Raunir eigenda Epson Stylus Photo 1200 og erfiðleikar við að gera við þann grip

Ég skrifaði pistil á Facebook fyrir nokkrum árum þegar ég var virkari þar um Epson Stylus Photo 1200 prentarann minn og hvernig ég hélt honum við. Ég er nú búinn að læra miklu meira um þessa tegund sem virðist alveg orðin úrelt og næstum ómögulegt að fá neitt í hann.

Hann kom á markað í janúar 1999 og var í framleiðslu til 2001 eftir því sem hægt er að lesa um.

Í Sportmarkaðnum frekar en Góða hirðinum keypti ég þennan prentara notaðan. Sportmarkaðurinn var undanfari Góða hirðisins. Þá var hann í lagi og ég notaði hann í býsna mörg ár eftir það. Svo fór ég að gera við prentara fyrir sjálfan mig.

Ég mun sjá mikið eftir þessum prentara ef mér tekst ekki að laga hann. Mjög oft tekst mér að laga svona raftæki, en það fer auðvitað eftir því hvort maður fær alla varahlutina í þau eða ekki.

Ég hef lent í miklum vandræðum við viðgerðir á þessum prentara og skal ég lýsa þeim, því þetta kennir fólki ýmislegt um þetta módel af prentara og um prentaraviðgerðir yfirleitt held ég.

Þessir prentarar eru orðnir mjög sjaldgæfir, fólk hefur hent þeim flestum. Epson prentarar eru flestir með fasta prenthausa, sem merkir að ef þeir eru ekki notaðir í nokkrar vikur eiga þeir á hættu að verða ónýtir, nema skipt sé um prenthausa, en þeir eru vandfundnir. Epson fyrirtækið notar þessa aðferð til að græða sem mest, til að gamlir prentarar verði ónýtir og fólk kaupi ný módel, enda græða þeir vel og hafa framleitt ógrynni módela í gegnum árin.

Ég kunni lagið á því að halda mínum grip í notkun í meira en 15 ár. Síðan bilaði hann, vegna þess að hann datt í gólfið og brotnaði. Plastið í þessu er viðkvæmt og þolir ekki hvað sem er. Ég keypti annan að utan sem var með ónýtan prentahaus og gerði einn virkan úr þessum tveimur. Sá entist í nokkur ár.

Núna í ár bilaði svo þessi gripur.

Ég hafði ekki notað hann í tæpt ár, en hafði tæmt blekhylkin þannig að ég bjóst við að hann myndi virka. Þó átti ég skárri prenthaus sem ég setti í hann, en varð þá fyrir því óláni að rafbandið sem liggur í hann skemmdist, því ég hafði of oft skipt um prenthausa. Þá slitnar tengingin og verður óvirk. Nema hvað að það kom lykt af prentaranum eins og eftir brunnin viðnám. Já, þetta gerðist, og ég vissi ekki að þetta gæti komið fyrir útaf skemmdu rafbandi, en það er þó skiljanlegt.

Prenthausinn er hluti af rafkerfi prentarans. Þegar tengingu vantar á einn stað getur aukin spenna farið á aðra hluta, eða í sjálfa fjölliðuna sem stjórnar blekmagninu. Þetta hefur greinilega gerzt.

Það er sennilega ekki hægt að finna hvaða viðnám skemmdust. Þetta er eins og í tölvuborði, lóðað ofaná með þessum örfínu viðnámum. Til að mæla hvert viðnám þarf að losa þau frá og vita um stærð þeirra, sem kemur ekki fram í handbókum eða teikningum.

Það er fleira sem er óþægilegt við þetta. Ég gat keypt svona notaðan prentara að utan en þá kom í ljós að rafborðið er ekki af sömu gerð.

Það virðist vera sem að minnsta kosti tvær útgáfur af þessum prenturum hafi verið framleiddar sem litu alveg eins út og báru sama nafn.

Fyrri tegundin var á markaðnum fram til síðla árs 2000. Þá í örfáa mánuði var settur prentarinn á markað undir sama heiti og með sama útlit, en breyttur þó.

Fyrri útgáfa prentarans var með svipað rafkerfi og Epson Photo 700 en seinni útgáfan var líkari Photo 750. Prenthausar í báða litu eins út en voru ekki eins. Enn erfiðara er að fá útgáfuna í fyrri tegund prentarans.

Síðan til að auka á vandræði þeirra sem eiga þessa prentara þá er litablekhylkið mjög sjaldgæft og aðeins notað í þessa einu týpu!!! Því má segja að þessi prentari sé úreltari en margir aðrir, sem er skaði, því hann er góður þegar hann virkar.

Þeir eru að verða eins og síðustu geirfuglarnir þeir prentarar sem virka af þessari týpu, má því segja.

Þessi prentari var ívið dýrari en önnur módel frá sama tíma, og var mest notaður í fyrirtækjum. Enda er hann fyrir A3 pappír líka og er stór og mikill um sig. Hann er einnig frekar þungur.

Það má geta þess að Epson fyrirtækið lögsótti þá sem framleiddu blekhylki í vinsælu Epson prentarana sem seldust eins og heitar lummir rétt fyrir 2000. Þannig vildi til að eftir 2000 fór Epson fyrirtækið að setja örflögur í blekhylkin til að ekki væri hægt að sprauta bleki í þau aftur og endurnýta þannig og til að erfiðara væri fyrir þriðja aðila að selja og framleiða blek í prentarana þeirra. Þannig að fólkið sem átti þessa gömlu prentara vildi ekki henda þeim og elskaði þá, því blekhylkin í þá voru svo ódýr frá þriðja aðila, og þeir virkuðu eins vel og þeir nýju.

Fyrir ríflega tíu árum tókst svo Epson að fá lögbann á framleiðslu einhverra blekhylkja sem ekki komu frá þeirra eigin fyrirtæki.

Þetta er eins og með Apple fyrirtækið. Það er með einokun á mörgum sviðum. Kommúnisminn hefur mörg andlit, en hann er andstyggilegur, og blandast stundum kapítalismanum og verður þá miklu verri en ella. Þá kemur fram virkileg einokun sem er til að hækka verð og þjónar ekki neytendum heldur moldríkum eigendum stórfyrirtækja.

Villta vestrið og frelsið er þar sem boð og bönn eru sem fæst og margir aðilar geta þjónustað og framleitt vörur og varning. Það er einnig eðli frjálshyggjunnar að stefna að slíku. Það var nokkuð sem ég heillaðist af í stefnu Pírata þegar þeir voru að byrja. Nú fer lítið fyrir þeirri stefnu hjá þeim, og þeir minna á hefðbundinn vinstriflokk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég man eftir Sportmarkaðnum, verslaði oft þar og þekkti eigandann. Að hluta til var þetta nokkurskonar nytjamarkaður, löngu áður en það hugtak varð til.

Guðmundur Ásgeirsson, 26.11.2023 kl. 15:50

2 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Einmitt já, og úrvalið var mjög gott eins og verðið. Góði hirðirinn er vissulega vinsæll, en verðið þar er orðið talsvert hærra en það var. Ég keypti fleiri og betri segulbandstæki í Sportmarkaðnum. Aðallega vegna þess að eftir 1990 var þetta allt framleitt í Kína og Kóreu, gæðin miklu minni.

Takk fyrir innlit og athugasemd.

Ingólfur Sigurðsson, 26.11.2023 kl. 17:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 100
  • Sl. viku: 579
  • Frá upphafi: 107237

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 450
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband