.

Þannig að miklu fleiri lög voru hljóðrituð bara sem demó. Þar kemur fram miklu fjölbreytilegri boðskapur í textunum.

Fólk sem hlustar á demóin finnst þau yfirleitt ekki skemmtileg, því þau eru ruglingsleg. Þorgils vinur minn kallaði þau öll pönk, en það er bara yfirborðið sem er þannig, undir niðri er þar allt annað á ferðinni.

Þrátt fyrir að fólk kunni kannski síður að meta demóin hef ég hallazt að því að ég muni frekar kjósa að gefa þau út sem endanlega afurð. Þau nefnilega eru einsog málverkin með smáatriðunum. Tónleikaplötur geta verið hinsegin, með öll erindin sungin rétt.

Það er skrýtið en satt að ég kýs frekar að gefa út þau lög sem ekki gefa rétta mynd af mér eða mínum skoðunum, heldur lög sem fólk gæti kunnað að meta, lög sem eru andstæð mínum skoðunum, sem eru hylling á jafnaðarstefnu og femínisma. Það er vegna þess að ég vil frægð og frama, ríkidæmi og peninga, og þetta er bissniss, hvort sem maður græðir á honum eða tapar. Markmiðið hlýtur að vera að tónlist manns seljist, þótt hún geri það varla enn.

Yfirleitt hlusta ég á hljómplötur eftir aðra en mig. Ég kann eiginlega engin lög eftir  mig, og enn síður textana. Demóin mín get ég hlustað á margsinnis til að læra þau, mér hinsvegar hundleiðist að hlusta á stúdíóupptökurnar sem ég hef gert af lögunum mínum og gefið út, þau lög hef ég sungið alltof oft, og því leiðist mér yfirleitt alltaf þau lög og spila aldrei, eða eiginlega aldrei.

En þessi pistill byrjaði sem pæling um Evrusvæðið og örlítinn hagvöxt þar eða stöðnun, sem deilt er um.

Pólitík er eiginlega vonlaus tík og ég er að komast á þá skoðun. Almenningur hefur engin áhrif og það skiptir engu máli hvað maður kýs. Almenningur er of heimskur til að kjósa flokka sem einhverju breyta. Alltaf er verið að kjósa sama ruglið, sömu stöðnunina, sömu auðfíklana og hræsnarana.

Mér þykir vænt um Þýzkaland. Þar vildi ég búa og ég kann líka vel við jafnaðarhugsjónir ESB, nema hvað þær eru auðvitað mannfjandsamlegar og mannskæðar því þær valda fólksfækkun.

Ég kynntist einusinni þýzkri stúlku frá Austur Þýzkalandi. Hún sagði frá kommúnismanum og hvað þau þráðu vörur og efnahag hins "frjálsa" heims.

Ég man enn eftir sögunum sem hún sagði frá falli múrsins, þá var hún unglingur, þegar það gerðist. Það var svo fróðlegt að hlusta á hana segja frá, hvernig atburðirnir voru eins og sjálfkrafa að gerast, og múgæsingin mikil þegar þetta byrjaði. Einnig kom þetta fólkinu á óvart hversu hratt múrinn hrundi og fólkið tók þátt í því sem þar var. Kannski ekki ósvipað og Búsáhaldabyltingin hjá okkur 2009, sem endaði í hreinum kommúnisma Jóhönnu Sigurðardóttur, skjaldborgin um ríkisbubbana og það allt.


mbl.is Örlítill hagvöxtur á evrusvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Okkar vestrænu samfélög eru æ meira að líkjast þeim fasísku

Það vakti athygli mína frétt á Stöð 2 um helgina. Nokkrir hér á blogginu hafa vakið athygli á mismunandi nálgun samtakanna 78 og 22, þau síðarnefndu hafna því að til séu fleiri en tvö kyn. En málið snýst um atburð í Langholtsskóla á fimmtudaginn, Samtökin 22 voru tilkynnt til lögreglu af Reykjavíkurborg vegna þess að þau vildu fá svör hversvegna einhver spjöld væru þar á veggjum. Mjög er deilt um þetta á samfélagsmiðlum.

En það voru orð Helga Grímssonar, sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar sem vöktu þó athygli mína frekar en þessar deilur samtakanna 78 og 22 sem maður hefur heyrt um nokkuð lengi.

Þetta sagði hann:

"Við erum að fylgja því sem segir í lögum um grunnskóla, aðalnámskrá, alþjóðlegum samþykktum sem við höfum undirgengist. Það skiptir miklu máli að starfsfólk okkar sé  öruggt í því umhverfi og fylgi þeim viðmiðum sem menntamálaráðnuneytið og sveitarfélagið er að boða."

Í kjölfarið var varað við þessum samtökum hjá skólum og frístundamiðstöðvum.

Hér er merkilegt menningarstríð í gangi, er það ekki orðið sem er notað?

Síðan er það frétt á DV sem tengist þessu svo sannarlega líka, en hún hefur fengið mikinn lestur og flestir sem skrifa athugasemdir standa með Frosta Logasyni en ekki Youtube stjórnendunum sem ritskoða Brotkastið hans og banna þættina þar.

DV fréttin á laugardaginn fjallar um það að Youtube-rás hlaðvarpsveitu Frosta var lokað endanlega eftir að þau gúggluðu BDSM og fengu ævilangt Youtube-bann í kjölfarið.

Margt er stórlega athugavert við þetta allt í lýðræðisþjóðfélagi svokölluðu sem við eigum að tilheyra samkvæmt orðanna hljóðan.

Plakatið umdeilda fjallar meðal annars um BDSM, og því hafa sumir í athugasemdakerfunum bent á að fleiri en Frosti fara að gúggla það, skólabörnin meðal annarra.

Er ekki ritskoðun og þöggun andstæð hagsmunabaráttu homma og lesbía og alls hinseginfólks? Er ekki hugtak þeirra, "að koma útúr skápnum" einmitt lýsandi fyrir að hafna þöggun og ritskoðun? Er þetta allt komið í hringi? Af hverju eru opinberir aðilar að standa að þöggun og ritskoðun í þessu efni?

Af þeim fjölmörgu athugasemdum sem eru undir DV greininni má sjá að fólk er sammála Frosta, þar er almenningsálitið, en ekki með þöggun og ritskoðun.

Þessi mál eru mjög mikið í mótun og manni finnst sem utanaðkomandi aðila ekki rétt að tjá sig of mikið um þetta.

Þó er það sumt í þessu sem manni finnst mjög sláandi og rétt að hafa skoðanir á, en það er frelsið til að tjá sig, (sem ætti að gilda um Samtökin 22 eins og aðra) og spurningamerki við fasisma af öllum tegundum, af opinberum aðilum eða ekki.

Ég segi nú bara eins og endurómar um samfélagið: Hvað er verið að kenna börnum?


mbl.is Gagnrýnir samstarf RÚV og „aktivistamiðla“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 37
  • Sl. sólarhring: 105
  • Sl. viku: 774
  • Frá upphafi: 127470

Annað

  • Innlit í dag: 26
  • Innlit sl. viku: 554
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband