Frekari pælingar og útskýringar í kjölfar virkjanagreinar Ómars Ragnarssonar og umræðna fyrir neðan hana

Ég er einn af fáum hér á blogginu sem fjalla um umhverfisvernd með sama hætti og RÚV, en Ómar Ragnarsson fjölmiðlamaður, tónlistarmaður og skemmtikraftur og fleira er frægastur úr þeim hópi hiklaust. Því vekja skrif hans meiri athygli en annarra með og á móti. Núna nýlega lenti ég í ritdeilu við þennan Vagn, sem kannski er dulnefni, en hann hefur unnið sér það til frægðar meðal annars að vera duglegri en flestir aðrir að þræta við vinsæla bloggara eins og Geir Ágústsson og Ómar. Þó man ég eftir að hörðustu sennunum á milli Vagns og hins mikilvirka og áhrifamikla bloggara, Halldórs Jónssonar, sem lézt í fyrra, blessuð sé minning hans.

En þannig er að mér fannst margt ósagt í þessum þræði Ómars Ragnarssonar, vegna þess að hinn margfróði Vagn velti upp ýmsum steinum og fróðleiksmolum eins og ég og einhverjir fleiri, og fannst mér sumt af því bara nokkuð gott hjá honum.

Það er nú svo að þegar nýr pistill veltir þeim gamla úr sessi er lítill tilgangur að halda rökræðum áfram, fáir taka eftir því.

Hann orðaði það þannig að hér á Íslandi sé búið að "virkja nokkrar sprænur" og fannst honum það ekki tiltökumál. Þó er búið að virkja Ísland mikið. Óafturkræf náttúruspjöll myndu sumir segja. Mér finnst ekki hægt að skilja við svona umræðu án þess að það komi fram að sumir telja alltof mikið virkjað. Ég frekar hallast að því, en tel mig þó viðurkenna að ef til vill sé skárra að virkja vatnsföll en nota olíu og gas eða kjarnorku eins og gert er í útlöndum.

Hann er kannski ekki vinstrimaður, en þá er hann maður sem alltaf vill hafa rétt fyrir sér og eiga síðasta orðið, einn af þeim. Mér fannst sumt af þessu fanatískt og öfgafullt sem frá honum kom, ekki skrýtið að margir séu honum ósammála. Þó voru þarna fáein fróðleikskorn merkileg sem ekki er auðvelt að mæla gegn. Eins og það að skógarhögg var hér stundað og ofbeit, en reyndar byrjaði ég á því að minnast á það í mínum svörum.

Hann líkti þeirri ofbeit við virkjanir og sagði hana hafa verið miskunnarlausa ágengni á náttúruna. Já, virkjunarsinnarnir snúa þessu sér í hag til að geta virkjað sem mest og til að afsaka og réttlæta slíkt.

En þar er þó munur á. Sauðkindin hélt lífi í íslenzku þjóðinni í gegnum aldirnar, fólk gerði þetta af brýnni nauðsyn, að beita skepnunum miskunnarlaust á landið.

Álver eða gagnaver eða hvað þetta er sem yfirvöld vilja græða stórfé á veitir peningum inní hagkerfið sem fara í allskonar fyrirbæri og lúxus fyrir landsmenn, hjálparstarf til handa Úkraínu og stríðsrekstri Úkraínumanna meðal annars.

Nútímahagkerfið fær gróðann frá mörgum veitum og brunnum, við höfum val um að velja og hafna, frekar en fyrri kynslóðir að minnsta kosti. Því finnst mér Ómar í fullkomnum rétti að spyrja lesendur og sjálfan sig hvort allar þessar virkjanir séu nauðsynlegar.

Auk þess verður það að koma fram að þótt saga skógarhöggs og ofbeitar sé ljót í fortíðinni er það ekki afsökun fyrir meiri mengun í nútímanum og virkjunum sem kannski eru ekki nauðsynlegar. Það er alltaf sama sagan með sumt fólk, ef hægt er að benda á ljótari dæmi í fortíðinni á að vera hægt að afsaka eitthvað í nútímanum! Þessi aðferð er notuð til rökræðna í mjög mörgum málaflokkum.

Vagn skrifaði að sér væri "ómögulegt að sjá hvaða töfra tækni" ég væri að tala um. Þá finnst mér vera betra að útskýra það nánar. Bætti hann því við að sér dytti engin tækni í hug sem væri laus við mengun.

Ja, þetta er spurning um hugtakanotkun.

Það sem ég átti við með orðinu tækni í þessu sambandi var öll sú þekking sem notuð er dags daglega. Ég átti til dæmis við tæknina við að kunna að rækta hér grænmeti og ávexti, suðrænar plöntur, nokkuð sem fólk kunni ekki áður á Íslandi. Er ekki rétt að kalla það tækni, eða þarf það orð að vera bundið við verksmiðjur? Þekking? Jú, vissulega.

Það kalla ég "töfra tækni", allt þetta litla sem kemur saman og myndar stórfljót, ég átti við þá fjölskrúðugu reynslu og þekkingu sem fólk hefur, til dæmis á því hvað landið þolir, og hvernig hægt er að nýta landið miklu betur, með þekkingu og tækni. Lífræn tækni kalla ég það, hitt er ólífræn tækni, sem er gagnrýniverð.

Ég átti við þekkinguna á kornrækt og hvað má rækta og við hvaða skilyrði, til dæmis.

Hann hélt að ég væri að vísa í einhver óskiljanleg vísindi. Nei, ég var að vísa í allt þetta sem nú þegar er gert.

"Nú þegar öll þessi tækni er komin getur þjóðin verið sjálfbær", skrifaði ég.

Þessa setningu vildi hann ekki skilja og snéri útúr henni og spurði mig um hvaða töfra tækni ég væri að vísa í.

Ég held að sumir lesendur hafi skilið þetta rétt þótt Vagn hafi ekki gert það. Ég var að vísa í hversu miklu færari Íslendingar nútímans eru í því að lifa af landsins gæðum en þeir voru áður, vegna nýrra tækja sem eru komin, og nýrrar þekkingar, sem áður var ekki til staðar. Allt þetta var innifalið í orðinu tækni hjá mér. Nú getur Vagn vitað hvað ég átti við og aðrir, þetta var ekki eins fjarlægt og hann og kannski aðrir héldu.

Þeir sem horfa á RÚV vita þetta til dæmis, að sífellt er verið að kynna nýjungar í störfum bændanna og eitthvað snjallt sem þeir eru að fást við.

En sumir vilja bara endilega misskilja það sem maður er að reyna að tjá og túlka, til að sýnast snjallari, eða bara vilja alltaf vera á móti.

En ég vil samt þakka Vagni fyrir að koma með ítarleg mótrök og kappsamlega mótmæla mér. Mér finnst hann hafa verið rökfastur og ég kann vel að meta það.

Ég þarf ekki endilega að hafa rétt fyrir mér. Maður vill samt að minnsta kosti útskýra hvað maður á við svo ekki sé verið að snúa útúr orðum manns.


mbl.is Ný fjárlög ráðstafi minna fé í umhverfismál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 102
  • Sl. viku: 657
  • Frá upphafi: 108413

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 522
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband