Plötugagnrýni: Megas, Fram og aftur blindgötuna, 1976.

Fyrstu plöturnar hans Megasar eru óumdeildar sem meistaraverk, ef fólk nennir að hlusta á hann yfirleitt. Þessi er meðal þeirra, sú þriðja sem hann gaf út. Ég hlustaði oft á þessa plötu á unglingsárunum og allt með Megasi og Bob Dylan.

Síðan kynntist ég Megasi og spurði hann um þessi lög.

Það sem mörg ljóðin á plötunni eiga sameiginlegt, og sem ekki allir heyra strax, er að þau eru ákveðið andsvar við Passíusálmum Hallgríms Péturssonar, frekar en á öðrum plötum skáldsins Megasar og tónlistarmannsins.

Viðlagið við fyrsta lagið er tilvitnun í 11. Passíusálminn, um afneitun Péturs. Megas hinsvegar snýr þeirri línu uppí kvennafarsgrín. Í ljóðinu eru taldar upp fjórar stúlkur eða konur sem einhvernveginn verða ljóðmælandanum til vonbrigða og sársauka, en í fimmta og síðasta erindinu er sú niðurstaða fengin að sjálfsvorkunn hjálpi engum.

Lagið heitir:"Sút fló í brjóstið inn". Þegar ég spurði Megas um innihaldið vildi hann lítið fara útí það og taldi það skýra sig sjálft, og mátti af honum skiljast að hér væri sambland af endurminningum og uppskálduðum atvikum og gríni allt í senn. Hann hinsvegar útskýrði það hversvegna lagið væri sjaldan flutt á tónleikum, vegna þess að í viðlaginu þarf að fara uppí falsettu, og það væri aðallega fyrir hetjutenóra. Sagði hann að einhverjir raddbrestir í upptökunni hafi verið faldir snyrtilega á bakvið sólógítartóna í upptökunni og útsetningunni. Ég sagði ekkert hafa tekið eftir því og dáðist að því hversu vel þetta væri sungið, og hló hann að því.

Lagið er einhvernveginn sígilt ástarlag og nægilega glaðlegt til að koma manni í gott skap. Hann sagðist hafa samið mörg lög 1972 og 1973 sem einskonar andlega upplyftingu eftir það púl að semja lög við næstum alla Passíusálmana 50 á þessum tveimur árum, en hann hafði byrjað á því fjórum árum áður, og samið þá lög við eina þrjá sálma.

"Ekki sýnd en aðeins gefin veiðin" er annað lagið á plötunni. Það fjallar um utangarðsmenn í Reykjavík og fordómana sem þeir mættu af smáborgurum og fína fólkinu á þeim tíma. Einnig fjallar það um mannhatur hinna snobbuðu og kirkjuræknu borgarbúa undir snyrtilegu yfirborðinu. Textinn er útúrsnúningur á alþekktu máltæki. Það fjallar í raun um kristilegan kærleika og takmarkanir á honum í reynd þegar manneskjan er breyzk og háð dauðasyndunum sjö, því fólk er ekki englar yfirleitt.

Lagið "Napóleon bekk" er útúrsnúningur á ljóði eftir Kristinn Einarsson, sem Megas þekkti á þeim tíma. Í laginu er svipað þema og í laginu á undan, það er að segja að virðuleika og fíknum er blandað saman, óvirðingu og virðingu með sérlega áhugaverðum hætti.

"Vinaminni" er fjórða lagið á plötunni. Megas var ekkert að fela það að það var samið undir áhrifum vímuefna að hluta til, en einnig er það einkar flókin úrvinnsla bókmennta og annarra fræða sem hann lagði stund á í Háskólanum um það leyti sem það var samið, þegar Megas var rétt rúmlega tvítugur.

Ljóðið er sérlega skemmtilegt. Í því blandast margt saman. Til dæmis er það uppfullt af háði í garð þeirra sem eru uppfullir af menntasnobbi í skólum eða utan þeirra, og er því sígild gagnrýni í garð Vinstri grænna og Alþýðubandalagsfólks þar áður.

Ofskynjanir einkenna textann. Í textanum nær persónulegur tónninn hámarki, sem byrjar með fyrsta lagi plötunnar. Tónlistarlega séð er hér margt fengið að láni frá sýrupoppinu sem var vinsælt um þessar mundir.

Jólnanáttburður er stutt lag, og byggt upp í kringum riff, eða ákveðna gítarhljóma, en ljóðið virðist byggjast á myndrænum minningum um erfiða bernsku, en skáldleg tilþrif eru þar á ferðinni líka, eða jafnvel aðallega. Þetta stutta lag færir hlustandann inní allt annan heim en fyrri lög, og kippir honum eiginlega aftur niður á jörðina og inní nístingskaldan veruleika og miskunnarlausan. Köld tuska og blaut í andlitið eftir miklar ljóðmyndir á köflum.

Gamla gasstöðin við Hlemm er síðan ljóð sem Megas orti eftir að hafa hlustað á barþjón í Reykjavík. Upphaflega var ljóðið miklu lengra, en var mikið stytt. Lagið er í mildri diskóútsetningu, en söngurinn stæling á söng Bob Dylans allmikið, en ekki algerlega þó.

Í ljóðinu er margt á ferðinni. Til dæmis er gert grín að heimsendaspádómum og alvarleika, og þjóðfélagsgagnrýni. Í orðinu "marklaust" kemur það fram. Einnig þetta lag má teljast háðslega ádeila á Passíusálmana og alvarleikann í þeim. Í laginu er syndunum lýst eins og einhverju óhjákvæmilegu, sem lítið þýði að berjast gegn eða kvarta útaf.

Sjöunda lagið heitir svo "Skírnin", og er heldur betur notaður kristilegur og biblíulegur efniviður, þar sem það á yfirborðinu fjallar um Jóhannes skírara og samskipti sögumanns við hann.

Hlustandinn eða lesandinn gæti haldið að Jesús Kristur sé ljóðmælandinn, en þegar Jóhannesi skírara er lýst sem vímuefnaneytanda fara að renna á hlustandann tvær grímur, og þegar ljóðmælandinn segist berjast gegn verzlun og viðskiptum, og hagvexti. Reyndar gæti það passað við sumar trúardeildir eða trúarhópa innan kristninnar.

En boðskapur ljóðsins endar í nokkurskonar austrænum Zen búddisma og einangrunarhyggju. Enn sem fyrr gerir Megas stólpagrín að samfélaginu og stofnunum þess á snilldarlegan hátt.

"Í speglasalinn" er áttunda og næstsíðasta lagið á plötunni. Endurminningar úr Norðurmýrinni blandast hér saman við vímuefnaneyzlu fullorðinsáranna, og töffaraskap sem byggist á afneitun á leiðinlegum persónum og viðhorfum í samfélaginu. Boðskapurinn er persónulegt sjálfstæði sem byggist á því að afbaka veruleikann að vild, með eða án hjálpar.

Lagið er hressilegt og það er mikilvægt, því síðasta lagið er dapurlegt og tregablandið.

Það heitir "Enn(að minnsta kosti)". Ljóðið er mjög lauslega byggt á "It's Alright Ma (I'm Only Bleeding)" eftir Bob Dylan frá 1965. Þó fer lagið í allt aðra átt, og er í 12/8 takti, og byggist á sígildri tónlist að einhverju leyti.

Þetta er stórkostlegur kveðskapur. Hann lýsir ævi manneskju frá fæðingu til grafar, hvernig manneskjuna rekur á land, og fer sömu leið til baka útúr tilverunni. Lífinu er lýst sem sukki og svínaríi, og sem spillingu og kaldlyndi. Í einu alsnjallasta erindi kvæðisins er jafnrétti og bræðralag vinstrimanna lagt að jöfnu við glaðbeitta forkólfa efnahagslífsins að því er virðist. Þar með varð Megas ótrúlega sannspár um þá tíma sem við upplifum núna, þegar jafnaðarmenn og kommúnistar og kapítalistar hræra í sama grauti valda og spillingar sér til handa.

Þessi hljómplata Megasar er einhvernveginn fullkomin. Bæði eru ljóðin óaðfinnaleg og einnig lögin, og jafnvel flutningurinn. Hún fær 10 stjörnur af 10 mögulegum frá mér og mörgum öðrum sem þekkja til hennar býst ég við.

Megas var býsna hógvær þegar ég spurði hann um þessa plötu, en þó var hann líka að gefa það upp að hún hafi verið vandlega skipulögð og útsett í hvívetna, fyrir hvert einasta hljóðfæri skrifaði hann nótur sem hann ætlaðist til að farið væri eftir. Það gekk eftir í langflestum tilfellum, en þá vegna þess að þeir hljóðfæraleikarar sem lásu nótur sögðu hinum til sem gerðu það ekki.

Einnig voru minningar hans mjög skýrar um það að útgefandi plötunnar hafi verið mjög nízkur á hljóðverstímann þegar verkið var tekið upp. Sagði hann orðrétt að platan hafi verið "tekin upp með skeiðklukkuna yfir sér". Þannig var ekkert umframefni tekið upp, engin aukalög að minnsta kosti.

Lögin voru þó vel æfð og rækilega þannig að allt var þetta mjög vandað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 52
  • Sl. sólarhring: 55
  • Sl. viku: 611
  • Frá upphafi: 106035

Annað

  • Innlit í dag: 39
  • Innlit sl. viku: 487
  • Gestir í dag: 38
  • IP-tölur í dag: 38

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband