Bloggfærslur mánaðarins, desember 2020

Hljóðlegir skelfingaratburðir stórborganna

Drengurinn var látinn hætta í skóla 12 ára gamall, það segir sitt. Er nú athygli Svía loksins farin að beinast að þeirra innfæddu landsmönnum? Mæður beita yfirleitt andlegu ofbeldi, og í svona tilfellum hlýtur það að vera algengt. Samt gæti verið um annan sökudólg að ræða, það á eftir að koma í ljós. Eða koma enn undarlegri skýringar í ljós á þessu?

 

Allur okkar samtími æpir á okkur þess efnis að fólk sé andsetið. Að vilja láta pynta sig er eitthvað undarlegt. Já, eins og Guðjón Hreinberg hefur skrifað um gerast undarlegir hlutir í okkar samtíma.


mbl.is Móðirin laus úr haldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógleymanleg íslenzk jólalög, menningarverðmæti.

Þegar ég ólst upp á Álfhólsvegi 145 hjá mömmu og stjúppabba frá 5-10 aldurs var plötuspilarinn á heimilinu í miklu uppáhaldi hjá mér. Plötuspilarar og græjur voru mikil galdratæki í mínum augum á þeim árum enda hafði ég alltaf mikinn áhuga á tónlist.

 

Vissulega var til sjónvarp og útvarp á heimilinu, en ég hafði unun af tónlist. Mamma hafði unnið í hljómplötuverzlun Sigríðar Helgardóttir í Vesturveri (Neðsta hæð Moggahallarinnar í Aðalstræti) þegar ég var 3 ára og keypt helling af hljómplötum, og svo auðvitað áður og eftir það líka.

 

Það var ákveðin rútína hvaða jólaplötur voru spilaðar og í hvaða röð. Gáttaþefsplöturnar hans Ómars Ragnarssonar voru fyrir okkur krakkana ásamt Halla og Ladda þar sem þeir gera grín að ýmsum jólalögum og Glámur og Skrámur eru í aðalhlutverki. Þessar plötur voru gjarnan spilaðar talsvert fyrir jólin. Svo þegar aðfangadagur kom voru spilaðir sálmar, jólaplatan með Ellý og Vilhjálmi og jólaplata Silfurkórsins ásamt erlendum plötum. Svo var auðvitað útvarpið alltaf í gang með jólalögunum þar.

 

Ég man ekki eftir að hafa farið á jólaskemmtun þar sem Ómar var í hlutverki jólasveinsins Gáttaþefs, og kannski hefur hann verið hættur því á þeim tíma, tíu árum eftir útkomu platnanna eða svo, en ég man eftir Ragnari Bjarnasyni á Hótel Sögu og einhverjum barnaskemmtunum þar sem ég var á.

 

Mamma átti engar plötur með Bob Dylani eða Megasi á mínu æskuheimili, og sennilega hafa þeir alltaf verið utangarðsmenn á mörgum heimilum, annaðhvort í uppáhaldi miklu uppáhaldi eða alls ekki.

 

Það var ekki fyrr en með pönkbylgjunni sem ég kynntist þeirra tónlist. Það hefur verið 1980 eða 1981, þá var einn strákur í bekknum mínum með nýútkomna hljómplötu, "Geislavirkir" með Utangarðsmönnum, og var hún látin ganga milli krakkanna eins og einhver dýrgripur eða furðuverk, því eldri bróðir hans hélt mikið upp á þessa hljómsveit og var pönkari. Ég vissi ekki hvað pönkarar voru þá, en seinna komst ég að því að þeir væru þessir unglingar sem maður var hálfsmeykur við á Hlemmi, í hergráum jökkum með stríðsklippingu og nælur hér og þar.

 

Umsjónarkennarinn okkar í íslenzku, hann Skafti Þ. Halldórsson sagði þessa setningu sem vakti áhuga minn á Megasi og Bob Dylan. Hann sagði að ef við hefðum áhuga á Bubba Morthens ættum við að hlusta á Megas, sem hefði kennt honum allt, og ef við hefðum áhuga á Megasi ættum við að hlusta á Bob Dylan, sem hefði kennt honum allt.

 

Það var mikil opinberun að kynnast kommúnisma og umhverfisvernd á þessum árum, og mótmælasöngvum þessara meistara. Á mínu íhaldsheimili var svona tónlist ekki vel séð, sem gerði hana enn meira spennandi fyrir mig.

 

Þannig að tveir bloggarar hérna voru í miklu uppáhaldi hjá mér í æsku, Ómar Ragnarsson og Jens Guð(mundsson), því Poppbókin eftir hann sem kom út 1983 var mér ákveðin biblía í að kynnast betur íslenzkri tónlist. Þá var ég líka farinn að semja sjálfur.

 

Ég var því mikið jólabarn eins og margir. Svo á ákveðnum tímapunkti fékk ég ógeð á þessu jólastandi, fannst þetta orðið endurtekning á því sama, einhver rútína sem verið væri að þröngva uppá mann. Þá var ég líka kominn á þá skoðun að maður ætti ekki að vera einsog vél sem ýtt væri á takka, að sýna ákveðnar tilfinningar við ákveðin skilyrði.

 

Samt kemst ég oft í jólaskap enn yfir jólalögunum, til dæmis. Þau vekja upp hlýjar og góðar minningar. Jólalögin hans Ómars Ragnarssonar vöktu samt sum dálítinn óhug hjá mér þegar ég var barn, sérstaklega kvæðin eftir Þorstein Ö. Stephensen. Það var kannski vegna þess að fullorðna fólkið sagði oft ýktar sögur til að skelfa okkur krakkana um tröllin í fjöllunum. Þessar einföldu sögur sem Ómar söng um á Gáttaþefsplötunum vöktu upp spurningar í barnssálinni hjá manni. Maður vildi vita meira um þessa skrýtnu karaktera sem voru jólasveinarnir.

 

Jólasyrpan með Glámi og Skrámi var samt í enn meira uppáhaldi hjá mér þegar ég var 9 ára eða svo, örfáum árum seinna. Það var vegna þess að þá var ég farinn að verða fyrir áhrifum frá jafnöldrum mínum í einhverskonar uppreisnarhug, og Jólasyrpan með Glámi og Skrámi er í aðra röndina uppskrúfað háð gagnvart allri jólamenningunni, og það fannst 9 ára krakkanum svo töff í þá daga. Enda voru Halli og Laddi, Elvis Presley og Bítlarnir í mestu uppáhaldi hjá mér áður en Bob Dylan og Megas tóku þann sess.

 

Það eru nokkrir textahöfundar á Íslandi sem ættu að gefa út textana sína í bókum, og fara að dæmi Megasar. Það eru höfundar sem ættu að fá verðskuldaða athygli sem fullkomnir rithöfundar, fyrir framlag sitt til íslenzkrar textagerðar.

 

Munum eftir því sem einhver gagnrýnandi sagði um Bubba og Megas fyrir nokkrum árum, að þeir eins og aðrir textahöfundar væru hin nýju þjóðskáld nútímans, vegna vinsælda söngtextanna. Margt til í þeirri fullyrðingu.

 

Þessa textahöfunda vil ég fá bækur eftir og allt textasafnið þeirra á bókum: Bubba Morthens, Kristján frá Djúpalæk, Jón Sigurðsson (bankamann), Þorsteinn Eggertsson, Ómar Ragnarsson, Iðunni Steinsdóttur, Jónas Friðrik. Þetta er reyndar ekki tæmandi listi, en allt þetta fólk hefur lagt drjúgan skerf til menningarinnar okkar á Íslandi, og gott væri að hafa þetta allt á prenti svo fólk sé ekki að syngja þessa texta vitlaust.


Yfirborðsmennskan sem kreppan getur orðið tilefni til að yfirvinna.

Elínrós Líndal kemst að svipaðri niðurstöðu og ég, að í ferðatakmörkunum og frelsissviptingu í kófinu gefist ágætt tækifæri til sjálfsskoðunar og að lækka kröfurnar, þetta sem austræn speki kennir svo vel, þaðan sem einmitt farsóttin kom fyrst, hvort sem það er nú tilviljun eða ekki.

 

Okkar samfélag var komið á mikinn yfirsnúning og það er engin ný speki. Um það hefur verið talað lengi á meðan lífsgæðakapphlaupið hefur gert okkur að sífellt meiri skepnum á hlaupahjólum yfirborðsmennskunnar og tízkunnar.

 

Ein setning í spurningunni frá konunni sem spyr Elínrósu er merkileg:" Það er svo sem ekkert að koma upp á annað en að ég á erfitt með að vera í lífinu mínu alltaf. Mér líður eins og ég þurfi reglulega frí frá því". (Hún á við utanlandsferðir).

 

Þarna er firringunni vel lýst, að þurfa frí frá sjálfum sér. Hvort sem menn leita í ferðalög, vinnufíkn, vímuefni, trúarbrögð, kynlíf, ást, eða eitthvað annað, þá er það ljóst að þetta kemur upp á hjá eiginlega öllum.

 

Samstilling er það orð sem ég lærði ungur, þegar ég las rit dr. Helga Pjeturss, Nýalana, þess mikla heimspekings, sem er alltof vanmetinn og lítt þekktur enn þann dag í dag, enda óvanalegt að Íslendingar eigi mikla snillinga eins og heimspekinga á heimsmælikvarða, eins og hann var.

 

Þetta orð skil ég á ýmsa lund. Ef ég ætti að útskýra það myndi ég segja að fólk sem er sammála og samhuga sé samhent og samstillt. Það á því miður ekki við um okkar þjóð, nema síður sé. Sú þjóð sem nú er í örum vexti og uppgangi er Kínverjar. Þeim verð ég að hrósa, þeir finnst mér framúrskarandi samstilltir.

 

Þessu fylgir, að til að halda slíkri samstillingu á meðan þroski manna er ekki sérlega mikill þarf mannréttindabrot, til að halda öllum á mottunni sem skyldi.

 

Jæja, ég vil ekki víkja of langt frá meginefninu. Hvernig get ég hjálpað fólki að fá þessa lífsfyllingu sem konan skrifar um í bréfi sínu?

 

Samstillingin er það sem ég vil koma á hér á landi. Það þýðir að við Íslendingar eigum að reyna að elska náungann meira og betur. Rökræður og rifrildi, ég er ekki að segja að bæla þetta niður, heldur er ég að segja að það verður að fara dýpra í málin, þora að nálgast þann sem maður er ósammála, það getur verið erfitt og sárt, en skilar sér margfalt til baka.

 

Sem dæmi vil ég nefna fólk sem maður hefur fjarlægzt eða fengið andúð á og jafnvel farið að hatast út í, til dæmis eftir skilnað eða eitthvað slíkt. Ég tel að þarna eigi orð Jesú Krists svo vel við, þegar hann talaði um að maður ætti að elska óvini sína. Ekki kannski þá óvini sem eru manni virkilega vondir, heldur þá sem maður á erfitt með að umbera vegna léttvægra hluta eins og skoðanaágreinings eða einhvers hégómlegs atriðis.

 

Hvernig er þetta hægt, að bæta líf sitt með því að sættast við sjálfan sig og aðra? Maður þarf að finna ákveðna punkta til að vinna með. Getur maður rifjað upp orð eða athafnir annarra sem hafa sært mann, eða orð og athafnir manns sjálfs sem gætu hafa sært aðra kannski? Hvort tveggja þarf að skoða í samhengi, ekki gera of mikið af einu án hins.

 

Ég myndi halda að þetta sé langt ferðalag, að auka samstillingu þjóðarinnar, en byrja á því smæsta sem stendur manni næst, en sem betur mætti fara, eins og miklir spekingar hafa ráðlagt.

 

Maður getur pirrað sig á svo mörgu, sem maður kannski getur litlu um ráðið. Mér finnst gaman að skoða gömul ljóð eftir mig, þá rifjast margt upp, hvernig fortíðin var, og maður kannski sér hlutina í nýju ljósi, hvað maður hefði getað gert betur.

 

Ég hef oft vonað að verða frægur listamaður. Það hefur bara verið grýtt braut að vera lærisveinn Megasar, Bob Dylans og Sverris Stormskers, þeir eru svo oft að koma fólki á óvart.

 

Ég vil hvetja fólk til að lesa rit dr. Helga Pjeturss, Nýalana, þau kenna fólki að sjá hlutina í nýju ljósi. Hann kom með kenningar sem sameina andlega fræði og efnisleg vísindi, að mörgu leyti.


Kínverjar leyndu upplýsingum um faraldurinn, CNN lýsir því.

Loksins kemur fram það sem samsæriskenningar hafa lengi fjallað um, að Kínverjar hafi leynt upplýsingum. Merkilegt er að spákonur á Útvarpi Sögu spáðu fyrir um þetta, og þá ábyggilega miklu fleiri.

Þetta stærsta mál nútímans mun hafa víðtækar afleiðingar, á samskipti þjóða ábyggilega ekki hvað sízt. 

 

 


mbl.is Kínversk yfirvöld vissu meira en þau gáfu upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljóð eða söngtexti frá 1985 og túlkun. Rifjar upp soda stream, ofl.

Hér kemur ljóð frá 6. desember 1985. Þann dag samdi ég fyrsta lagið sem ég flutti opinberlega, í Digranesskóla, á Litlu jólunum það ár. Þetta er að vísu ekki textinn við það lag, en annar texti frá sama degi, eða ljóð, söngtexti.

 

Það er gaman að skoða svona gamla texta. Þarna kemur fyrir orðið sódastreymi, sem hlýtur að hafa verið þýðing á soda stream, vinsælu fyrirbæri á þessum árum. Snemma hef ég fengið áhuga á góðu, íslenzku máli og þýðingum á enskuslettum.

 

 

Ástin kemur inní þetta, en ég skil ekki enn af hverju ég tala og skrifa svona mikið um móðganir þarna. Ég skil ekki ennþá fullkomlega öll þau ljóð sem ég hef skrifað. Kannski geta bókmenntafræðingar útskýrt þetta betur.

 

Orðið fótadama á sér skemmtilegar útskýringar. Ein stelpa sem vakti athygli mína gekk berfætt í skónum sínum eða alveg berfætt í skólanum. Ég orti stundum um hana.

 

Svo er þarna skrifað um sígarettur, sem þótti sjálfsagt á þeim tíma, en í dag er slíkt komið í algeran meirihluta. Þótt sjálfur hafi ég ekki orðið tóbaksnotandi var þetta svo mikið í umhverfinu að þetta fór inní kveðskapinn hjá manni, auk þess sem ég hélt mikið upp á Lukku Láka, þann forfallna keðjureykingamann, á þeim árum, teiknimyndapersónuna frægu. Síðan var hann látinn hætta reykingum og strá sett uppí munninn á honum í staðinn.

 

Ég gæti vel haft áhuga á að birta fleiri söngtexta og ljóð. Í svoleiðis verkum koma oft fyrir samtímaspeglar, lýsingar á manni sjálfum og öðrum. Skemmtilegast er að reyna að túlka eitthvað torrætt í þessu eftirá.

 

 

 

Ég er móðgaður út af þér

 

Móðgaður fer ég út úr húsi,

því ég var ekki sá fúsi

á meðan aðrir sögðu nei.

Útskýrðu viðbrögðin fyrir vindinum

sem klæðist fölu og eyddu bindunum

ef ég bið um þess konar mey.

 

Viðlag: 

 

Ég er móðgaður út af þér

því þú ert ekki ber,

alltaf nærðu að særa mig

þótt ég sé bara að næra þig.

 

Hún var fótadama í feimnu brosi

á meðan ég fæddist í lostagosi

og varð að hreyfa mig of hratt.

Hún var gleraugnapía í glasi

og ég var á borðinu eins og vasi,

og hinir fóru jafnvel á því flatt.

 

Hún var kúlulega í kúluhúsi

og ég var skemmtanastjóri í nýju djúsi

og ég vel bara þitt sódastreymi.

Fáðu þér sígarettu úr hylki handa

ef það leysir einhvern vanda,

en hún kemur alltaf úr öðrum heimi.

 

Hver hefur tíma endalaust?

Hver segir að aldrei komi haust?

Gróðursetti hann vonir og gott karma?

Skiljum við hvort annað

á meðan ekkert er bannað?

Ó þarna kemur hún alltaf tilbúin fyrir garma.

 


« Fyrri síða

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • 5
  • 4
  • 3
  • Image 004
  • Titilblað

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.4.): 20
  • Sl. sólarhring: 41
  • Sl. viku: 572
  • Frá upphafi: 141257

Annað

  • Innlit í dag: 14
  • Innlit sl. viku: 421
  • Gestir í dag: 13
  • IP-tölur í dag: 13

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Nýjustu myndböndin

Heilbrigðisráðherrann, helbrigðaráðherfan

Í hópnum finn ég hlýja barnatrú

Aldrei fellur auðmagnskerfið

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband