Hvað skapar góðmennskuna?

Kærleikur og friður er boðskapur jólanna kristnu. Hvort sá boðskapur komi frá hinum heiðna sið er ekki vitað, eins og orðið jól, sem komið er frá heiðnum tímum og heiðinni menningu, en kristnir menn vilja eigna sér þann friðarboðskap, hvað sem hæft er í því. Ritaðar heimildir skortir um það hvernig heiðnir menn héldu sín jól fyrir ríflega 1000 árum, en líklega voru það einhver blót, svallveizlur og slíkt.

Jólin eru mér dýrmæt og heilög vegna uppeldisins, bernskuminninganna, ömmu og afa, og hvernig manni var þetta kennt í æsku.

Ég hef mikið velt fyrir mér góðmennskunni. Hvað er góðmennskan? Er hún fórnfýsin og gjafmildin eða eitthvað annað? Eigingirni, peningagræðgi, óþörf neikvæðni og slíkt hlýtur að teljast til andstæðna góðmennskunnar.

En fólkið af kynslóð ömmu og afa var sérlega gott. Þar af leiðandi er hægt að draga ályktanir af þeirri staðreynd, því það er staðreynd. Kynslóðunum hefur farið aftur, og auðvitað er hægt að draga almennar ályktanir af þeirri staðreynd.

Hvernig get ég stutt slíka fullyrðingu og rökstutt, ef fólk hefur ekki slíka reynslu sjálft?

A) Náungakærleikurinn, samhjálpin. Um 1950 þótti Íslendingum sjálfsagt að bjóða ókunnu fólki að búa heima hjá sér í húsnæðishraki. Þetta er staðreynd. Þegar amma og afi leigðu á Tjarnargötunni í Reykjavík frá 1943 til 1950 voru þau oft með fólk sem fékk að gista og sofa á gólfinu, því það vantaði svo óskaplega mikið af húsnæði í Reykjavík, svo margir fluttu á mölina á skömmum tíma, og fólksfjölgunin var almennt mikil á Íslandi á þeim tíma. Síðan bættist við húsnæði fyrir hermennina. Þau fengu ekkert endilega leigupeninga frá þessu fólki, en stundum. Í einhverjum tilfellum voru það vinir og kunningjar.

Í dag er fólk orðið miklu stífara á svona hjálpsemi. Reglugerðir hindra ýmislegt líka, og að óþörfu. Í dag er það svo að þú þarft að þekkja og treysta viðkomandi til að leyfa að gista, sérstaklega til lengri tíma, eða það er reglan held ég frekar en undantekningin, öfugt við það sem áður var.

Jafnvel "góða fólkið" sem þykist halda að ótakmarkað rými sé á Íslandi og að Íslandi rúmi allan alheiminn, alla flóttamenn sem koma að utan, er stundum alls ekki tilbúið að láta alla þessa útlendinga búa heima hjá sér þegar á reynir. Það vill því koma vandanum yfir á aðra, og helzt pólitíska andstæðinga sína.

B) Áður fyrr var heiður í því að sýna dugnað og að vinna fyrir lítið kaup, til að skapa sér mannorð og sýna góða eiginleika. Það var á þeim tímum þegar atvinnuleysi var mikið á Íslandi. Þá var fólk (karlmenn aðallega) þakklátt fyrir að fá vinnu og að vinna fyrir lítið kaup, og var kurteist.

Ég er sérstaklega að vísa í Bretavinnuna í seinna stríði, og einnig vinnumenninguna í sveitunum á árum og öldum áður. Velmegunin hefur spillt þjóðinni ógurlega, og eftir því sem fólk fæddist síðar fékk það að kynnast æ meira snobbi og dekri. Því má segja að kynslóðunum hafi farið aftur vissulega.

Í dag er það orðið þannig að snobbið er orðið svo mikið að ungu kynslóðirnar vilja ekki vinna nema sum störf, láta útlendingum eftir að vinna önnur störf, eins og tildæmis verzlunarstörf og afgreiðslustörf. Hvernig uppeldi fengu þessi börn sem eru full af snobbi?

C) Áður fyrr var fólk rómantískt. Það er að segja, að það taldi það gæfu að kynnast maka eða einhverjum af hinu kyninu sem sýndi því áhuga, og bjóst ekki við að sá aðili væri fullkominn frekar en það sjálft teldist fullkomið. Meira en það, áður fyrr töldu eiginlega allir óhjákvæmilegt að giftast og eignast börn, öfugt við það sem nú tíðkast.

Mér finnst rómantíkin ákveðin tegund af góðmennsku. Það sem mér finnst felast í orðinu rómantík er fúsleiki að byrja með einhverjum af hinu kyninu og stofna til ástarsambands og telja það eðlilegt. Það bætir lífið, jafnvel þótt illa gangi og skilnaður verði ofaná eða sambúðarslit. Þroskandi er slíkt og nauðsynlegt. Ég tel að þar sem rómantíkin er dauð þar sé kaldlyndi og óhamingja, skortur á trausti og þessari tegund af góðmennsku.

Allskyns fræðingar stía kynjunum í sundur á okkar tímum með djöfullegum hætti. "Þú ert nóg", er ein mantran, maður á að elska sjálfan sig og það er talið nægilegt, sjálfselskan er upphafin, ekki að elska Guð og náungann eða neitt slíkt.

Hinseginleikinn er AFLEIÐING af þessari ómenningu og kaldlyndi, en ekki orsök.

D) "Sælir eru fátækir", er setning sem kemur úr Biblíunni og frá Kristi, þótt hún sé öðruvísi þar, "í anda" er þar að auki.

Allavega þá var þessi setning mikið notuð af fólki fyrr á öldum enda voru þá eiginlega allir Íslendingar fátækir. Nægjusemi er það orð sem lýsir túlkuninni á þessari frægu setningu Krists og Biblíunnar.

Á jólunum rifjast þetta upp og verður dýrmætt að nýju. Nægjusemin er góð til að fólk geti sett sér hófleg markmið.

En hvernig er þetta í nútímanum? Nægjusemin er alls ekki áberandi. Gildismatið snýst um veraldlega stöðu, mannvirðingu, félagslegt vald, nýjustu snjalltölvuna, snjallsímann, góða menntun, utanlandsferðir, spengilegan vöxt, brúnkutan og margt fleira sem tilheyrir tízkunni og Mammoni en ekki lífsgildum sem teljast sígild og góð.

Enn og aftur, fólki hefur farið aftur, miðað við boðskap sem margir telja ódauðlegan og sígildan, hinn eina rétta.

E) Að fórna sér fyrir aðra, fórnfýsi. Að viðurkenna að frelsarinn fæddist í fjárhúsi en ekki í höll, og þó gengur kristnin útá að tigna hann og viðurkenna sem meistara, kennara í lífsgildum og góðum siðum.

Jesús Kristur dó ofsóttur á krossi, og þó reis hann upp aftur og varð dýrkaður sem frelsari af fjölmörgum. Boðskapur þeirrar sögu er dýrmætur og gullvægur.

Jesús Kristur fórnaði sér fyrir okkur. (Ef við trúum sögunni um hann að minnsta kosti).

Þetta gefur fagurt eftirdæmi og leiðsögn í líferni. Þetta kennir manni að fólk sem er fátækt, ofsótt, illa til fara eða á annan hátt útskúfað í samfélaginu getur kennt manni eitthvað eða hjálpað, boðið uppá eitthvað sem samfélagið vantar, eða sem okkur vantar, einstaklingana.

Þetta var boðskapur sem gegnsýrði líf fyrri kynslóða. Hvernig er þetta í dag? Flestir af "góða fólkinu" skella skollaeyrum við þessu, og segja að trúarbrögðin séu mesti skaðvaldur mannkynssögunnar jafnvel. Þeirra góðmennska felst oft í því að vilja opna landamærin en taka svo enga ábyrgð á afleiðingunum af því.

Gömlu kynslóðirnar skildu orðið náungi rétt, sem sagt að hjálpa ekki bara þeim sem búa í öðrum löndum, heldur samlöndum sínum, þar sem neyðin er sjáanleg og áþreifanleg.

F) Að fyrirgefa. Þetta er eitt grunnatriði kristindómsins raunar, en hefur fallið í skuggann eins og svo margt, í okkar nútíma sem snýst um vinstristefnuinnrætingu.

Þetta þýðir til dæmis að fyrirgefa kynferðisafbrotamönnum hvort sem þeir brjóta gegn konum, börnum eða körlum. Þetta skildu fyrri kynslóðir. Auðvelt er fyrir femínista að kalla gamla fólkið meðvirkt, en sú afstaða er líka fullkomlega laus við fyrirgefninguna og vill ekkert með hana hafa, nema ef hún er til bóta fyrir fórnarlambið, þolandann, ekki gerandann.

Að fyrirgefa felst einnig í því að fyrirgefa makanum og fjölskyldumeðlimum, börnum, foreldrum eða öðrum. Sá sem kann að fyrirgefa og iðkar það og stundar af heilu hjarta bætir samskipti sín við aðra að miklum mun.

Konum er þvert á móti kennt það nú til dags að fyrirgefa alls ekki kærustum sínum eða eiginmönnum eða elskhugum eða viðreynendum, að þeir séu óalandi og óferjandi ef þeir eru ekki fullkomnir.

Því má segja það með sanni, að femínistar hafa skapað helvíti á jörð, bæði fyrir konur og karla, með því að ala á tortryggni og fullkomnunaráráttu sem engin innistæða er fyrir.

Við bætum sjaldnast aðra, og sízt með hatri og fordæmingu, útskúfun eða slaufun. Við bætum einstaka sinnum okkur sjálf eða slípum örlítið til í mesta lagi, en erum samt oftast sömu gallagripirnir til æviloka, eins og aðrir.

Við erum dæmd til einsemdar ef við fyrirgefum ekki okkur sjálfum og öðrum. Femínistar eru úti á túni.

G) Að fara framhjá reglunum en brjóta þær helzt ekki, vita af þeim. "Nýtt lögmál gef ég yður" sagði Kristur, að elska aðeins Guð og náungann. Þó sagði hann að Lögmálið félli ekki úr gildi á meðan himinn og jörð stæðu uppi.

Margir marxistar og aðrir vinstrifasistar og jafnaðarfasistar eru duglegir að fordæma fyrri kynslóðir, þar var allt svo ófullkomið og frumstætt, fólk fór ekki eftir reglum, spilling, frændhygli, nepótismi, þjóðremba, karlremba, mafíustarfsemi...

Þegar betur er að gáð er ESB fullt af einhverskonar spillingu, og demókratar í Bandaríkjunum, og þannig mætti lengi telja.

Í gamla daga bar fólk raunverulega ábyrgð og notaði dómgreind sína, og góðmennsku, og fólk í valdastöðum var umdeilt og fékk aðhald frá almenningi. Þegar frændhygli og karlremba voru ríkjandi var krafizt þess af valdamönnum að þeir væru kærleiksríkir, sem þeir reyndu að gera, þrátt fyrir léleg laun almennings og bág kjör flestra. Það var almenningur sem stjórnaði meiru en nú, og dæmdi pólitíkusa úr leik í næstu kosningum. Nú gerist það ekki lengur, því stjórnmálaelítan er orðin klókari og farin að leika sama leik og Loðvík 14, "Ríkið, það er ég!". Stjórnmálamennirnir eru orðnir svo klókir við að nota innihaldslaust málskrúð að engu skiptir hvað er kosið, alltaf kemur sami grauturinn uppúr kjörkössunum.

Í dag ber fólk í valdastöðum enga ábyrgð. Það hleypur í burtu þegar allt er komið í hund og kött og kennir öðrum um. Það felur sig á bakvið reglurnar eða frasana.

"Mér finnst spillingin góð", er ágæt túlkun á laginu "Mér finnst rigningin góð." Ef við erum með þjóðrækna stjórnmálamenn sem láta almenning á landinu ganga fyrir skiptir minna máli þótt þeir mylji undir sjálfa sig og geri sjálfa sig ríka. Verra er það þegar erlendir auðrónar ræna öllu fyrir sig. Þá fær almenningur á Íslandi enn minna. Það hefur verið að gerast undanfarna áratugi, sérstaklega eftir kreppuna 2008.

Smávægileg þjóðleg spilling getur verið valdeflandi fyrir innlenda auðmenn, og ef þeir hjálpa almenningi er það hið bezta mál.

Þessi pistill lýsir þó aðeins nokkrum hliðum góðmennskunnar, eða hvað hún getur verið, með hliðsjón af jólaboðskapnum og kristninni. Kannski fer ég betur ofaní þetta síðar.

Engu að síður, þessi sannleikskorn eru raunverulega að lýsa breytingum á íslenzku þjóðfélagi frá miðri tuttugustu öldinni til okkar daga.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Skúli Jakobsson

Gildar og góðar pælingar.  

"Harðir tímar búa til harða menn.  Harðir menn búa til góða tíma.  Góðir tímar búa til veikgeðja menn.  Veikgeðja menn búa til harða tíma."

Velgengni er lífshættuleg samfélögum.

Skúli Jakobsson, 20.12.2023 kl. 17:11

2 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Þörf og góð samantekt Ingólfur.

Magnús Sigurðsson, 20.12.2023 kl. 17:31

3 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Þakka ykkur báðum góðar athugasemdir. Gæti búist við góðum pistlum frá þér Skúli miðað við svo skynsamlega athugasemd. Væri gaman að vita hvaðan þessi tilvitnun kemur, hún passar alveg inní efni pistilsins. Þetta gæti komið úr skáldsögu eftir Laxness, hann lagði sínum persónum heimspekilegar pælingar í munn.

Magnús, gamli félagi, vonandi að pistlarnir fari að koma frá þér aftur fljótt. 

Beztu kveðjur.

Ingólfur Sigurðsson, 20.12.2023 kl. 18:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 12
  • Sl. sólarhring: 76
  • Sl. viku: 667
  • Frá upphafi: 108423

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 532
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband