Plötugagnrýni:Bubbi Morthens, "Kona", 1985.

Þessi plata Bubba Morthens er oft talin hans bezta, eða meðal hans beztu platna allavega. Ég er sammála því. Bubbi Morthens hefur gefið út fleiri plötur en nokkur annar trúbador á Íslandi og hefur notið meiri vinsælda en nokkur annar trúbador á Íslandi, þannig að úr mörgu er að velja eftir hann.

Opinberir gagnrýnendur og flestir segja þó að Bubbi hafi endurtekið sig miskunnarlaust eftir 1990 og hafi gert sín beztu verk fyrir þann tíma. Hans gallhörðustu aðdáendur sem eru margir eru þó sennilega ekki sammála því og finnst allt eins gott sem eftir hann liggur. Jæja, það er ágætt að einhver íslenzkur tónlistarmaður njóti slíkrar dýrkunar og vinsælda.

En þessi plata er svonefnd skilnaðarplata og meðferðarplata, það er að segja hún var samin eða hljóðrituð að minnsta kosti að hluta til í meðferð við eiturlyfjafíkn, eins og Bubbi hefur fjallað um sjálfur. Einnig fjallar hún um skilnaðinn við Ingu Sólveigu Friðjónsdóttur, sem var eiginkona Bubba á þessum tíma, eða fram til 1984, en platan virðist hafa verið samin þá að einhverju leyti, eða efniviðurinn er frá þeim tíma.

Fyrsta lagið heitir "Frosin gríma". Bubbi Morthens hefur marga hæfileika. Til dæmis virðist hann eiga auðvelt með að tileinka sér ólíka tónlistarstíla. Í þessu lagi bregður fyrir áhrifum frá jazzskotnu poppi stríðsáranna, mjög miklum áhrifum, og þó er tónsmíðin á mörkum þjóðlagapopps og tregablandsins þjóðlags einsog eiginlega allt sem Bubbi hefur samið, jafnvel rokklögin hans, ef þau eru gagnrýnd í trúbadorútsetningum sínum, eða einsog þau koma frá kúnni.

Ljóðið kann að virðast óskiljanlegt og Bubbi hefur sjálfur tjáð sig um það í viðtölum að þetta sé dóptexti sem hann skilji ekki eins og flest frá þessum tíma.

Textinn lýsir ótta og paranoiu, eða ofsóknaræði vímuefnaneytandans sem vill ekki viðurkenna það sem er að fyrir öðrum. Lagið er þó sæmilega grípandi og er sígilt Bubbalag, mér finnst það alltaf eins gott og hef oft æft mig á þessu lagi sjálfur og kann vel við það.

Lag númer 2 er að sjálfsögðu "Talað við gluggann", sem er ein af perlum Bubba Morthens, ódauðlegt og frægt. Það lifir sínu sjálfstæða lífi eins og "Stál og hnífur" og nokkur önnur Bubbalög.

Með þessari plötu fékk Bubbi loksins virðingu frá plötugagnrýnendum, sem mikið hafði skort uppá fyrstu árin með. Sérstaklega fengu textarnir athygli sem smekklega smíðaðir, og þessi alveg sérstaklega.

Menn voru fljótir að fatta og kveikja á því að orðið gluggi getur þýtt kynfæri konunnar í þessu sambandi og getur verið líkingamál. Fóru menn því fljótt að líta á þetta sem greddukvæði skáldsins og tónlistarmannsins.

Þó er Bubbi Morthens mjög sjaldan þannig opinskár í textum sínum, klúr sem sagt og klámfenginn, nei það er hann jafnan ekki. Þetta orð má kalla alveg dæmigert líkingamál í ljóði, hvort sem það birtist í bók eða í söngtexta eða leikriti.

Það sem sumir kannski hafa ekki áttað sig á er að orðið gluggi getur haft fleiri merkingar í þessu sambandi, eins og augu, en augun eru spegill sálarinnar hefur lengi verið sagt.

Textinn blandar saman missi og kvíða og öðrum tilfinningum. Það er eins og hann sé frekar tæknilega saminn eins og af gervigreind heldur en manni sem er frávita af sorg og kvölum yfir skilnaði.

Náttúrulýsingar eru notaðar til að koma þessu á framfari eins og venjan hefur verið í bókmenntum og listum mjög lengi. Textinn er uppfullur af klisjum og líkingamáli, en þrátt fyrir að líkingarnar þekkist og séu kunnar er lagið viðkunnanlegt og sígilt orðið.

Þetta lag er mjög gott dæmi um lag sem samið er og síðan hefur höfundurinn sett orð við lagið, en Bubbi sem skrifblindur maður segist hafa búið sín lög til þannig, þótt hann skilji skriftina sína gangi hann um gólf og þylji textana til að læra þá.

Textinn er þannig fullur af margskonar ljóðmáli og klisjum, frásögnin ekki endilega línuleg heldur til að fullnægja framvindu laglínunnar, og koma með ljóðmyndir til að skemmta hlustandanum. Mjög vel heppnuð lagasmíð þannig séð.

Þriðja lagið er titillagið, "Kona". Textinn er fullur af bókmenntatilvísunum, og ef hann hefði verið rétt ortur samkvæmt stuðlum, höfuðstöfum og rími hefði hér verið fínt kvæði á ferðinni sem hefði sómt sér vel í hvaða kvæðabók sem hefði verið 100 til 200 árum fyrr eða meira.

Eins og hann er þá er hann mitt á milli ljóðræns prósaljóðs og hefðbundins kveðskapar, eins og venjulegir dægurlagatextar oft eru. Hann á það sameiginlegt með öðrum textum plötunnar að vera smekklega saman settur og vandlega gerður, bæði til að þóknast laglínunni og stuða engan, virka vel í fjöldann.

Beygingarvillur eru þó þarna mikil lýti, og hefur Megas gert stólpagrín að þessum vanda Bubba Morthens í meðferð íslenzkunnar, sérstaklega áður en Bubbi fór að láta Silju og Megas fara yfir kveðskapinn sinn áður en að útgáfu kom nokkrum árum seinna.

Þetta er fallegt lag, en hefur á sér bernsk einkenni, vegna þess að málvillur eru í textanum og braglýti sé miðað við hefðbundinn kveðskap, sem þó er reynt að líkja eftir á sama tíma.

Innihald textans er eins og svo margt eftir Bubba Morthens, það meikar takmarkaðan sens en meikar þó sens í litlum einingum og sem heild, en minnir kannski meira á útkomu sem gervigreind hefur látið frá sér fara, sem er ekkert sérlega fullkomin.

Þannig er allt fullt af ljóðmyndum í textanum, en ekki verður alltaf augljóst hvaða markmiði þær þjóna fyrir boðskapinn. Meira er eins og þær séu til að skemmta hlustandanum og vekja til umhugsunar, en margur góður kveðskapur er reyndar þannig.

Fjórða lagið heitir "Söngurinn hennar Siggu." Laglínunni hnuplaði Bubbi frá J. J. Cale og hefur hann viðurkennt það og eru upplýsingar um það á netinu líka, "Drifter's Wife" heitir lag J. J. Cale frá 1982.

Þetta lag fjallar um litla telpu og leiki hennar en ekki konuna hans Bubba. Textinn er tilþrifalítill svosem, en lagið þjónar sínum tilgangi sem upplyfting milli þungra og tregablandinna laga á plötunni.

Eins og önnur lög á plötunni hljómar það vel á tónleikum hjá Bubba, því gítarplokkið sem einkennir mörg lög Bubba gefur því persónulegan stíl. Þannig að segja má að flutningurinn sé mjög vandaður, en textinn síður og laglínan fengin frá öðrum höfundi erlendum.

Fimmta lagið og það síðasta á hlið A heitir "Seinasta augnablikið". Bubbi hefur samið mjög mörg svona dramatísk og sorgleg lög, þau eru einkennismerki hans, í moll en ekki dúr.

Eins og í öðrum lögum eru náttúrulýsingar notaðar til að byggja upp spennu og lýsa tilfinningum. Hér er það haustið sem lýsir skilnaði og sambandsslitum sem eru í vændum.

Styrkleiki lagsins er hversu vel textinn fellur að laginu og upptökunni, hversu fágað og smekklegt þetta er, hvernig lagið er samið og flutt, ekki sem ljóð heldur laglína sem smekkleg orð eru sett við.

Þetta eru ekta tilfinningar, en mér finnst vandi Bubba í seinni tíð vera verksmiðjustimpill á plötum og lögum, róbótavinnubrögð, klisjur á klisjur ofan og höfundur sem er löngu, löngu hættur að taka séns eða ögra fólki.

Fyrsta lagið á hlið B er síðan eitt af frægustu lögum Bubba, "Rómeó og Júlía". Hryllilegur veruleiki dópistans er yrkisefnið, en það er klætt í rómantískan búning.

Þetta lag lýsir heimi fíkla betur en flest annað, þar sem vandamál eru fegruð og klædd í annan búning, enda var Bubbi Morthens auðvitað sjálfur hluti af vímuefnaheiminum á þessum tíma og þekkti þetta á eigin skinni.

Ég vil bæta við, að fólk skyldi varast að heillast of mikið af þessu lagi. Það getur virkað sem segull á þessa lifnaðarhætti og þennan lífsstíl.

Mótefnið við tónlist Bubba Morthens er að hlusta nógu mikið á aðra tónlist og þá gerir maður sér grein fyrir því að hann er ekki frumlegur, hvorki í tónlist né textum. Hann spilar hinsvegar á grunntilfinningar sem allir þekkja og gerir það betur en aðrir.

"Eina nótt í viðbót" er lauslega byggt á "One More Night" eftir Bob Dylan frá 1969, Nashville Skyline.

Textinn er uppfullur af líkingamáli, alþjóðlegu, og vel heppnaður eins og annað á þessari plötu, og flutningurinn, allt saman stimamjúkt.

Þessi plata frekar en aðrar plötur með Bubba Morthens er sérhönnuð fyrir gítarpartý og trúbadora sem eru að æfa sig og læra, eða söng í partýjum. Þetta er greddutexti og greddusöngur miklu frekar en önnur lög á plötunni, og er það vel líka.

"Systir minna auðmýktu bræðra" er eitt af mínum uppáhaldslögum á plötunni. Óeigingjarn boðskapurinn er heillandi, þegar hann segir vinkonu sinni að gefast einhverjum karlmanni á vald. Einnig er textinn margræðari en flestir aðrir textar plötunnar og fjallar um samskiptavanda kynjanna miklu ítarlegar en í öðrum textum.

Enn eitt sem er gott við textann er að þarna vegur siðferðið salt og efasemdir um rétt og rangt gera vart við sig.

Einnig lýsir textinn því hvernig veiðar á skemmtistað eru klæddar í andlegan búning leikja og blekkinga stundum. Opinskár texti, með því betra eftir Bubba Morthens, tvímælalaust.

"Sandurinn í glasinu" er næstsíðasta lagið. Textinn virðist ekki alveg eins vandaður og sumir aðrir textar. Í stað líkingamáls kemur daglegt mál og eitthvað beint frá Bubba án ljómáls, á köflum.

Þó fjallar textinn um stundaglas sem mælir tíma, og ástarsambandi þeirra líkt við sandinn sem lætur þyngdaraflið ráða yfir sér.

Þarna finnst mér klisjurnar bera boðskapinn ofurliði eins og svo oft hjá Bubba. Þúsundir dægurlagatexta eru svipaðir á ensku, og tónsmíðar einnig. Engu að síður er þetta mun persónulegra en margt sem Bubbi Morthens gerði síðar á ferlinum, og því varla hægt að kvarta mikið.

Tíunda og síðasta lag plötunnar heitir "Spegillinn í bréfinu."

Hér er örvæntingu lýst, bæði vegna einmanaleika og vímuefnavanda. Þetta lag er gott sem lokalag plötunnar, því Bubbi sjálfur hefur þurft að fá ást og umhyggju frá öðrum til að verða ekki alveg þessi maður heldur sjá hann útundan sér sem þriðju persónu. Þannig að Bubbi getur státað sig af því að hafa verið gæfumaður en ekki ógæfumaður þrátt fyrir allt.

Það er von um að losna frá dópdjöflinum í þessu lagi, en kannski ekki mjög sterk, það er umdeilanlegt og túlkunaratriði. Sennilega var Bubbi samt að yrkja um sjálfan sig líka í þessu lagi, þegar hann hafði minna sjálfstraust og var á verri stað tilfinningalega, kannski sem yngri maður en hann var 1985.

Snilldarlega finnst mér Bubbi blanda saman ljóðmáli og mæltu máli í þessu ljóði, þannig að merkingin tapast ekki, og þannig að ekki er verið að abbast uppá lesanda eða hlustanda með of ágengum hætti, sumt er sett sem túlkunaratriði, þegar líkingamálið tekur yfir talmálið.

Bubbi Morthens hefur þekkt margar góðar konur, það má lesa útúr textum hans. Hér er góðri konu lýst, sem bjargar vímuefnaneytandanum með ást sinni og móðurlegum tilfinningum, um stundarsakir að minnsta kosti.

Þetta eru dæmigerð samskipti kynjanna innan feðraveldisins. Þá var þess krafizt af konum og stúlkum að þær hjálpuðu drengjum og körlum undantekningalaust. Ekki fyrr en með algjörum sigri femínismans nokkrum árum eða áratugum síðar urðu konur harðar og miskunnarlausar, og misstu þá kvenlegu mýkt og kærleika sem hér er lýst, ekki allar, en fleiri og fleiri að minnsta kosti.

Ég dáist einnig að því hversu nákvæmar lýsingarnar eru í textanum, eins og í smásögu eða skáldsögu.

Þessi texti sýnir hvernig samskipti kynjanna eru dauðans alvara og ástin. Miklu frekar en klisjukenndir textarnir á undan sýnir þessi texti hvernig dansað er á hnífsoddi í þessum málum sem allir kljást við.

Í heildina litið er platan "Kona" eftir Bubba Morthens kannski hans bezta plata. Styrkleikar hans koma vel í ljós, en nokkrir veikleikar einnig sem draga hana nokkuð niður, eins og misgóð tök hans á málinu á þessum tíma.

Það geta allir lært af þessari plötu að einlægni er nauðsynleg í samskiptum, upp að einhverju marki að minnsta kosti.

En gríðarleg notkun á ljóðmáli og líkingum segir manni að viðkvæmni Bubba Morthens var kannski ekki endilega umfjöllunarefnið, heldur faglegur metnaður dægurlagasöngvarans og dægurlagahöfundarins sem nýtti sér eigin reynslu. Þó efast maður ekki um að hann hafi elskað Ingu ljósmyndara. En frægðin og dópið er hér ekki síður til umfjöllunar og annað kvenfólk, kynlíf og djamm, eða samskiptin við egóið, mann sjálfan, sjálfsmyndina.

Ef þessi plata er borin saman við aðrar eftir Bubba Morthens verður manni strax ljóst að hún hefur sérstöðu. Hún er fyrsta platan eftir Bubba þar sem tilfinningar til kvenna eða einnar konu er aðalumfjöllunarefnið, en ekki sú síðasta. Hún ber yfir sér æskueinkenni frekar en seinni plötur hans sem eru þannig, sem eru staðlaðri.

Það er kannski erfitt að segja hvað stendur uppúr með Bubba Morthens, hann hefur gefið svo gríðarlega mikið út, og það er sæmilega jafnt að gæðum, að því leytinu til að það er fágað að einhverju leyti, jafnvel þótt það sé hrjúft, eins og hans allra fyrstu verk.

En miðað við plöturnar frá 1984 með Bubba og hljómsveitum hans, Egó og Das Kapital þá er þessu plata miskunnarlaus sjálfskoðun, og verður að hrósa fyrir slíkan kjark.

Engu að síður vantar dýptina í þetta eins og annað frá Bubba. Ljóðmálið er almennt, ekki sértækt. En til dæmis í síðasta laginu er farið útí að lýsa eymd og vanda fíkniefnanotkunar mjög vel. Þannig að á þessari plötu er margt gert miklu betur af Bubba en síðar.

Þegar Bubbi hefur fjallað um ýmis vandamál á seinni plötum hefur það oft verið gert utanfrá. Hér er það gert innanfrá, hann var sjálfur hluti af þessum heimi og gat þessvegna lýst honum svona vel.

Mjög góð Bubbaplata, á topp tíu listanum hans, kannski sú bezta eftir hann, erfitt að fullyrða um slíkt þó með algerri vissu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Ég kolféll fyrir titillaginu, í flutningi Papanna. Get hlustað á það svo til endalaust.

Guðjón E. Hreinberg, 1.6.2023 kl. 14:31

2 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Bubbi þekkti Gunnar Dal og þeir ræddu um heimspeki. Kæmi mér ekki á óvart að einhverjar hugmyndir hafi Bubbi fengið þaðan. Já, titillagið er magnað og textinn mystískur, þrátt fyrir málvillurnar.

Ingólfur Sigurðsson, 1.6.2023 kl. 15:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 178
  • Sl. sólarhring: 179
  • Sl. viku: 657
  • Frá upphafi: 106640

Annað

  • Innlit í dag: 123
  • Innlit sl. viku: 465
  • Gestir í dag: 112
  • IP-tölur í dag: 112

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband