Um "Stoltsfótinn" (Foot of Pride) eftir Bob Dylan frá 1983 og almennt um spádómskvæði, hvort mögulegt sé að þau séu rituð á löngum tíma og leiðrétt oft, eins og Bob Dylan gerði við þetta ljóð, þennan söngtexta sinn.

Í fylgiritinu með Bootleg series 1-3 sem kom út 1991 stendur að "Foot of Pride" eftir Bob Dylan frá 1983 sé eitt áhrifamesta heimsendakvæðið hans, byggt á Opinberunarbókinni og öðrum spádómsritum, bæði úr Biblíunni og öðrum áttum. Vissulega er þetta kvæði Dylans áhrifaríkt og meistaraverk, enda ætlaði ég að gera því góð skil í pistlaröð fyrir nokkrum árum, á sama tíma og ég fjallaði um sum önnur kvæði hans, en ég man ekki hvort úr því varð eða ég eigi það eftir.

Sú spurning vaknaði hjá mér eftir að hafa lesið talsvert í bókinni sem ég fjallaði um í síðasta pistli hvort ég hefði gert mistök að telja kvæðið stórmerkilegt spádómskvæði um hina hinztu tíma, og hugsanlega nútímann, okkar tíma, þennan spillta nútíma okkar.

Þessi spurning vaknaði þegar ég kynnti mér það á hversu löngum tíma Bob Dylan samdi þetta kvæði, þennan stórmerkilega söngtexta. Því yfirleitt finnst fólki að spádómsrit séu innblásin og komi eins og leiðslubókmenntir, séu samin eins og í gegnum miðil, en ekki eins og meitluð og mótuð af skáldi á löngum tíma, kannski mörgum árum.

Ég er enn þeirrar skoðunar að "Foot of Pride" sé leiðslukvæði og spádómsrit, en þetta þarf að útskýra betur.

Þessi bók sem ég fjallaði um í gær er mjög vönduð og vel unnin. Það kemur fram í formálanum að höfundurinn hafði hana lengi í smíðum áður en Tulsa safnið opnaði, sem gerði honum kleift að leggjast í svo ítarlega rannsóknarvinnu að hann gat lokið verkinu á fullnægjandi og sómasamlegan hátt, sem betur fór fyrir aðdáendur Bobs Dylans, sem eru fjölmargir, ég meðal þeirra.

Nú er það svo að sennilega byrjaði Bob Dylan á þessu kvæði árið 1980, um sama leyti og "Angelina" og "Caribbean Wind". Þannig að þetta hefur verið í smíðum í 3 ár ef sú kenning er rétt.

Þeir sem rannsakað hafa þessi snilldarverk hans af hvað mestri nákvæmni fullyrða að haustið 1980 hafi hann orðið fyrir spámannlegum vitrunum sem hafi leitt hann á þessa braut og burt frá hefðbundninni kristilegri túlkun, og þó án þess að missa trúna beinlínis, heldur hafi efinn farið að sækja á hann að nýju, hvort ekki þurfi að taka mark á öðru en Biblíunni og þeim sem voru í sértrúarsöfnuðinum sem hann varð fyrir áhrifum af á þessum árum, 1979 - 1981. Söfnuðurinn heitir Vineyard Fellowship og er til ennþá.

Allavega lét Bob Dylan þau orð falla í viðtali eitt sinn að hann hafi samið fjölda laga á siglingu á skipinu sínu í Karíbahafinu, og að "Jokerman" og "I and I" hafi verið meðal þeirra eins og "Caribbean Wind". Vitað er um upptöku af "Caribbean Wind" frá haustinu 1980, en ekki er vitað um hljóðritanir af lögunum "Jokerman" eða "I and I" svo snemma sem 1980. Það bendir til þess að þau lög hafi ekki verið tilbúin þá, 1980, að í raun hafi Bob Dylan aðeins verið með ótilbúna texta eða ljóðabrot eða þá brot úr laglínum við og ekki fullbúin verk þá.

Það passar við upplýsingarnar sem koma fram í bókinni.

Eins og ég fjallaði um í pistlaröð minni um mörg kvæði eða söngtexta Bobs Dylans tel ég þau lýsa Harmageddon, eða síðustu dögum eða árum mannkynsins á þessari jörð, en hvort þeir tímar séu núna er ekki alveg víst eða ljóst, þótt margt geti svo sem bent til þess.

En er "Foot of Pride" raunverulegt leiðslukvæði og spádómsljóð eða er það einungis haganlega samsett kvæði eða söngtexti sem líkist spádómsljóði og er því kannski ofmetið af aðdáendum Bobs Dylans?

Það er kannski erfitt að svara þessu, en ég tel að þetta sé spádómskvæði eins og ég hélt fram í pistlaröð minni um ýmis ljóð Bobs Dylans. Margt bendir nefnilega til þess, og þannig má vissulega túlka það.

Dr. Helgi Pjeturss hélt því fram að andi eða öllu heldur einstaklingur á öðrum hnetti hjálpaði þeim að skilja sem fá vitranir. Raunar hafa vitranir verið úskýrðar á margvíslegan hátt og margir eru trúaðir á þær en þó ekki allir, og það er talið að þeir séu spámenn sem fá þær, þótt til sé einnig að fordómafullur nútíminn kalli allt slíkt sturlun og ímyndun, ekkert annað. Það er þó einföldun á flóknum veruleika og vantvirðing við andlega heiminn, svo sannarlega.

Að öllum líkindum geta leiðslukvæði og spádómsrit verið samin á löngum tíma. Ef gert er ráð fyrir því að einstaklingurinn á öðrum hnetti, eða einstaklingarnir á öðrum hnöttum sem valda innblæstrinum séu til staðar og komi aftur þegar miðillinn eða skáldið er tilbúið er ekkert því til fyrirstöðu að slík spádómsrit séu samin á löngum tíma, eins og til dæmis bækur eða smárit Biblíunnar, en orðið Biblía þýðir orðrétt smárit, mörg rit, eitthvað slíkt, enda er hún samsett úr mörgum ritum frá nokkuð löngum tíma og mörgum höfundum, eins og kennt er í Guðfræðideildinni.

Þannig að svarið er já, við spurninginni sem hreyft er við hér í titli þessa pistils. Spádómsrit geta verið samin á löngum tíma og leiðrétt eins og Bob Dylan gerði við kvæðið eða söngtextann "Foot of Pride" frá 1983.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 85
  • Sl. viku: 657
  • Frá upphafi: 108413

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 522
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband