Bloggfærslur mánaðarins, september 2021

Sigmundar-Davíðs-Drakúla-filterinn er kosningasvindlið stóra að þessu sinni.

Löggjöfin er langt á eftir tækninni, í sambandi við áróðursherferðir og níðsherferðir, ófrægingaráróður og kosningasvindl. Ein mynd segir meira en þúsund orð segir máltækið. Ein hreyfimynd segir því meira en milljón orð, eitt app sem sagt, eða einn filter, svo notað sé nútímatæknimál.

 

Sjá DV frétt þann 6. september 2021: "Sigmundar-Davíðs-filter vekur óhug netverja" "Vá hvað þetta er krípí". Sjá einnig fyrsta þátt haustsins af seríu Gísla Marteins á RÚV: "Vikan með Gísla Marteini".

 

Í DV-fréttinni er fólki bent á að það geti nálgazt þennan filter á Instagram.

 

Þessi filter er ekkert annað en heilaþvottur fyrir undirmeðvitundina þess efnis að Sigmundur Davíð sé einhver Drakúla. Þessi filter ber sennilega ábyrgð á fylgistapi Miðflokksins og fleiri hægriflokka, en það tap getur jafnvel verið gríðarlegt, bara út af þessum eina filter, því EIN MYND SEGIR MEIRA EN 1000 ORÐ!

 

Ef menn halda að þetta sé léttúðugt grín hjá mér að fjalla um þetta eða hjá þeim sem bjó til þennan filter, ekki er ég viss um að þessi Arnór Bogason sé ábyrgður fyrir honum þótt hann noti hann samkvæmt DV fréttinni og segi hann krípí, en hver svo sem bjó til filterinn ætti að gera sér grein fyrir hvaða áhrif slíkar myndbirtingar hafa og notkun á filterum í svona hápólitískum tilgangi, til að ófrægja Sigmund Davíð.

 

Nazistar seinni heimsstyrjaldarinnar eru oftast notaðir sem dæmi um hóp sem einna fyrstur notaði nútímatækni í framsetningu á áróðri og fjöldaáróðri gegn ákveðnum hópi manna, gyðingum, með hrikalegum afleiðingum.

 

Frægar eru myndir þeirra og veggspjöld af gyðingum, sem fégráðugum, svikulum og hættulegum mönnum, með sítt skegg og lævíslegt augnaráð. Þeir notuðu sama áróður og notaður er gegn Sigmundi Davíð, þeir skrímslavæddu ákveðinn hóp manna. Sigmundur Davíð er reyndar notaður sem eitt tákn fyrir stóran hóp, sem eru miðaldra karlrembusvín og feðraveldungar, en það kemur út á eitt, áróðurinn er jafn áhrifamikill og skaðlegur.

 

Þetta er alvarlegast í ljósi þess hver markhópurinn er, börn og unglingar, sem alizt hafa upp við sjónvarsgláp og tölvunotkun, og trúa því að teiknimyndir og tölvuleikir segi sannleikann á öðru borði en kjötheimar og veruleikinn venjulegi. Hið barnslega í sálinni trúir þessu, það er lúmskast, hættulegast. Þannig er versti áróðurinn settur fram, til dæmis með hraðmyndum, örmyndum sem virka á undirmeðvitundina en ekki hinn vakandi huga svo mikið. Þá eru klippiskeið sýnd stutt, eða sama myndin endurtekin margsinnis svo hratt og oft að maður tekur ekki eftir henni í raun, en fær hana á tilfinninguna og boðskapinn sem hún flytur, sem er túlkaður í táknum eða fordómafullum boðskap. Það er klisja sem búið er að hamra á í menningunni áður.

 

Það er auðvelt að ná sambandi við undirmeðvitund þessara barna og þessara ungmenna með svona myndrænum hætti, og síðan smitast ranghugmyndir þeirra á örskotsstundu yfir á fullorðna, sem fara að trúa þessu líka.

 

Nú er það umtalað að þessi kosningabarátta sé óvenju friðsamleg, og menn eru fegnir að skítkastið sé búið og liðin tíð. Er það svo gott? Hvað skyldi það merkja?

 

Þar sem búið er að henda mörgu út úr pólitíkinni sem áður var talið áhugavert og gilt, eins og þjóðerniskennd, ættjarðarást og trúmál, og varla er neitt talið gjaldgengt nema vinstri og hægri átökin og því eru kosningabaráttur jafnan eins og landsleikir í fótbolta núorðið.

 

Nema þessi fótboltaleikur er mjög undarlegur. Hægra liðið er lamað vegna skamma sem á því hafa dunið utan vallar. Leikmennirnir eru feimnir og bældir og þora ekki að sýna hörku eða láta sína beztu leikmenn spila af kappi. Vinstra liðið er aftur í essinu sínu og skorar hvert markið á fætur öðru. Þannig eru þessar kosningar. Búið er að múlbinda annað liðið af skömm og sektarkennd, sama lið og metoomenningin leggur í einelti.

 

Lögfræðingar, fjölmiðlafræðingar, ímyndarráðgjafar, almannatenglar, táknfræðingar og aðrir rýnendur ættu að skoða þessi mál til að athuga hvort ég sé ekki að benda hér á virkilegan halla í óbeinum auglýsingum og innrætingu fyrir þessar kosningar.

 

Að vísu gaf Sigmundur Davíð höggstað á sér af flónsku og kjánaskap með því að vera ekki í samræmi við veganisma stórs hluta fólks. Sé hann beittur órétti viljandi og jafnvel félagslegu ofbeldi þannig að pólitík hans sem á erindi við fólk beri skaða af þarf að stöðva slíkt og hindra að gerist aftur fyrir næstu kosningar.

 

Ég hef íhugað að kjósa Miðflokkinn en ekki gert. Framsókn ætti að heita Aftursókn, því eðli þess flokks er að elta og hörfa, laga sig að umhverfinu og aðstæðum, aldrei að leiða eða sýna kjark nema í miðjumennsku og miðjumoði. Ég hef verið nær því að kjósa Miðflokkinn, enda Sigmundur Davíð mjög merkilegur pólitíkus og öflugur, en mistækur að vísu.

 

Ef Sigmundur Davíð og Miðflokkurinn fær ekki nema 4% atkvæða (samkvæmt þeirri skoðanakönnun sem sýndi þeirra versta fylgi) og hægt er að tengja það nýtízkulegum níðsáróðursaðferðum af þessu tagi hníga sterk rök í þá átt að úrslit kosninganna séu ógild, að þau hefðu verið allt öðru vísi hefði þessum svínslegu aðferðum ekki verið beitt gegn hægriöflunum í landinu.

 

Já, einn lítill filter getur komið af stað skriðu. Þetta er svosem bara tilgáta um hvað valdi fylgishruni Miðflokksins - og er þá miðað við könnunina þar sem hann mælist aðeins með 4.5 prósenta fylgi eða svo.

 

Þegar hægriflokkar eins og ég tel Miðflokkinn vera missa fylgi verða þeir að finna skýringarnar með nýtízkulegum aðferðum. Tölvur og snjallsímar, filterar, öpp og slík fyrirbæri eru mjög áberandi í lífi allra undir tvítugu, jafnvel þrítugu eða eldri.

 

Kosningabaráttur nútímans fara ekki mikið fram með ræðum heldur frekar myndskeiðum, og meira í símum og snjalltækjum en sjónvörpum eða í dagblöðum. Þar skipta örsmá atriði máli eins og filterar og öpp sem ná gríðarlegri útbreiðslu, ná til margra á örskömmum tíma, eins og veira sem smitar þúsund manns eða milljón manns á nokkrum dögum. Þannig virka filterar og öpp.

 

Auk þess virka þessi myndskeið á frumstæðan hluta heilastarfseminnar, en ekki á vitsmunalífið, og virkar því niður aldursstigan alveg á börn enn frekar en fullorðna, þar sem myndmál er alþjóðlegt og fleirum skiljanlegt en ræður og rökstuðningur.

 

Stór hluti þeirra sem sjá Sigmund Davíð í Drakúlagervi rétt eftir að hafa séð hann neyta hrás kjöts úti á víðavangi, og íslenzks, þjóðlegs kjöts í ofanálag fá mjög skýr skilaboð og túlka þau eftir fyrirframgefnum stöðlum og innrætingu. Túlkunin er á þessa leið: Þarna er á ferðinni einstaklingur sem er dæmi um úrelta heimsmynd, og stendur fyrir allt sem nútímabarnið á að berjast gegn: Þjóðrembu, feðraveldi, íhaldssemi, ætternisstolt, karlrembu, blóðþorsta og grimmd, frumstæðan hellisbúahugsanahátt og kvenhatur.

 

Þessi skilaboð eru auðvitað ekki rétt heldur dæmi um fordóma sem er búið að innræta kynslóðum trekk í trekk með vinstrisinnuðum boðskap í fjölmiðlum, bíómyndum, bókum, menningunni, stjórnmálunum... og þannig mætti lengi halda áfram. Þetta er sama innræting og fór fram gegn gyðingum alveg frá því að þeim var kennt um að hafa krossfest Krist og þar til eftir seinni heimsstyrjöldina þegar loksins þessi mikla samúðarbylgja með þeim reis, sem stendur yfir enn.

 

Ég held að upp undir 80-90% allra þeirra sem nota Instagram-filterinn "Sigmundar-Davíðs-kjötáts-Drakúla-skrímslið" fái þessa neikvæðu mynd af honum uppí hugann.

 

Sá sem bjó til filterinn gerði það mjög snilldarlega, þar sem líkindin við Drakúla eru aðeins á jaðrinum, augnaráð og tennur gerðar áberandi, andlitssvipurinn látin halda sér, en með gleiðkjaftaáherzlunni og glottáferðinni er vitnað í Drakúla eða blóðsugukvikmyndir almennt og aðrar hryllingsmyndir sem fjalla um mannát eða grimmd, og þá beint verið að vísa í nýskeða atburði, þegar Sigmundur Davíð gæðir sér á hráu kjötfarsi. Hér er því verið að skapa mjög svo neikvæð hugrenningatengsl hjá fólki sem notar filterinn og þetta er allt gert í hápólitískum tilgangi, til að ná sér niðri á Sigmundi Davíð og þeirri pólitík sem hann stendur fyrir. Áhrifin smitast jafnvel til Sjálfstæðisflokksins og allra hægriflokka sem deila einhverjum einkennum og áherzlum Miðflokksins og Sigmundar Davíðs.

 

Lesendum er nauðsynlegt að skilja hvernig áróðursstríð eru háð og unnin í nútímanum. Hér er um að ræða mjög velheppnaða níðherferð sem Sigmundur Davíð eiginlega setti af stað sjálfur með myndskeiðinu af hráa kjötinu, ef ég hef skilið það rétt að sjálfur hafi hann póstað því. Hann á því samúð mína alla eftir þessa mjög svo óheppilegu atburðarás, sem ætti að grafast fyrir um, og komast að hver ber ábyrgð á í smáatriðum. Hver bjó til filterinn, og svo framvegis. Allavega var hægt að sækja hann á heimasíðu Miðflokksins samkvæmt DV.

 

Ef filterinn var gerður af einhverjum í Miðflokknum í auglýsingaskyni þarf að skoða hann í samhengi við lækkandi gengi flokksins, hvort þessi tilgáta er rétt sem hér er sett fram.


Ekki er ólíklegt að ESB flokkarnir fái góða kosningu

Ég skipti býsna oft um skoðun hvað ég vil kjósa. Flokkarnir eru nefnilega næstum allir eins í grunninn. Þess vegna var ég ánægður að fatta að hægt er að kjósa margsinnis í Smáralind í utankjörstaðaklefanum.

 

Fyrst kaus ég Frelsisflokkinn. Samt ákvað ég að ef hann byði ekki fram að þessu sinni yrði ég að kjósa aftur. Það gerði ég. Síðan er liðin um það bil vika. Þá kaus ég aftur í Smáralindinni Lýðræðislega frelsisflokkinn, en ákvað með sjálfum mér að það atkvæði skyldi ekki standa óhaggað nema hann væri kominn með yfir 5% fylgi viku fyrir kjördag. Sem er ekki, þannig að nú er ég að ákveða hvað ég kýs í þriðja og sennilega síðasta skipti í þessum kosningum.

 

Sá tími er liðinn að ég lifi fyrir hugsjónir einar saman og vilji kasta atkvæði mínu á flokka sem ekki munu hafa áhrif. Það að kjósa er eins og að gefa sjálfum sér og öðrum yfirlýsingu um það hvernig maður vilji reyna að breyta stjórnmálaskoðunum sínum næstu fjögur árin, því atkvæðið gildir í fjögur ár, til næstu kosninga.

 

Eitt atkvæði dugar ekki til að koma flokki á þing, sama hversu mikið maður er sammála stefnu hans. Einungis þegar maður finnur að maður tilheyrir fjöldahreyfingu vill maður kjósa þann flokk. Maður breytir ekki heiminum með einu atkvæði, það er frekar eins og að segja við sjálfan sig að einhver flokkur eigi skilið stuðning manns að kjósa hann.

 

Það er gott að fjallað var um það í Silfrinu í dag að jafnvel Samfylking og Sjálfstæðisflokkur séu orðnir svo líkir að kjósendur þeirra blandist saman. Þá finn ég að margir eru eins og ég, allir flokkarnir í framboði koma til greina, enda svipaðir kostir allir.

 

Hugsjónalega er freistandi að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Mér finnst hann bara vera sökkvandi skip. Þetta væri öðruvísi ef hinir hægriflokkarnir væru á blússandi uppleið, Frelsisflokkurinn, Íslenzka þjóðfylkingin, Flokkur fólksins, Miðflokkurinn, Lýðræðislegi frelsisflokkurinn og Viðreisn.

 

Nei, það er vinstrisveifla í gangi núna. Hvað finnst mér spennandi við að kjósa Samfylkinguna eða Pírata?

 

Píratar finnst mér ferskir. Ég held að hægriáherzlur gætu birzt þar aftur, í þeim flokki, með nýju fólki.

 

Samfylkingin er flokkur þeirra listamanna sem gaf mér tækifæri til að spila á tónleikum margsinnis. Ég er þakklátur fyrir það í eðli mínu. Samfylkingin er menningarflokkur og ég elska menninguna. Við erum hvort sem er komin með annan fótinn í ESB þar sem við erum í Schengen og EES, þannig að af hverju ekki að láta á það reyna?

Það eru vissulega ýmis mál hjá vinstriflokkunum sem ég er andvígur, en ég hef alltaf reynt að þroska sjálfan mig með því að reyna að skipta um skoðun, ef mér finnst skoðanir mínar frekar byggjast á tilfinningum en rökvísi og ef þær skoðanir eru ekki vinsælar nema af fámennum hópi. Það er auðvitað erfitt, en sumir vilja frekar reyna að breyta sér en að halda alltaf í sömu skoðanirnar. Auðvitað er erfitt að skipta um skoðun, en hafi maður áhuga er eina leiðin að reyna að breyta sér.

 

Sannleikurinn skiptir hvorki máli né hvernig hann er settur fram.

 

Ég er ánægður með að þótt ég hafi kosið marga flokka hef ég aldrei kosið Miðflokkinn eða Framsóknarflokkinn. Báðir eru gamaldags og úreltir.

 

Í nútímanum virðist það kostur að vera skammsýnn eiginhagsmunaseggur, að hugsa um eigin hag fyrst og fremst og elta tízkuna. Þá er bara að losa sig við úreltar hugmyndir um hvað dyggðir eru.

 

Ég er ánægður með að ég kaus Vinstri græna síðast og Samfylkinguna 2009.

 

Af hverju ekki að ganga í Evrópusambandið og lúta sterku valdi? Við erum smáþjóð og þurfum sterkt vald til að verja okkur. Hér er hvorki vit né samstilling til að viðhalda sjálfstæðinu. Rétt er það hjá jafnaðarmönnum að Skandinavía er eitt mesta friðarsvæði heimsins, fyrir utan Svíþjóð. Þýzkaland er að mörgu leyti síður hrjáð af vandamálum en stórveldi á borð við Bandaríkin.

 

Ég hef enga trú á því að Evrópusambandið fari að deila við Bandaríkin, þrátt fyrir hnökra á milli Frakklands og Ameríku núna.

 

Á maður ekki að trúa að Evrópusambandið sökkvi aldrei, þótt Titanic hafi gert það?

 

Það er ekki traustvekjandi að fylgjast með íslenzkri pólitík eða RÚV. Þá er þó skárra að lúta Angelu Merkel og hennar arftökum.

 

Þræll sem þekkir sinn húsbónda er að mörgu leyti hamingjusamari en sá þræll sem blekkir sig og telur sig frjálsan þótt svo sé alls ekki.

 

Það er því freistandi að kjósa Samfylkinguna.


Hver kýs að missa vinnuna út af fjórðu iðnbyltingunni eða þjarkavæðingunni?

Hversu oft er okkur sagt að við fáum engu ráðið um breytingar eða byltingar sem koma að utan og hversu mikið af því er kjaftæði? Nú eru margir á fullum launum við það að mæra fjórðu iðnbyltinguna og þjarkavæðinguna, en það er full ástæða til að gjalda varhug við þeim breytingum.

 

Bankarnir, þessi ofsagróðafyrirtæki hafa fækkað útibúum og sjálfvirknivætt sem mest í þeim fáu útibúum sem eftir eru.

 

Eitt sinn var sagt að vinnan göfgaði manninn. Það hlýtur að eiga við ennþá.

 

Í hvað á fólk að eyða tímanum? Tala í snjallsíma? Fara á námskeið til að læra það sem áður kom af sjálfu sér? Skapa sér líf í tölvuleikjum og sýndarveruleikum, ef samskipti í kjötheimum rýrna og visna svo slíkt gleymist og týnist niður?

 

Þegar fólk missir færni sína í mannlegum samskiptum vegna fjórðu iðbyltingarinnar eru hinar svonefndu framfarir dýru verði keyptar. Hvaða framtíð er verið að bjóða upprennandi kynslóðum uppá?

 

Sannleikurinn er sá að elítan, eina prósentið sem á heiminn, kemur af stað kreppunum, sem stóð fyrir "Ráninu mikla", sem Inga Sæland kallar hrunið 2008, og stendur sennilega líka á bak við fjórðu iðnbyltinguna og þjarkavæðinguna.

 

Hrokinn fyllir ofdekurskynslóðirnar. Hjá stelpunum brýzt það út í einangrunarstefnu og vanttrausti í garð karla og stráka og fleiri kærum vegna metoomála en hjá strákum brýzt það út sem ofbeldishegðun eins og ýmsar fréttir vikunnar fjalla um.

 

Það sem við þurfum er gott, gamaldags uppeldi og virðingu, auðmýkt þó ekki sízt.

 

Það er sagt að þetta eigi að minnka mengun, en hún hefur aukizt þegar á heildina er litið frá þeim árum sem vinstriflokkarnir og jafnaðarflokkarnir á heimsvísu byrjuðu áróður sinn gegn útblæstri og mengun. Hvernig er þá hægt að trúa þeim flokkum og pólitíkusum?

 

Yfirklór, sýndarmennska vinstriflokkanna, jafnaðarflokkanna, blekkingaleikur.

 

Óskar Jörgen segir gagnrýnina á villigötum - hvað annað?

 

Við skulum ekki gleyma því að fyrir hrunið 2008 komu ráðgjafar og hámenntaðir fjármálasnillingar fram í röðum og sögðu þetta ekkert til að hafa áhyggjur af.

 

Hvað er að marka hámenntað fólk og fullyrðingar ef peningalegir hagsmunir eru í húfi að halda einhverju fram?

 

Til að ljúka pistlinum vil ég koma með uppbyggjandi ráð.

 

Betra er að gefa öryrkjum, ellilífeyrisþegum og sem flestum möguleika á að komast í vinnu en að búa til síldir í tunnu og ferkantað þjóðfélag.

 

Betra er að hlúa að mennsku og stuðla að henni en sjálfvirknivæðingu.

 

Ekki kemur á óvart að Reykjavíkurborg undir stjórn Dags B. Eggertssonar skuli leiða fjórðu iðnbyltinguna og þjarkavæðinguna. Vinstriflokkarnir og jafnaðarflokkarnir eru allir í því að leggja erlend sniðmát yfir íslenzkan veruleika í stað þess að þjóna hagsmunum sem eru fyrir hendi hér og nú.

 

Gaman væri að vita hvað Vigdís Hauksdóttir, eini borgarfulltrúinn sem notar heilbrigða skynsemi, hefur um þetta að segja og þann kostnað sem þetta hefur í för með sér.

 

Fram kemur í fréttinni að kostnaðurinn hleypur Á MILLJÖRÐUM, hvorki meira né minna!!!

 

Hvað segja nú andstæðingar Dags B. Eggertssonar?

 

Er ég nokkuð viss um það að þetta er hægt að gagnrýna.


mbl.is Sparar borginni milljarða króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig er hægt að þýða orðið sketsaþættir? Skensþættir til dæmis.

Oft er fólk að velta því fyrir sér hvernig sé bezt að þýða orðið sketsaþættir. Ég hygg að hljóðlíkasta orðið og merkingarskyldasta sem er í notkun núorðið sé skens, sem er svipaðrar merkingar, og því rétt að tala um skensþætti. Skens þýðir grín eða háðsglósur.

 

Óþarfi er að nota orðið sketsaþættir þar sem við eigum mörg íslenzk orð yfir grín.

 

Orðið skets er sletta úr ensku, en scherzo þýðir á ensku gáskafullur kafli í sónötu eða synfóníu. Síðan hefur orðið færzt yfir í mál skemmtikrafta, nema hvað það kemur upphaflega úr ítölskunni, því mikla tónlistarmáli, sem þarf ekki að koma á óvart.

 

Orðið skerjála á íslenzku, í merkingunni gjálíf eða ofsakát stúlka hygg ég að sé af þessum sama orðstofni, skjerta á norsku, að grínast, skertana á forngermönsku, að hoppa gleðilega og skered á frumgermönsku, að dansa eða stökkva. Skirja á íslenzku, sem merkir kvíga, ung kýr eða óstýrlát stúlka er að mati Ásgeirs Blöndals komið af sceron, fornháþýzka, að vera kátur, eða miðlágþýzku, scheren, fara, hlaupa, skunda, eða grísku, skaíró, hoppa, stökkva, dansa. Um er að ræða mörg skyld orð í nágrannamálunum.

 

Orðið skjarr, fælinn, styggur, er einnig skylt orð. Skérs eða skjers væri því ágætt íslenzkt orð eða nýyrði af þessum stofni, sama og orðin í nágrannamálunum.

 

Skens er svo aftur af öðrum stofni, komið úr dönsku, skænds.

 

Þeir sem eru andvígir dönskuslettum gætu því frekar kosið nýyrðið skérs eða skjers, sem væri þá svipað ævagömlu forngermönsku orði, sem kannski var til í íslenzku í einhverri mynd, en hefur ekki varðveizt þó í rituðum heimildum.


RÚV ætti að leggja niður eða endurreisa til upprunahorfs

Það er vitað mál að þjóðskáldið Matthías Jochumsson var ekki venjulegur prestur eða skáld, heldur hafði hann einnig áhuga á guðspeki, en guðspeki er ekki það sama og guðfræði, heldur tengist hún dulspeki, Helena Blavatsky er til dæmis höfundur frægra dulspekirita.

 

Ég tel að Matthías hafi ort Lofsöng undir slíkum áhrifum.

 

Í kvæðinu er orðið "forlagahjól", sem nær langt út fyrir kristnina að merkingarþunga og merkingarbærni. Mjöllnir Ásatrúarinnar er þetta forlagahjól, og í Búddatrúnni er talað um hjól endurfæðingarinnar. Eitt svona orð lyftir kvæðinu og vísar út fyrir ýmis mörk.

 

Orðið "duft" er einnig stórkostleg í þessu sambandi, því það minnir okkur á að við erum duft og rísum af jarðefnunum.

 

Sögnin að kvaka er vissulega ekki mikið notuð í skáldskap nú til dags enda orðið helzt notað um fugla núorðið. Engu að síður finnst mér þetta mjög rétt orðanotkun, hún bendir á dýrslegt eðli mannsins og syndsamlegt, til dæmis. Með þessu eina orði er verið að feykja burt þeirri villu nútímafólks að það sé sjálft máttugra en nokkur guð.

 

Andstæðan við orðið "guðsríkisbraut" í ljóðinu (sem ég hef viljandi í einu orði) er "helstefnubraut", þessi braut sem þekkt er úr okkar samtíma.

 

Auðmýktin er þekkt úr trúarbrögðum mannkynsins sem grunnstef. Þegar Matthías ákallar guð á þennan hátt finnst mér það færast út yfir mörk kristninnar. Vissulega er kvæðið byggt á Biblíunni, en hægt er að nota Biblíuna sem efnivið fyrir verk sem hafa víðari tilvísun. Biblían spratt líka úr jarðvegi fjölgyðistrúarbragða.

 

Er orðið "hertogi" úrelt sem kemur fram í ljóðinu?

 

Hugmyndin um guð sem hertoga eða herforingja nær langt aftur fyrir Krists burð, hún er ævaforn. Jafnvel trúin á stokka og steina gengur út frá því að þar séu vættir og dulmögn sem hafi yfirnáttúrulega krafta.

 

Nei, þjóðsöngurinn er ekki jafnaðarkveðskapur. En ef þjóðfélagið á allt að lúta þessari jöfnunarstefnu, hvar verða þá kennileitin og hápunktarnir? Rétt eins og styttum er fargað í útlöndum, á þá að setja okkar menningu í geymslu ef hún passar ekki við kröfur nútímans?

 

Mér líkar einnig mjög vel við þérunina í Lofsöngnum, orðmyndin vér er notuð, sem er upprunalegri fleirtala. Við átti við um tvo einstaklinga en vér þrjá og fleiri.

 

Er það of mikið sagt að maður telji að RÚV ætti að leggja niður í núverandi mynd? Bragi Valdimar gerir lítið úr þjóðsöngnum og Gísli Marteinn er eins og hann er, hann reynir að vera ungur í anda og fyllir þáttinn sinn þesskonar efni, unglingaefni, en spurning hvort ekki séu fleiri aldurshópar sem vilji fá eitthvað við sitt hæfi.

 

Menningin í sjónvarpinu íslenzka verður að eiga sinn stað, og ríkisstyrkt sjónvarpsstöð eins og RÚV sem einnig fær auglýsingatekjur er eina sjónvarpsstöðin sem ætti að sinna menningarhlutverki, en ekki afþreyingarhlutverki eingöngu.

 

Það er eins og ekkert eftirlit sé með RÚV. Þar vinnur fólk sína þætti í egóflippi og fer yfir þá línu að eltast við unglingatízkuna frekar en að sinna rótgróinni menningu, gamaldags og viðurkenndri.

 

Þessi gagnrýni á RÚV er ekki nöldur í fólki eingöngu sem sett er utangarðs sökum aldurs eða annars. Það segir sig sjálft að ríkissjónvarp á að sinna menningu, jafnvel eingöngu en ekki afþreyingu.

 

Þátturinn Orðbragð byrjaði sem menningarþáttur. Kemur það á óvart að nú á líka að gera hann að unglingaþætti? Er ekki nóg að Gísli Marteinn sinni því hlutverki?

 

Væri nokkuð að því að þérun yrði aftur tekin upp í RÚV, til að kenna fólki virðulegar hefðir frá fyrri tíð? Kiljan er ennþá ágætis bókmenntaþáttur, en eftir að Jón Ólafsson hætti með "Af fingrum fram" vantar vandaða tónlistarþætti þar sem lifandi tónlist er flutt í miklum mæli, og helzt frá tónlistarmönnum sem lítið eða ekkert komast í sviðsljósið.

 

Menntamálaráðherra ber ábyrgð á RÚV. Starfandi menntamálaráðherra ætti að sýna RÚV aðhald. RÚV ætti ekki að vera stöð til að græða peninga, heldur hjálpa menningunni sem er deyjandi á Íslandi.

 

Þessu tengt. Ég heyrði afgreiðslumenn í búð tala saman, og annar sagði" Tölvan frostnaði", og "ríbútta".

 

Um 1990 var farið í málræktarátak. Það er miklu meiri þörf á því núna en þá. Leyfum frjálsum sjónvarpsstöðvum að sinna afþreyingu. Menntun, menning, listir, saga, þjóðrækni, þetta ætti að vera einkenni RÚV, eins og RÚV byrjaði, frá 1966 og fram að hruninu 2008, eða erfitt er að setja þessi síðari mörk.

 

Ekki hef ég trú á sósíalisma þótt Gunnar Smári sé með slíkan flokk, en ég er sammála honum um skaðsemi nýfrjálshyggjunnar, hnignun RÚV er hluti af því.

 

Svo vil ég endilega fá þulurnar aftur.

 

Reyndar er það mjög gott hjá Gísla Marteini að enda sína þætti með tónlistaratriðum, ekki skal neita því.

 

Ég sakna sjónvarpsins eins og það var áður. Fræðandi þættir um allt mögulegt þar sem farið er djúpt í umfjöllunarefnin, eins og þættir frá BBC, slíkt væri velkomið, nema að þeirri fyrirmynd um okkar veruleika og líka erlend viðfangsefni.


Áhyggjur vakna af því að fólk sé alvarlega veikt af kófinu þótt farsóttin sé sögð á niðurleið

Stutt en áhugaverð frétt. Tveir menn á gjörgæzlu út af Covid-19 en Landspítalinn veitir ekki upplýsingar um hvort þeir hafi verið bólusettir. Grunur vaknar um að þeir séu bólusettir, úr því að upplýsingar eru ekki veittar um það. 

 

Ef þessir menn voru ekki bólusettir er það í samræmi við fullyrðingar um að bóluefnin dragi úr einkennum. Ef þeir hinsvegar voru bólusettir vekur það upp margar og stórar spurningar.

 

Bezt er að bíða með frekari vangaveltur þar til upplýsingar um þetta verða skýrari. Þetta skiptir miklu máli. Duga bóluefnin eða ekki?


mbl.is Tveir á gjörgæslu með veiruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannfæring forsætisráðherra og Halldóru í Pírötum

VG virðist hin nýja breiðfylking vinstrimanna og jafnaðarmanna. Hinn nýi Framsóknarflokkur, opinn bæði til hægri og vinstri, Vinstri grænir, að margra mati. Ekki fannst mér Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra koma sannfærandi út úr "Forystusætinu" á RÚV í vikunni. Það er eins og allur sannfæringarkraftur sé úr henni farinn. Hún minnti á kapítalista sem er nýbúinn að sjá ljósið, en sem þylur gamla kommafrasa eins og rispuð plata, sem nauðsynlegir eru til að vekja tiltrú og trekkja að kjósendur, en sannfæring er varla fyrir lengur.

 

Halldóra Mogensen virkaði hins vegar sannfærandi og finnst mér hún vera vaxandi stjórnmálamaður. Auðvitað var hún með sína skrýtnu Píratapólitík sem virkar ekki sannfærandi nema á 10% þjóðarinnar eða svo, en hún virtist hafa lifandi áhuga á því sem hún var að tala um, öfugt við Katrínu forsætisráðherra, sem virðist býsna þreytt og ósannfærandi.

 

Ég hef mjög gaman af bloggaranum Jóhannesi Ragnarssyni, hann hefur góð tök á húmornum en einnig með því að gagnrýna VG með sannfærandi hætti. Hann hefur haldið því fram að VG ætti að ganga í Sjálfstæðisflokkinn.

 

Það er líf og fjör í vinstriarmi stjórnmálanna. Þar hreyfist fylgið til og frá, og safnast jafnvel eitthvað frá hægriflokkunum.

 

Guðlaugur Þór Þórðarsson frá Sjálfstæðisflokki atti kappi við Gunnar Smára sósíalista á Hringbraut hjá Páli Magnússyni, og fannst mér það í fyrsta skipti sem hinn flugmælski og orðhvati maður Gunnar Smári varð kjaftstopp og þögull í kappræðum, og má Guðlaugur Þór teljast góður ræðumaður fyrir vikið. Eða eins og hann sagði, þetta taldi hann eins og að rifja upp ræðukeppnir frá skólaárunum.

 

En hvernig er hægt að trúa Pírötum þegar þeir segjast ekki vera vinstrimenn? Er það ekki bara enn eitt trixið hjá jafnaðarmönnum og vinstrimönnum að segja hugtökin hægri og vinstri úrelt og vilja ekki kannast við að vera kommúnisti eða jafnaðarmaður?

 

Alla vega, hvað sem öðru líður má búast við góðum kosningum fyrir vinstrimenn. Hins vegar er annað merkilegt. Miðað við að Framsókn fær oft meira í kosningum en skoðanakönnunum gætu þeir unnið stórsigur og fengið allt að 20% atkvæða. Þá myndi Sigurður Ingi verða hylltur sem nýjasta Framsóknarhetjan, eins og Sigmundur Davíð vann slíkan sigur fyrr á þessari öld.


Er nema von að Frakkar mótmæli?

Greinilegt er að orðið mannréttindi þýðir ekki alls staðar það sama. Þúsundum heilbrigðisstarfsmanna sagt upp í Frakklandi sem ekki hafa að minnsta kosti þegið einn bóluefnaskammt. Á sama tíma eru gríðarleg mótmæli útaf bólusetningum í Frakklandi og víðar, en mótmælin gegn þessum þvingunaraðgerum þarlendra stjórnvalda eru ekki síður hávær og mikil.

 

Það er enn ekki búið að sýna fram á að þessi bóluefni virki í öllum tilfellum svo þetta er meira en lítið skrýtið. Tekur Macron Frakklandsforseti við skipunum frá lyfjarisunum, eða hefur hann þessa ofurtrú á bóluefnum sem hafa ekki sýnt fulla virkni ennþá?

 

Þessar ofbeldisaðgerðir æðstu stjórnenda ýta undir grun um misferli og undirróðursstarfsemi hagsmunaaðila, þær minnka ekki bilið á milli andstæðinga bólusetninga og hinna sem reyna að vera eins og fjöldinn.

 

Mannréttindaspekingar í RÚV og víða ættu að taka það með í sína umræðu að ógnir gegn lýðræði og mannréttindum koma einnig frá Evrópusambandinu og háttsettum aðilum innan lyfjageirans, og allskonar alþjóðastofnana, ekki aðeins frá skilgreindum einræðisríkjum eins og Norður Kóreu, eða Kína, sem fer á milli skilgreininga, en er umdeilt, og Rússland, sem er gagnrýnt af sumum en ekki öllum.


mbl.is Óbólusettum heilbrigðisstarfsmönnum sagt upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningabarátta Miðflokksins og þeirra hremmingar

Miðflokkurinn byggðist upprunalega á gríðarlegum persónutöfrum Sigmundar Davíðs. Í seinni tíð hefur verið reynt að fjölga stoðunum undir flokknum, og meðal annars með nýjum andlitum.

Það er alltaf mjög mikið hættuspil að leggja áherzlu á ný andlit þegar einn formaður hefur verið mest áberandi. Þau reyna að breyta flokknum stuttu fyrir kosningar en hafa verið hálfsofandi allt kjörtímabilið, og ekki stundað mjög áberandi stjórnarandstöðu, fyrir utan málþófið gegn 3. orkupakkanum sem vel átti rétt á sér og ýmislegt annað.

Það eru fáein atriði sem ég tel hafa verið að valda fylgistapi hjá Miðflokknum.

 

1) Það að Sigmundur varð frægur fyrir að snæða hrátt hakk.

2) Það að Miðflokkurinn hefur verið lítið í sviðsljósinu síðasta árið.

3) Umdeildar breytingar á listum sem auka ekki fylgi í markhópnum og laða ekki endilega að nýja kjósendur, Þorsteinn Sæmundsson og fleiri rótgrónir Miðflokksmenn eiga sína fylgjendur og þeim líkaði ekki þessar breytingar.

4) Metoomálin hafa rifjað upp Klaustursmálið og Miðflokkurinn fer í skammarkrókinn í hugum margra sem "Miðfótsflokkurinn" eins og Jóhannes Ragnarsson orðaði þetta.

5) Sigmundur er fallinn úr landsföðurstöðunni sem hann var í sem forsætisráðherra og því færri sem trúa því að þeir græði á að kjósa hann, eða að hann standi við loforðin.

6) Ekki mikill munur á Miðflokki, Flokki fólksins og Lýðræðislega frelsisflokknum. Þegar Sigmundur hefur híft upp fylgið fyrir kosningar áður hefur það verið vegna áberandi sérstöðu fram yfir aðra flokka sem er minna áberandi núna.

 

Veganismi er svo miklu meira en bara veganismi eða lífsstíll sem ekki tengist öðru. Veganismi er nátengdur femínisma, umhverfisvernd, vinstristefnu og öllu því dæmi, sem Miðflokkurinn stendur einna lengst frá.

 

Þegar Sigmundur sést gæða sér á íslenzku hakki úti í náttúrunni espar það marga sem telja hann einhverja þjóðrembu fyrir vikið. Góður ímyndarfræðingur hefði sennilega sagt honum að óþarfi væri að leggja áherzlu á þessa ímynd.

 

Veganismi, umhverfisvernd, femínismi, jafnrétti, mannréttindabarátta, þetta nær ekki bara til lítils hóps. Jafnvel þeir sem ekki eru grænkerar taka undir að slíkur lífsstíll sé betri fyrir náttúruna og heilsuna.

 

Fjóla Hrund sem felldi Þorstein Sæmundsson er að vinna sér inn álit og fylgi, og tekst það sennilega nokkuð vel, en vandinn er sá að kjósendur eru nokkurn tíma að kynnast henni, en sennilega trekkir hún inn nokkra nýja kjósendur.

 

Eitthvað af því fylgi sem farið hefur frá Miðflokknum ætti að hafna hjá Frjálslynda lýðræðisflokknum, þeir róa á sömu mið.

Hið mikla fylgistap Miðflokksins kom eftir breytingar á listunum hjá þeim og er hægt að rekja beint þangað. Flokkurinn var kominn með rótgróið fylgi sem fór frá honum að miklu leyti. Nú er nýtt fylgi að byggjast upp aftur, ekki endilega nákvæmlega sama fólkið.

 

Þegar allt þetta er tekið saman kemur í ljós sú dapurlega staðreynd að alltof margt fólk sveiflast eftir tíðarandanum, og veganisminn er hluti af því.

 

Augljóst er að vinstriöflin eru í stórsókn þessa dagana.


Innantóm loforð VG og Dags B. Eggertssonar í umhverfismálum - meiri losun en 2016

"Heimilin losa meira en árið 2016" er yfirskrift fréttarinnar. Þar með er sjálfhól Vinstri grænna í umhverfismálum loftið eitt. "22% meiri losun vegna aksturs heimilisbifreiða, hæsta gildi frá 2016" segir einnig í fréttinni.

Einnig er þessi frétt alger áfellisdómur yfir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra í Reykjavík. Hann sem stýrir fjölmennasta sveitarfélaginu og hefur sett umhverfisáherzlurnar á oddinn hefur ekki haft meiri áhrif en þetta. Merkilegt. Það hvernig hann og Reykjavíkurlistinn hafa reynt að útrýma einkabílnum hefur heldur ekki skilað heildarminnkun á losun.

 

Loforðaflaumurinn nú fyrir kosningar og eilífa masið um umhverfismál er því sýndarmennska, yfirborðsmennska. Raunveruleg mál eru ekki reifuð, en öllu lofað, flest svikið eins og venjulega eftir kosningar.

 

Það sem mig hefur grunað lengi kemur hér fram. Til að ná árangri í loftslagsmálum þarf miklu, miklu, miklu róttækari og grunntækari aðgerðir. Það þarf að hugsa þetta allt uppá nýtt, byrja frá grunni.


mbl.is Heimilin losa meira en árið 2016
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 40
  • Sl. sólarhring: 107
  • Sl. viku: 777
  • Frá upphafi: 127473

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 555
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 22

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband