Bloggfærslur mánaðarins, september 2021
30.9.2021 | 14:36
Ný skjálftahrina getur einnig táknað undanfara stórs skjálfta, því mikil spenna á enn eftir að losna
Það hefði verið skynsamlegra að hafa höfðuborg landsins þar sem minna er um flekahreyfingar og skjálftavirkni.
Það kom fram á fundi hjá okkur Nýalssinnum að nýja virknitímabilið sem hófst í fyrra er ekki einskorðað við Ísland. Með minni samstillingu og andstillingu metoobylgnanna má einmitt búast við ýmsum helstefnuatburðum.
Dánardagur Giordano Brunós var 17. febrúar árið 1600 og brenndi kirkjan hann á báli fyrir trúvillu, en ég hef lesið nokkuð í ritum hans, og hann var einfaldlega heimsspekingur sem var langt á undan sinni samtíð og skildi mjög margt betur en samtímamenn hans. Hann gagnrýndi samtíma sinn, en var ekki trúlaus og ekki hef ég fundið í ritum hans neinn satanisma eða slíkt eins og valdhafarnir sökuðu hann um, ranglega.
Metoohreyfingin minnir á einstefnuhyggju og fordæmingarhyggju þessara myrku alda mannkynssögunnar.
Við afhentum húsið að Digranesheiði 8 þann 17. febrúar 2021. Staðurinn var mjög blessaður af álfum. Ekki veit ég þetta með vissu, en ég vil frekar tala um mögnuð svæði og örlagasvæði en álagabletti. Las ég eftir einn bloggara í ár að hann taldi landvættina snúa aftur í haust. Það væri auðvitað óskandi og eftirsóknarvert, en hætt er við að landsmenn og mannkynið í heild hafi stillt sig til erfiðari tíma en hægt sé að leysa úr auðveldlega.
Á tímum Forn Grikkja og dýrkunar á Apollo, sem heyrir til Baldurs í norrænni goðafræði voru þeir staðir mikilsmetnir þar sem hofgyðjur á véfréttastað gátu náð sambandi við æðri máttarvöld.
Verndarvættir íslenzku þjóðarinnar eru margvíslegir. Gömul speki getur verið nytsamleg. Hin svonefnda hjátrú getur stundum átt við rök að styðjast, en kannski ekki alltaf. Geri maður ráð fyrir dulfræðinni verður veruleikinn áhugaverðari.
En með jákvæðu hugarfari tel ég unnt að hjálpa þeim sem vernda land og þjóð. Hefur það komið fram á fundum Nýalssinna að það er mikið verk að hjálpa okkur jarðarbúum og framliðnir ættingjar á framlífshnöttum sjá um það ásamt öðrum. Svo eru helstefnuöflin að vinna að sundrungu og eyðileggingu.
Við ættum að reyna að skilja fólk sem fer útí ógæfuverk og hjálpa því í stað fordæmingar, sem leiðir til vítahrings hefndarhugs og leiðinda.
Ný skjálftahrina getur táknað ýmislegt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.9.2021 | 04:13
Að lifa í frjálsu landi og sjálfstæðu ríki verður sífellt dýrmætara í undarlegri heimi
Ég var að hlusta á þátt á Útvarpi Sögu, Arnþrúður tók viðtal við Guðrúnu Bergmann og Sigurlaugu Ragnarsdóttur. Margt hrollvekjandi kom fram í þeim þætti um faldar tölur um aukaverkanir af því sem þær segja að sé tilraunaólyfjan sem kannski og bara kannski virki í framtíðinni gegn einhverju sem þá kemur kannski upp sem önnur farsótt.
Það er margt undarlegt í þessu. Hvers vegna er Youtube núna að fjarlægja efni um þetta og beita refsiaðgerðum þegar talið er að faraldurinn sé í rénun?
Yfirleitt þegar þöggun er í gangi kemur upp orðtækið "sannleikanum er hver sárreiðastur", til dæmis. Það er margt sem vekur upp grunsemdir um að eitthvað undarlegt sé í gangi.
Ég vil annars ekki hvetja til eins né neins. Ég neita að taka einarða afstöðu þegar upplýsingar eru þversagnakenndar eins og í þessu máli. Það er varla réttara að trúa opinberum yfirvöldum, þau hafa áður í sögunni verið spillt og komið með rangar upplýsingar, ekki er heldur rétt að trúa öllu sem undarlegt er frá öðrum, en gefa því séns. Það er einfaldlega svo að mannréttindi, tjáningarfrelsi, lýðræði og mannréttindi eru vart lengur sjálfgefin fyrirbæri, sjálf ríkin á Vesturlöndum eru farin að ógna svona sjálfsögðum hlutum, spillingin er orðin slík, áhrif leynifélaga á bakvið tjöldin og þrýstingshópa þeirra sem hafa völd og eiga billjónir.
Það er gott að Framsókn vann stórsigur. Þar er fólk samróma um að styrkja eigi innlendan landbúnað, til að verjast risakreppum sem koma erlendis frá eða öðrum vandræðum, að þjóðin eigi að vera sjálfri sér nóg á erfiðleikatímum og líka þegar vel gengur. Það er mjög skynsamleg stefna.
Fjarlægja efni gegn bólusetningum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.9.2021 | 05:51
Framsókn er flókinn flokkur og ástæðurnar fyrir sigrinum einnig
Það er svolítið merkilegt að Framsókn hafi unnið kosningasigur eftir að hafa verið í óvenjulegri ríkisstjórn á óvenjulegum tímum að auki. Framsókn er nefnilega svolítið flókinn flokkur og hefur í sér marga þræði.
Sigurvegarar kosninganna eru Framsókn og Flokkur fólksins. Að segja að það sé bara út af félagslegum áherzlum þessara flokka er einföldun.
Flæðið á milli flokkanna er ekki síður rannsóknarefni og í aðdraga kosninganna sjálfra. Frá Miðflokknum hefur fylgið streymt bæði til Vinstri grænna og Flokks fólksins, en einnig til Framsóknar. Vinstri græn töpuðu ýmsum kommúnistum rótgrónum á kjörtímabilinu en hægrisinnaðir kjósendur komu í staðinn, samkvæmt því sem fjallað var um á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í vetur, en þær skýringar finnst mér trúverðugar.
Jafnaðarmenn og vinstrimenn vilja sumir trúa því að kosningasigur Framsóknar sé Ásmundi Einari Daðasyni að þakka, þessum fyrrum Vinstri græna meðlimi. Það getur varla verið eina skýringin.
Þessar áherzlur hans sem barnamálaráðherra eru augljóst lýðskrum í anda húmanismans sem er alltof ríkjandi þessa áratugina. Þetta er tízkumálflutningur sem gengur vel í femínista og því er hann maður sem nær að sameina breiðan hóp, á yfirborðinu að minnsta kosti. Á misjöfnu þrífast börnin bezt var viðkvæðið hér áður fyrr, en ég hef ekki mikla trú á því að áherzlur nútímans verði annað en taldar afleitar í ljósi tímans og reynslunnar.
Hvað um það, þótt Ásmundur Einar njóti allmikillar hylli og sé af sumum talinn framtíðarleiðtogi Framsóknar þá eru þar fleiri ráðherrar og eins og ég segi er Framsókn margbreytilegur flokkur, enda á hann sér mjög langa sögu.
Ásmundur Einar er maður samsettur úr mörgum þáttum, kemur úr sveitinni og hefur því landbyggðasýn á hlutina sem oft er gott. Einföldun er að kalla hann kommúnista eða vinstrimann þótt hann hafi um tíma verið í Vinstri grænum.
VG og Framsókn eiga margt sameiginlegt. Að ýmsu leyti sveitaflokkar báðir. Steingrímur J. Sigfússon hefur sterk tengsl við sveitalífið eins og Ásmundur Einar. Samfylkingin er aftur á áberandi menntamannaflokkur og menningarflokkur mestmegnis, hefur slíkt yfirbragð, auk þess evrópska.
Hvað með Lilju Alfreðs og Sigurð Inga? Eiga þau ekki þátt í kosningasigri Framsóknar? Það hlýtur að vera.
Jónas frá Hriflu, einn merkilegasti stjórnmálamaður Íslandssögunnar er líkari Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni en nokkrum öðrum politíkus nú til dags, býst ég við. Báðir umdeildir, báðir með storminn í fangið, báðir stórmenni og dugmiklir en mistækir.
Framsókn nær yfir vítt svið, allt frá sveitarómantík og þjóðernishyggju Jónasar frá Hriflu yfir í alþjóðasamvinnu og miðjustefnu, og allt þar á milli.
Það skemmtilega við sigur Framsóknar er hversu séríslenzkur þessi flokkur er, og skyldur íslenzka lunderninu, sem er sveigjanlegt og daðrar við hið útlenda, en heldur þó fast í hefðir eins og hægt er, þjóðlegar.
Það má finna líkindi með Framsókn og Flokki fólksins. Vissulega leggja báðir áherzlu á hið mennska og gerðu það fyrir kosningarnar.
Auk þess er kannski meiri heiðarleiki yfir formönnum flokkanna en mörgum öðrum formönnum. Manni finnst þetta fólk ætli að láta verkin tala frekar en að láta vera fyrst og fremst froðusnakkar eins og margir aðrir.
En vinstrimenn og jafnaðarmenn geta ekki eignað sér Framsókn. Hann er jafn mikill hægriflokkur og vinstriflokkur, og kannski meiri hægriflokkur, því hann er flokkur lausna en ekki hugsjóna án jarðtengingar. Það er frekar einkenni á hægriflokkum en vinstriflokkum að koma hlutum til framkvæmda frekar en að fabúlera.
Þannig að margt bendir til að frekar hafi hægrisveifla verið ofaná að þessu sinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.9.2021 | 22:58
Crown SHC-5100
Ekki fékk ég áhuga á bílaviðgerðum þótt ég ælist upp á slíku heimili. (Þessi beygingarmynd mun vera rétt, fletti ég því upp, en fylgdi fyrst eigin máltilfinningu, en sjaldgæf er hún því fólk er farið að veigra sér við sjaldgæfar beygingar, því miður. Hins vegar er full ástæða til að vera óhræddur við að nota sjaldgæfar beygingar til að viðhalda málinu sem bezt, en fyrst þarf maður að rannsaka hvort um sé að ræða rétt mál).
Hins vegar fékk ég áhuga á viðgerðum á hljómtækjum, því ég notaði þau sjálfur. Núna nýlega fann ég stæðuna Crown SHC-5100 í Góða hirðinum á aðeins 1500 krónur og keypti hana, til að dunda mér við viðgerðir og athuga hvernig hún hljómaði.
Auðveldara var fyrir mig að stunda tækjaviðgerðir þegar ég gat notað skrúfstykki og annað á verkstæðinu, en þessi græja var lítið biluð og gat ég komið henni í lag með þeim varahlutum sem ég átti núna nýlega.
Að vísu gat ég ekki komið henni fullkomlega í lag, en sætti mig vel við það, því hún hljómar svo þrælvel eins og flest Crown hljómtæki sem voru vinsælust frá 1970 til 1985 og Radíóbúðin seldi á Skipholtinu.
Þessi sambyggða stæða var seld á árunum 1978 til 1980, og aðrar dýrari meðfram. Einnig voru til SHC-5300 og SHC-5500, og nokkrar fleiri á þessum tíma. Þetta var sá tími þegar ein beztu tækin komu frá Crown fyrirtækinu japanska.
Sumar Crown stæður eru beztar í upptöku en aðrar í afspilun. Þessi stæða hljómar betur í afspilun en upptöku, enda er hún ekki með Dolby möguleika.
Af öllum þeim aragrúa segulbandstækja sem komu á markaðinn um langt árabil tekur stæðan Crown SHC-5500 einna bezt upp, því þar er dýpsti bassinn í upptökunni, og víðasta hljómbilið, jafnvel þótt ekki sé nema Dolby-B möguleiki en ekki Dolby-C, enda ekki komið fram á þann tíma.
Með því að skipta um stilliviðnám má gjarnan fá enn betri hljóm í þessi hljómtæki, lóða gömul í burtu og breyta tíðnibilinu eitthvað.
Magnararnir í þessum Crown stæðum og hljómtækjum eru næstum ódauðlegir, gríðarlega endingargóðir magnarar og rafeindahlutir. Stilliviðnám vilja þó oft bila í þeim, og þar er hreinsivökvi nauðsynlegur.
Það sem þó langoftast bilar í svona hljómtækjum eru hreyfihlutir, allskonar takkar, hreyflar, gúmmíreimar, gúmmíhjól, legur, plasthlutir ýmiskonar og svo framvegis.
Þessi stæða var með bilaðan plötuspilara og gat ég ekki gert við hann, eða nennti því ekki. Gúmmíhjólið sem snerti mótorinn fyrir plötuspilarann var orðið glerhart, og vissulega eru nokkrar lausnir á þvílíku vandamáli og því hefði vel verið hægt að koma þessum plötuspilara í lag, en ég hafði ekki áhuga á því, þar sem hann var og er óvandaður, með of þungan arm sem fer ekki vel með plötur. Enda er það einn af munum þeim sem eru á SHC-5100 og SHC-5300 og dýrari einingum svona stæða.
Þegar maður hinsvegar lendir í þessu vandamáli og vill laga græjuna þá er margt til ráða.
A) Maður getur reynt að panta hlutinn frá útlöndum. Í þessu tilfellu er það mjög erfitt því hætt er að framleiða þetta, en gamlir lagerar gætu samt fundizt, eða svipaðir hlutir til sölu.
B) Maður getur mixað eitthvað saman, notað svipuð gúmmíhjól sem maður finnur. Það hef ég margoft gert þegar ég laga svona tæki. Enda hef ég geymt næstum alla smáhluti þegar ég hef rifið svona tæki, og hef sett í kassa og dollur, og þar geymi ég svona afganga úr gömlum tækjum sem hægt er að nota í viðgerðir.
Annars hafði ég mestan áhuga á segulbandstækinu, enda eru þau einna bezt af Crown tækjunum. Þetta hljómar mjög vel sem afspilunartæki. Skermunar er þó þörf, og slíkt er hægt að gera hafi maður þekkingu á því.
Tvö vandamál voru við segulbandstækið. Í fyrsta lagi flæktust snældur við upphaf þeirra eins og er gríðarlega algengt vandamál. Í annan stað stoppaði það ekki við enda snældanna.
Þetta eru gamalkunnug vandamál og hef ég margsinnis fengizt við þau.
Gúmmíhjólin sem snerta drifteinana hægra megin eru yfirleitt full af járneindum brúnum að lit, sem koma úr spólunum. Þar með missa þau grip sitt og böndin fara á flakk vegna þrýstingsins, sem yfirleitt er meiri en þörf er á, hægra megin.
Í fyrsta lagi minnkar maður þrýstinginn hægra megin á inngripshjólið með snuðinu, annað hvort með því að minnka gormana með töng eða með stillingum, eða öðrum aðferðum.
Í öðru lagi skiptir maður um gúmmíhjólið eða hreinsar það með spritti.
Eftir það gengur bandið snurðulaust og gefur rétta útkomu.
Annars er það venjubundið vandamál sem mætir manni við þessar Crown stæður, en það er truflun frá upptökuskiptinum í segulbandinu. Það er lagfært með hreinsiefni.
Í heildina litið eru þetta miklu betri tæki en talið var hér áður fyrr. Ef maður kann að laga þessar græjur hljóma þær mjög vel. Samt getur verið erfitt að finna varahluti, og því er oft nauðsynlegt að sætta sig við að nota þessar græjur þótt þær séu ekki í fullkomnu lagi. Fyrir minn smekk eru Crown tækin einna bezt hljómandi. Það er oft vegna þess hvernig lágtíðni og hátíðni er lyft í tónjöfnuninni oft, annaðhvort í upptöku eða afspilun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.9.2021 | 21:39
Læra má af Katrínu Jakobsdóttur, hún er vinsæl því hún vinnur með allskonar fólki og flokkum.
Merkilega sterk staða VG eftir þessar kosningar er eftirtektarverð miðað við allar þær hrakspár sem komu fram um hrun VG í þessum kosningum eftir samstarf við borgaraflokkana Framsókn og Sjálfstæðisflokk. Það að stjórnarandstaðan skyldi bíða afhroð næstum í öllum tilfellum nema hjá Flokki fólksins er stórmerkilegt. Kjósendur voru ekki að velja vinstristjórn og útilokunarpólitík nokkurra flokka.
Vinstri græn er stærsti vinstriflokkurinn eftir þessar kosningar eins og komið hefur fram. Ég bjóst þó jafnvel við að fylgi þeirra gæti farið niður í 4-5 prósent eins og Samfylkingarinnar á sínum tíma, miðað við setu í ríkisstjórn með erkióvininum pólitískt séð, í sögulegu ljósi. Það gerðist ekki, kannski vegna þess að talið er að fylgi þeirra hafi endurnýjazt á kjörtímabilinu, og að þeir hafi þegið talsvert fylgi frá Miðflokknum sem var í ólgusjó líka.
Eru Vinstri grænir orðnir þessi stórfylking jafnaðarmanna og vinstrimanna sem Samfylkingin átti upphaflega að verða? Eða er þetta aðeins persónulegt fylgi Katrínar sem drífur flokkinn yfir 6-8% fylgi? Eða stuðningur við stjórnina?
Mér finnst það annars undarleg skýring á fylgistapi Miðflokksins að þar séu á ferðinni síðbúin Klausturbarsáhrif. Nei, þetta gerðist eftir að frægum Klausturbarsdónum var hent út af lista fyrir óþekkt andlit, og konum ekki sízt.
Segir það ekki hver markhópur Miðflokksins er og að þetta hafi verið stærsta feilsporið hjá flokknum, að gefa þannig sínum markhópi langt nef?
Það eru auðvitað margar hliðar á þessum úrslitum.
Útilokunarpólitík var hafnað í þessum kosningum og einnig öfgalíberalisma eða alþjóðahyggju Viðreisnar og Pírata. Erfitt eða útilokað er þó að varpa upp þeirri hlið að kjósendur hafi viljað kerfisbreytingar stórtækar eins og sumir í Pírötum og öðrum flokkum höfðu á oddinum. Virðist mér sem Þorgerður Katrín hafi verið helzt til ginnkeypt fyrir málflutningi Pírata sem hefur átt sér takmarkaðri hljómgrunn en virzt hefur af því þekkta lýðskrumsfólki sem fær að koma fram í sjónvarpsstöðvum og víðar.
Viðreisnarfólk vill kannski að lokum sameinast Sjálfstæðisflokknum aftur, því erfið er þessi ganga þeirra í heimi flokksbrota vinstrimanna.
Eitt það lærdómsríkasta við þessar kosningar er þó þetta, að fjölmiðlar alþjóðahyggjunnar og þeirra stjórnmálafræðingar draga ekki upp rétta mynd, lifa í sínum draumaheimi útópíska.
Sjálfstæð fréttamennska er krafan eftir þetta, og úrbætur á fjölmiðlaheiminum, að hlusta á fólk sem hefur verið með Fésbókarhópinn "Eftirlit með hlutleysi RÚV", til dæmis.
Vinstrihallinn á fjölmiðlum er jafnvel ekki þeim sjálfum til gagns. Að fá inn viðmælendur sem hafa fjölbreytilegri skoðanir er ÖLLUM til gagns, ekki að lokast inní vinstribúbblum eins og gerzt hefur eftir hrunið 2008, því miður. Því þarf að breyta.
Ég verð að viðurkenna að ég glaptist og trúði því að hrein vinstristjórn væri í kortunum. Hefði ekki átt að trúa vinstrifjölmiðlunum sem eru alltumlykjandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.9.2021 | 21:45
Hvernig er hægt að túlka úrslit kosninganna öðruvísi en sigur hefðbundinna flokka og íhalds, jafnvel fjórflokksins?
Sjálfstæðisflokkurinn er þrátt fyrir breytingar sami hægriflokkur og hann var stofnaður til að vera fyrir mörgum áratugum. Ef vinstrisveifla er í gangi kemur hún ekki frá almenningi heldur elítunni, í fjölmiðlum og víðar. Vissulega má kalla Sjálfstæðisflokkinn jafnaðarflokk og vinstriflokk, en ef raunveruleg hægrisveifla kæmi og þurrkaði út vinstriflokkana, eins og æskilegt væri, þá yrði Sjálfstæðisflokkurinn jafnvel róttækari hægriflokkur en hann var í upphafi. Þetta virðist allt fara eftir tíðarandanum hverju sinni.
Vinstri grænir eru arftakar Alþýðubandalagsins, jafnvel Kommúnistaflokks Íslands sem var til fyrir löngu.
Framsókn er í grunninn sami miðjuflokkurinn og fyrir mörgum áratugum.
Hin flokksbrotin eru bæði gamli Alþýðuflokkurinn og brot úr þessum þremur sem eru í ríkisstjórn. Þannig að í gegnum allan þennan fjölda smáflokka sér maður glytta í gamla fjórflokkinn sprelllifandi ennþá þrátt fyrir allt eftir kosningarnar.
Merkilegt er þetta hversu fátt getur breyzt eftir allt saman.
En Flokkur fólksins hefur sýnt og sannað að smáflokkar geta samt unnið sig upp og stækkað. Hvort þetta fylgi viðhelzt mörg kjörtímabil er spurning.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.9.2021 | 01:09
Kosningadagur var hátíðisdagur hjá mörgum áður fyrr
Þegar ég ólst upp hjá afa og ömmu var mikið talað um pólitík. Í götunni okkar voru margir sem kusu Sjálfstæðisflokkinn, flestir held ég, enda lítil og meðalstór fyrirtæki sem við og nágrannarnir áttum eða unnum hjá, og það var ákveðin setning sem var sögð: "Ef þú átt aur taka kommarnir helminginn en íhaldið leyfir þér að halda honum".
Það var aldrei tekið mark á smáflokkum - sem ekki tilheyrðu fjórflokknum. Kommi, krati, framsókn eða sjálfstæðismaður, þessi fjögur hugtök voru álitin óbreytanlegar stærðir og eilífar. Amma Fanney notaði orðið "Íhald" í niðrandi merkingu, en mér var sama.
Það var mikill hátíðisdagur þegar kosningadagur rann upp. Þá fóru afi og amma í sitt fínasta púss áður en gengið var inn í kjörklefann. Reynt var að láta eins og leynd væri yfir því hvernig kosið var, en samt bara á yfirborðinu.
Þetta með leyndina skildi ég aldrei. Þau þekktu flesta í nágrenninu og það var vitað hvað allir kusu sem þau þekktu - eða gizkuðu á út frá samtölum, og ekki tekið í mál að neinn skipti um skoðun, held ég. Maður hélt með liðinu sínu til æviloka, eða gengið út frá því sem vísu, öfugt við það sem er núna.
Þegar ég var kominn með kosningarétt sveiflaðist ég á milli jafn róttækra öfga og Sjálfstæðisflokksins og Kvennalistans, sem ég kaus einu sinni áður en hann var lagður niður í einhverjum kosningum. Það var vegna þess að ég taldi mig femínista á ákveðnum tímapunkti, sennilega vegna áhrifa frá mömmu. Annars kaus ég Sjálfstæðisflokkinn þarna þegar ég var fyrst með kosningarétt, eftir að hafa áttað mig á því að kommúnismi væri ekki nema sýndarmennska.
Það er margt sem kemur mér spánskt fyrir sjónir þegar ég spái í ömmu og afa. Hvers vegna var litið þannig á að fólk skipti ekki um skoðun í pólitík?
Af hverju var amma svona mikil sjálfstæðismanneskja, hún sem fæddist og ólst upp í torfbæ á Snæfellsnesi, bláfátæk? Ég bara veit að það tengdist eitthvað trú hennar, hversu sannkristin hún var, og svo uppeldinu í sveitinni.
Þótt manni finnist sem helstefna sé ríkjandi á mörgum sviðum og afturför finnst mér það framför og jákvætt að fólk er farið að skipta um skoðun í pólitík. Kannski er það bara til að líkjast ekki fyrri kynslóðum. Það er til marks um frjálsan vilja, sem manni finnst þó ekki alltaf ríkjandi. Rökræður skila oft ekki árangri, fólk hlustar ekki á rök, fólki er sama um sannleikann, og kunningjaþrýstingur eða félagsstaða stjórnar kosningahegðun frekar en frjáls vilji. Þannig að fátt hefur breyzt í raun, nema trygglyndið er minna.
Kannski er það hluti af því að flokkarnir hnupla stefnumálum frá öðrum flokkum og eru farnir að líkjast mikið innbyrðis sem flæðið er meira á milli flokka.
En í raun er þetta ekki mikið lýðræði. Flokkarnir eru eiginlega allir eins. Umræður fara ekki á dýptina, sízt í sjónvarpsþáttunum þar sem hver gaggar uppí annan sömu tuggurnar og fátt eða ekkert sem farið er eftir að kosningunum loknum, nema pólitíkusarnir neyðist til þess til að fá betri ásýnd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2021 | 11:35
Hvers vegna tapar ríkisstjórnin fylgi og fellur kannski á morgun?
Burtséð frá einni skoðanakönnun er ljóst að ríkisstjórnin gæti fallið á morgun og það eru tíðindi svo menn gætu spurt sig hvers vegna? Nú stóð ríkisstjórnin sig vel í að bjarga mannslífum, þótt endalaust megi deila um kófið, samsæri eða ekki, heimskulegar hræðsluaðgerðir eða ekki, og þannig mætti lengi telja. Útgáfurnar eru firnamargar á sannleikanum sem fólk finnur eins og venjulega, eða trúir á.
En uppúr stendur að víða erlendis féllu fleiri í farsóttinni en hér hlutfallslega, og því hafa stjórnvöldin eitthvað gert rétt og því er spurning hvers vegna þau missa fylgi.
Ætli það sé ekki eitthvað því um að kenna að mörgum sjálfstæðismönnum finnst flokkurinn kominn of langt til vinstri og vinstri grænum sinn flokkur kominn of langt til hægri? Ekki skrýtið að Framsókn dafni á slíkum tímum.
Allir þessir flokkar sem mynda þessa ríkisstjórn hafa lítinn eða engan áhuga á inngöngu í Evrópusambandið, og innan þeirra eru jafnvel margir hörðustu andstæðingar Evrópusambandsaðildarinnar. Á sama tíma eiga margir með slíkar skoðanir það sameiginlegt að vera þjóðernissinnar. Því má segja það vonbrigði að slíkar áherzlur fundust ekki hjá þessari ríkisstjórn.
Oft er það þannig að andstæðum skoðunum vex fylgi þegar ákveðin stjórnvöld eru við völd, þegar andúð vaknar á einhverjum áherzlum eða stjórnarháttum.
Þeir sem gefast upp á íslenzkum stjórnmálum geta í uppgjöf sinni þráð Evrópusambandið, opinn faðm hinnar útlendu og evrópsku fagmennsku sem þar virðist ríkja.
Það eru sennilega flóknar ástæður fyrir því að þessi ríkisstjórn gæti fallið á morgun.
Ríkisstjórnin gæti haldið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.9.2021 | 07:33
Bókmenntir hjálpa manni að sjá lífið í öðru ljósi
Ég kaus Samfylkinguna og læt það atkvæði standa. Ég lít svo á að ég standi á einum tímamótum af mörgum í lífinu og er orðinn þreyttur á því að hafa áhuga á einhverjum stórum málum. Nú er ég aftur farinn að hafa áhuga á persónulegum samskiptum, sem sumir kalla smáu málin.
Málið er það að þegar amma dó, sem gekk mér í móðurstað, fékk ég mikið áfall. Þá flúði ég inní blekkingu vinnufíknarinnar, og að taka ábyrgð, til einskis, á einhverju sem var ekki á mínu valdi. Það er ákveðin klikkun. Ég missti af miklu félagslífi fyrir vikið og féll í skólanum að óþörfu.
Ég held að málflutningur femínistanna sé loksins að breyta mér í grunninn, en af þeirri flóru sem er femínískur málflutningur er sjálfsagt sumt rétt en annað rangt. Eitt af því sem mér finnst áhugavert í þeim fræðum er munur á uppeldi og viðbrögðum kynjanna og hvort maður geti ekki haft meiri stjórn á því en áður var talið.
Oft hef ég sakað aðra um að ég hafi ekki náð vinsældum sem tónlistarmaður og þá gjarnan talið að um samsæri væri að ræða gegn öllum sem segðu sannleikann, eða fjölluðu um ákveðin viðfangsefni sem fæstum væru að skapi.
Samt, burtséð frá því hvort maður hefur rétt eða rangt fyrir sér í einhverjum pólitískum ágreiningsmálum, í söngtextum eða hvar sem er þá eru líka persónulegar hliðar og ástæður fyrir afstöðu manns.
Með því að klára myndasögubækur sem ég hætti við á sínum tíma er ég að tengja mig við unglingsárin, þegar ég taldi mig vinstrisinna.
Ég hætti næstum alveg að gera myndasögur 1989, taldi mig ekki hafa tíma til þess lengur, og hefði ekki heldur næga hæfileika til þess.
Ég er reyndar ekki allskostar ánægður með bækurnar um Gorró sem ég hef lokið við, en samt að sumu leyti.
Gorró var fyrsta söguhetjan sem ég skapaði. Það hefur verið þegar ég var tólf ára, 1982. Ég kláraði aldrei bækurnar um hann í fullri lengd, einungis nokkrar bækur um Jóa og félaga.
Vinnubrögðum mínum hefur hrakað, og vandvirknin næstum engin í teikningunum. Samt finnst mér handritin þroskaðri og söguþráðurinn hjá mér, boðskapurinn útpældari, eins og sagan sem ég gerði 1987, í flokknum Jói og félagar, ber hún heitið "Norbrúmm prófessor". Að mörgu leyti eftiröpun á "Z fyrir Zorgblúbb" eftir Franquin, þeirri snilldarbók, en samt ekki alveg. Það er fyrsta teiknimyndasagan eftir mig sem er pólitísk og fjallar um spillingu almennt.
Árið 1984 náði ég hámarki í fyndni og spennuþrungnum, samþjöppuðum söguþræði og teikningum, aðeins 14 ára. Eftir það vann ég allar mínar myndasögur í hjáverkum, og eyddi sáralitlum tíma í þær, taldi annað mikilvægara.
Mig langar til að ná aftur þeirri færni og þjálfun sem ég hafði komið mér upp árið 1984. Þá hafði ég reyndar teiknað að staðaldri frá 1976, en myndmennt var eitt uppáhaldsfagið mitt í skólanum og tónmennt. Hitt fannst mér allt leiðinlegt, nema kannski íslenzka og saga.
Ég kláraði eina myndasögu uppá 62 blaðsíður frá júlí til nóvember 1984. Aldrei hef ég verið eins skipulagður í vinnubrögðum og þegar ég gerði þessa sögu. Ég byrjaði á því að ákveða að nota vélritunarpappír og teikna báðum megin. Zeta Mattpost, A4, það hét pappírinn í söguna "Uppfinningin", Jói og félagar númer 1.
Með reglustiku reiknaði ég næst út stærðina á reitunum og bjó til sniðmát fyrir aðrar blaðsíður. Ég fékk mér skrúfjárn sem var passlega hvasst og lítið, og með hamri sem ég fékk á verkstæðinu hans afa í næsta húsi barði ég holur á sniðmátin, V-laga hök efst í hornunum fjórum, sem skyldu afmarka stærð rammanna. Með því að staðla þannig stærð teiknireitanna var mér unnt að gera þetta faglegt eins og í belgísku og frönsku myndasögunum sem Iðunn og Fjölvi gáfu út. Hver rammi var reiknaður út. Yfirleitt fjórir reitir niður, stundum þó fimm, og þá stærðin reiknuð út þannig að þeir yrðu jafnir.
Næsta verkefni var að kaupa tússliti og þynna þá út með vatni þannig að sem minnst læki í gegn yfir á hina hliðina. Þannig breyttust einnig litirnir og urðu daufari, sem hentaði vel. Ég fékk vasapeninga hjá afa til að fjárfesta í þessu.
Þessi fyrsta saga var svo vönduð að ég bjó til handritið að henni í litla stílabók frá skólanum. Rétt eins og kvikmyndahandrit var þetta, og hugsað út ramma fyrir ramma, og söguþræðinum breytt, sumt strokað út.
Síðan byrjaði ég að teikna laust með blýanti, fór svo ofaní með filterpenna, litaði persónur með tússlitum og bakgrunn með trélitum. Oft voru það 2 tímar á dag sem fóru í þetta á kvöldin. Þannig kláraðist bókin á örfáum mánuðum, enda lét ég engan dag falla úr.
Vegna þess að mér fór að leiðast handritið bætti ég inní fyndnum persónum sem aðeins áttu að vera til skemmtunar, en Gummi grásleppa þótti þeirra fyndnastur, smákrimmi sem varð að stoppa við hverja fiskibúð til að kaupa sér sem úldnasta grásleppu vegna undarlegrar fíknar í slíkt.
Mikið fór nú þessum bókum aftur eftir þetta. Brandararnir hurfu og alvarleikinn tók við. Að lokum urðu þær frekar leiðinlegar og þá hætti ég, enda metnaðurinn löngu dauður og áhuginn horfinn.
Ég kynntist honum Kjarnó, Kjartani Arnórssyni, sem reyndist skyldur mér í gegnum afa, og hann sannfærði mig um að ég yrði að leggja á mig nám, og þá nennti ég þessu bara alls ekki lengur.
Ég afrekaði þó á örskömmum tíma á árunum 1988 og 1989 að grófvinna tvær bækur í öðrum bókaflokkum, eina um Konna kokk og eina um Gorró. Þær bækur biðu þó ólitaðar og varla fullteiknaðar ár eftir ár og áratug eftir áratug.
Síðan gerðist það í kófinu í marz 2020 að ég fór að skoða þessar bækur betur. Fúsi fíni var bók sem var ókláruð, í Jóa og félaga seríunni. Helmingurinn af henni var óteiknaður og næstum öll bókin ólituð.
Ég tók upp þau vinnubrögð 1986 að búa til engin handrit fyrir fram, en að leyfa söguþræðinum að ráðast eftir því í hvaða skapi ég var næst þegar ég tók upp pennan til að teikna og hélt þeim vinnubrögðum þar til ég hætti árið 1989.
Svo þegar ég byrjaði aftur 2020 notaði ég sömu vinnubrögð.
Afraksturinn hræðilegur að mörgu leyti. Alltof mikið um tal og kjaftæði, alltof mikill tilgangslaus texti, hræðilega illa teiknað allt, alltof lítil hreyfing og frásögn í myndum.
En málið er að mér finnst skemmtilegra að búa til skáldsögur í myndasöguformi en basla við að gera sögur án mynda.
Það er nefnilega hægt að búa til myndasögur með boðskap. Það er það skemmtilegasta við myndasögurnar, nokkuð sem hefur ekki verið fullreynt erlendis.
Gorró hentar mér mjög vel núorðið. Ég hef þroskann fyrir hann svona löngu seinna. Hann er brezkur leyniþjónustumaður eins og James Bond, 007, uppi á kaldastríðsárunum, sögurnar eiga að gerast 1950 til 1975 eða svo. Hann keðjureykir vindla, fer á hóruhús í öllum bókunum og er allt sem femínistar hata, og þessvegna er hann svo yndislegur. Hann er ríkur Breti sem hefur ekki minnstu hugmynd um femínisma, og þessvegna er hægt að elska hann. Hann er af gyðingaættum og bróðir hans er bankastjóri og fyllibytta, en kemst upp með drykkjuskapinn, og heitir Gylfi, alltaf fullur.
Þessar persónur eru launfyndnar, en samt eru þær teiknaðar af kærleika í garð ríka fólksins, en eins og margt annað gott í bókmenntum eru þær bæði ádeila og kærleiksrík umfjöllun í senn.
Gorró á skilningsríka eiginkonu, og öll ættin er þannig hjá honum. Þeir eltast að sjálfsögðu við glæpamenn. Að sumu leyti hefur maður meiri samúð með glæpamönnunum.
Einn helzti bófinn er Vindla-Church sem einnig keðjureykir vindla eins og Gorró. Á milli þeirra er því andleg tenging. Þetta er grunnhyggin persóna eins og Daltónbræðurnir í Lukku Láka.
Bryggju Beta er svo kvenbófi og hún er áberandi. Hún er hávaxin og grönn, en félagi hennar er Sígarettu Zalem, en þau eru alltaf að rífast eins og krakkar. Hann er dvergvaxinn kubbur.
Í öllum þessum sögupersónum kristallast einhvernveginn sú heimssýn að öll erum við eins í grunninn hvernig svo sem samfélagið flokkar okkur. Ekki er mikill munur á hetjum og bófum í þessum bókum.
Ég var svo ungur þegar ég byrjaði að búa þessar bækur til að söguþráðurinn þróaðist aldrei almennilega.
Ég byrjaði að búa þær til á afgangskartonpappír úr skólanum sem átti að henda. Ég sem sagt fékk að nota stórt tæki til að klippa karton, með löngum hníf á borði, og klippti niður og heftaði saman örlitlar bækur á stærð við CD diska eins og þeir urðu síðar, eða enn minni jafnvel.
Þannig að þetta voru mjög stuttar bækur og pínulitlar teikningar. Þær gerði ég aðallega 1982 til 1983, rúmlega 10 stykki, sem margar hafa týnzt, en örfáar á ég ennþá.
Það vantar alla stóra dýnamík í þessar bækur, eða stórfengleg viðfangsefni.
Bók númer 1 í bókaflokknum Gorró og félagar heitir "Bófaflokkurinn". Hún er kynning á Vindla-Church og félögum.
Söguþráðurinn minnir á Tinna í Sovétríkjunum eða fyrstu Lukku Láka bækurnar eftir Morris. Allt samhengi skortir, en stutt atvik drífa söguna áfram.
Hin dulræna vídd bættist inní hjá mér í fyrra, er sögurnar urðu 62 blaðsíður í fullri lengd. Sú dulræna vídd er þó ekki fullunnin, heldur aðeins eitt krydd í annars fáránlegar og grunnar sögur.
Engu að síður þá er bók númer 2 öðruvísi, "Stórsvindlarinn Loftur".
Fyrirmyndin að þessari bók var Loki úr Goðheimum, myndrænt útlit.
Hins vegar er George Soros sá sem er fyrirmyndin úr raunheimum, sálrænt séð, eða sambland af ýmsum slíkum billjónamæringum.
Einungis núna þegar bók er búin get ég skoðað kosti hennar og galla. Hún er langt frá því að vera skemmtileg eða áferðarfalleg, en hún er öðruvísi, og metnaðarfull á sinn hátt.
Þetta er frekar skáldsaga í teiknimyndaformi en hefðbundin teiknimyndasaga.
Rétt eins og í Tinna og pikkarónunum, síðustu bókinni sem Hergé lauk við um Tinna, þá er bókin að fjalla um það hversu ófærar hetjurnar eru um allt. Flestir myndarammarnir sýna Gorró taka fast um stýrið og reykja og tala við helzta samstarfsmanninn, Binna, en fá oftast engan botn í vandamálin.
Öðruvísi voru bækurnar um Jóa og félaga, þar sem hetjurnar áttu auðvelt með að sigra.
Í Gorró bókunum koma sigrarnir af tilviljun og hendingu og allt er kaótískt, eins og oft í raunveruleikanum.
Það skemmtilegasta við Gorró er þó að hann er mótefni gegn femínisma. Ég myndi ekki segja að hann komi af óvirðingu fram við kvenfólk, hann bara er af allt annarri kynslóð en nútímaunglingarnir sem þekkja þetta út og inn, þessi nútímaviðhorf, og Gorró er auk þess tilheyrandi þannig stétt að útilokað var fyrir slíkan mann um 1950 að hafa aðrar skoðanir en þessar, býst ég við.
Þannig finnst mér Gorró mjög viðkunnanlegur maður. Hann er mannleg hetja sem gerir mistök, til dæmis. Margar hetjur eru þannig í bókum. Brandararnir í þessum bókum snúast dálítið mikið um hann sem andhetju, en ekki klaufabárð samt, en bara þegar hann ætlar öllu að redda með einfaldri aðgerð þá kemur í ljós að málin eru ekki alveg eins einföld og í sumum hetjubókmenntum.
Allar mínar teiknimyndasögur eru svo ömurlega illa teiknaðar að þær yrðu að vera endurteiknaðar til að verða gefnar út, og jafnvel væri ekki úr vegi að lagfæra söguþráðinn á köflum, stytta hann og bæta inní fleiri bröndurum. Samt ekki endilega, ef menn vilja halda í vandaðan bókmenntastílinn og fíngerða kímnina.
En ég byrjaði þennan pistil á Samfylkingunni.
Þessi heimur okkar er brandari. Hann gengur ekki upp og skiptir þess vegna ekki máli. Í þannig heimi er bezt að kjósa Samfylkinguna, Pírata, eða þannig flokka, sem ekki á að taka alvarlega, og sigra þessvegna. Brjáluðum heimi hæfa brjáluð stjórnmál.
Engu að síður, Samfylkingin hefur kosti og marga kosti. Ég mun væntanlega fjalla um þá síðar, af nógu er að taka. Samúðin með öllu sem lifir er stór kostur sem hægt er að læra af vilji maður vera hluti af Samfylkingunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2021 | 03:33
Hvernig verður næsta ríkisstjórn?
Miklar líkur eru á að svona verði næsta ríkisstjórn: Vinstri grænir, Samfylkingin, Framsókn, Viðreisn og Píratar. Ef Sósíalistar og Flokkur fólksins fá góða kosningu gæti annar flokkurinn orðið sjötta hjólið undir vagninum, eða komið í stað þessara fimm fyrstu.
Allt virðist benda til þess að ólukkan elti Sigmund Davíð og Miðflokkinn að þessu sinni. Nema hið ólíklega gerist að vonarstjarna hans byrji að rísa og skína að nýju, sem væri auðvitað ákjósanlegt, því hann er að mörgu leyti rödd skynseminnar í pólitíkinni eins og svo oft áður, en fæstir virðast skilja það og sjá á þessum erfiðu eftirkófstímum.
Jafnvel þótt Guðmundur Franklín og Lýðræðisflokkurinn fái lítið fylgi gæti hann átt framtíð í íslenzkum stjórnmálum, enda rödd skynseminnar og ábyrgrar stjórnsýslu, miðað við ágætar ræður hans.
Síðan eru yfirgnæfandi líkur á að svona fimm flokka vinstristjórn vinstriflokkanna og miðjuflokkanna springi eftir hálft eða eitt ár og Sjálfstæðisflokkurinn komi inn, verði samþykktur af Samfylkingu og Pírötum af einhverjum ástæðum, og komi í stað tveggja flokka. Það gæti þá orðið fjögurra flokka stjórn eða þriggja flokka.
Það sem mælir á móti þessu er andstaða margra harðlínukomma gegn Sjálfstæðisflokknum. Það sem mælir með þessu er reynslan og það að Sjálfstæðisflokkurinn hefur langmesta reynslu af því að stjórna landinu farsællega án vendinga og vandræða þrátt fyrir allt.
Hið ólíklegasta getur gerzt og þessi atburðarás er trúleg miðað við það sem kemur fram í skoðanakönnunum. Skyndilega er þessi kosningabarátta orðin spennandi, nú þegar líkur eru á að stjórnin sé fallin, sem nú situr.
Kosninganóttin gæti sýnt hvort stjórnin er fallin eða ekki. Vissulega eru frekar líkur á stöðugri stjórn ef þessi stjórn endurnýjar umboð sitt sem nú situr við völd, frekar finnst manni sambræðingur fimm vinstriflokka og miðjuflokka lítt traustvekjandi eða á vetur setjandi, en það er aldrei að vita svo sem, það gæti samt gerzt.
Hrein hægristjórn virðist ekki í kortunum núna. Til þess yrðu Miðflokkur, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur allir að koma sterkir inn, sem ekki lítur út fyrir að sé núna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.1.): 111
- Sl. sólarhring: 113
- Sl. viku: 783
- Frá upphafi: 133463
Annað
- Innlit í dag: 92
- Innlit sl. viku: 601
- Gestir í dag: 88
- IP-tölur í dag: 86
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar