Crown SHC-5100

Ekki fékk ég áhuga á bílaviðgerðum þótt ég ælist upp á slíku heimili. (Þessi beygingarmynd mun vera rétt, fletti ég því upp, en fylgdi fyrst eigin máltilfinningu, en sjaldgæf er hún því fólk er farið að veigra sér við sjaldgæfar beygingar, því miður. Hins vegar er full ástæða til að vera óhræddur við að nota sjaldgæfar beygingar til að viðhalda málinu sem bezt, en fyrst þarf maður að rannsaka hvort um sé að ræða rétt mál).

 

Hins vegar fékk ég áhuga á viðgerðum á hljómtækjum, því ég notaði þau sjálfur. Núna nýlega fann ég stæðuna Crown SHC-5100 í Góða hirðinum á aðeins 1500 krónur og keypti hana, til að dunda mér við viðgerðir og athuga hvernig hún hljómaði.

 

Auðveldara var fyrir mig að stunda tækjaviðgerðir þegar ég gat notað skrúfstykki og annað á verkstæðinu, en þessi græja var lítið biluð og gat ég komið henni í lag með þeim varahlutum sem ég átti núna nýlega.

 

Að vísu gat ég ekki komið henni fullkomlega í lag, en sætti mig vel við það, því hún hljómar svo þrælvel eins og flest Crown hljómtæki sem voru vinsælust frá 1970 til 1985 og Radíóbúðin seldi á Skipholtinu.

 

Þessi sambyggða stæða var seld á árunum 1978 til 1980, og aðrar dýrari meðfram. Einnig voru til SHC-5300 og SHC-5500, og nokkrar fleiri á þessum tíma. Þetta var sá tími þegar ein beztu tækin komu frá Crown fyrirtækinu japanska.

 

Sumar Crown stæður eru beztar í upptöku en aðrar í afspilun. Þessi stæða hljómar betur í afspilun en upptöku, enda er hún ekki með Dolby möguleika.

 

Af öllum þeim aragrúa segulbandstækja sem komu á markaðinn um langt árabil tekur stæðan Crown SHC-5500 einna bezt upp, því þar er dýpsti bassinn í upptökunni, og víðasta hljómbilið, jafnvel þótt ekki sé nema Dolby-B möguleiki en ekki Dolby-C, enda ekki komið fram á þann tíma.

 

Með því að skipta um stilliviðnám má gjarnan fá enn betri hljóm í þessi hljómtæki, lóða gömul í burtu og breyta tíðnibilinu eitthvað.

 

Magnararnir í þessum Crown stæðum og hljómtækjum eru næstum ódauðlegir, gríðarlega endingargóðir magnarar og rafeindahlutir. Stilliviðnám vilja þó oft bila í þeim, og þar er hreinsivökvi nauðsynlegur.

 

Það sem þó langoftast bilar í svona hljómtækjum eru hreyfihlutir, allskonar takkar, hreyflar, gúmmíreimar, gúmmíhjól, legur, plasthlutir ýmiskonar og svo framvegis.

 

Þessi stæða var með bilaðan plötuspilara og gat ég ekki gert við hann, eða nennti því ekki. Gúmmíhjólið sem snerti mótorinn fyrir plötuspilarann var orðið glerhart, og vissulega eru nokkrar lausnir á þvílíku vandamáli og því hefði vel verið hægt að koma þessum plötuspilara í lag, en ég hafði ekki áhuga á því, þar sem hann var og er óvandaður, með of þungan arm sem fer ekki vel með plötur. Enda er það einn af munum þeim sem eru á SHC-5100 og SHC-5300 og dýrari einingum svona stæða.

 

Þegar maður hinsvegar lendir í þessu vandamáli og vill laga græjuna þá er margt til ráða.

 

A) Maður getur reynt að panta hlutinn frá útlöndum. Í þessu tilfellu er það mjög erfitt því hætt er að framleiða þetta, en gamlir lagerar gætu samt fundizt, eða svipaðir hlutir til sölu.

 

B) Maður getur mixað eitthvað saman, notað svipuð gúmmíhjól sem maður finnur. Það hef ég margoft gert þegar ég laga svona tæki. Enda hef ég geymt næstum alla smáhluti þegar ég hef rifið svona tæki, og hef sett í kassa og dollur, og þar geymi ég svona afganga úr gömlum tækjum sem hægt er að nota í viðgerðir.

 

Annars hafði ég mestan áhuga á segulbandstækinu, enda eru þau einna bezt af Crown tækjunum. Þetta hljómar mjög vel sem afspilunartæki. Skermunar er þó þörf, og slíkt er hægt að gera hafi maður þekkingu á því.

 

Tvö vandamál voru við segulbandstækið. Í fyrsta lagi flæktust snældur við upphaf þeirra eins og er gríðarlega algengt vandamál. Í annan stað stoppaði það ekki við enda snældanna.

 

Þetta eru gamalkunnug vandamál og hef ég margsinnis fengizt við þau.

 

Gúmmíhjólin sem snerta drifteinana hægra megin eru yfirleitt full af járneindum brúnum að lit, sem koma úr spólunum. Þar með missa þau grip sitt og böndin fara á flakk vegna þrýstingsins, sem yfirleitt er meiri en þörf er á, hægra megin.

 

Í fyrsta lagi minnkar maður þrýstinginn hægra megin á inngripshjólið með snuðinu, annað hvort með því að minnka gormana með töng eða með stillingum, eða öðrum aðferðum.

 

Í öðru lagi skiptir maður um gúmmíhjólið eða hreinsar það með spritti.

 

Eftir það gengur bandið snurðulaust og gefur rétta útkomu.

 

Annars er það venjubundið vandamál sem mætir manni við þessar Crown stæður, en það er truflun frá upptökuskiptinum í segulbandinu. Það er lagfært með hreinsiefni.

 

Í heildina litið eru þetta miklu betri tæki en talið var hér áður fyrr. Ef maður kann að laga þessar græjur hljóma þær mjög vel. Samt getur verið erfitt að finna varahluti, og því er oft nauðsynlegt að sætta sig við að nota þessar græjur þótt þær séu ekki í fullkomnu lagi. Fyrir minn smekk eru Crown tækin einna bezt hljómandi. Það er oft vegna þess hvernig lágtíðni og hátíðni er lyft í tónjöfnuninni oft, annaðhvort í upptöku eða afspilun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 30
  • Sl. sólarhring: 96
  • Sl. viku: 604
  • Frá upphafi: 107262

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 461
  • Gestir í dag: 14
  • IP-tölur í dag: 14

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband