Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2024

Trúarbrögð og eftirlögmál (þýðing á metafýsík).

Trúarbrögðin eru fyrir marga að minnsta kosti mannbætandi - svona til að byrja með - en síðan þegar betur er að gáð eru í þeim atriði sem hægt er að gagnrýna.

Það er ekki hægt að mæla með trúarlausum og guðlausum nútímanum endilega umfram annað. Sumt er nefnilega ágætt sem fylgir trúarbrögðunum, eins og ýmiskonar siðfræði sem hjálpar fólki.

Ég mæli með því að fólk kynni sér hugmyndir Guðjóns Hreinberg um trúarbrögð, þó sérstaklega Zíonisma, mjög góður pistill um hvað Zíonisti er nýlegur frá honum.

Hugtakið sem skiptir máli er "frumspekilegur skilningur" á trúarbrögðunum. Það þýðir, ekki bókstaflegur skilningur, ekki taka Biblíuna sem landaafsal eða sagnfræði, það getur leitt til stríða og haturs. Gildafræði, takmarkanafræði, (epistemology), heimsmyndunarfræði, (cosmology), tengslafræði, (ontology), þetta eru nokkur svið sem koma við sögu frumspekinnar.

Metaphysic mun komið úr grísku, "meta ta physika", sem þýðir eftir lögmálum náttúrunnar, ekki hrá túlkun, heldur heimspekileg. Mat á efninu, það er einnig útskýring sem nær grískunni.

Dr. Helgi Pjeturss hefur verið af sumum kallaður frumspekingur en af öðrum heimspekingur. Vegna þess að hann hugsaði grundvöll vísindanna uppá nýtt er kannski réttara að kalla hann frumspeking, eða grundvallarheimspeking.

Hann hafði það sem yfirskrift fyrstu bókar sinnar:"Handan trúarbragðanna, og yfir þau hafin, ekki gegn þeim", og þetta skrifaði hann á grísku, því hann hafði mörg tungumál á valdi sínu, sá snillingur.

Vandamálin byrja oft þegar bókstafstrúin byrjar, deilan um keisarans skegg. Þó er það svo að nútíminn með sinn skort á nákvæmni og bókstafstrú er algjör afneitun á gildum trúarbragðanna, og það er varla rétt heldur. Þar með glatast gildin og upplausn fer að ríkja.

Fólk er hrætt við Elítuna. Þessvegna þorir margir ekki að efast um einu stefnuna. Það má vera að okkar þjóðfélag sé í skárri kantinum, en ég held samt fast við þá skilgreiningu mína að jafnaðarstefnan sem keyrð er áfram sé jafnaðarfasismi.

Nýlegar breytingar og byltingar í íslenzkri pólitík virðast viðurkenning á þessari túlkun minni, ég er að vitna í að flestir flokkar eru komnir nær Miðflokknum og Íslenzku þjóðfylkingunni en áður gerðist. Í því er fólgin viðurkenning á göllunum á hefðbundinni jafnaðarstefnu, þegar hún verður að jafnaðarfasisma.

Í orðinu jafnaðarfasismi felst það að notaðar eru aðferðir fasista Ítalíu á tímum Mússólínis (og Hitlers á Þýzkalandi, Stalíns í Sovétríkjunum og annarra) til að hefta tjáningu, skoðanir, holdafar og hegðun landsmanna, og heimsbyggðarinnar.

Þótt það sé fullt af góðu og vel menntuðu fólki á þessu landi er eins og spilltir einstaklingar komist alltaf til valda, og spillist sífellt meira eftir því sem lengra inní báknið er farið.

Gott þjóðfélag er þar sem fólk er ekki hrætt, þar sem fólk er kærleiksríkt. Ég vil bæta því við, þar sem líkamleg einkenni fá að blómstra, sem tilheyra kynþættinum, en eru ekki kæfð í fjölmenningu. Þetta og miklu fleira á ekki lengur við um vestræn samfélög, sem eru orðin samfélög óttans og kúgunarinnar æ meira, þótt sú kúgun sé misvel falin og lögleidd.

Mér finnst það kostur hjá sjálfum mér að ég reyni að hafa samúð og skilning með sjónarmiðum bæði til hægri og vinstri. Mér finnst það ekki hræsni, því ég tel að sannleikurinn, (eða sannleikur Guðs), sé handan slíkra takmarkana og skilgreininga.

Eftirlögmál er ágætt nýyrði yfir metafýsík, í stað frumspeki. Það orð nær upprunalegu grískunni eiginlega betur. Íslenzka nýyrðið mitt, eftirlögmál, það lýsir því að búa til skilning eftirá, að heimspekinga þurfi til þess.


Erfitt er að sjá á milli hvort klikkaðra sé meginstraumsfólk eða samsærisnördar - setningar sem hægt er að sýna fram á að eru rangar

"Það var ekkert kóvid því sóttvarnir virkuðu", er hluti af þeirri vitleysu sem Ómar Geirsson lætur frá sér fara á síðu Geirs Ágústssonar. Þar sakar hann þá um heimsku og klikkun sem eru ósammála sér ("þetta skilur allt heilbrigt fólk)", ("en forheimskan skilur það ekki)", en vel mætti kalla hann fullan af ranghugmyndum.

Er þessi setning rétt hjá honum: "Það var ekkert kóvid því sóttvarnir virkuðu?"

Fólki var haldið inni og á meðan svaf ónæmiskerfið, það voru ekki sóttvarnir heldur innilokun.

Hvað með umframdauðsföllin eftir sprautur og síendurteknar kóvítsýkingar? ("Það var ekkert kóvid því sóttvarnir virkuðu)"???

Alma landlæknir og fleiri töluðu um miklar kóvítbylgjur eftir sprautuherferðirnar!!!

Svo það sé á hreinu er þessi pistill ekkert sérstakt skot á hann. En þegar hann í svari sínu til Geirs auglýsir allskonar vitleysu sem hann skrifar er sjálfsagt að fjalla um það.

Frekar: Þessi pistill er skot á fólk sem hreykir sér af því að vera geðheilbrigðara en annað því það sé hluti af meginstraumnum.

Eru það rök fyrir því að maður sé betri en aðrir og ekki klikkaður að maður sé sammála fjöldanum?

Það þarf bara ekkert að fara saman. Það eru gamlir fordómar að halda að þeir sem viðra skrýtnar skoðanir sem eru ekki hluti af meginstraumnum, séu klikkaðir.

Hitt atriðið sem ég er gjörsamlega ósammála í svari hans til Geirs er í þessari setningu:"Sá faktur skýrir viðbrögð vesturvelda, allt sem gerðist áður er aukaatriði í því samhengi."

Hann vill nú kannski saka mig um að taka þetta úr samhengi, en samhengið var árás Rússa á Úkraínu.

Ég tel hinsvegar - og það er talið mikilvægt í dómsmálum - að það að kanna forsögu og málavöxtu skipti einmitt gríðarlega miklu máli.

Þeir sem skjóta fyrst og spyrja svo haga sér eins og hann. Líka þeir sem hengja án dóms og laga.

Ég vona að hann fyrirgefi mér harða gagnrýni á sig. Hann hefur tjáð sig um að hann vilji ekki lognmollu eða jámenn í kringum sig, og ég er líka meira fyrir hreinskilni en að tjá sig ekki.

Undir lokin í þessum pistli ætla ég að benda á það sem fréttin fjallar um sem ég tengi við.

Þessi frétt fyrir neðan er enn ein sönnunin fyrir því að fullyrðingar um "það var ekkert kóvid" eru alrangar. Hvort sem dauðsföllin voru út af sprautunum eða veirunni margstökkbreyttu og hennar afbrigðum, þá er það staðreynd að fleiri dóu út af "Covid-19" en báðum heimsstyrjöldunum til samans, það kom í fréttum um allan heim fyrir einum eða tveimur árum, og síðan hefur þeim dauðsföllum bara fjölgað, og langvarandi kóvid og allt það bæzt við, sem fréttin fjallar um hér fyrir neðan sem vitnað er í.

Sóttvarnirnar gerðu lítið sem ekkert, þær frestuðu bara sýkingum og gerðu þjóðfélögin fátækari. Ástæðan er sú að þetta var allt öðruvísi veira en til dæmis Spænska veikin, sem dó út þegar hýslarnir dóu.

Einn vinur minn á Fésbókinni sagði 2020 að "allir fengju kóvid fyrr eða síðar", þegar hann kom sýktur frá útlöndum - og það reyndist alveg rétt hjá honum. Covid-19 er umbreytt kvefveira sem auðvitað margsýkir heimsbyggðina aftur og aftur. Sóttvarnir voru gjörsamlega til einskis. Þær voru bara dýrar.

Covid-19 var ekki drepsótt, heldur skæð kvefpest og er enn, því hún sýkir fólk ennþá, og margir eru með langtíma-kóvid. Enda á veiran margt skylt við eyðniveiruna, sem er eitt af mörgu sem gerir það að verkum að líklegra er að hún sé samsett veira af mannavöldum en úr náttúrunnar ríki.

Ekki ætla ég að hafa þennan pistil lengri.

En það er sama hver það er, þegar einhver heldur fram:"þetta skilur allt heilbrigt fólk", en heldur samt fram einhverju sem augljóslega er rangt og hægt er að mótmæla eins og hér, þá þarf að mótmæla því.


mbl.is Lyf við langvarandi covid rannsakað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kúgaðu allar konur, umfjöllun um ljóð mitt og söngtexta frá 1996.

Eitt sinn skammaðist ég mín fyrir að hafa búið til svona "ljót" ljóð eða kvæði eða söngtexta og gefið út, en það geri ég ekki lengur. Ég er sérlega stoltur af öllu þessu sem er öðruvísi, eitthvað sem krafðist meira kjarks. Eitthvað sem Megas kenndi mér og Sverrir Stormsker.

Þegar ég var unglingur og barn leit ég stundum frekar jákvæðum augum á kvenréttindi og femínisma - en þó ekki alveg, því ljóðið "Misskilin mær" frá 1984 er einnig fullt af háði, en samúð í bland að vísu. Ég hafði einfaldlega ekki þroska eða reynslu. Síðan komu tímapunktar þegar ég fékk nóg. Í bland útaf persónulegri reynslu af stelpum og kvenfólki og þegar samskiptin ganga misvel. Einnig útaf ofstæki femínismans, alhæfingum sem fóru yfir strikið.

Þegar maður er alveg kominn uppí kok og að því kominn að æla útaf femínisma í fjölmiðlum, þá býr maður til svona ljóð, eins og "Kúgaðu allar konur". Þegar alhæfingar og sannfæring fer saman um einhverja svona þvælu fær maður nóg.

Þegar ég gaf út jafnréttishljómdiskana mína frá 2001 til 2003, "Jafnréttið er eina svarið", 2001, "Við viljum jafnrétti", 2002, og "Jafnréttið er framtíðin", 2003, þá voru þeir mjög margt í einu.

Þeir voru til dæmis með fyrirmynd, Stuðmannakvikmyndin "Með allt á hreinu", þar sem Grýlur og Stuðmenn börðust.

Ég gaf út svona lög eins og "Kúgaðu allar konur", þarna. Ég bætti við sérsaumuðum lögum fullum af hræsni og sýndarmennsku, a la tíðarandann. Ég trúi ekki á femínisma karlmanna, og jafnvel ekki femínisma kvenna, en ég trúi 100% á hræsni og helgislepju, sýndarmennsku, gervimennsku, heimsku og allt þetta.

Titillag plötunnar "Við viljum jafnrétti" er gott dæmi um þetta.

Upphaflega gleðiríkur og háðskur blús sem var saminn 1997, snemma árs. Fyrirmyndin voru blúsar Megasar á "Í góðri trú" frá 1986 sem ég hafði hneykslazt á upphaflega, en skildi svo djókinn með tímanum, og skildi hann betur og betur, og skil hann enn betur og betur, Megas er alltaf ljósár á undan tímanum, ekki sízt þegar hann er mest misskilinn.

Fyrstu blúsarnir af þessu tagi voru frá 1996, og jafnvel enn fyrr. En í febrúar 1997 komu margir svona jafnréttisblúsar, jafnvel spunnir á staðnum fyrir framan hljóðnemann án þess að neitt væri samið fyrirfram, hvorki lög né textar. Þeir gátu orðið 50 erindi og 20 mínútur þeir lengstu.

Síðan breytti ég textunum og teygði þá út og suður til að ná áhrifum, sem ég leitaði að, en vissi ekki hvað ég vildi. Ég var farinn að skipuleggja þessar plötur, en vissi ekki hvað ég vildi samt með þeim.

Það endaði með því að ég skar niður þessa texta, og eftir stóðu aðeins örfáar setningar, sem voru hreinar og tærar klisjur, eins og "Við trúum á jafnréttið".

Þetta gerði ég vegna þess að klisjurnar í karlrembuáttina voru komnar í lögum eins og "Aldrei skaltu elska hana", "Allar konur elska ofbeldi", og fleiri slíkum. Ég vildi fá fullkomið mótvægi, til að sýna andstæður.

Ég var að glugga í bókina "Bylting Bítlanna" eftir nafna minn, Ingólf Margeirsson. Þar kemur fram að John Lennon beitti þessu stílbragði margsinnis, einsog í laginu "I Feel Fine", sem er blúslag í grunninn, en fjallar þó um gleði og hamingju. John Lennon skildi mikilvægi andstæðnanna.

Ég er auðvitað uppi á kolröngum tíma og kolröngu landi. List nútímans snýst um pólitík og sýndarmennsku. Sú lest er farin sem snérist um raunverulega list.

Ég bjó til lag árið 2022 sem hét "Rússar mega ráðast hingað inn". Pælingin var sú að við erum þegar hernumin af Bandaríkjunum, og Rússar skapa aðeins hlutleysi, eða annarskonar yfirgang.

Svona til að sýna að ég elska ennþá að vera uppreisnarunglingur þótt æskuárin séu löngu liðin.

Ég samdi þetta lag og nokkur fleiri einmitt af sömu ástæðu og "Kúgaðu allar konur".

Þegar 99% í kringum mann af fólki segir það sama, þá veit maður að það er rangt.

En þegar Pútín lét drepa Navalný fékk ég nóg.

Maður getur haft ógeð á femínisma Vesturlanda, en það gerir ekki ruglaða einræðisherra að englum. Það gerir þá ekki skárri.

Semsé, eftir því sem Pútín hegðar sér verr fær maður meira ógeð á honum. Og, Vesturlönd eru kannski ennþá skást, þrátt fyrir gallana.

Til að elska konur þarf einnig að tjá kvenhatur, finnst mér. Án þess ríkir fasismi.

Að hneyksla er leið til að minnka alvarleika og helgislepju.


Þetta eru myrkir, kolsvartir tímar í mannkynssögunni

Þegar einræðisherrar drepa pólitíska andstæðinga í eigin landi er farið að styttast í endalok ríkja þeirra. Þó má vera að Pútín verði talsvert lengur við völd, ekkert er útilokað í því efni. Þótt uppreisn verði gerð gegn honum er ekki sjálfkrafa víst að hún takist.

Síðan er hitt að ef honum verður steypt af stóli með byltingu innanlands og borgarastyrjöld, þarf ekki betra að taka við. Það er ekki hægt að firra Vesturlönd ábyrgðinni á því að hafa klúðrað sambandinu við Rússa á löngum tíma. Ekki er heldur hægt að segja að Vesturlönd séu í blússandi siglingu uppgangs og velmektar, öðru nær.

Sennilegast er að Úkraínustríðið dragist á langinn, því miður, með óþörfu mannfalli. Í RÚV er sýnt fram á mannslífin sem hafa tapazt í Úkraínu. Því er haldið fram að Pútín sé einn sekur. Þar er sýnt myndskeið af úkraínskum hermönnum sem segja að líf þeirra sé gjaldið fyrir frið í Evrópu???

Friður í Evrópu myndi ríkja ef Pútín hefði náð Úkraínu strax, það er 100% víst, því hann er ekki slíkur vitfirringur að ráðast á Evrópulönd og Natóríki, þótt örvæntingarfullur einræðisherra einsog hann sem hefur verið espaður með mótspyrnunni sé miklu líklegri til þess, hræddur um að missa eigin völd. Nató og Vesturlönd hafa gert mikil mistök með þessu stríði sem er á þeirra ábyrgð, framlenging á óþörfu stríði, eyðileggingu á landsvæði, stigmögnun á stríði sem eykur hættu á gereyðingarstríði, og hrikalegt mannfall í báðum herjum, til einskis.

Friður í Evrópu er EKKI tryggður með stríði í Úkraínu. Það er sjálfsblekking.

Þvert á móti er þar verið að tryggja STRÍÐ í Evrópu, og auka hættuna á heimsstyrjöld, OG það er búið að magna átökin á Gazasvæðinu, og Joe Biden er sekur um það og Stoltenberg og allir þessir brjáluðu og snarklikkuðu stríðshaukar og fjöldamorðingjar, sem Bob Dylan söng um í Masters of War, að væru ekki merkilegir pappírar.

Það hefur ALDREI verið ávísun á frið að ÆSA upp brjálaða einræðisherra. Rökin fyrir innlimun Úkraínu í Rússland eru sögulegs eðlis, en árás á Svíþjóð eða Natólönd, það er allt annað og langsótt mál, sem helzt er verið að æsa Rússa uppí núna, því heimsvaldastefnan er ekki síðri hjá Vesturlöndum.


mbl.is Segja Navalní hafa verið á leið í fangaskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bashar Murad: Sigurmöguleiki Íslendinga í JÚRÓVISJÓN í ár.

Bashar Murad komst áfram í gær í Söngvakeppni Sjónvarpsins. Eins og ég skrifaði um þegar ég frétti fyrst að hann myndi keppa býst ég við að hann sé sigurstranglegur, því keppnin er rammpólitísk. Það sem kom mér þó á óvart þegar ég hlustaði á lagið í gær var að mér skyldi líka það svona vel.

Alvarlegir tónlistarmenn og lagahöfundar komast ekki lengur áfram í forkeppninni hér á Íslandi. Magnús Eiríksson er og verður góður lagahöfundur og textahöfundur. Gleðibankinn sem sigraði 1986 er í raun ekki hans alvarlegasta lagasmíð, en samt er það lag ekki flatneskja og yfirborðslegt, það er perla. Sókrates eftir Stormsker er heldur ekki hans dýpsta lag, en perla samt, leikandi létt og fullt af háði og gagnrýni, ef vel er að gáð.

En þetta lag er alvarlegt og skemmtilegt í senn. Snilld, ekkert annað.

Lagið Vestrið villt er gott.

Mér finnst MJÖG heillandi að Palestínumaður frá Jerúsalem, einu stríðshrjáðasta svæði í heimi syngi á skemmtilega bjagaðri og krúttlegri íslenzku! Hann syngur mjög vel og lagið er fullt af háði en er samt grípandi og flott en ekki þungt. Textinn er gagnrýni á Vesturlönd, og þetta er svo snjallt að senda svona boðskap.

Höfundur textans er snillingur. Þetta er það sama og ég hef reynt að gera í mínum textum, að gagnrýna með tvíræðni og samt að hafa textana skemmtilega. Textinn lýsir einnig vel hlutskipti Palestínumanna, "að veði legg mína sál", "svo er bara að taka sénsinn", (sem hlýtur að vera mikilvægt þegar maður er alltaf í lífshættu), "vestrið villt þar sem mild og tryllt eru kaup og skipti", (svo rétt og satt), "í vestrið villt þar sem illt og spillt er besta fólkið", (snilldarleg gagnrýni og rétt), "er ég aldrei hólpinn", (einnig gott að fá svona alvöru pólitík í froðukeppnina Júróvisjón). "Hamra járnið, þarna er það - tækifærið" (beitt háð í svona keppni), "þú færð einn séns" (já einnig rétt, því fólki sem er slaufað fær ekki aftur tækifæri).

Textinn virðist sérsaminn fyrir Bashar, en ég er bæði hrifinn af lagi, flutningi og texta. Ferskur og lifandi flutningur, lagið er grípandi og textinn einstaklega beittur miðað við svona væmna keppni og slepjulega.

En eins og alltaf finnst mér hin lögin líka skemmtileg. Þau eru bara án brodds og gagnrýni, og hafa ekki sama boðskap og lagið sem Bashar flytur.

Í alvöru, þá er ég viss um að Ísland á loksins möguleika á AÐ SIGRA JÚRÓVISJÓN úti í löndum!!!!!!!!


mbl.is Myndasyrpa: Gleði og glimmer í Söngvakeppninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gæsahegðun og mannahegðun

Ég fylgdist með gæsahópi þar sem ég var gestkomandi við heimahús í dag. Var það merkilegt að fylgjast með hegðun fuglanna sem minnti mig á mannlega galla og lesti. Húsmóðirin var með tvo poka af gömlu brauði sem hún dreifði á stéttina að húsabaki. Eins og menn vita þekur snjór jörð nú um stundir.

Sumt fannst mér bráðfyndið við hegðun fuglanna. Um það bil 6 gæsir söfnuðust þarna saman að húsarbaki.

Fuglarnir létu ekki sjá sig fyrr en klukkustund eftir að brauðinu var dreift, en eru þeir næstum daglegir gestir þarna þar sem þeir vita að brauðs er von.

Fyrst voru þeir smeykir við að nálgast húsið. Þá var það ein gæsin sem gerðist hugrakkari og vakkaði nær unz hún greip brauðbita í gogginn, en hrökklaðist til baka af ótta við mannfólkið og hjó með goggi svo brauðið fór í smærri bita. Samstundis sáu hinar gæsirnar þetta að ein hafði náð í bita og fóru að elta þessa hugrökku með skrækjum og vængjablaki. Sú hugrakka tók á rás með brauðbita í gogginum með hinar allar á eftir.

Þetta fannst mér það fyndnasta, hvernig þær glefsuðu í fjaðrirnar á henni og tíndu svo upp brauðbitana sem hún missti á flóttanum.

Í stað þess að þora að leita til uppsprettunnar, í brauðið næst húsinu, réðust þær á einu gæsina sem hafði kjark og dug til að finna fyrsta brauðbitann og reyndu að ná honum af henni.

Minnir á hugleysi okkar mannanna og hvernig við ráðumst á þann sem segir sannleikann og skarar framúr oft, þótt sá geri mest gagn og hjálpi mest.

Þegar þessi fyrsti biti var uppétinn af gæsahópnum fóru þær að svipast um betur. Að þessu sinni var sú hugrakka enn fyrst til að finna næsta bita. Munurinn var sá að tvær aðrar voru farnar að verða eins skynsamar og hugrakkar og hún og fóru að snusa á svipuðum slóðum og horfa með gaumgæfni á snævi þakta jörðina.

Þannig að þær átu fylli sína af brauði næsta hálftímann eða svo. Veizluborðið var svo ríkulegt að þær urðu frá að hverfa þegar talsvert var eftir af brauði, enda hafði húsmóðirin þarna dreift úr tveimur pokum af gjafmildi og hjálpsemi sinni.


Sem umhverfisverndarsinni vonaði ég að rafbílar myndu vera lausn á mengun benzínbíla

Kannski er eitthvað til í því að rafbílatæknin muni ekki alveg taka við af benzínbílunum. En ef eitthvað land hentar fyrir rafbíla er það Ísland, út af okkar fallvötnum og raforkuverum.


mbl.is Hrun í sölu nýrra rafbíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snúum öllu á eina veginn, ljóð frá 6. apríl 2017.

Snúum öllu á eina veginn,

ástin bíður þolinmóð.

Hjálpum svo makanum móða,

mey, vörpum ei fyrir róða

því sem getur blómstra betur ætíð,

bara hina réttu þarna fæ tíð.

Endum svo elskunnar megin,

alveg nú sammála, skiljum allt góð!

 

Ennþá höllin er að standa,

ævintýrin gerast þar.

Verð að fá athygli og ástir,

aðrir svo þykist ei skástir.

Hún er feimin, masar óstyrk meira,

mína dýrkun vill ei nú um heyra.

Erum við aftur í vanda?

Aðeins það stúlkunafn virðist rétt svar!

 

Kaffihúsið, kvöldsins milda

kyrrð og það sem lærum við.

Finnum við straumana sterku?

Stöndum hjá verkunum merku?

Fæ ég kannski að lýsa mínu lífi?

Langar helzt að dvelja meður vífi.

Menntskælingsmorið að gilda?

Mun nýja parið svo upplifa frið?

 

Ein er hér sem yndi vekur,

útlit hefur býsna frítt.

Miðaldra, gömul og guggin,

girndalaus, fagmannleg, hnuggin.

Aldrei kemst ég að, vil tala núna,

elska pínulítið réttu frúna.

Hefði ég hitt þessa frekur,

heimurinn virkar enn, segðu það grýtt!


Stefnubreyting (hugarfarsbreyting) Þórunnar Sveinbjarnardóttur í Samfylkingunni kemur mér meira á óvart en Kristrúnar, og kannski örlítið breyttur málflutningur hjá Arndísi Önnu í Pírötum

Ég hef lengi haft áhuga á pólitík, og ég man þá tíð þegar Frjálslyndi flokkurinn setti þessi mál á dagskrá þannig að eftir var tekið og fékk gagnrýni frá ýmsum, að Þórunn Sveinbjarnardóttir, Kvennalistakona og Samfylkingarkona var oft mjög hvöss í því efni. Ég hélt að hún væri óforbetranleg í sinni röngu stefnu, en í seinni fréttum RÚV talaði hún um "mál málanna" (flóttamannamálin) og "fjórði hver maður á vinnumarkaði kemur frá öðrum löndum", "gríðarleg fólksfjölgun síðastliðin 10 ár hið minnsta", "stjórnvöld ekki hafi sinnt því hlutverki að styrkja innviðina í takt við nýjar þarfir", og fleira af því tagi.

Mér finnst þetta stórmerkilegt að þessi kona sem var mjög hvassyrt gegn þeim sem ekki vildu fullkomna mannúð og allt að því opin landamæri skuli nú vera farin að tala eins og Sjálfstæðisflokksmanneskja, lætur rökvísina ráða!

Enn fremur var Arndís Anna ekki sama gribban og hún stundum virðist. Það má með sanni segja að Eiríkur Bergmann hafi rétt fyrir sér þegar hann lýsir því að allt samfélagið er búið að skipta um skoðun í þessu máli, þeir vinstriöfgafyllstu hafa mildazt gegn "hægriöfgafólkinu" og þeirra málflutningi, og fleiri viðurkenna þá stefnu en áður.

Sem sé, Þórunn, Arndís og fleiri viðurkenna hluta af þeim rökum sem notuð eru og voru notuð fyrir 30 árum og þóttu þá hinir mestu öfgar af þessu sama fólki (Arndís var að vísu heldur ung þá til að tjá sig mikið).

Já, svo sannarlega samfélagsbreyting, og fyrirsjáanleg, með gjörbreyttu samfélagi og samsetningu þjóðarinnar, sem er nú fjölbreytilegri en nokkrusinni fyrr.

Ég tek þó undir orð Þórunnar í RÚV að stefnu Samfylkingarinnar er opinberlega breytt á landsfundi þeirra, og að hér er verið að setja mál á dagskrá. Þó má tala um stefnubreytingu, eða stefnumótun, því formaður flokksins dregur vagninn, ekki satt, og leggur línurnar?


mbl.is Ætti að vera hægur vandi að hafa fulla stjórn á landamærum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að bæta við orðaforðann með því að lesa 50 ára bækur eða eldri er hið bezta mál

Já, slakur árangur í PISA könnun veldur mikilli sölu á barnabókum. Það er ágætt. Annars vil ég segja það að áhugi minn á zetunni vaknaði þegar ég las barnabækur með zetunni. Mér fannst hún svo flott og leiðinlegt að hún var horfin að ég vildi læra hana, sem ég gerði auðveldlega.

Það voru Bob Moran bækurnar og bækurnar eftir Enid Blyton sem án efa vöktu áhuga minn á zetunni.

Eitt sinn kom það í fréttum að bækurnar eftir Enid Blyton voru þýddar á ný og gefnar út, því þær voru sagðar á "stirðu máli". Þessu er ég gjörsamlega ósammála.

Þeir sem eru svo heppnir að eiga bækur sem eru 40 ára gamlar eða meira geta séð af eigin raun hvernig mikill orðaforði hefur fallið niður í dag sem til var þá.

Þessvegna legg ég til að þetta verði næsta átak í íslenzkunni, að hefja hana aftur til vegs og virðingar með því að orðaforðinn hjá fólki verði bættur, með því að það kynni sér eldri bækur og tali meira við eldra fólk.

Það geta allir lært zeturegluna. Hún er einfaldari en yfsilonreglan og reglubundnari að mun. Komið+sig (sik) verður komizt, verð+slun verður verzlun, ytarst (utarlegast) verður yzt, benjoin acid verður benzín. Merkilegt er að svo virðist sem framburðar d í erlendum málum hafi leitt af sér alþjóðlega zetu þar.

Zetureglan er tiltölulega auðveld ef maður lærir hana almennilega. Síðan er það hinn almenni orðaforði sem var án efa meiri hjá fólki snemma á 20. öldinni, þegar skáldskapur var elskaður, dýrkaður og dáður, en þar eru notuð sjaldgæf orð einatt. Auk þess voru starfsstéttirnar með sinn orðaforða á íslenzku og tökuorð í bland, en í dag eru ensk orð næstum allsráðandi víða þegar kemur að starfsstéttum og gúgglað er á netinu.

Málræktarátak er því alveg nauðsynlegt, að byrja aftur að búa til orð og nota þau.

En það er spor í rétta átt að sala á nútímabarnabókum taki kipp, því betra er að börnin lesi en séu í tölvunum bara og læri þar flest á ensku.


mbl.is Sala á barnabókum tók kipp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 42
  • Sl. sólarhring: 169
  • Sl. viku: 726
  • Frá upphafi: 129841

Annað

  • Innlit í dag: 38
  • Innlit sl. viku: 549
  • Gestir í dag: 35
  • IP-tölur í dag: 35

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband