Framsókn er flókinn flokkur og ástæðurnar fyrir sigrinum einnig

Það er svolítið merkilegt að Framsókn hafi unnið kosningasigur eftir að hafa verið í óvenjulegri ríkisstjórn á óvenjulegum tímum að auki. Framsókn er nefnilega svolítið flókinn flokkur og hefur í sér marga þræði.

 

Sigurvegarar kosninganna eru Framsókn og Flokkur fólksins. Að segja að það sé bara út af félagslegum áherzlum þessara flokka er einföldun.

 

Flæðið á milli flokkanna er ekki síður rannsóknarefni og í aðdraga kosninganna sjálfra. Frá Miðflokknum hefur fylgið streymt bæði til Vinstri grænna og Flokks fólksins, en einnig til Framsóknar. Vinstri græn töpuðu ýmsum kommúnistum rótgrónum á kjörtímabilinu en hægrisinnaðir kjósendur komu í staðinn, samkvæmt því sem fjallað var um á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í vetur, en þær skýringar finnst mér trúverðugar.

 

Jafnaðarmenn og vinstrimenn vilja sumir trúa því að kosningasigur Framsóknar sé Ásmundi Einari Daðasyni að þakka, þessum fyrrum Vinstri græna meðlimi. Það getur varla verið eina skýringin.

 

Þessar áherzlur hans sem barnamálaráðherra eru augljóst lýðskrum í anda húmanismans sem er alltof ríkjandi þessa áratugina. Þetta er tízkumálflutningur sem gengur vel í femínista og því er hann maður sem nær að sameina breiðan hóp, á yfirborðinu að minnsta kosti. Á misjöfnu þrífast börnin bezt var viðkvæðið hér áður fyrr, en ég hef ekki mikla trú á því að áherzlur nútímans verði annað en taldar afleitar í ljósi tímans og reynslunnar.

 

Hvað um það, þótt Ásmundur Einar njóti allmikillar hylli og sé af sumum talinn framtíðarleiðtogi Framsóknar þá eru þar fleiri ráðherrar og eins og ég segi er Framsókn margbreytilegur flokkur, enda á hann sér mjög langa sögu.

 

Ásmundur Einar er maður samsettur úr mörgum þáttum, kemur úr sveitinni og hefur því landbyggðasýn á hlutina sem oft er gott. Einföldun er að kalla hann kommúnista eða vinstrimann þótt hann hafi um tíma verið í Vinstri grænum.

 

VG og Framsókn eiga margt sameiginlegt. Að ýmsu leyti sveitaflokkar báðir. Steingrímur J. Sigfússon hefur sterk tengsl við sveitalífið eins og Ásmundur Einar. Samfylkingin er aftur á áberandi menntamannaflokkur og menningarflokkur mestmegnis, hefur slíkt yfirbragð, auk þess evrópska.

 

Hvað með Lilju Alfreðs og Sigurð Inga? Eiga þau ekki þátt í kosningasigri Framsóknar? Það hlýtur að vera.

Jónas frá Hriflu, einn merkilegasti stjórnmálamaður Íslandssögunnar er líkari Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni en nokkrum öðrum politíkus nú til dags, býst ég við. Báðir umdeildir, báðir með storminn í fangið, báðir stórmenni og dugmiklir en mistækir.

 

Framsókn nær yfir vítt svið, allt frá sveitarómantík og þjóðernishyggju Jónasar frá Hriflu yfir í alþjóðasamvinnu og miðjustefnu, og allt þar á milli.

 

Það skemmtilega við sigur Framsóknar er hversu séríslenzkur þessi flokkur er, og skyldur íslenzka lunderninu, sem er sveigjanlegt og daðrar við hið útlenda, en heldur þó fast í hefðir eins og hægt er, þjóðlegar.

 

Það má finna líkindi með Framsókn og Flokki fólksins. Vissulega leggja báðir áherzlu á hið mennska og gerðu það fyrir kosningarnar.

 

Auk þess er kannski meiri heiðarleiki yfir formönnum flokkanna en mörgum öðrum formönnum. Manni finnst þetta fólk ætli að láta verkin tala frekar en að láta vera fyrst og fremst froðusnakkar eins og margir aðrir.

 

En vinstrimenn og jafnaðarmenn geta ekki eignað sér Framsókn. Hann er jafn mikill hægriflokkur og vinstriflokkur, og kannski meiri hægriflokkur, því hann er flokkur lausna en ekki hugsjóna án jarðtengingar. Það er frekar einkenni á hægriflokkum en vinstriflokkum að koma hlutum til framkvæmda frekar en að fabúlera.

 

Þannig að margt bendir til að frekar hafi hægrisveifla verið ofaná að þessu sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Ingólfur.

Hafði gaman að lesa pistil þinn, góður og skarpur greinandi eins og þín er fylgja, vissulega óvenjulegur, það er þú nálgast ekki hlutina eins og fjöldinn eða meinstrímið, margir missa því af góðri nálgun, sé gengið út frá forni visku að það sem er, raunveruleikinn eða hvað við köllum hann, er margbreytilegur, og eins rétt og við teljum okkur hafa með skoðanir og skýringar, þá erum við kannski líkt og blindu mennirnir sem allir höfðu rétt fyrir sér, einn sá rana eins og slöngu, annar sá fótlegg eins og trjádrumb, sá þriðji þreifaði á skrokk eins og vegg, og ef þeir hefðu séð þá hefðu þrætur þeirra endað í átökum, jafnvel vopnaátökum.

Það er tvennt sem mig langar til að segja, annað er athugasemd, það seinna að sem ég tel líklegustu skýringu á fylgi Framsóknar, ástæðu þess að ég sagði Yess þegar ég sá og heyrði fyrstu tölur, ekki vegna þess að ég kaus Framsókn, heldur vegna þess að mín kenning var fyrirfram sú, að Framsókn væri eina mótvægið gegn gegndarlausri vitleysunni á vinstri vængnum, ef fylgið færi þangað, þá var samt ekki hægt að mynda ríkisstjórn án aðkomu Framsóknar, og hún héldi meginvitleysingunum á jörðinni.

Þetta er það seinna, ég skynjaði fylgisaukningu Framsóknar sem mótvægi fólks sem ofbauð ruglandann og glundroðann sem virtist blasa við sem niðurstöðu kosninganna miðað við skoðanakannanir. 

Það var ekki það sem Framsókn sagði eða gerði, heldur upplifðu margir kjósendur flokkinn sem öryggisventil.

En það fyrra Ingólfur er að ég er ekki sammála þér um að Ásmundur Daði sé lýðskrumari og að á misjöfnu þrífist börnin best.

Hann var heill í því sem hann gerði, og þar með getur hann ekki verið lýðskrumari.

Annað, harmur barna, jafnt kúgaðra sem misnotaðra, sem hafa orðið út undan sökum fátæktar, félagslegra stöðu, aðstæðna á heimilum og svo framvegis, eru gömul og ný yrkisefni skálda.  Minni á Dickens, minni á nöturlegar frásagnir Dostojevskí í Karamazov-bræðunum, minni á hérlendis frásagnir um nöturleg örlög niðursetninga, eða nútímafrásagnir þar um, þarf ekki að leita lengi til að finna þær. 

Amma mín, blessuð sé minning hennar, missti móður sina, fátæka vinnukonu, þegar hún var 11 ára gömul. Hún var vistuð sem niðursetningur, fólkið var alls ekki vont við hana, en hún var móðurlaus, og hún átti að vinna.  Og eftir að hún varð 16 ára, sjálfráða, þá þurfti hún að vinna kauplaust í 2 ár til að borga hjónunum meinta skulda við framfærslu hennar, hún sem vann hörðum höndum frá fyrsta degi.  Æskuörlög sem leituðu mjög á huga hennar síðustu mánuði lífsins, þegar hún dó í kærleik og ást afkomenda sinna, 97 ára gömul.

Ingólfur, börnin þrífast ekki best á misjöfnu.

Þau þrífast best á ást og kærleik.

Kallast mannúð og mennska.

Ég hygg að Ásmundur sé að bæta úr, og reyna að bæta.

Að gefnu tilefni.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 29.9.2021 kl. 16:44

2 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Alltaf gagn af athugasemdum frá þér Ómar. Þú ert einn af þeim sem rýnir til gagns og lætur ekkert smáatriði framhjá þér fara sem mætti orða betur.

 

Ég var einmitt að enda við að horfa á Þorstein Pálsson á Hringbraut bera af svo mörgum sem hafa rýnt í þessi kosningaúrslit. Hvað sem um hans pólitísku skoðanir má segja er hann prýðilegur blaðamaður og oft gaman að lesa hans sjónarhorn.

 

Fyrri hluti þíns svars snýr að því sem hann fjallaði um, og ég er sammála ykkur, þér og honum að Framsókn var væntanlega kosin til að "gegndarlaus vitleysan" á vinstrivængnum hrifsaði ekki völdin.

 

Ég hef svolítið gaman af að ráðast á vinsæla menn sem aðrir telja mjög lýtalausa, eins og þegar ég var ósáttur við orðin sem Bragi Valdimar lét falla um Þjóðsönginn eftir Matthías í Orðbragði. Þú hefur nú einstaka sinnum líka þorað að gagnrýna eitthvað sem aðrir hafa farið í kringum varfærnilega og það er mér að skapi.

 

Reyndar hef ég mætur á Ásmundi að ákveðnu leyti, og ég kallaði hann ekki lýðskrumara en að "áherzlur hans sem barnamálaráðherra augljóst lýðskrum"... Það er vegna þess að mér finnst undarlegt að stofna svona ráðuneyti, því foreldrum sé fullkomlega treystandi fyrir börnum sínum, en um það má auðvitað deila.

 

Og vel að merkja held ég að það sé rétt hjá þér að hann vilji vel og þetta séu mikilvæg störf og að hann sé heill í því sem hann gerði.

 

Þú endar svar þitt á mjög svo sorglegum nótum sem ekki er hægt að vera ósammála þér um. Ég þekki svipaðar sögur úr minni ætt og veit að þetta er allt rétt og satt, þannig að þessir gömlu málshættir eru umdeilanlegir, það er alveg rétt.

 

En ég verð að útskýra hvaðan ég hef þessa setningu sem hljómar kaldranalega í nútímanum, "á misjöfnu þrífast börnin bezt." 

 

Ég ólst upp við gott atlæti hjá minni móðurfjölskyldu en þegar ég var 14 ára fór ég fyrst til Akureyrar til pabba. Þá fór hann að skamma mig fyrir að vera listhneigður og að lesa bækur og vera inni í staðinn fyrir að hjálpa honum í vinnunni eða kynnast fólki á staðnum. 

 

Þetta var um páska og hann notaði hvern einasta dag til að hella sér yfir mig, gat ekki sætt sig við að ég væri ekki eins og hann, duglegur að vinna eitthvað líkamlegt. Það festust ákveðnar setningar í mér sem hann sagði, eins og "á misjöfnu þrífast börnin bezt". Hann átti við að til að gera mig að dugnaðarforki í verkamannavinnu hefðu afi og amma átt að vera vond við mig í uppeldinu. Jæja, en það eru ekki allir eins og börn hafa mismunandi persónuleika. Okkur pabba kemur betur saman núorðið því hann hefur þroskazt og viðurkennir að feður geta ekki fjarstýrt börnum sínum frá öðrum landshluta eða stjórnað þeim. Hann viðurkenndi mig loksins þegar ég náði svolítilli frægð sem tónlistarmaður, og það gladdi mig.

 

Þessi kaldranalegu viðhorf mín eru arfur frá hnökrakenndu uppeldi og sársaukafullu úr minni bernsku.

 

Hann beindi þessum frasa beint að mér og mömmu. Þetta breytti mér og ég fór að kenna því um þegar mér fannst eitthvað ganga verr í mínu lífi en ég vildi að ég hefði fengið svona vont uppeldi hjá minni móðurfjölskyldu, þar sem ég mætti ást og kærleika en ekki kuldalegu viðmótinu hjá pabba. 

 

En ég þakka þér fyrir svarið. Ég vissi það að þessir frasar í pistlinum hljóma úr takti við nútímann. 

 

En það sem ég átti við í raun og veru var hvort nauðsynlegt væri svona ráðuneyti. Ég er enn býsna sammála pabba um að nútíminn sé kominn út af leið og útí mýri.

 

Það má lesa það á öðrum stöðum í pistli mínum að mér finnist Ásmundur vera eftirtektarverður pólitíkus sem hefur náð miklum árangri. Hvort hann notar lýðskrumsnálgun er mildara orðalag en að kalla hann lýðskrumara, sem ég reyndar gerði ekki.

 

En í raun er ég sammála svari þínu að flestu leyti, fyrir utan þennan frasa sem lýsir muninum á nútímanum og fyrri öldum, og þegar ég segi að hægriflokkar komi hlutum til framkvæmda er ég að hrósa Ásmundi fyrir að framkvæma það sem áður var talað um af vinstriflokkum, og en vonandi leiðir tíminn í ljós að allt hafi þetta verið til bóta hjá honum.

 

Um það hvort þessi málsháttur sé fallinn úr gildi eða ekki er ég ekki viss. Hann lýsir náttúruvalinu, og pabbi breytti mér mikið. 

 

Um markmiðið erum við sammála, að uppeldið verði sem bezt. Um aðferðirnar má deila og það er nauðsynlegt. 

 

Ég tel að afrek fyrri kynslóða hafi verið unnin því það fólk kynntist hörkunni og varð að standa sig betur þess vegna.

 

En þinn punktur vegur þungt líka. Allt sem þú telur upp er mikilvægt. En maður skrifar pistlana til að vera ósammála, koma með eitthvað nýtt (eða gamalt) sem gæti hreyft við fólki og komið með öðruvísi viðhorf.

 

Takk fyrir þetta umbúðalausa innlegg.

 

Kveðja að sunnan.

Ingólfur Sigurðsson, 29.9.2021 kl. 22:33

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Um allt má deila Ingólfur.

Ég spurði núna nýlega í athugasemd í einum af kosningapistlum mínum er eitthvað til annars sem heitir barnamálaráðherra, hélt eiginlega að þetta væri viðurnefni.

Ég hygg samt að Ásmundur Daði sé ekki sá sem ábyrgðina ber á embættinu, hún er sameiginleg margra, er hluti af ásýnd tímans.

En ég skil þig betur eftir lestur athugasemdar þinnar, umræða okkar fyllir uppí pistil þinn.

Mig langar að bæta við að góð verk eru óháð þeirri skilgreiningu sem við kennum við hægri eða vinstri, vissulega hefur frjálshyggjan komið með miskunnarlaus, mannfjandsamleg viðhorf inní hægri stjórnmálin, en í kjarna þeirra þá liggja ræturnar í kristilegri vestrænni menningu, mörg mannúðin var drifin áfram af hægri mönnum hér á árum áður, krafan um kerfisbreytingar kom kannski frekar frá vinstri.

Heimurinn er margbreytilegur líkt og stafirnir kenndu blindu mönnunum, fjölbreytt sýn er líka nauðsynleg allri umræðu.

Takk fyrir mig Ingólfur.

Með kveðju að austan.

Ómar Geirsson, 30.9.2021 kl. 08:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 101
  • Sl. sólarhring: 203
  • Sl. viku: 704
  • Frá upphafi: 106759

Annað

  • Innlit í dag: 86
  • Innlit sl. viku: 514
  • Gestir í dag: 81
  • IP-tölur í dag: 81

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband