Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2021
25.8.2021 | 10:50
Charlie Watts, einn frægasti trommuleikari heims allur
Frá því Vernharður Linnet var með djazz og blúsþætti á fyrstu árum Rásar tvö hef ég verið algjörlega heillaður af blúsnum, en seinna fór ég að meta snilldina á bakvið jazzinn. Samt hef ég verið lengi að meðtaka Rolling Stones. Þeirra grunnur byggist jú á ryþmablús. En þrátt fyrir rosalega frægð þeirra þá byggjast lögin þeirra mikið á gítarleik Keith Richards og geislandi sviðsframkomu og söng Mick Jaggers. Þeir eiga ekkert Yesterday eins og Bítlarnir.
Mér finnst sérlega leiðinlegt að rokkið er ekki eins öflugt í dag og það var þegar Rolling Stones voru uppá sitt bezta. Það er allt annað að fara á brjálaða rokktónleika heldur en að fara á tónleika þar sem danstakturinn er númer eitt, tvö og þrjú.
Eitt mega þeir eiga í Rolling Stones, að þeir eru eitt rosalegasta rokktónleikaband allra tíma. Ég kann vel að meta smellina þeirra, en mér finnst þeir ekki jafn miklir lagahöfundar og Bítlarnir.
En hvort sem maður hélt meira upp á Bítlana eða Stones eru þetta risar í tónlistarsögunni, og því leitt að missa Charlie Watts.
Ein hljómsveit sem mér finnst að hefði átt að halda áfram og finna sér nýjan trommara var Led Zeppelin. Þungarokkið væri ekki til án þeirra.
Jagger og Richards minnast Watts | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.8.2021 | 00:06
Húmanismi, kapítalismi, skógareldar eru glæpur gegn öllu fólki, dýrum og jurtum til jafns, flýtir fyrir dómsdegi
Fréttirnar um svona atburði utanlands eru ógnvekjandi. Að brenna skóga viljandi er verra en að útrýma þegnum sínum með hríðskotavopnum eða sýklavopnum. Að brenna skóga er sama og að flýta dómsdegi, láta hann færast nær fyrir alla jarðarbúa.
Skógareldar kveiktir af ásettu ráði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2021 | 21:06
Hægrimannamótmæli:Næstum allir handteknir en vinstrimannamótmæli: Enginn handtekinn.
Áður en menn fullyrða að andstæðingar bólusetninga fari með fleipur og að ekkert sé hæft í ásökunum um fasíska tilburði stjórnvalda er rétt að bera saman mótmæli hægrimanna og vinstrimanna og hvort nokkuð sé hæft í því að Sjálfstæðisflokkurinn taki þátt í marxískri skoðunarkúgunarstjórn á þessu kjörtímabili með furðuflokknum VG og Framsókn.
Eins og svo oft áður voru það örfá orð í fréttum sem vöktu áhuga minn og hvöttu mig til að skrifa um þetta lítinn pistil. Margt er gott á Hringbraut og í fréttaþættinum þeirra í kvöld var fjallað um tíðindi dagsins, hvernig maðurinn var leiddur í lögreglubíl sem mótmælti við Laugardalshöll. Fréttakonan rifjaði upp hvernig konan sem mótmælti fyrir framan Orkuhúsið á Suðurlandsbraut var handtekin fyrir mótmælin í lok júlí, í síðasta mánuði. Var þetta orðað á þann veg að "hann hafi þó ekki verið handtekinn" eða eitthvað slíkt, eins og það væri sjálfsagt mál.
Sumir brosa að þeim sem fullyrða að hér sitji við völd marxísk ómenningarstjórn, svínbrjótandi mannréttindi á fólki sí og æ. En hvað kemur í ljós?
Mér datt í hug við þessar fréttir að svo virðist vera sem næstum 100% handtökuhlutfall sé um að ræða, ef aðeins tveir aðilar mótmæltu og voru handteknir, einn í hvort skipti, eða kallað á lögreglu í bæði skiptin. Reyndar voru örlítið fleiri sem mótmæltu en einn í senn, en samt er rétt að vekja athygli á þessu.
Ég fór að hugleiða þetta frá mannréttindasjónarmiði. Er það ekki miklu grófara mannréttindabrot að kalla á lögreglu þegar fáir eru að mótmæla en þegar margir eru að mótmæla eins og hjá kommunum? Þar getur fólk fengið stuðning af fjöldanum.
Því miður lítur þetta ekki of vel út frá hlutleysissjónarmiði stjórnvalda. Hversu oft hafa No Borders eða svipaðir harðlínuvinstrisinnaðir skæruliðarnir fjölmennt við Austurvöll eða annarsstaðar? Ekki man ég mikið eftir fréttum um handtökur frá þeim fjölmennu mótmælum.
Nei, þetta þarf að útskýra betur og ræða um útfrá hlutleysissjónarmiði, hvort þetta fólk hafi ekki fullan rétt á að mótmæla án þess að vera kallað ónöfnum eða lögreglan kölluð til aðstoðar.
Hvenær var vikið útfrá hlutleysislínunni? Gott er að vita að Sjálfstæðisflokkurinn fái góða kosningu næst samkvæmt skoðanakönnunum, til að lýðræði haldist virkt, en þá ættu þingmenn hans að standa í lappirnar.
Munum þurfa nýtt bóluefni á 1 til 3 ára fresti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2021 | 16:11
Leiðrétting, sneitt hjá er rétt, án ufsilons.
Það eru stundum innsláttarvillur í pistlum mínum og leiðrétti ég þær ekki, því hver og einn ætti að gera sér grein fyrir þeim. Hins vegar ef ég geri stafsetningarvillur sem ég átta mig á eftir á reyni ég að leiðrétta þær, svo fólk skynji að mér sé annt um íslenzkuna, að hafa hana sem réttasta. Ég notaði orðalagið að "sneiða hjá", og hafði óvart með ufsiloni, sem er rangt í þessu sambandi. Það sem ruglaði mig var nafnorðið snauður, og "gerilsneytt", eins og orð sem við höfum fyrir augunum á umbúðum matvæla. Sögnin að sneiða þýðir að skera, og að sneiða hjá að forðast, en svo sögnin að sneyða þýðir að fjarlægja, gera snautt af einhverju.
Ég gerði oft stafsetningarvillur þegar ég var yngri. Ég geri þær enn, en þær eru færri og ég er meðvitaður um orðalag, stafsetningu og slíkt. Þetta þurfa allir rithöfundar að temja sér.
Öll stafsetning er merkingarþungin. Villur geta breytt merkingunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.8.2021 | 00:21
Kaþólsk siðfræði Bob Moran bókanna
Ég hef minnzt á Bob Moran bækurnar í fyrri grein. Ég hef gert mér grein fyrir því að þær eru vantmetnar þessar bækur í bókmenntalegu tilliti. Belgískri rithöfundurinn Georges Simenon sem í fyrstu þótti skrifa léttvæga reyfara var endurmetinn og bækurnar hans um lögreglumanninn Maigret. Eins og Henri Vernes var hann afkastamikill, skrifaði meira en 200 skáldsögur, enda sagðist hann stundum skrifa 80 blaðsíður á dag.
Ekki veit ég til þess að stuttar spennusögur Henri Vernes hafi verið endurmetnar á þann sama hátt, en mér finnst þær eiga það skilið og höfundurinn. Að bera sögurnar um Bob Moran saman við reyfarana um Morgan Kane eða slíkar afþreyingarbækur er ekki alveg réttlátt, því munur er á þessum spennusagnaseríum.
Morgan Kane fjallar um alkahólista og fjöldamorðinga í villta vestrinu, sem starfar yfirleitt innan ramma laganna, en er þó siðblindur fjöldamorðingi, eða að öðrum kosti samankrypplaður persónuleiki staddur í mikilli sálarkrísu. Sögurnar um hann er klisjubókmenntir um kvennabósa, byssumann og fyllibyttu, eins klisjukenndar og vera má. Þær eru afþreying en víkja ekki útfrá alþekkri klisju um svona manntegund, og eru ekki vel séðar af harðlínufemínistum nútímans.
Bob Moran er á hinn bóginn harðkaþólskur Frakki um miðja 20. öldina sem bjargast eins og fyrir kraftaverk úr lífshættulegum kringumstæðum, ósérhlífinn og hugrakkur með eindæmum, sterkur líkamlega en ekki síður siðferðilega.
Bob Moran bækurnar voru álitnar unglingabækur á sínum tíma, markaðssettar sem drengjabækur. Það er vegna þess að þær eru skrifaðar sem spennusögur með siðferðislegum gildum, en formúlukenndar, ekki með sterkri persónusköpun en allt lagt upp úr lifandi og hraðri atburðarás. Auk þess er í bókunum algjörlega sneytt fram hjá kynlífi, en ekki léttri erótík og rómantík af léttara taginu. Þær eru einnig fullar af léttu gríni og því tilvaldar fyrir unglinga.
Eins og annað lentu þessar bækur í hakkavél femínista á sínum tíma, sem hakkar niður allt sem ekki er samkvæmt þeirra miskunnarlausu stöðlum. Voru bækurnar dæmdar sem feðraveldisboðskapur og því ekki æskilegur fyrir femíníska drengi nútímans, en bækurnar eru þó enn nokkuð vinsælar í heimalandinu, Frakklandi og Belgíu.
Persónulega þá finn ég kristna trú eins og ég vil hafa hana í þessum bókum, eða það göfugasta við kristna trú, það er að segja fórnfýsi, umburðarlyndi, náungakærleika, hugrekki og óeigingirni.
Bob Dylan bækurnar hafa helzt verið gagnrýndar af femínistum fyrir kvenpersónurnar sem í bókunum eru, því þær eru ekki karlmannlegar heldur kvenlegar, samkvæmt klassísku hefðinni. Reyndar eins og ég hef sagt er engin sterk persónusköpun í þessum bókum, þetta eru allt týpur meira og minna, en samt örlar á flóknari tilfinningum hjá aðalhetjunum, Bob Moran, Bill Ballantine, og aðalskúrknum, herra Ming.
Mér finnst algjör óþarfi að allar nýjar bækur sem koma út þurfi að lýsa sama pólitíska rétttrúnaðinum. Af hverju ekki að leyfa börnum að lesa svona bækur og kynnast dyggðum eins og þær voru taldar í gegnum aldirnar, góðmennsku hjá konum en hetjulund hjá körlum?
Bob Moran bækurnar hafa jafnvel fengið skítaustur frá femínistum fyrir að vera rasískar, vegna þess að herra Ming er af austurlenzkum ættum, Mongóli. Sú gagnrýni er reyndar ekki á rökum reist, því frænka hans, Tanja Orloff sem einnig er austurlenzk, hjálpar Bob Moran einatt þegar hættan er mest, og sérlega fallegt og rómantískt en platónskt samband á milli þeirra, sem þurrkar út allan róg um kynþáttahyggju eða kynþáttahatur í þessum bókum.
Nei, sannleikurinn er sá að Henri Vernes notaði þann almannaróm sem var hávær í hans samtíma um miðbik 20. aldarinnar um að austurlandabúar væru tæknivæddari en aðrir og væru að stefna að heimsyfirráðum ljóst og leynt, herra Ming er holdgervingur þessa almannaróms frá þessum tíma.
Í raun byggjast Bob Moran á trúnni á kraftaverk og þær eru því rammkristilegar, nema sá boðskapur er aðeins sagður orðalaust, með söguþræðunum en ekki predikunum.
Munurinn á Bob Moran og bófunum er þessi: Hann er mennskur maður, sterkur, kann austurlenzkar bardagaíþróttir, en mennskur og dauðlegur maður engu að síður.
Andstæðingar hans nýta sér tæknina einatt og eru sumir vélar eða galdramenn, yfirnáttúrulegir. Bob Moran leggur því alltaf útí vonlaus stríð en sigrar samt alltaf að lokum. Hann bjargast eins og fyrir kraftaverk. Þetta er eitt af því sem andstæðingum bókanna líkar ekki, þær eru ekki nógu raunsæjar fyrir þeirra smekk.
En við öll getum séð okkur í Bob Moran í daglega lífinu. Oft finnst okkur eitthvað yfirþyrmandi og óþolandi. Trúin og vonin heldur okkur gangandi, ekki endilega kaþólsk trú en bara einhver trú.
Eitt helzta grunnstefið í Bob Moran bókunum er að hann gerir þetta allt af fórnfýsi og óeigingirni. Hann þiggur ekki peninga eða verðlaun nema tilneyddur. Ríkisstjórnir heimskra manna biðja hann um hjálp, og ófús hjálpar hann því honum er sagt að enginn annar geti það. Einatt hjálpar hann stúlkum og konum í neyð. Það er kallað karlrembueinkenni á bókunum, en höfundurinn kallar hann líka síðasta riddarann.
Þessvegna eru þessar bækur í hefð riddarasagnanna fornu, í hákristilegri bókmenntahefð.
Trúboð af þessu tagi er ekki beint trúboð heldur siðfræðiboð. Ekki er minnzt á dýrðlinga nema einstaka sinnum og heldur ekki kristileg fyrirbæri, en allt er það ónefnt í bakgrunninum og rétt svo hægt að skynja það með þægilegum hætti, eitthvað sjálfsagt og óbreytanlegt sem hægt er að treysta á.
Þessar bækur boða í raun trúna á góðmennskuna frekar en einhver ákveðin trúarbrögð. Það er góður boðskapur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.8.2021 | 13:58
Ekki nóg að Stefan Löfven hætti, Svíþjóðardemókratar þurfa að fá völd eins og þeim er ætlað
Jafnaðarmannaflokkar eiga í vanda því forystufólkið hefur ekki lært af mistökum. Hugmyndafræðilegt hrun þessara flokka er augljóst í Svíþjóð, Þýzkalandi og hvar sem er. Stefan Löfven hefur mér virzt sú manngerð sem fer áfram á hnefanum í gegnum brimskaflinn og breytir ekki um taktík þótt ástæða sé til þess. Að hann skuli hætta fyrr en hann ætlaði - gefast upp sem sagt, það segir ýmislegt.
Þessir þrjózkuþursar í jafnaðarmannaflokkum vilja helzt segja að stefnan sé góð hjá þeim og ekkert að henni - bara skipta út fleira fólki. Samt grunar mig að Stefan Löfven sé farinn að skilja að trúin á sátt og samlyndi og óheftan innflutning flóttamanna sé bull og afglapavæðing kjána. (Þegar kjánar gera sig að enn meiri afglöpum).
En á meðan stóri fjöldinn heldur í sína flónsku er barið á minnihlutanum sem segir sannleikann, minnihlutanum sem verður meirihluti, því sá minnihluti fær ekki að ráða og hafa áhrif.
Hefði ekki verið skynsamlegra af þeim að leyfa Svíþjóðardemókrötum að stjórna og hafa áhrif, sem sagt lagfæra það sem gagnrýnt var í stað þess að afneita og skrímslavæða þá sem gagnrýndu?
Stefan Löfven hættir í haust | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2021 | 19:07
Tveir menn sem höfðu áhrif á mig fallnir frá, Styrmir Gunnarsson og Henri Vernes í Belgíu.
Þótt ég hafi ekki þekkt Styrmi Gunnarsson finnst mér rétt að votta honum virðingu með fáeinum minningarorðum þar sem hann átti sinn þátt í því að ég varð zetu-maður, eftir að zetan var afnumin.
Stafsetning finnst mér fagurfræðilegt atriði og uppbygging málgreina einnig. Rétt eins og Megas lýsti því í viðtölum að hann hafi lært tónfræði vegna fagurfræðilegrar uppbyggingar nótnanna og tákngildi þeirra í raunheimum sem tónlist, þá bað ég mér fróðari menn að kenna mér zeturegluna þótt hún hafi ekki verið kennd í mínum barnaskóla.
Amma mín kunni ættfræði býsna vel og mér var sagt frá því að konan hans Styrmis væri skyld afa og okkur börnum og barnabörnunum, en ekki henni sjálfri. Hún var dóttir Finnboga Rúts fyrrverandi bæjarstjóra, en þeir afi voru talsvert skyldir frá ættum að norðan, amma hans var systir held ég ömmu Finnboga eða eitthvað álíka.
Morgunblaðið á mínu æskuheimili hefur sennilega haft mest áhrif á mig í þessum efnum, að ég fór að unna zetunni. Þar voru fyrirsagnir og greinar inni í blaðinu með zetu.
Enyd Blyton í þýddum bókum og Bob Moran höfðu einnig mikil áhrif á mig í þessa átt, að finnast zetan nauðsynlegur bókstafur.
Ég fór að velta þessu fyrir mér hvers vegna zetan var í sumum bókum sem ég las sem krakki en ekki öllum. Þá var mér sagt að hún hafi verið afnumin þegar ég var þriggja ára, en það mætti ennþá nota hana ef maður gerði það smekklega og rétt, það væri ekki talin villa heldur sérvizka. Reyndar lærði ég ekki zeturegluna fullkomlega fyrren ég var kominn yfir tvítugt, en þá gerði ég það líka almennilega.
Einnig fékk ég áhuga á öðrum stöfum, eins og c, x og w og lærði hvar þeir gætu verið notaðir í íslenzkum orðum. Málfræðileg rök eru fyrir því að skrifa whert ertu að fara? eða wert ertu að fara?, w = hv. (Svipað og í enskunni). Einnig eru önnur málfræðileg rök sem mæla með því að skrifa wt = út, en í málsögulegu samhengi var w stundum notað sem tvö u, sama sem stafurinn ú.
C stafurinn er nú frekar ruglingslegur og veit ég ekki hvort mikið græddist á því að taka hann aftur upp, og þá í tökuorðum, eða í orðum eins og "ecktert" = ekkert, í staðinn fyrir tvö k, eins og í sænskunni.
Q mætti nota í staðinn fyrir hv eða kv, qörn = kvörn, quert = hvert. Þannig var stafurinn notaður áður. Svo mætti nota stafinn á annan hátt einnig.
Heiðursmaðurinn Magnús Jochumsson þýddi Bob Moran bækurnar frábærlega, en hann lézt 1973, þá orðinn háaldraður, og hafa Íslendingar mikið misst að hafa ekki fengið fleiri Bob Moran bækur þýddar svona frábærlega, með zetu meira að segja.
Það eru svo sem ýmsar ástæður fyrir að ég skrifa þennan pistil til að minnast manna sem hafa haft áhrif á mig í æsku minni. Höfundur Bob Moran bókanna lézt einmitt í sumar, hinn belgíski Henri Vernes, þann 25. júlí síðastliðinn, þá orðinn 102 ára. Eftir hann liggja fleiri en 200 snilldarlegar Bob Moran bækur og fæstar af þeim hafa komið út á íslenzku ennþá.
Einnig vil ég halda því á lofti að bækur Enyd Blyton eru góð lesning fyrir börn þrátt fyrir þá gagnrýni sem þær hafa fengið, sérstaklega í góðri þýðingu með zetunni eins og fyrstu útgáfurnar voru. Þannig ættu þær að vera enn gefnar út, holl lesning öllum börnum.
Vona ég að Heimssýn dafni og blómgist þrátt fyrir fráfall Styrmis Gunnarssonar. Er ég sammála þeirra áherzlum eiginlega, þótt ég sé stundum efagjarn og telji Evrópusambandið freistandi kost stundum, því maður er í misjöfnu skapi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2021 | 01:01
"....krútt, einu sinni enn", eftir Max Martin, sungið af Britney Spears, túlkun og þýðing.
Fyrsta plata Britney Spears kom út 1999, sama ár og önnur plata mín, og sú fyrsta með eigin efni, þannig að við Britney erum af sömu tónlistarkynslóð, þannig séð.
Ég veit að textarnir sem hún hefur sungið hafa ekki talizt bókmenntaafrek, þannig séð, en þó er ekkert að því að beita ljóðatúlkunarfræðilegum aðferðum við einn svona söngtexta.
Þetta er fyrsti smellurinn hennar og einn sá stærsti. Hún var 16 ára þegar þetta var gefið úr á smáskífu, 3. nóvember 1998, og stóra platan árið eftir. Textinn hefur augljósa merkingu en tvíræða að flestra mati, eða vafasama og gagnrýniverða samkvæmt öðrum.
Lagið lenti í fyrsta sæti á bandaríska og brezka vinsældarlistunum og tryggði Britney Spears í sessi sem eina stærstu poppdrottninguna næstu árin, ef ekki þá stærstu. Eins og Elvis Presley hefur hún lent í hremmingum á seinni hluta ævinnar sem enn sér ekki fyrir endann á og eru í fréttum reglulega, í sambandi við sjálfræði sitt og aðrar fréttir koma af henni líka. Svona er að vera megastjarna.
Heimsmet hennar felst í því að vera söluhæst svo ungra táningssöngstirna, með 14. milljón seldar plötur í Bandaríkjunum en næstum 25 milljón seldar plötur á heimsvísu, bara hennar fyrsta og mest selda plata.
Margt hjálpaðist að. Hún hafði getið sér gott orð sem söngkona áður en hún gaf út sína fyrstu plötu. MTV spilaði enn tónlistarmyndbönd. Heimsnetið var að springa út í öllu sínu veldi. Geislaplötur seldust betur en nokkru sinni fyrr, en vínylplötur í lágmarki.
Foreldrar höfðu áhyggjur af kynferðislegum undirtóni laganna hennar á æsku landsins og hegðun og klæðaburð söngkonunnar. Það breytti ekki heimsfrægð hennar, síður en svo.
Hún gerði mittisbuxnatízkuna heimsfræga.
En að laginu sjálfu, eða textanum öllu heldur og boðskap hans. Svona er þýðing textans:
"Ó ó elskan mín! Ó ó elskan mín, krútt! Ó krútt, elskan, hvernig átti ég að vita að eitthvað væri í ólagi hér? Ó krútt, elskan, ég hefði ekki átt að leyfa þér að fara, og nú ertu horfinn frá mér! Ó já! Sýndu mér hvernig þetta á að vera. Segðu mér það elskan því ég verð að vita það núna strax. Ó, af því að einmanaleikinn minn er að drepa mig og ég verð að viðurkenna að ég trúi enn... þegar ég er ekki með þér missi ég vitið... Gefðu mér merki, sláðu mig elskan einusinni enn! Ó elskan, krútt... ástæðan fyrir því að ég dreg andann ennþá ert þú. Drengur minn, þú blindar mig, ó fríða krútt, ekkert myndi ég ekki gera... ég vildi ekki hafa þetta svona... Sýndu mér hvernig þú vilt hafa þetta. Segðu mér elskan því ég verð að vita það núna. Ó, vegna þess... einmanaleiki minn er að slátra mér og ég verð að viðurkenna, ég trúi enn... þegar ég er ekki með þér missi ég vitglóruna... Gefðu mér merki, berðu mig elskan einusinni enn. Ó krútt, elskan... ó elskan, krútt... jamm..."
Sú ímynd sem Britney hefur sem gáfnatreg ljóska er svo sem þekkt, en þessi kveðskapur er ekki eftir hana, heldur Max Martin, sem einnig hefur búið til heimsþekkta smelli fyrir Backstreet Boys og fleiri.
Allavega hitti þetta lag gjörsamlega í mark fyrir unglinga á þessum tíma, sló rækilega í gegn sem eitt vinsælasta lag seinni ára, fyrir ungt fólk og fólk á öllum aldri jafnvel, en þó síður.
Er hægt að finna dulinn boðskap í þessum kveðskap eða liggur þetta allt í augum uppi?
Bob Dylan hefur svo sem nokkrum sinnum á ferli sínum búið til næstum því svona einfalda og augljósa texta, til dæmis 1969 á "Nashville Skyline" og 1985 á "Empire Burlesque". Ekki eru það taldar hans beztu eða vönduðustu plötur raunar, en margir njóta þeirra og þær hafa selzt allvel, sérstaklega sú fyrrnefnda, sem seldist mjög vel, og selst enn mjög vel, eins og fyrsta platan hennar Britney Spears.
Þetta er augljóslega ekki djúpur kveðskapur eða vandaður, hann er yfirborðskenndur, og taktur lagsins, klæðaburður söngkonunnar, diskótilfinningin, laglínan, söngurinn, allt skapar þetta ákveðin hughrif sem fylgja einatt danstónlist.
Svo rammt kvað að þeim orðrómi að lagið fjallaði um ofbeldissamband og heimilisofbeldi að höfundur lagsins ásamt Britney Spears reyndu að kveða þann orðróm niður og segja að "hit me" þýddi ekki "sláðu mig" eða "berðu mig", heldur "hringdu í mig", að það hafi verið slangur þess tíma. Engu að síður er þessi orðrómur enn ekki niður kveðinn, þar sem augljós fyrsta merking orðanna "hit me" er "sláðu mig".
Ég á í raun erfitt með að túlka þetta ljóð eins og dýpstu og dulúðugustu ljóð Dylans, eins blátt áfram og augljóst það er. Textinn var greinilega ekki ætlaður sem bókmenntaafrek heldur einnar nætur gaman, ef svo má segja, sem hluti af hughrifum tónlistarinnar og söngkonunnar, en fyrir löngu hafði þjóðlagatónlist og rokktónlist sú sem Bob Dylan notaði til að koma á framfæri torræðum ljóðum og margræðum setningum dottið úr tízku þegar hér var komið sögu, árið 1999. Því var það eðlilegt að hún syngi einfalda en ekki flókna texta til að reyna að verða vinsæl, sem henni tókst.
Um þennan texta hefur margt verið skrifað, og næstum allir segja að þetta sé bara svona unglingamál um samskipti kynjanna. Tveir af fjölmörgum eru ósammála og hér eru þeirra túlkanir.
Annar segir að þetta lýsi Afríku og hvernig umheimurinn "slær" hana, það er að segja, kaupir ekki varning álfunnar af sanngirni og annað slíkt. Þessi túlkun hefur ekki fengið neitt fylgi.
Svo var einn í athugsasemdakerfum sem sagði lagið fjalla um böðulshátt Repúblikana gagnvart almúganum í Ameríku. Báðar þessar athugasemdir koma greinilega frá vinstrisinnuðu fólki bandarísku og hafa ekki fengið fylgi.
Það er ekkert að því að gera einfalda texta. Þessi texti lýsir ákveðnum veruleika sem er til og býsna algengur.
Hvernig sem á þetta er litið, þá eru vönduð bókmenntaverk löngu komin úr tízku í söngtextum. Einstaka sinnum spila ég Britney Spears, mér finnst alveg hægt að hlusta á diskana hennar, hún kann að syngja og hefur farið út í svolítið alvarlegri og dýpri tónlist með árunum, en samt ekki kannski alveg meistaraverk, en á það kannski eftir.
Annars ætla ég að fara ofaní vandaða textarýni eins og venjulega, þar sem örfáar línur í textanum bjóða upp á vandaða túlkun.
Línan:"Ég vildi ekki hafa þetta svona" er nokkuð merkileg. Allt í textanum lýsir undirgefni konunnar eða stúlkunnar, en þessi lína er kannski svolítið berorðari um eðli undirgefninnar sem slíkrar heldur en margar aðrar línur. Þarna lýsir hún því að hún láti af sínum hugmyndum um rómantík eða eitthvað slíkt til að geðjast félaganum. (Partner).
Merkilegt er einnig að ekki kemur í ljós tilhneiging til að forðast þennan ástmann þótt hann sé ofbeldishneigður, og hlutirnir séu í ósamræmi við það sem hún vill, eða þannig má túlka þetta.
Segir það vissulega ýmislegt um almenning á þessum tíma, árið 1998 og 1999 þegar lagið sló í gegn. Ofbeldisfullir órar hljóta því að hafa hitt í mark hjá almenningi, fyrst eðlilegast er að túlka ljóðið þannig. Af þessu má draga þá mannfræðilegu og félagslegu ályktun að þetta hafi verið eins og fólk hegðaði sér almennt - eða kannski einungis í einhverjum unglingasamfélagskimum og jafnvel tengdum minnihlutahópum, eða hægt er að trúa þeim skýringum að minnsta kosti. Þetta er mjög svo pólitísk umræða og merkileg mannfræðipæling raunar.
Raunar hefur Britney sjálf reynt að útskýra þetta enn betur og af áfergju og reynt að segja að textinn lýsi einmanaleika unglingsstúlku. Já, það er hægt að trúa því, svona að nokkru leyti, en samt má segja að næstum hver einasta setning textans lýsi undirgefni, og því sé þetta nokkuð ódýr og ótrúverðug eftiráskýring, og sennilega finnst flestum eða öllum það sem heyra lagið. Þetta er fyrst og fremst lag fyrir skemmtanalífið, býst ég við, og reglurnar sem giltu þar, gilda eitthvað minna þar núna með auknum femínisma, en samt enn talsvert. Þetta er sennilega einmitt það sem femínistar hafa verið að gagnrýna mest í gegnum tíðina og eru enn að gagnrýna. Eitruð karlmennska, og allt það. Því er gott að skoða svona texta, til að skilja betur viðhorf femínista og gagnrýni þeirra á dægurlagatexta almennt og margt annað.
Burtséð frá öllu því er þetta skemmtilegt danslag og stendur enn fyrir sínu sem slíkt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2021 | 14:44
Um hamfarahlýnun og ráð gegn henni
Ég er sammála Ómari Ragnarssyni í færslunni um lifnaðarhætti jarðarbúa og hef lengi velt þessu fyrir mér og verið umhverfisverndarsinni. Af því að ég hef í mörg ár velt þessu fyrir mér vil ég telja hér nokkur atriði upp sem mér finnst augljós og þurfi að breytast, hvort sem maður er hægrimaður eða vinstrimaður.
1) Það er bezt að neyta matar sem ræktaður er innanlands og fluttur um sem skemmsta vegalengd. Það kostar minni útblástur og mengun, minna af meindýraeyði og mengandi áburði. Þess vegna er langsamlega jákvæðast og umhverfisvænast að vera með garð sjálfur, rækta sitt grænmeti, jafnvel að vera með skepnur þar sem því verður við komið. Það er ein af ástæðum þess að þétting byggðar er mér ekki að skapi en grisjun byggðar er mér meira að skapi.
2) Reykjavík er þess eðlis að hér ætti ekki að þurfa marga bíla. Fólk ætti að geta notað strætó, hjólað og gengið, auk þess sem það er hollara. Jafnvel rafbílar og tvinnbílar eru verri en slíkur ferðamáti.
3) Það er hægt að ganga miklu lengra í því að minnka notkun á umbúðum eða sleppa þeim alveg.
4) Hvað er það sem skiptir mestu máli í lífinu? Er það ekki persónuleg samskipti, vinir, afkvæmi, fjölskyldan, ástarlífið, dagleg störf sem krefjast ekki hátækni? Hvers vegna þarf alltaf nýjustu græjurnar og hjálpa þannig risafyrirtækjunum erlendis sem oft eru hættuleg umhverfinu?
5) Utanlandsferðir geta verið spennandi en þær utanlandsferðir sem gefa mest af sér er þegar maður getur verið lengi á einhverjum stað og kynnst þannig menningu og landinu betur. Tíðar flugverðir mega alveg vekja flugvizkubit, enda er útblástur flugvéla og skipa stór þáttur í heildarlosun á kolefni.
6) Það getur vissulega verið umhverfisvænna að halda "zoomfundi" eða slíkt í tölvum og sleppa pappírsnotkun á fundum á staðnum. Þetta hefur kófið kennt og er jákvæð reynsla úr kófinu.
7) 99% af öllum bókum á Íslandi og annarsstaðar eru óþarfar, eins og Jóhannes Ragnarsson hefur bent á, snobbbækur fyrir elítuna og vinstrimenn.
Ég vil minna á það að ein merkilegustu fræði allra tíma og ein merkilegustu trúarbrögð allra tíma voru ALDREI SKRIFUÐ NIÐUR NEMA AF UTANAÐKOMANDI AÐILUM. Þá á ég við drúízkuna, þessi stórkostlegu trúarbrögð sem voru margfalt merkilegri en margt sem síðar kom.
8) Matarsóun á Íslandi og annarsstaðar er enn stórt vandamál. Mammonskerfi er ekki til sóma og margt er hægt að gera betur í þessu.
9) Það að vinna gegn kemískum og eitrandi efnum er gríðarlega mikilvægt hugsjónamál, og þessir villuráfandi antifasauðir ættu að beina kröftum sínum að þessu, því erlendis er þetta mun stærra vandamál, í iðnaðinum þar en hér. Samt má enn gera betur í öllum íslenzkum iðnaði að þessu leyti.
10) Fólksfækkun ríkir meðal vesturlandabúa víða en að kynna getnaðarvarnir fyrir fátækari þjóðum er mikilvægt mál og vissulega að hjálpa þeim efnahagslega því það mun draga úr mannfjölda þeirra til lengri tíma litið. Til skemmri tíma litið hefur það samt haft geigvænleg áhrif á umhverfismálin og náttúruverndina.
11) Á heildina litið er sveitalífið umhverfisvænt, að lifa af landinu og að vera sáttur við sitt.
Hamfarahlýnun stærsta ógn barna og ungmenna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.8.2021 | 00:17
Velheppnaður þáttur á Hringbraut
Að þessu sinni voru Þorgerður Katrín Viðreisnarforingi og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gestir Páls Magnússonar á Hringbraut. Það kom mér á óvart hversu velheppnuð viðtölin voru og sýndu enn á ný mannlegri hlið á viðmælendum en oft hafa komið fram áður. Loksins síðan Þorgerður Katrín skildi við Sjálfstæðisflokkinn fannst mér hún aftur vera viðkunnanleg í viðmóti en ekki aðeins hrokafull eins og áberandi hefur verið oft. Þessa sáttafúsari hlið vona ég að hún sýni sem oftast.
Bjarni var rólegur og fullur sjálfstrausts með árangur sem fjármálaráðherra sem hann getur verið ánægður með, og kom með hógværar skýringar á því að flokkinn mælist ekki með yfir 30 prósenta fylgi lengur.
Eitt stóð þó mjög svo upp úr á jákvæðu nótunum, fannst mér, og það var að Þorgerður Katrín var ekki föst í þeim nöldurgír að útlendingastofnun stæði sig illa og að borgaraöflin væru ekki nógu nálægt "No borders" anarkismanum. Það fannst mér mikil framför hjá henni og sýna að flokkurinn væri skrefi nær þátttöku í ríkisstjórn.
Hún talaði ekki eins og lítil útgáfa af Angelu Merkel heldur sjálfstæðari pólitíkus með íslenzka hagsmuni í huga.
Síðastliðin ár hafa Viðreisn og Píratar stundum talað eins og tvíhöfða þurs, þar sem stöllurnar Þórhildur Sunna í Pírötum og Þorgerður í Viðreisn hafa talað svo samstíga og einum rómi um meinta mannvonzku í útlendingamálunum að öllu verði að umbylta í þeim málum. Hafa þær sett erlenda hagsmuni fram yfir íslenzka, og verið eins og málpípur erlendra öfgahópa, því miður.
Örlítið mildari hefur málflutningur Pírata einnig verið í þessum málum á þessu ári, það er rétt, þannig að vonandi er bjartari tíð í vændum, meiri sáttfýsi og skynsamlegri stjórnsýsla í ætt við það sem Sigmundur Davíð hefur sett á oddinn, og afrekin sem hann vann sem forsætisráðherra, áður en honum var ómaklega steypt af stóli eftir öfundarþrungna fyrirsát í sjónvarpssal.
Á bakvið sýndarkurteisi hefur heiftúðugt viðmót einkennt margt í pólitíkinni undanfarin ár, ekki sízt á milli Framsóknar og Miðflokks og Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks, og persónuleg særindi verið ástæðan. Þátturinn sem ég loksins gaf mér tíma til að horfa á sýndi fram á vonandi bætta og breytta tíma í því.
Að hafa ekki stjórn á landamærunum er skuggahlið á Evrópusambandsaðildinni.
Enn á ný velti ég því fyrir mér hvort tími lítilla hægriflokka sé kominn eða að koma, Frelsisflokksins, Íslenzku þjóðfylkingarinnar og Lýðræðisflokks Guðmundar Franklíns. Þurfa kjósendur enn að bíða í 4 ár þar til þeir átta sig á því að þeir flokkar eiga erindi inná þing og við þjóðina?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Nýjustu færslur
- Það er sama hvað gerist, sjálfseyðing Vesturlanda er á sjálfs...
- Ekkert eða fátt breytt? Hlutverkaleikur? Inga Sæland í gervi ...
- Spænska veikin var af fuglaflensustofninum. Þessa sýkingu þar...
- Okkar vestræna þjóðfélag sem Nató-Kata og Nató-Þórdís Kolbrún...
- Eins og í Bandaríkjunum þarf stuðning þeirra sem ættaðir eru ...
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 68
- Sl. sólarhring: 187
- Sl. viku: 752
- Frá upphafi: 129867
Annað
- Innlit í dag: 62
- Innlit sl. viku: 573
- Gestir í dag: 58
- IP-tölur í dag: 58
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar