Speglabyltingin, klósettbyltingin

Nýjasti angi Metoobyltingarinnar er það sem nemendur framhaldsskólanna kalla sjálfir "Klósettbyltinguna", samkvæmt því sem þau sögðu sjálf í fréttum Stöðvar 2 í gær, en kallað var "Speglabyltingin" á Fréttavaktinni á Hringbraut.

Nafnið lýsir því að slagorð voru máluð á speglana á klósettunum. Unglingar eru áhrifagjarnasti hluti mannkynsins, og þetta er fræðsla sem unglingar hafa lært úr þáttunum "Fávitar" á Stöð 2 og í samnefndum bókum sem slógu í gegn eftir Sólborgu Guðbrandsdóttur.  Hún er nokkurskonar forystusauður unglinganna, eins og þetta er í dýraríkinu, þegar einn sauður stjórnar hjörðinni.

Maður fylgist með þessu af athygli. Til að reyna að eiga sem bezt samskipti við konur sem aðhyllast femínisma, sem maður er ekki endilega sammála nema að hluta til og vera samtaka breytingum þarf maður að vita hvað er að gerast.

Ég velti því fyrir mér hvaða nemendur það eru sem eru nauðgarar eða meintir gerendur. Ætli það séu sömu týpurnar og skinu skærast í félagslífinu þegar maður var hluti af skólakerfinu sjálfur? Ætli það séu ekki bæði synir ríkra foreldra og fátækra foreldra sem beita ofbeldi? Ætli það séu stelpur líka? Hlýtur það ekki að vera, þó í minnihluta séu?

Nú hlýtur þetta að vera angi af stærra vandamáli sem er aukið ofbeldi í öllu samfélaginu, ef miðað er við fréttir af fleiri skotárásum að undanförnu en oft áður og alvarlegum ofbeldismálum ef ekki hryðjuverkum, hvernig svo sem það er nú skilgreint.

En að láta lítinn hluta ofbeldisnemenda ganga í sérstaka ofbeldisskóla og fá sérkennslu eða læra í fjarnámi það gæti ýtt undir að þeirra vandamál versni og ofbeldishegðun þeirra, þannig að þetta er ekki svo einfalt.

Það er margt merkilegt við þetta. Unglingarnir virðast ljóma af ánægju að fá loksins athygli og að láta rödd sína heyrast og hafa áhrif. Hætt er þó við að stúlkurnar gangi á rétt strákanna ef þetta er gert af fljótfærni og aðeins tekið tillit til sumra. Þetta má ekki snúast uppí hreina baráttu kynjanna, strákar gegn stelpum, það leysir þetta ekki heldur gerir erfiðara.

Ég efast ekki um að "þolendur" fá sitt framgengt gegn "gerendum".

En í sögulegu samhengi er þetta áhugavert viðfangsefni félagsfræðinga.

Vissuð þið að það voru ungar konur og jafnvel á unglingsaldri sem komu Adolf Hitler til valda á sínum tíma? Ég á fræðirit eftir enskan fræðimann sem fjallar um þetta meðal annars. Hann lofaði þeim að hann myndi útrýma atvinnuleysi ungra, þýzkra karlmanna á bezta aldri, losna við ríka gyðinga og aðra útlendinga sem tækju tækifæri frá innfæddum Þjóðverjum ásamt vinstrimönnum, en koma öllum konum og stúlkum inná heimilin aftur. Þetta féll ungmeyjunum svo gríðarlega vel í geð að þær kusu Adolf Hitler í stríðum meginstraumum og komu honum til valda, ásamt öðrum fjölmennum hópum sem hann talaði beint inní og sannfærði.

Svona er tíðarandinn að breytast. Svona getur hann breyzt aftur, farið 90 gráður eða 180 gráður þessvegna og hvenær sem er, erfitt er um það að segja eða spá.

En að vissu leyti er það gleðiefni að við lifum á tímum lýðskrums og þegar lýðskrum virkar, og hópefli. Það minnir líka á Bítlatímann, þegar strákum leyfðist það sem þeim mun ekki leyfast öllu lengur, samkvæmt þessu. Þá var líka hópefli sem snérist í þveröfuga átt við Metoobyltinguna, en svona er tíðarandinn sérstakur og mismunandi hverju sinni.

Eitt er alveg á hreinu. Þetta unga fólk verður ekki stöðvað og það mun fá sitt fram. Það sést á því hversu fjölmenn þessi mótmæli eru og samstaðan mikil hjá þessum kynslóðum sem munu erfa landið.

En kapp er bezt með forsjá. Eins og ég fjallaði um í nýlegum pistli hefur kúgun og ofbeldi í garð kvenna viðgengizt í gegnum alla mannkynssöguna. Ekki þýðir að snúa þessu við og að strákarnir finnist á sér brotið.

Ég leit upp til þessara stráka og karlmanna sem í dag eru sennilega kallaðir brotamenn af þessum kynslóðum. Þeir komust upp með hvað sem var og fengu allar þær sem þeir vildu, fannst manni. Mér fannst þetta afskaplega gott kerfi, en ég naut mín ekki sem skyldi, hafði ekki fullt sjálfstraust, enda ólst ég upp á of kristnu heimili hjá ömmu og afa þar sem skólaböll voru talin uppspretta syndarinnar og mamma var haldin stjórnunarfíkn og kúgaði mig með neikvæðni, boðum og bönnum.

Í dag eru það greinilega konurnar og stelpurnar sem ráða öllu og þær geta sett strákunum mörk.

En þetta eina prósent sem beitir ofbeldi, eða meira, það gæti nú orðið stærra því ég held að þeir sem berjast í þessum málum hafi ekki fulla stjórn á þróuninni eða ástandinu.

Það er svolítið skrýtið að "skóli án aðgreiningar", þar sem allir eiga að láta sér lynda saman skuli ala af sér svona kröfur, þar sem venjulegir strákar eru gerðir að úrhrökum, þeir sem áður stóðu sig bezt í félagslífinu, sennilega, eða ábyggilega sumir þeirra sem hér er barizt gegn.

Hvað er þetta stór prósenta? Hvaða sögu eiga þessir ofbeldisdrengir? Eru þeir allir meðfæddir fantar eða er þetta lærð hegðun? Mörgum spurningum er ósvarað.

 


mbl.is Ung jöfn styðja framhaldsskólanemendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 19
  • Sl. viku: 559
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 448
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband