Vertu sælt verðleikasamfélag, eftir Bob Dylan, túlkun á fimmta erindinu

Fimmta erindi þessa kvæðis er það næstsíðasta í opinberu útgáfunni, sem þekkt er í flutningi Joan Baez og annarra söngvara, en í þessari pistlaröð um þetta kvæði tek ég aukaerindi inní, sem aðeins er þekkt af útgáfu Bob Dylans, höfundarins, sem kemur á eftir þessu, og gerir kvæðið sjö erinda kvæði, ekki sex erinda.

 

Svona er þýðing erindisins yfir á óbundna íslenzku:

 

"King Kong, litlir álfar á húsþökunum dansa Valentínoar danstegundir meðan hinar fölsku mannahendur (eða snyrtu og lituðu mannahendur) loka augum hinna dauðu til að enginn fari hjá sér, en vertu sæl Angelína, himininn fer hjá sér og ég verð að vera farinn".

 

Af öllum erindum kvæðisins er þetta einna umdeildast hvað túlkun varðar, eftir því sem ég hef komizt næst. Sumir túlka þetta sem hreina ljóðrænu, bull, súrrealískt kvæði frá upphafi til enda, margir túlka það eins og ég, en svo er til túlkun þess efnis að Bob Dylan sé að fjalla um nazismann í kvæðinu, en sú túlkun er ekki studd með rökum nema að litlu leyti. Hún er á þá leið að King Kong sé Hitler og litlu álfarnir hermennirnir hans.  Ég ætla ekki að rekja þá túlkun frekar, enda stenzt hún enga skoðun þegar betur er að gáð, því erfitt er að heimfæra önnur atriði uppá hana. Ég tek hana með til að leyfa fólki að sjá að ég er opinn fyrir túlkunum og túlkunarmöguleikum.

 

Ég held því áfram með mína vinnukenningu og túlkun, að Dylan sé að kveðja mannréttindahreyfinguna, vinstrihreyfinguna og það allt, og opna leiðina fyrir sjálfum sér að kapítalisma, rokktónlist og gróða, meiri vinsældum.

 

Hver er þá King Kong? Jú, næstum allir vita að þetta er risaapi í frægri gamalli mynd, sem ógnar mannkyninu. Þetta er því augljós tilvísun, en hvað skyldi hún merkja? Það er stóra spurningin.

 

Hverjir eru þá litlu álfarnir?

 

Ég skal reyna að svara þessu. King Kong gæti verið guð Biblíunnar, sá sem heldur mannkyninu í heljarhöndum. Hann gæti verið hver sá auðjöfur sem stjórnar menningunni, með stefnunni sem varð vinsæl eftir 1945, andrasismanum, hugmyndafræðilegum undirstöðum Rauða krossins, Sameinuðu þjóðanna og húmanismans, og fleiri slíkra fyrirbæra, hugmyndafræðilegum undirstöðum okkar menningar, að segja má.

 

Þetta er hápunktur kvæðisins, eða ris sögunnar, á réttum og hefðbundnum stað samkvæmt öllum bókmenntatúlkunum, rétt eftir miðbik frásagnarinnar, eða á seinni helmingi frásagnarinnar, þetta er því lykilpersóna, en nákvæmlega um hvaða óvin er verið að fjalla er ekki hægt að vita, hver og einn getur gert það upp við sig.

 

Þjóðfélögin sem fá þessa lýsingu eru okkar þjóðfélög, miklu frekar á okkar tímum en þegar kvæðið var ritað, þetta er því spádómskvæði alveg augljóslega, sem hefur rætzt, mjög greinilega, á hryllilega dystópískan máta, því miður. Í kvæðinu er þjóðfélögum lýst sem eru skrípaleikur, upplausn, vitleysugangur, hræsni, lögleysa og þar sem allt er á hvolfi miðað við réttlæti og það sem ætti að vera.

 

Litlu álfarnir eru vissulega skrípapersónur, litlir menn sem haga sér skringilega og fáránlega, eða afmyndaðir menn, hálfgerð börn, í þessu þjóðfélagi kvæðisins sem farið er gjörsamlega úr skorðum, þar sem ræningjar, uppreisnarforingjar og niðurrifsöfl eru allsráðandi, en lífvænlegt samfélag á undanhaldi.

 

Eins og með King Kong er ekki hægt að fullyrða með fullri vissu hvaða persónur þetta eru, en kannski er þetta bara almenningur, sem kemur óhæfum stjórnmálamönnum til valda, sem kýs þá aftur og aftur.

 

Svo er það hegðunin. Hvers vegna dansa þessir litlu álfar suðræna samkvæmisdansa á húsþökum, eins hættulegt og kjánalegt og það nú er?

 

Jú, þetta er spilltur, ofdekraður og vinstrisinnaður almenningur, fullur af ranghugmyndum og rugli, sem vill sýna öllum heiminum að sú vitleysa sé eitthvað til að hrósa sér af. Þetta er gjörspillta menningarelítan, sem verðlaunar sorann, og traðkar á þeim sem hafa eitthvað gott og rétt fram að færa. Þetta er fólkið sem kemur glæpamönnunum til valda og fangelsar eða drepur góða fólkið, eins og gert var við Galileo og Brúnó.

 

Hverjar eru hinar fölsku (eða snyrtu og máluðu) mannahendur sem loka augum hinna dauðu til að enginn fari hjá sér? Hverjir eru þeir dauðu sem minnzt er á í þessu erindi og kvæðinu öllu?

 

"Make up" sem lýsingarorðsliður og á við um hendur mannanna, getur þýtt snyrtar og litaðar eða falskar. Eigendur þessara handa eru ekki merkilegur pappír, samkvæmt þessu, uppreisnarmenn, sem hefur verið lýst á undan í kvæðinu, eða söngtextanum.

 

Þeir dauðu eru þeir andlega dauðu, þeir sem sjá en þykjast ekki sjá, eru meðvirkir, kjósa ófæra stjórnmálamenn, taka þátt í ömurleikanum. Þeir sem lesa um það ranga en mótmæla sannleikanum og reiðast, eða láta sér standa á sama. Þetta eru þeir dauðu sem fjallað er um í kvæðinu, rétt einsog í "Dead Man, Dead Man" eftir Bob Dylan frá 1981, eins og hjá sumum kristilegum sértrúarsöfnuðum er merkingin sú sama, andlega dautt fólk.

 

Hinar vel snyrtu mannahendur eru þessvegna að öllum líkindum hendur geimveranna sem hér eru í mannlegu holdi, sem fæstir þekkja frá jarðnesku fólki, eða andsetta fólkið, svo þetta sé orðað öðruvísi.

 

Þessar vel snyrtu mannahendur eru hendur þeirra sem stjórna á bak við tjöldin. Þessar hendur eru vel snyrtar því það er ekki hægt að gagnrýna þær, frá öllum þráðum hefur verið gengið. Þær líta vel út, siðferðilega sem á öðrum sviðum, í takt við kristnina og önnur trúarbrögð, sem hafa breytt siðferði mannkynsins í meira en 2000 ár, þannig að við erum stödd á þessum stað núna, að mannkynið er að útrýmast, og skyldi það vera tilviljun og engum að kenna?

 

Það er þeim mikilvægt að mannkynið sjái ekki misgjörðirnar og skilji ekki hvað þær merkja. Þess vegna er augum hinna andlega dauðu lokað af vel snyrtum mannahöndum, sem reyndar eru ekki mannahendur, en slíkur brandari á einmitt vel við, að nota rangt hugtak í háðsskyni, að þetta sé ekki öllum augljóst.

 

Svo er það þetta hugtak, að fara hjá sér. Þetta er nefnilega ekki alveg rétt þýðing. Sögnin að embarrassa, embarrass á ensku, þýðir, að gera vandræðalegan, koma í bobba, eða íþyngja eða valda áhyggjum.

 

Hér á það við að sögnin merkir að upplýsa, veita hugljómun og upplýsa um spillingu og samsæri, eða að vekja sektarkennd og skömmustutilfinningu. Þjóðirnar sem gera sér grein fyrir að þær hafa verið blekktar finna fyrir "embarrassment", skyndilega sjá allir að keisarinn er nakinn, en allir hafa verið meðvirkir, eða næstum því allir.

 

Ensku orðin eru nefnilega svo margræð, að kafa þarf dýpra til að skilja og skynja fínni blæbrigði textans. Þetta á við um alla túlkun kvæðisins frá upphafi til enda.

 

Svo kveður hann gæðin á ný, og notar sama orðið um himininn, að hann skammist sín, eða fari hjá sér, yfir framferði mannanna, að sjálfsögðu.

 

Himininn er að sjálfsögðu guð almáttugur, eða hverjir þeir guðir sem rétt er að trúa á, eitthvað sem enn er heilagt og virðingarvert.

 

Að lokum segir hann að hann "verði að vera farinn".

 

Þetta orðalag þarfnast frekari skýringar við að sjálfsögðu. Verður hann að vera andlega farinn eða líkamlega, efnislega eða alheimslega?

 

Merkir það að hann verði að hafa hafnað þessu þjóðfélagi spillingarinnar og farinn frá því þannig, eða farinn frá verðleikasamfélaginu sem hann er að kveðja? Þetta gæti þýtt ýmislegt.

 

Eða, eru kröfur þeirra djöfullegu svo sterkar og völd þeirra, að hann verði að afneita trú sinni og réttlætistilfinningu, og verði að gerast spilltur sjálfur, selja sál sína djöflinum, til að lifa af? Sú útskýringin gæti nefnilega staðiðzt líka og átt vel við.

 

Það er leitt að þetta kvæði sé að verða búið, aðeins tvö erindi eftir, svo skemmtilegt og fróðlegt hefur verið að útskýra það, og svo vel á það við nútímann.

 

Allir ættu að kynna sér það og þessar skýringar, sem passa ekki aðeins vel við samtíma okkar, heldur líka kvæðið, og lýsir vel snilld Bob Dylans, sem var vel að Nóbelsverðlaununum kominn. Að kalla hann spámann er ekki of mælt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 20
  • Sl. sólarhring: 133
  • Sl. viku: 743
  • Frá upphafi: 106825

Annað

  • Innlit í dag: 13
  • Innlit sl. viku: 534
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband