Hvernig lagið "Konur þurfa miklu hærri laun", eftir mig, frá 2003 varð til, (óútgefið ennþá) og fleiri lög.

Þegar ég var að æfa lög fyrir tónleika sem ekki varð úr, 2018, þá rakst ég á lagið "Konur þurfa miklu hærri laun" frá árinu 2003, en það var tekið upp fyrir plötuna:"Jafnréttið er framtíðin", sem kom út á því ári, en það bara gleymdist. Á þessum árum, eftir að afi dó 2015, var ég mikið að pæla í því að endurútgefa á vinyl það sem ég gaf út á CD-R formi frá 1998 til 2010, en enn hefur ekki orðið úr því, það er of dýrt og það yrði að seljast nokkuð vel til að standa undir kostnaði.

En allavegana, ég ákvað að nota þetta lag og fleiri í endurútgáfuna, ef af yrði, á vinyl, jafnvel þótt ég yrði að velja úr demóupptökum, og því hljóðgæðin ekki alltaf uppá marga fiska. En allavega, lagið hljómar vel og hefði átt að koma út.

En hvernig samdi ég þetta lag og af hverju gleymdist það á sínum tíma?

Einmitt þetta lag varpar merkilegu ljósi á það hvernig vinsæl dægurlög geta orðið til og hvernig langan tíma getur tekið að semja lög sem ekkert er varið í en stuttan tíma að semja lög sem verða vinsæl.

Þetta lag er með engum stuðlum eða höfuðstöfum, textinn var spunninn á staðnum fyrir framan hljóðnemann á innan við 5 mínútum, viðlag og 5 erindi. Meðal annars kemur fram í textanum:"Fagnaðu því sem áunnizt hefur, heimur batnandi fer..." osfv. Sem sagt, textinn er eins og ekki eftir mig heldur einhvern annan, ég fékk innblástur og þetta hljómar eins og eftir algjöran femínista, sem allir gætu tekið undir sem taka þátt í kvennafrídeginum.

Skrýtið er það kannski en ég er farinn að halda mikið uppá þetta lag eftir mig, mér finnst það skemmtilegt, fjörugt og hressilegt, en þegar ég samdi það kastaði ég því til hliðar eins og drasli sem ég hafði engan áhuga á, því þá samdi ég svo mörg lög í einu að ég tók ekki einu sinni eftir því og hlustaði ekki einu sinni á þau aftur. Ég var sem sagt ákveðinn í að nota gömlu blúsana mína um kvenréttindi, karlrembu og femínisma frá 1997, þar sem fyrirmyndin var plata Megasar frá 1986, "Í góðri trú", sem öll samanstendur af blúsum, ef vel er að gáð. Einnig var fyrirmyndin kvikmynd og plata Stuðmanna, "Með allt á hreinu", frá 1982, sem hafði áhrif á alla landsmenn, mig þar með einnig. Barátta kynjanna var þar í aðalhlutverki eins og á þessum jafnréttisplötum mínum sem einnig fjalla um feðraveldið, ofbeldi og átök kynjanna.

Lagið "Adolf Hitler", sem Frosti Logason og Máni Pétursson, Harmageddonbræðurnir svonefndu, gerðu vinsælt meðal hlustenda X-ins um 2011, það varð einnig til mjög hratt, eða á 3 mínútum, og er sagan á bak við það einnig skemmtileg.

Þannig var að ég var fenginn til að spila eitt lag morguninn 6. marz 2001 á kristilegri samkomu. Ég söng þarna kristilegt lag eftir sjálfan mig sem heitir:"Allir bera einhvern kross" og það var samið í janúar 2001, nema hvað að ég var með lítið segulbandstæki í gangi og klukkan var 9 um morguninn, og ég var með bók fyrir framan mig með kristilegum dýrðarsöngvum sem ég hafði lært, og ég tók upp þessa æfingu á svona talsegulband eða eitthvað álíka lítið, með mjög lélegum hljómgæðum. Þá samdi ég lagið Adolf Hitler, fyrir þessa kristilegu samkomu, en það hét upphaflega Jesús Kristur eins og heyrist á spólunni.

Þannig var að ég hafði sungið nokkur þekkt kristileg lög eftir aðra sem eru oft sungin á svona samkomum sértrúarsafnaða, og þá datt mér í hug að semja eitt svona lag sjálfur, í gríni eiginlega, hugmyndin var næstum að gera grín að svona einföldum boðskap, það var eitthvað svona kristilegt lag sem var næstum bara enginn texti. Þá bara varð þetta lag til sjálfkrafa, það spatt fram fullskapað á innan við mínútu, það er að segja laglínan, og það hét Jesús Kristur þegar það var samið, með engan skrifaðan texta fyrir framan mig, því textinn var bara... "Aðeins eitt nafn er til..." osfv.

Nema hvað, að ég stoppaði þetta litla upptökutæki og setti í gang öðruvísi upptökutæki með alvöru hljóðnema, því mér fannst þetta alltof gott lag til að láta það fara til spillis, og ég reyndi að taka það almennilega upp strax á einum klukkutíma þarna áður en ég átti að mæta þarna á þessa tónleika eða samkomu eða hvað sem þetta var og spila þetta blessaða kristilega lag eftir sjálfan mig:"Allir bera einhvern kross," frá janúar 2001.

Það tók mig ekki nema korter eða svo að taka þetta ágætlega upp, og þá breytti ég textanum tvisvar. Fyrst breytti ég titli lagsins í "Helgi Pjeturss", en svo loksins í "Adolf Hitler", til að vera nógu mikið spes og koma á óvart, sem tókst þegar það loksins kom út árið 2009, á hljómdisknum:"Ísland skal aría griðland."

Svona lög sem eru grípandi og flott þau verða stundum til á stundinni, en önnur lög sem maður notar ekki geta tekið lengri tíma, með vel unnum texta og svoleiðis.

Ýmis önnur lög urðu þannig til að ég eyddi tíma í vel unninn texta og bögglaði síðan saman lagi. Stundum hef ég notað flókin grip og mörg saman.

"Er ég ekki of gamall fyrir þig?" frá 2001 er til í mjög mörgum útgáfum og upptökum, því ég var alltaf að breyta textanum. Í marz 2001 var ég einmitt að vinna við það lag ásamt fleiri lögum, að sjálfsögðu. Ég gerði meira en 10 útgáfur af laginu og textanum, svona var fullkomnunaráráttan mikil, en á endanum notaði ég svo stuttan texta sem var hvorki með stuðlum né höfuðstöfum, heldur eitthvað sem var eiginlega einfaldað talmál, til að allir skildu, því ég vissi að þetta flókna skáldamál myndi ekki skiljast fyrir fólk á öllum aldri.

Tónlistarmaður þarf ekki að vera sammála því sem hann syngur um. Þegar maður semur lög og texta þá grípur maður einhverjar hugmyndir sem eru á ferðinni í samfélaginu og notar þær sem efnivið í dægurlag.

Einhver hluti af manni skilur baráttu kvenna og er sammála henni. Síðan er annar hluti af manni sem skilur feðraveldið og boðskap Biblíunnar, og vill ekki breytingar.

Lagið:"Konur þurfa miklu hærri laun" eftir mig er 100% femínískt og mér finnst gaman að syngja það, ég fæ ekki leiða á því þótt ég syngi það aftur og aftur. Barnalegur og einlægur texti sem maður er jafnvel ekki sammála 100% getur verið rosalega heillandi og skemmtilegur, eins og hann sé eftir einhvern annan en mann sjálfan, það skiptir ekki máli. Ég veit að þetta lag getur slegið í gegn, til dæmis, og annað sem ég hef samið.

Einsog þátturinn á RÚV, Vikan hans Gísla Marteins er eintómt grín og léttúð, þannig eru lög sem mér finnst skemmtileg eftir sjálfan mig og vil gefa út.

Ég vil minna á það í þessum pistli að ég hef samið svona femínísk lög og ég er stoltur af þeim, hvort sem þau eru bull eða ekki. Þau eru skemmtilegt bull að minnsta kosti, eða svona eins og mörg dægurlög eru sem verða vinsæl.

Lögin um umhverfisvernd sem ég samdi frá 1983 til 1990 að mestu leyti ættu líka að verða vinsæl og fræg, þau eru mjög góð þótt þau séu einföld og barnaleg, en þannig eru líka lög eftir Bubba Morthens, Bítlana og marga aðra, lög sem hafa orðið heimsfræg sum.

Tónlistarmaður vill oft bara skemmta fólki en ekki endilega vera of alvarlegur, þótt Bob Dylan hafi kennt tónlistarmönnum að þeir geti einnig verið alvarlegir og sungið þannig lög, sem kenna eitthvað.

Maður getur haft samúð með einhverjum málstað og verið sammála honum að einhverju marki tilfinningalega á sama tíma og rökfræðilega viti maður að hann stendur á veikum grundvelli. Það er af því að við erum öll tilfinningaverur og rökfræðiverur á sama tíma og getum lagt áherzlu á þessa misjöfnu þætti í fari okkar.


mbl.is Dagskrá um allt land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 56
  • Sl. sólarhring: 111
  • Sl. viku: 630
  • Frá upphafi: 107288

Annað

  • Innlit í dag: 30
  • Innlit sl. viku: 476
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 28

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband