"....krútt, einu sinni enn", eftir Max Martin, sungið af Britney Spears, túlkun og þýðing.

Fyrsta plata Britney Spears kom út 1999, sama ár og önnur plata mín, og sú fyrsta með eigin efni, þannig að við Britney erum af sömu tónlistarkynslóð, þannig séð.

Ég veit að textarnir sem hún hefur sungið hafa ekki talizt bókmenntaafrek, þannig séð, en þó er ekkert að því að beita ljóðatúlkunarfræðilegum aðferðum við einn svona söngtexta.

Þetta er fyrsti smellurinn hennar og einn sá stærsti. Hún var 16 ára þegar þetta var gefið úr á smáskífu, 3. nóvember 1998, og stóra platan árið eftir. Textinn hefur augljósa merkingu en tvíræða að flestra mati, eða vafasama og gagnrýniverða samkvæmt öðrum.

 

Lagið lenti í fyrsta sæti á bandaríska og brezka vinsældarlistunum og tryggði Britney Spears í sessi sem eina stærstu poppdrottninguna næstu árin, ef ekki þá stærstu. Eins og Elvis Presley hefur hún lent í hremmingum á seinni hluta ævinnar sem enn sér ekki fyrir endann á og eru í fréttum reglulega, í sambandi við sjálfræði sitt og aðrar fréttir koma af henni líka. Svona er að vera megastjarna.

 

Heimsmet hennar felst í því að vera söluhæst svo ungra táningssöngstirna, með 14. milljón seldar plötur í Bandaríkjunum en næstum 25 milljón seldar plötur á heimsvísu, bara hennar fyrsta og mest selda plata.

 

Margt hjálpaðist að. Hún hafði getið sér gott orð sem söngkona áður en hún gaf út sína fyrstu plötu. MTV spilaði enn tónlistarmyndbönd. Heimsnetið var að springa út í öllu sínu veldi. Geislaplötur seldust betur en nokkru sinni fyrr, en vínylplötur í lágmarki.

 

Foreldrar höfðu áhyggjur af kynferðislegum undirtóni laganna hennar á æsku landsins og hegðun og klæðaburð söngkonunnar. Það breytti ekki heimsfrægð hennar, síður en svo.

 

Hún gerði mittisbuxnatízkuna heimsfræga.

 

En að laginu sjálfu, eða textanum öllu heldur og boðskap hans. Svona er þýðing textans:

 

"Ó ó elskan mín! Ó ó elskan mín, krútt! Ó krútt, elskan, hvernig átti ég að vita að eitthvað væri í ólagi hér? Ó krútt, elskan, ég hefði ekki átt að leyfa þér að fara, og nú ertu horfinn frá mér! Ó já! Sýndu mér hvernig þetta á að vera. Segðu mér það elskan því ég verð að vita það núna strax. Ó, af því að einmanaleikinn minn er að drepa mig og ég verð að viðurkenna að ég trúi enn... þegar ég er ekki með þér missi ég vitið... Gefðu mér merki, sláðu mig elskan einusinni enn! Ó elskan, krútt... ástæðan fyrir því að ég dreg andann ennþá ert þú. Drengur minn, þú blindar mig, ó fríða krútt, ekkert myndi ég ekki gera... ég vildi ekki hafa þetta svona... Sýndu mér hvernig þú vilt hafa þetta. Segðu mér elskan því ég verð að vita það núna. Ó, vegna þess... einmanaleiki minn er að slátra mér og ég verð að viðurkenna, ég trúi enn... þegar ég er ekki með þér missi ég vitglóruna... Gefðu mér merki, berðu mig elskan einusinni enn. Ó krútt, elskan... ó elskan, krútt... jamm..."

 

Sú ímynd sem Britney hefur sem gáfnatreg ljóska er svo sem þekkt, en þessi kveðskapur er ekki eftir hana, heldur Max Martin, sem einnig hefur búið til heimsþekkta smelli fyrir Backstreet Boys og fleiri.

 

Allavega hitti þetta lag gjörsamlega í mark fyrir unglinga á þessum tíma, sló rækilega í gegn sem eitt vinsælasta lag seinni ára, fyrir ungt fólk og fólk á öllum aldri jafnvel, en þó síður.

 

Er hægt að finna dulinn boðskap í þessum kveðskap eða liggur þetta allt í augum uppi?

 

Bob Dylan hefur svo sem nokkrum sinnum á ferli sínum búið til næstum því svona einfalda og augljósa texta, til dæmis 1969 á "Nashville Skyline" og 1985 á "Empire Burlesque". Ekki eru það taldar hans beztu eða vönduðustu plötur raunar, en margir njóta þeirra og þær hafa selzt allvel, sérstaklega sú fyrrnefnda, sem seldist mjög vel, og selst enn mjög vel, eins og fyrsta platan hennar Britney Spears.

 

Þetta er augljóslega ekki djúpur kveðskapur eða vandaður, hann er yfirborðskenndur, og taktur lagsins, klæðaburður söngkonunnar, diskótilfinningin, laglínan, söngurinn, allt skapar þetta ákveðin hughrif sem fylgja einatt danstónlist.

 

Svo rammt kvað að þeim orðrómi að lagið fjallaði um ofbeldissamband og heimilisofbeldi að höfundur lagsins ásamt Britney Spears reyndu að kveða þann orðróm niður og segja að "hit me" þýddi ekki "sláðu mig" eða "berðu mig", heldur "hringdu í mig", að það hafi verið slangur þess tíma. Engu að síður er þessi orðrómur enn ekki niður kveðinn, þar sem augljós fyrsta merking orðanna "hit me" er "sláðu mig".

 

Ég á í raun erfitt með að túlka þetta ljóð eins og dýpstu og dulúðugustu ljóð Dylans, eins blátt áfram og augljóst það er. Textinn var greinilega ekki ætlaður sem bókmenntaafrek heldur einnar nætur gaman, ef svo má segja, sem hluti af hughrifum tónlistarinnar og söngkonunnar, en fyrir löngu hafði þjóðlagatónlist og rokktónlist sú sem Bob Dylan notaði til að koma á framfæri torræðum ljóðum og margræðum setningum dottið úr tízku þegar hér var komið sögu, árið 1999. Því var það eðlilegt að hún syngi einfalda en ekki flókna texta til að reyna að verða vinsæl, sem henni tókst.

 

Um þennan texta hefur margt verið skrifað, og næstum allir segja að þetta sé bara svona unglingamál um samskipti kynjanna. Tveir af fjölmörgum eru ósammála og hér eru þeirra túlkanir.

 

Annar segir að þetta lýsi Afríku og hvernig umheimurinn "slær" hana, það er að segja, kaupir ekki varning álfunnar af sanngirni og annað slíkt. Þessi túlkun hefur ekki fengið neitt fylgi.

 

Svo var einn í athugsasemdakerfum sem sagði lagið fjalla um böðulshátt Repúblikana gagnvart almúganum í Ameríku. Báðar þessar athugasemdir koma greinilega frá vinstrisinnuðu fólki bandarísku og hafa ekki fengið fylgi.

 

Það er ekkert að því að gera einfalda texta. Þessi texti lýsir ákveðnum veruleika sem er til og býsna algengur.

 

Hvernig sem á þetta er litið, þá eru vönduð bókmenntaverk löngu komin úr tízku í söngtextum. Einstaka sinnum spila ég Britney Spears, mér finnst alveg hægt að hlusta á diskana hennar, hún kann að syngja og hefur farið út í svolítið alvarlegri og dýpri tónlist með árunum, en samt ekki kannski alveg meistaraverk, en á það kannski eftir.

 

Annars ætla ég að fara ofaní vandaða textarýni eins og venjulega, þar sem örfáar línur í textanum bjóða upp á vandaða túlkun.

 

Línan:"Ég vildi ekki hafa þetta svona" er nokkuð merkileg. Allt í textanum lýsir undirgefni konunnar eða stúlkunnar, en þessi lína er kannski svolítið berorðari um eðli undirgefninnar sem slíkrar heldur en margar aðrar línur. Þarna lýsir hún því að hún láti af sínum hugmyndum um rómantík eða eitthvað slíkt til að geðjast félaganum. (Partner).

 

Merkilegt er einnig að ekki kemur í ljós tilhneiging til að forðast þennan ástmann þótt hann sé ofbeldishneigður, og hlutirnir séu í ósamræmi við það sem hún vill, eða þannig má túlka þetta.

 

Segir það vissulega ýmislegt um almenning á þessum tíma, árið 1998 og 1999 þegar lagið sló í gegn. Ofbeldisfullir órar hljóta því að hafa hitt í mark hjá almenningi, fyrst eðlilegast er að túlka ljóðið þannig. Af þessu má draga þá mannfræðilegu og félagslegu ályktun að þetta hafi verið eins og fólk hegðaði sér almennt - eða kannski einungis í einhverjum unglingasamfélagskimum og jafnvel tengdum minnihlutahópum, eða hægt er að trúa þeim skýringum að minnsta kosti. Þetta er mjög svo pólitísk umræða og merkileg mannfræðipæling raunar.

 

Raunar hefur Britney sjálf reynt að útskýra þetta enn betur og af áfergju og reynt að segja að textinn lýsi einmanaleika unglingsstúlku. Já, það er hægt að trúa því, svona að nokkru leyti, en samt má segja að næstum hver einasta setning textans lýsi undirgefni, og því sé þetta nokkuð ódýr og ótrúverðug eftiráskýring, og sennilega finnst flestum eða öllum það sem heyra lagið. Þetta er fyrst og fremst lag fyrir skemmtanalífið, býst ég við, og reglurnar sem giltu þar, gilda eitthvað minna þar núna með auknum femínisma, en samt enn talsvert. Þetta er sennilega einmitt það sem femínistar hafa verið að gagnrýna mest í gegnum tíðina og eru enn að gagnrýna. Eitruð karlmennska, og allt það. Því er gott að skoða svona texta, til að skilja betur viðhorf femínista og gagnrýni þeirra á dægurlagatexta almennt og margt annað.

 

Burtséð frá öllu því er þetta skemmtilegt danslag og stendur enn fyrir sínu sem slíkt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 14
  • Sl. sólarhring: 73
  • Sl. viku: 669
  • Frá upphafi: 108425

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 534
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband