Dagur B. Eggertsson ber sig vel, en baráttumál hans hökta og ganga misvel

Sorphirðumál og umhverfismál eru meðal þeirra mála sem eru innleidd að útlendri fyrirmynd. Hvernig á það að ganga upp að samtímis því sem fólk verður sundurlausara, fjölbreytilegra hvað skoðanir og uppruna varðar eða lífsstíl, að hegðunin haldist áfram einsleitin?

Um tíma var ágæt stemmning fyrir endurvinnsluhagkerfinu en nú virðist sú stemmning farin að þynnast og það er persónubundið hvað fólk leggur á sig í þessum málum.

Eins og búast má við í kommúnískum kerfum þá tala einingarnar ekki nægilega vel saman, samskiptavandi verður og virknin fer því útum þúfur. Hér í fréttinni er fjallað um að sorphirðufólkið sjálft var ekki haft með í ráðum í þessum breytingum. Kann ekki góðri lukku að stýra!

Samskiptamiðlarnir í sumar hafa verið stútfullir af hneykslunarsögum notenda þessara sorphirðukerfa og það hefur ratað í kvöldfréttatímana stundum jafnvel.

Dagur B. Eggertsson hefur búið til þá ímynd af sér að hann sé kafteinninn á þessari umhverfisverndarskútu meðal bæjarstjóranna og fyrirmynd annarra sveitarfélaga.

Umhverfisverndin er mikilvæg, en eins og ég samdi um í laginu "Engar umbúðir" frá 1984 þarf að ganga miklu lengra, og að sjálfu umbúðaframleiðsluferlinu og stöðva það eða minnka, og það kostar að hugsa þennan málaflokk alveg frá byrjun.

En í smáum en ákveðnum skrefum eru umhverfismálin að þokast í rétta átt í litlum pörtum á kerfinu, á meðan þau þokast ekki í rétta átt í stóra samhenginu, því orkuþörfin eykst um leið og fátækari þjóðir verða ríkari og krefjast meiri lífsgæða í samræmi við þau vestrænu.

Ef maður er svartsýnn gæti maður sagt að allt sé að fara til fjandans í þessum málum líka. Ég er ekki svo viss um það. Þetta lærist og hér er reynsla og áhugi, metnaður og samvinna fyrir hendi, það þarf bara að stilla saman einingarnar og bæta kerfin meira, þetta höktir en skakklappast í rétta átt, ætli það sé ekki málið?

Í upphafi var ég mjög vondaufur og svartsýnn um árangur í þessum endurvinnslumálum. Það var vegna þess að ég var búinn að mynda mér mjög öfgafullar umhverfisverndarskoðanir strax í byrjun, sem 12 ára unglingur, sem hafði ákveðinn líffræðikennara sem kenndi manni allt um þetta, Árna Waag. Þá tók ég þann pól í hæðina að mannkynið þyrfti að fara aftur til fortíðarinnar í sveitamenninguna eða eyðast ella, og Árni Waag kenndi manni þetta.

Núna um það bil 40 árum seinna er ég orðinn svolítið bjartsýnni þegar kemur að endurvinnslumálunum. Ég sé að kerfin eru að samstillast og skána, og viðleitni fólk er stöðug, en þó ekki nægileg ennþá.

Um 2000 var þetta mikil tízkubóla, Sorpa og endurvinnsluhagkerfið. Þá hafði ég litla trú á þessu því ég hafði litla trú á mannskepnunni og hef enn eiginlega að mörgu leyti. Þó gaf ég út umhverfisverndarlögin mín um það leyti, á hljómdisknum "Blóm, friður og ást", og seldist hann þrælvel miðað við mína hljómdiska, enda hafði ég spilað þau lög víða á tónleikum um margra ára skeið þegar hann kom út.

Það sem maður skrifar þegar maður er ungur það getur haft gildi. Margt er barnalegt í gömlum textum frá því maður var í kringum fermingu, en sumt er snjallt í þeim samt. Uppkast að bókum sem maður bætir við og endurskoðar, endurskrifað getur jafnvel haft gildi, eins og bók sem ég vildi skrifa um umhverfisvernd um þetta leyti, ágætar tillögur en úrvinnslan léleg.

Hugmyndir mínar og framsetning í þessum textum frá því maður var unglingur eru útópískar, og eiga kannski margt skylt með Útópíu Thomasar More, því eins og menn liðinna alda sem lifðu við rýrar upplýsingar miðað við seinni tíma fólk, þannig er ungt fólk takmarkað af takmörkuðum þroska og takmarkaðri lífsreynslu, en bætir það upp með öðrum kostum, einsog skáldlegum innblæstri eða öðru sem til kosta má telja.

Ég lauk yfirleitt aldrei við þessar bækur sem ég byrjaði á frá þeim tíma til dagsins í dag. Það kom þó fyrir og þá stritaði maður við ritvélina. Oftast voru þetta rýr uppköst og örfáar blaðsíður, en þó margt af þessu nýtilegt og hef bætt við síðar og fullkomnað eitthvað.

Ritvélar geta verið heillandi fyrirbæri og ýtt undir sköpunargáfuna, hvort sem þær eru rafmagnsritvélar eða handdrifnar. Aumir fingur eftir áslátt á ritvélar eru jafn skáldlegir og aumir fingur eftir of mikla spilamennsku.

Bækur geta verið í grunninn samdar fyrir allmörgum árum, en frágangurinn þó verið yngri og lagfæringar, viðbætur.

Ein af þeim hugmyndum sem ég fékk sem 13 ára unglingur á 14. ári árið 1984, í janúar 1984 þegar lagið "Engar umbúðir" var samið í snjóbyl og erfitt að komast á milli, var að til að losna við allar umbúðir ætti fólk að borða saman í stórum verzlunarmiðstöðvum. Ég hef lítið verið að tjá mig um þessar framúrstefnulegu og útópísku hugmyndir, því þær virka barnalegar og öfgafullar í senn, en þó er þetta alveg rétt og var rétt hjá mér á sínum tíma.

Ég gerði mér þær hugmyndir að nauðsynlegt væri að banna framleiðslu á öllu plasti og öllum umbúðum. Ég var semsagt öfgafullur umhverfisverndarsinni 13 ára gamall og vildi ganga alla leið, ég var fanatískur í þessu, mjög fanatískur. Það er vegna þess að börn og unglingar eru trúgjarnar verur, og gapa við skipunum og innrætingu fullorðna fólksins. Ég leiddi áfram það sem Árni Waag innrætti mér og Ingvar Agnarsson, frændi minn, sem tók alveg undir þetta þegar ég bar það undir hann. Þessir menn voru eins og guðir í minni bernsku, þeir virtust vita allt og vera miklu klárari en fjöldinn.

Þar við bættist að þá var ég að öðlast samfélagslega vitund, og kannski fyrr en jafnaldrarnir. Ég varð sem sagt kommúnisti um það leyti. Með Stormskersguðspjöllum Sverris Stormskers síðla árs 1987 fannst mér slíkt kjánaskapur og fannst öll flóra hægrimennskunnar það rétta, og þó einna helzt yztu mörkin.

En ég gerði mér grein fyrir því að græðgi og eiginhagsmunasemi var að eyðileggja jörðina þegar ég byrjaði að gutla í tónlist.

Ég fékk þá hugmynd að peningum ætti að útrýma til að gera fólk betra og í staðinn ætti að gefa fólki mat en að selja hann, því öll sölumennska og viðskipti væru af hinu illa, því gróðinn væri það líka. Já mjög ýkt hugmyndafræði og barnaleg, en þannig er þetta nú stundum hjá þeim sem hafa mikil áhrif.

Í félagsfræði í skólanum lærði ég það frekar en annarsstaðar, að nóg væri af mat fyrir alla jarðarbúa til á jörðinni, en gæðunum væri bara misskipt og af því hlytist öll eymdin. Þar með komst maður á þá skoðun að kapítalisminn væri aðalböl mannkynsins og að gegn honum yrði að berjast. Í því fólst þessi kommúnismi manns meðal annars.

Með því að byggja risastór torg og risastórar samkomumiðstöðvar þar sem fólk fengi ókeypis að borða og gæti kynnzt hvert öðru og spjallað saman yrðu margar flugur slegnar í einu höggi, fólk yrði betra og hamingjusamara og peningar úr sögunni. Um þetta má allt lesa í óútgefna handritinu mínu að bókinni "Engar umbúðir", sem ég byrjaði á 1984, en kláraði ekki, hef margoft endurskoðað hana og endurritað, en varla klárað hana til fulls, er ekki viss um það, þetta er eitt af þessum tættu verkefnum fortíðarinnar, sem þyrfti að endurreisa og ljúka við, en í einhverjum köflum var þessu þó lýst í grófum dráttum, og í raun er þetta stærri framtíðarsýn en hefur raungerzt ennþá af þessum stóru aðilum sem stjórna þessu erlendis.

Þó held ég í raun að þeir stefni í sömu átt og ég stefndi, unglingurinn sem átti sér stóra drauma fyrir fermingu og vildi hjálpa mannkyninu með svona draumórum og útópíum, en erfitt var að koma því frá sér og ljúka því þannig að mark væri tekið á manni.

Þegar Covid-19 veiran kom upp í borginni Wuhan í Kína 2020 og sökinni var skellt á opnu matarmarkaðina þar, þá varð ég fyrir ákveðnu áfalli, því þetta eyðilagði þessa gömlu draumóra mína eða skaddaði um stundarsakir, að ég sem ungur draumóramaður á unglingsaldri hefði hitt á réttu lausnina til að bjarga mannkyninu, með svona opnum matarmörkuðum undir berum himni án allra umbúða, sem ég barðist gegn svona snemma.

Síðar kom í ljós að allt er þetta efanum háð, hvort veiran breiddist út frá þessum matarmörkuðum, og í ljósi nýjustu upplýsinga er það talið frekar vafasamt, og athyglin hefur kannski frekar beinzt að rannsóknarstofunum í veirufræðum sem eru þarna á þessu svæði, með sameiginlegu fjármagni og rannsóknargögnum frá alþjóðlegum vísindamönnum, stjórnmálamönnum og fjárfestum, lyfjafyrirtækjum.

Mér þykir það gott að fólk skuli ekki missa trúna á þessa gömlu hugmynd um opna matarmarkaði án umbúða. Þeir gætu verið hluti af lausninni til að útrýma plasti og öðrum umbúðum.

Það er gott að líta bjartsýnum augum á framtíðina, en margt bendir þó til þess að ekki sé innistæða fyrir þeirri bjartsýni, og helstefnan sé að sigra á öllum sviðum.


mbl.is Nýja sorphirðukerfið ekki að virka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birgir Örn Guðjónsson

Sæll

Hef einsog þú ágætis trú á þessu, en alls enga trú á Degi B

Birgir Örn Guðjónsson, 15.8.2023 kl. 13:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 84
  • Sl. viku: 659
  • Frá upphafi: 108415

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 524
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband