Færsluflokkur: Bloggar
24.11.2023 | 00:06
Heillar mig kannski mest Frjálslyndi flokkurinn, ljóð frá 12. maí 2007.
Þetta merkilega ljóð sýnir tíðarandann á þessum tíma. Takið sérstaklega eftir síðustu línunum, á þeim tíma stóð valið á milli Vinstri grænna og Frjálslynda flokksins oft hjá mér. Það sem hefur breyzt er að nú veit fólk að andstaðan við Nató er ekki mjög áberandi hluti af stefnu VG, til dæmis.
Fimmhundruðkallinn er vísun í formann Framsóknarflokksins á þeim tíma, Jón Sigurðsson.
"Fer kannski sólin að skína?" er ljóðræn spurning um hvort Samfylkingin fái völd, en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var formaður flokksins þá, og þetta er líkingamál í spurningu, og það gekk eftir, að Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn fóru að vinna saman og var það hrunstjórnin alræmda og fræga sem ég orti um seinna og er fræg í Íslandssögunni.
Einhverjir straumar í samfélaginu eru áberandi, eða þá Silfrið og umræður þar eða annarsstaðar, mikið var um þetta rætt og ritað.
Kanntu enn að kjósa betur?
Kannski gagnslaust sem þá?
Loksins búinn leiður vetur,
líka átök frá?
Fimmhundruðkallinn og Framsókn í tapinu?
Fer kannski sólin að skína?
Lendir svo ríkisstjórn líka í hrapinu?
Löngunin fer þá að dvína.
Nenni varla að nota rétt,
núna að kveða á, velja blett,
Er nú rétt að kjósa græna vinstrið, vernda jörð?
Veit ég það að annars verður glíman býsna hörð.
Nenni ég að kjósa karla
og konur enn eitt nú sinn?
Skárri taka við nú varla,
veiðar, svo gróðinn?
Góðærið frábæra, gleðjumst því samtaka,
gróðinn í bönkunum meiri.
Kvartar þó sífellt og kveinar þín ambaka,
komast samt álnir í fleiri.
Aldrei fá þeir vísu völd,
verður svart að ríkja kvöld.
Kannski er málið Vinstri grænir, verndum umhverfið,
verður allt þá betra, friðsamt, líka finnum grið.
Nú er hátíð fyrir fíkla
er fíla kosningaslag.
Þar er mikil söfnun sýkla
er syngja framboðsbrag.
Magga þá yfirgaf, megraði skrokkurinn,
mjög þeirra samskipti í gráu.
Heillar mig kannski mest Frjálslyndi flokkurinn,
fiskveiðar handa þeim smáu.
Íslandshreyfing? Ágætt spil?
aðeins gremja og valdafyl?
Frekar kýs ég Vinstri græna er vernda umhverfið,
veit að þeir svo hata Nató, elska stöðugt frið.
Ambaka: Sá eða sú sem bakar eða skapar ama, leiðindi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2023 | 04:15
Hversvegna eiga sumir erfitt með að skilja það að þjóðerniskennd er alvöru pólitík sem fólk vill og er pólitík framtíðarinnar og allra tíma?
Það er hægt að deila um það þartil menn bilast hvort Frelsisflokkur Wilders sé öfgaflokkur eða ekki. Menn geta líka spurt sig að ástæðunum fyrir feikilegu fylgi svona ágætra flokka. Sú kenning er að minnsta kosti mjög trúleg sem skýring að ástæðan fyrir glimrandi góðu fylgi "hægriöfgaflokka" (sem kannski eru bara hefðbundnir miðjuflokkar eða íhaldssamir frjálshyggjuflokkar, eða flokkar með kristileg gildi eins og sumir segja) að lélegt ástand vinstriflokkanna og miðjuflokkanna sé um að kenna, því það fólk er allt fallið ofaní Woke sturlun og móðursýki af einhverju tagi.
Af þessu má ennfremur sjá að sú vinsældarbylgja sem gerði Donald Trump að forseta, sem á yfirborðinu gæti líkzt einræðisherra, en er í raun vinalegur teiknimyndafígúrumaður eða ofurhetja úr myndasöguheiminum og notar þesskonar óheflað orðfæri, en er óspilltari en margir aðrir, hún er ekki duttlungur eða tilviljun heldur til marks um að pólitíkin á Vesturlöndum sé endanlega komin út í skurð og almenningur kalli eftir nýjungum og endurnýjun af þessu tagi.
Embættismenn sem hafa lært Davoslexíuna uppá 10 hafa verið að auka völd sín og áhrif á kostnað annarra. Eða með öðrum orðum: Ríkisbáknið blæs út og gleypir frjálsan rekstur, og reglugerðafargan sem er Fjandanum einum til fagnaðar blómstrar einsog rotnunarsveppur á þjóðfélögunum. Evrópusambandið breytist úr viðskiptaveldi yfir í Dýrabæ Orwells, með kommúnískan svip, sem gekk úr sér í Sovétríkjunum, hvers draugur ævinlega rís upp að nýju undir öðrum merkjum.
Úr því að Frelsisflokkurinn í Hollandi er björgunarleið fólks útúr ruglinu, hversvegna er ekki íslenzkur almenningur að kjósa Frelsisflokkinn okkar eða Íslenzku þjóðfylkinguna, svipaða flokka?
Eða erum við enn 20 árum á eftir meginlandi Evrópu? Munu þessir flokkar verða jafn stórir og Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn eftir 20 ár? Hvenær getur sumt fólk skilið að boðskapur svona flokka er sannleikurinn sem nýtur æ meiri vinsælda þegar á bjátar? Ekki vegna þess að um sé að ræða einfalt lýðskrum sem virkar vel í fólk, heldur vegna þess að boðskapur þeirra er sannleikurinn og annað en alvöru lýðskrumið í hinum flokkunum, loforðin um himnaríki á jörð, sem komi bara með því að trúa Satan og femínistum, með því að brjóta gegn hefðum, siðum og trúarritum eins og Biblíunni?
Fóstureyðingalýðskrum Katrínar Jakobsdóttur gengur út á það að trúa ekki Biblíunni að Guð refsi mannkyninu fyrir syndir. Hinir einu sönnu lýðskrumsflokkar eru Vinstri Grænir, Píratar, Samfylkingin, og jafnvel Sjálfstæðisflokkurinn, eins og hann er orðinn núna, hin nýja hækja Samfylkingarinnar og Viðreisnar.
![]() |
Frelsisflokknum spáð sigri í Hollandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.11.2023 | 17:30
Ríkisstjórnin rúin trausti þraukar, ljóð frá 14. janúar 2009.
Ýmislegt í nútímanum er farið að minna á Búsáhaldabyltinguna, eins og óvinsældir ríkisstjórnarinnar og versnandi kjör almennings. Því á svona ljóð enn vel við í dag sem var samið þá, lýsir ástandinu þá og margt á enn við og hefur ekki skánað, eða að sömu aðstæður eru komnar aftur, eða svipaðar.
Berja þau á potta og pönnur,
pöpull stendur hjá og sér.
Móse á þá mikla dóttur,
margt nú vill hún kenna þér
um Mammons klæki og mildu grundir.
Maður var að Austurvelli sóttur,
ljóst er nú að lýður tekur völdin.
luktir brotnar, fallnar könnur.
Almenningur þarf að greiða gjöldin,
grimmdin vex og eiginhyggjan, stöðugt minnkar þróttur.
Þú sem firrtur starfi stundir,
stríð er hafið landi þessu á, hvert varla fer.
Varð mér ljóst þá vissi um nöfnin:
Vinstraliðið sá um allt.
Ætla sér í einkastöður,
öðrum býðst því geðið kalt.
Sama öl í öðrum fötum,
angursfullar nálgast sviðið vöður.
Ríkisstjórnin rúin trausti þraukar,
raunir hennar fara á söfnin...
Auðsþræll samt við iðju gamla baukar,
aflandsfélög, tæmdir bankar, gróðahyggjulöður.
Ertu að hjálpa unga á götum?
Alveg tært að lán er stöðugt fráleitt, valt.
Ekki kappa eigum gamla,
aðeins lið er rænir fé.
Lýðskrum víða og lygaþvæla,
löngum ref á stjákli sé.
Eftir ránið annað svipað?
aðeins leyfa rétta sviðsins stæla.
Þó í anda mót því stöðugt mæli,
masið kann þó starfi að hamla.
Enn við hægriöfga mína gæli,
upp gefst þjóðin, hættir vafstri, þarf að kveina, skæla.
Niður þetta hef ég hripað,
hörmung, myrkur, varla læt hið rétta í té.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2023 | 01:53
Ópíumstríðin í fortíðinni og OxyContinfjöldamorðin í nútímanum
Fjölmargir Kínverjar létust vegna ofneyzlu ópíums á 19. öldinni og græddu Bretar á þessum varningi. Yfirvöld í Kína reyndu að stöðva ófögnuðinn. Kom þetta af stað viðskiptastyrjöldum.
Núna á tuttugustu og fyrstu öldinni hefur þetta snúizt við. Fjölmörg dauðsföll meðal fólks á bezta aldri verða í Bandaríkjunum og víðar á Vesturlöndum vegna OxyContins, en flest framleiða Kínverjar nú til dags og það meðal annars. Saka því Bandaríkjamenn Kínverja um að slátra ungviðinu þannig með ópíóðafaraldrinum mikla sem fer eins og drepsóttarfaraldur yfir hinn vestræna heim. Hundruð þúsunda deyja í Bandaríkjunum árlega vegna þessa og á bezta aldri. Talandi um að lyfjafyrirtækin hafi komið af stað Covid-19 og séu því sek um fjöldamorð, lyfjafyrirtækin eru svo sannarlega ekki síður sek í þessu efni.
Sagan á það til að endurtaka sig, með breyttum gerendum og þolendum. Nútímafólk verður að gera sér grein fyrir því að sagan endurtekur sig alls ekki alltaf nákvæmlega eins. Nýir hópar verða ofsóttir og eiga á hættu að deyja út. Það er hinn vestræni maður sem er nú í útrýmingarhættu, en ekki fyrrverandi þriðjaheimsríki og einstaklingar innan þeirra, og það er staðreynd mælanleg samkvæmt mörgum mælikvörðum.
Munu Bandaríkin hefja stríð sambærileg við ópíumstríðin vegna þessa? Þetta eykur spennu í samskiptum ríkjanna, víst er það.
Með réttu ætti OxyContin að vera harðbannað nema á sjúkrahúsum undir eftirliti, og reglugerðir ættu að vera löngu komnar fram um það.
Sorgleg dæmi frá Íslandi styðja þetta líka.
Að framleiða og dreifa fíkniefnum sem drepa í stórum stíl jafngildir fjöldamorðum úr því að útkoman er á þá leið.
Það er svo skrýtið hvað yfirvöld landsins eru sljó og lengi að fatta hvað ógnar mest fólki.
![]() |
Kínverjar fordæma ummæli Bidens |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það sem er nýtt við atburðina síðustu 2 árin er að nýtt tímabil virkni er hafið eins og sérfræðingar segja. Atburðirnir eru fleiri og stærri. Þótt húsin í Grindavík hafi nokkurnveginn staðizt þetta, það er að segja ekki hrunið til grunna eins og gerist erlendis, þá verður að miða við að þetta voru ekki stórir skjálftar í Grindavík miðað við það, ekki uppá 6 eða 7 á Richter, eins og við fréttum um frá útlöndum, og þó geta slíkir skjálftar orðið á Íslandi úr því að það gerðist áður. Við getum verið pottþétt viss um að slíkir risaskjálftar eiga eftir að koma úr því að þetta nýja 200 ára virknitímabil er hafið. Við vitum ekki hvar og við vitum ekki hvenær.
Bláfjallasvæðið er eitt mesta áhyggjuefnið. Þar geta orðið stórir skjálftar þar sem jörðin er þykk, upp á 6.5 eða meira, og það er nálægt Reykjavík þar sem flestir landsmenn eru.
Síðan má alveg búast við stærri eldgosum en þeim sem komið hafa síðustu 2 árin. Undanfarar stórra gosa eru einatt snarpir skjálftar líka.
Þrátt fyrir að húsin séu góð á Íslandi er nálægðin mikil við eldsupptök og skjálftamiðjur og það kann ekki góðri lukku að stýra.
Atburðirnir í Grindavík hafa haft áhrif á mig eins og aðra. Ég fór á tónleika með vini mínum í Grindavík fyrir fáeinum árum með góðri söngkonu, og þegar ég var 11 ára voru barnaafmæli, því fráskilið foreldri átti þar heima, innan ættarinnar.
Það sem er sjokkerandi er hvað þetta breyttist á skömmum tíma úr stað þar sem allt var í vanagangi yfir í hamfarasvæði sem taldist ótryggt. Einnig dáist maður að þjóðinni og samstöðunni á svona tímum, sem er mikilvæg.
![]() |
1.600 skjálftar og ekki dregur úr virkninni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2023 | 17:02
Er getur tíu stykki, ljóð frá 17. september 2018.
Í þessu ljóði kemur fram víða viðtengingarhátturinn, sem lýsir möguleikum, "hvað ef", sem er undirstaða æðri menningar en ekki þrælamenningar.
Þegar saman koma eins og einhver býður,
ekki þó með sniði er getur tíu stykki.
Tíminn þar við mas og meginegó líður,
manndómsviljinn gríðar þó til stúlku hrykki.
Ef hún bara ein hér sæti,
eitthvað segði gæti ég frekar reynt...
Hér ei margir líða læti,
lægjum við þó... fengjum sælu greint...
Okkar tími er bann og böl með réttu,
börnin sitja eftir föl með grettu.
Uppá þínar ermar loksins brettu,
óljóst nú er hvað sú hefur meint.
Nú má segja að barinn dragi dætur hægar,
dettur mér í hug að reyna? - Bíð svo hljóður...
Gagnslaust... sitja oft þær öðrum með svo nægar...
aðeins var mjög kyrr og þægur, jafnvel góður.
Höllin ekki er mín að morgni,
myndi skvísan hrósa öllu þar?
Oft er líf í einu korni
aðeins þar sem finnst hið rétta svar.
Sumir kunna að reyna og snerta rjóðir,
rétta hendur, káfa, varla fróðir.
Seg mér hverjir sýnast alveg góðir?
í sálum oft er spurn ef rétt ei bar...
Haustið, laufin... finnst mér eins og fýsnin minnki,
fjasið þreytir, samt er skvísan málið núna.
Ekki finnst mér betra þókt hún smettið sminnki,
smaragðsglitið ljómar hvort sem er við brúna.
Nálægt mér í aldri er hún,
ætti ég að þykjast lofa snót?
Aðeins vinur, andlit ber hún
yndisfrítt, nei mér ei þykir ljót.
Telur mig samt bara vin í vindi,
vandinn þar, í leit að meira yndi.
Ef ég bara orðin réttu fyndi
ætti að koma restsins skapablót.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2023 | 19:12
Viðtengingarhátturinn
Maður veltir því fyrir sér hvað valdi því að til er ungt fólk sem notar kerfisbundið ekki viðtengingarháttinn, eins og það vilji eyðileggja íslenzkuna viljandi. Kom þetta fram þegar Sigríður Hagalín frænka mín kynnti sína nýjustu bók og lætur eina persónuna tala þannig, sem er ung að árum.
Hér er um tízkufyrirbæri að ræða, en ekki vantkunnáttu - nema í sumum tilfellum kannski, því villurnar smitast á milli einstaklinga og skorturinn á máltilfinningunni sem þarna er á ferðinni. Hvorki foreldrar né skólar ráða við þetta (í tilfellum þeirra sem temja sér þetta mállýti viljandi að því er virðist), enda kannski ekki reynt að ráði ef brotaviljinn er mikill eða þekkingarleysið. (Brotavilji að brjóta málreglur viljandi?) Metnaðarleysi eða dugleysi, eða hvað er um að ræða?
Hægt er að spyrna við fótum og kenna þetta rétt, en þá verður að vera meðvitað átak um það. Eða er þetta einskonar unglingaveiki kannski, til að sýna "feðraveldinu" andstöðu á þennan hátt?
Sérstaklega er talið að viðtengingarháttur þátíðar sé orðinn lítið notaður. Kappsmál á RÚV í umsjá Bjargar og Braga vekur athygli á þessu, þar sem þessi þraut er höfð síðust og því talin einna erfiðust. Þetta er þó spurning um þjálfun og notkun eins og svo margt.
Mjög fallegt og kurteislegt gamalt mál er nú orðið sjaldgæft og heyrist varla, "mætti ég"... "gæti ég"... "kynni þetta að ganga"..."ef það hentaði yður"... en viðtengingarháttur þátíðar tengist þarna samskiptum sem þekktust áður fyrr en fer lítið fyrir núna. Að kunna skil á þessu getur þó verið gott í bókmenntum og sýnt stéttamun eða eitthvað annað sem rithöfundar vilja gera.
Aðrar þjóðir sem misstu föll og beygingar hafa sennilega fyrst misst viðtengingarhátt og aðra hætti. Til dæmis á það við um Englendinga, Bandaríkjamenn og Dani. Við megum vera heppin að hingað hefur komið fólk frá Póllandi og öðrum austurevrópskum löndum, því af þeim getum við lært. Þarna eru á ferðinni jafnvel enn meiri málfallaþjóðir en við, þar sem föll geta verið 6 eða fleiri. Hvernig yrði íslenzkan með staðarfalli og tækisfalli til dæmis?
Undrast ég á því að ekki séu sýndir pólskukennsluþættir í sjónvarpinu fyrir norræna Íslendinga, eða þá fleiri orðabækur en fyrir algengustu málin.
Í einhverju sinnir RÚV skyldum sínum eins og að benda á þetta með viðtengingarháttinn og skortinn á honum stundum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.11.2023 | 16:58
David Cameron skýzt aftur upp á frægðarhimin skrumlýðræðisins
Ráðherraval er eins og úrslit úr fegurðarsamkeppnum stundum eða vinsældarkosningum Rásar 2. Frægir ráðherrar fá frekar embætti en þeir ófrægu. Þannig skýzt David Cameron aftur uppá stjörnuhimin brezkra popparapólitíkusa.
Rétt eins og gestirnir hjá Gísla Marteini eru föst stærð.
![]() |
David Cameron skipaður utanríkisráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.11.2023 | 06:42
Úkraínustríðið er að verða óvinsælla, eins og Víetnamstríðið fyrir margt löngu síðan
Ég er farinn að fá meira álit á DV en áður, þar koma stundum ágætar greinar. Þar er grein sem fjallar um að Úkraína stefnir í rosalega fjármálakreppu sem mun draga Evrópu alla niður fjárhagslega að því er talið er. Selenskí bannar kosningar fyrr en hann er búinn að vinna!! Talandi um einræðistilburði Pútíns, þeir virðast svipaðir um margt.
Úkraína virðist fullkomlega gjaldþrota og Bandaríki Joe Bidens líka, en það vita það flestir. Það er svo stórkostleg breyting að ekki er lengur 100% stuðningur við Selenskí í DV og 100% andúð á Pútín, heldur er þessu skipt til helminga, og þar eru lýðræðislegar umræður og jafnar, í athugasemdakerfinu. Það bendir til þess að sístærri hluti Íslendinga telji spillingu Biden stjórnarinnar og Selenskís vandamál og að í Úkraínu sé bandarísk leppstjórn, eins og virðist raunin. Það kann einnig að vera ástæðan fyrir því að Selenskí vill ekki kosningar. Ég sakna pistla Gunnars Rögnvaldssonar um þetta hér á blogginu, þeir voru framúrskarandi og á undan sinni samtíð.
Úkraína þarf 43 milljarða hernaðaraðstoð á næsta ári, kemur fram í greininni. Vaxandi óvissa er um hernaðarstuðning frá USA og ESB, sem hafa verið helztu stuðningsaðilar stríðsreksturins (vörninni gegn Rússum).
Athugasemdir eru ekki síður upplýsandi en greinin sjálf. Þar kemur fram að úkraínskir óligarkar og Selenskí sjálfur hafa grætt á þessu. Kannski sprengdu Úkraínumenn Nordstream gasleiðsluna eins og einn kemur inná. Washington Post heldur því fram.
Igor Kolomoisky (stuðningsmaður Selenskis) er ákærður fyrir peningaþvætti uppá tugi milljarða dollara, þetta styðja ráðherrar Íslands en þó sérstaklega Davosdúkkulísur eins og Þórdís Kolbrún.
Önnur frétt segir frá því að rússneskir og úkraínskir hermenn eru uppdópaðir af amfetamíni og oft drukknir að auki, jafnvel uppfullir af lyfjum sem gerir þá að drápsvélum, ónæma fyrir sársauka, skynsemi og tilfinningum.
Ísland er partur af NATO og UN, (Sameinuðu þjóðunum), og þessi bandalög sem eitt sinn voru kennd við frið eru nú hluti af svona hrikalegri styrjöld þarsem skelfilegt mannfall hefur orðið í báðum liðunum og sér ekki fyrir endann á því mannfalli enn. Þetta styðja okkar stjórnvöld líka og loka augum og eyrum.
Almenningur á Íslandi er farinn að vakna sem merkir að það er að gerast út um allan heim. Einhliða áróður stærstu fréttaveitanna er hættur að virka eins vel og hann gerði. Fólk er farið að sjá að þessu stríði var komið af stað með því að þrýsta á Rússa og með leppstjórninni.
"Úkraína stefnir í nýja og erfiða krísu sem getur haft áhrif á alla Evrópubúa" heitir fréttin sem fjallar um svakalegt fjárlagagatið í ríkissjóði Úkraínu sem blasir við.
Sú athugasemd undir fréttinni sem hefur fengið hvað flesta þumla er að Selenskí sjálfur kunni að vera aflögufær, sem mjög spilltur maður sem hefur grætt á þessu. Sennilega mun þó alls ekki koma til þess.
Aftur minnir þessi frétt á vaxandi efnahagsvanda í hinum vestræna heimi, sem sízt hefur batnað eftir Úkraínustríðið. Gamla máltækið má ekki gleymast: Sjaldan veldur einn þá tveir deila. Jafnvel þótt Pútín hafi ráðizt inní Úkraínu og það hafi virzt sem innrásarstríð og gamaldags landvinningastríð eru fleiri hliðar á því máli, einsog rússneskt þjóðarstolt og andúð á Vesturlöndum, nokkuð sem efnahagsþvinganir hafa espað enn meira upp hjá Rússum, og því ekki hægt að firra ráðamenn í okkar heimshluta ábyrgðinni af því.
Varla er almenningur á Vesturlöndum svo ófróður að vita ekki að ráðamenn þjóðanna eru ekki valdir að versnandi lífskjörum vegna þessa stríðsástands og samábyrgð á því.
Byltingar hafa verið veikar og látið á sér standa á Vesturlöndum gegn ráðamönnum, en það er vegna þess að almenningur hefur verið fylltur af ranghugmyndum og bulli í áraraðir. Smám saman er það að breytast.
Gunnar Rögvaldsson og fleiri höfðu rétt fyrir sér, þetta stríð var hið mesta feigðarflan og gat ekki endað vel.
Ennþá er ekki byrjað að ræða um frið af alvöru og að gera samninga þar sem Úkraína þurfi að láta eftir.
Á DV má finna merkilega pistla og upplýsandi, eins og þennan.
![]() |
Dæmdur morðingi náðaður af Pútín |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.11.2023 | 16:05
Breytingarnar á viðhorfum, náttúruhamfarir og hryllingsmyndir
Ég var að lesa pistil í gær eftir Pál Vilhjálmsson, og þá rifjaðist upp gamalt samtal sem ég átti við ömmu mína um svona málefni, og nafna hans, tónlistarmanninn Pál Óskar.
Ég held að einn maður hafi gert meira fyrir hinseginfólk en flestir aðrir á Íslandi, og það er Páll Óskar, tónlistarmaðurinn frægi og diskómeistarinn. Ég man eftir því að áður en hann varð vinsæll var ástandið allt öðruvísi.
Nafni hans Páll Vilhjálmsson bloggari og kennari er alveg á hinum enda skoðanarófsins og mjög andvígur slíku. Margt hér á blogginu sem skrifað er um þessi mál minnir mig á það sem ömmurnar mínar kenndu mér um þetta. Önnur talaði um þetta á bakvið lokaðar dyr við gesti í lágum hljóðum svo við börnin heyrðum ekki (en þá lá maður á hleri og reyndi að heyra hvert orð því það var svo spennandi að heyra það sem var bannað að heyra) og smituðumst ekki af syndsamlegu líferni eða hugarfari, eins og syndin væri smitandi og bærist með púkum, og hin kallaði þetta sódómsku við mig.
Amma mín í föðurættinni sagði að í sínu ungdæmi hefði þetta verið kallað sódómska. Hún kaus Alþýðuflokkinn en sannkristin manneskja ekki síður en fólk sem kaus Sjálfstæðisflokkinn, "íhaldið" sem hún gagnrýndi mikið.
Amma Fanney bjó í eigin íbúð nokkur síðustu árin og þangað heimsótti maður hana nokkuð oft á tímabili. Svo fékk hún alzheimer og lézt nokkrum árum síðar.
Eitt sinn þegar ég heimsótti hana árið 1996 hafði biskupsmálið verið í hámæli, út af Ólafi Skúlasyni biskup, og ég man mjög vel eftir þeirri heimsókn og hvað hún sagði við mig.
Hún stóð 100% með Ólafi biskup eins og held ég allir af gömlu kynslóðinni. Hún talaði um "Ólaf sinn", og blessaðan saklausan manninn sem væri ofsóttur af geðveikum kvendum, og að þær væru bara að reyna að fá athygli konurnar sem ásökuðu hann.
Segja má að ég hafi ýmislegt lært um það hversu kynslóðabilið getur verið djúpt af svona heimsóknum og samtölum við þessa ömmu mína og fleiri af hennar kynslóð.
Hún dýrkaði Jón Baldvin, en var lítt hrifin af kvenréttindakonum innan stjórnmálaflokkanna.
Hún hafði miklar áhyggjur af mér því ég var síðhærður og spurði mig hvort ég væri nokkuð kominn útí sódómsku en ég neitaði því. Síðan hneykslaðist hún mikið á vinsældum Páls Óskars Hjálmtýssonar og sagðist ekkert skilja í því að unga fólkið væri að hlusta á hann, hann væri sódómskur, og í orðunum lá að hún bjóst við að Grillarinn næði í hann og alla sem létu mengast af honum og slíku.
Hún spurði mig hvort ég héldi upp á Pál Óskar eins og margt ungt fólk, en ég neitaði því líka, og sagði að hann væri ekkert sérlega fyrir minn smekk, ég vildi frekar Bob Dylan, rokk og slíkt, og þá andvarpaði hún af létti.
Ég sagði þó að mér fyndist gott það sem hann hefði gert með Milljónamæringunum, og að mér fyndist hann góður söngvari, vissulega. Þá spurði ég hana hvort henni fyndist hann ekki syngja vel. Hún neitaði því og fannst hann tilgerðarlegur og smeðjulegur og ekki sér að skapi. Hún kunni betur við karlmannlega söngvara eins og áður tíðkuðust.
Þegar þessar sprungur mynduðust í Grindavík sá ég fyrir mér hryllingsmyndir þar sem rauðir púkar skríða uppúr sprungunum, með horn, hala og klaufir og þríforka, tilbúnir að grípa okkur fólkið og draga niður í Helju með sér til að kvelja enn frekar. Slíkar hryllingsmyndir eru algengar og byggðar á kristnum minnum og allir hafa horft á slíkar bíómyndir, eða svipaðar. Hægt er að ímynda sér að gos og jarðskjálftar séu refsingar fyrir syndina í mannheimum, en allt á þetta sér jarðfræðilegar orsakir og skýringar. Eða skyldu þær vera fleiri?
Lifir ekki trúin kristna jafn vel í vitund okkar eins og trúin á náttúruvísindamennina og þeirra speki? Náttúruhamfarir rifja upp gamla alþýðuspeki og hjátrú, og það sem fólk fjasaði um en var ekki endilega í Biblíunni allt.
![]() |
Blæs á orðróm um kynlíf með mótleikara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Nýjustu færslur
- Góðar hryllingsmyndir vísa í margar áttir og snúast ekki endi...
- Þegar konur stjórna, þá er móðursýki og klikkun afleiðingin
- Aðeins kærleiksrík vera gat keppt við Krist um vinsældir, ekk...
- Ástandið á Gasa sem ekki er bara Hamas að kenna er undirrót s...
- Svaraverðir menn, þeir sem styðja lífstefnu en ekki helstefnu
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.10.): 56
- Sl. sólarhring: 105
- Sl. viku: 704
- Frá upphafi: 160110
Annað
- Innlit í dag: 39
- Innlit sl. viku: 504
- Gestir í dag: 38
- IP-tölur í dag: 38
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar