Saga um meðvirkni, fíkn og heiðarleika

Berglind Steinsdóttir hefur skrifað um meðvirkni í sinni fjölskyldu. Trúlega brýtur hún ísinn fyrir marga, því slíkar sögur eru í bakherbergjum geymdar sem fólk skammast sín fyrir og vill helzt ekki segja frá. Enda mörg slík mál ennþá í gangi og fólk gerir sér ekki grein fyrir að það er þátttakendur í slíku sorgarferli, sem stundum er glæpaferli eða eyðileggingarferli á einstaklingunum.

Þetta með hana móður mína er þannig að maður vill ekki vera of dómharður í hennar garð og skilja ástæður fyrir hennar vanda. Þó er það ýmislegt í þjóðfélaginu sem setur þetta í rétt samhengi. Ég er að vísu ekki kvenkyns en mér finnst að synir geti lært af Metoohreyfingunni ekkert síður en dætur, og að þessi þjóðfélagsbylting eigi að gagnast fleirum en konum. Þetta snýst um að skoða fleiri mál af gagnrýni. Við sem erum börn foreldra okkar þurfum að skoða þau samskipti, og það eru ekki bara feður sem beita ofbeldi, það eru líka mæður.

Nú eru Öfgakonurnar að verða virðulegri og viðurkenndari. Þá er rétt að læra þeirra aðferðir og ráðast á foreldra sína með hatri, ásökunum og kærumálum.

Rétt eins og málið með bróðir hennar Berglindar sem hún hefur verið meðvirk, þá snýst þetta með hana móður mína um skuldir og margskonar samskiptavanda í fjölskyldunni, hún er ekki sátt við aðra og aðrir eru ekki sáttir við hana.

Ég fór að velta því fyrir mér hvenær mamma lenti í fjárhagsbasli og hversvegna. Ég komst að því að milljónin sem hún skuldar mér - og er meira en milljón núna - spilar þar inní.

Milljónin sem hún vann í happdrætti DAS á mínu nafni 1971, þegar ég var eins árs, hefur verið til heilla fyrir marga í fjölskyldunni, en ég hef aldrei séð krónu af þeirri upphæð, og er saga á bakvið það.

Í dag er þetta upphæð sem myndi næstum duga fyrir íbúðakaupum mögulega, kannski 10 milljónir eða meira. Sérstaklega ef þetta hefði safnað vöxtum í áratugi, eins og ætlunin var.

Ég er listamaður í eðli mínu og hugsa ekki um peninga. Þeir eru hreyfiafl - en hafa ekki verið aðalkeppikefli mitt í lífinu hingaðtil.

En þeir eru nauðsynlegir, og nú þegar ég vil gefa út mína eigin tónlist hefði þessi upphæð komið sér vel.

Ég heyrði oft þessa sögu í æsku. Fyrir 5 ára aldurinn var þetta geymt inni á bankareikningi, held ég. Mamma keypti happdrættismiðann með eigin fé en notaði fæðingardaginn minn einhvernveginn sem númerin sem unnu peningana, og keypti miðann í mínu nafni, eða þannig var sagan sem ég heyrði. Mamma var mjög góð við mig þá og sagði mig heillagripinn sinn minnir mig.

Ragnheiður systir hennar og maðurinn hennar fengu þetta lánað mitt í óðaverðbólgunni 1977 eða þar um bil þegar þau voru að byggja, en borguðu það allt aftur. Síðan fór mamma og stjúppabbi að byggja eigið hús um 1980, og notuðu féð í það. Ekki var það að safna vöxtum í banka á meðan. Svo þegar mamma keypti sína íbúð 1984 hefur hún sennilega notað þetta fé einnig í það. Að minnsta kosti hvarf þessi umrædda milljón um það leyti og hefur ekkert spurzt til hennar síðan, allt í fórum mömmu, hún umráðamaður með þessu, en alltaf talaði hún um að borga mér þetta til baka, að þetta væri bara í láni.

Þegar mamma var ung var hún sparsöm og dugleg að vinna. Hún er komin á eftirlaun núna og hefur alltaf verið dugleg að vinna, en hún varð skuldug og lenti í ýmsum hremmingum hin síðari ár og áratugi.

Hægt og sígandi eða hratt seig á ógæfuhliðina hjá henni á 9. áratugnum, þá missti hún bílprófið og fór að verða skuldug, og í stað þess að setja milljónina mína (sem upphaflega var milljón) inná bankareikning þá, á meðan hún var í fullu starfi sem kennari í barnaskóla, þá fór hún í utanlandsferð og slíkt og var eigingjörn.

Hún sem sagt stóð ekki við eigin orð. Ég veit ekki um hennar mál í smáatriðum, en veit að hún hefur látið banka og lánadrottna fara illa með sig. Með því að lenda í dráttarvöxtum, inniheimtukostnaði og fjárglæframönnum hefur hún þurft að borga stórfé, bæði vegna kæruleysis og flókinna skuldamála sem hún hefur komið sér í.

Núna vill mamma ekki kannast við að hún skuldi mér þessa peninga. Hún segir að þetta hafi verið fyrir okkur öll þrjú, "mig, hana og yngri bróður minn". Það er greinilega eftiráskýring sem stangast á við hennar fyrri orð og loforð. Hún er þó nýbúin að fá arf eftir foreldra sína þannig að ef einhverntímann er von um að hún geti borgað þetta er það núna á meðan eitthvað er til af þeim peningum.

En ég fór að pæla í þessu. Óheiðarleiki af þessu tagi byrjar einhversstaðar. Mamma var víst sparsöm og pottþétt í fjármálum áður, og kannski var þetta steinninn sem velti hlassinu og gerði skyn hennar brenglað.

Afleiðingarnar af lygum og blekkingum á einu sviði hafa áhrif á önnur svið. Hún hefur skapað sér óvild og leiðindi útaf þessu, því miður, það er hennar sjálfskaparvíti. Það hjálpar engum að vera meðvirkur og segja ekki hlutina einsog þeir eru.

Aumingja afi var alltaf góður við hana, og kannski var hún ofdekruð, það sagði pabbi að minnsta kosti. Hún skuldaði honum og mörgum öðrum, og ömurlegt að fólk deyr sem maður hefur ekki borgað til baka, eins og í hennar tilfelli.

Alkahólismi og fíkn birtist í mörgum myndum. Mamma er ekki víndrykkjukona, en hún er búin að þvælast inní heim ranghugmynda, og kannski var alltaf eitthvað að á því sviði, eins og pabbi hélt fram, en þetta er einhverskonar fíkn engu að síður, náskyld vínfíkninni.

Hún vill láta vorkenna sér. Hún hefur barmað sér áratugum saman. Að vísu hefur hún lent í ofbeldi, en grunur leikur á að andleg neikvæðni hennar og skammir í garð sambýlismanna sinna hafi þar átt stóran og kannski stærsta þáttinn.

Ég fékk ógeð á samúð og betli eftir að hafa hlustað á hana áratugum saman. Það er tilfinningaleg ástæða fyrir því að hún lætur svona og notar ekki skynemi sína í fjármálum.

En núna þegar ég pæli í þessu kemst ég að þeirri köldu niðurstöðu að ég eigi rétt á þessari milljón (sem einusinni var milljón og er núna meira). Ég hef vafalaust meira gagn af þessum peningum en hún, sem er í sínum neikvæða heimi, og er engum að kenna nema henni sjálfri.

En hún heldur því fram að hún sé fórnarlamb. Já, ég veit að hún hefur lent í fjárglæframönnum, sumum sem eru tengdir kirkjunni og kristilegu hjálparstarfi.

Ég hef ekki fengið jákvæða mynd af kristninni með því að umgangast hana. Árum og áratugum saman hefur hún notað frasann:"Ef Guð er með mér, hver er þá á móti mér?" Hún hefur réttlætt ýmislegt misjafnt þannig. Ekki hefur hún heldur verið jákvæð við sambýlismenn sína sem flestir hafa verið henni góðir. Eigingirnin og sjálfhverfan hafa þar verið allsráðandi.

Nei, af þessu má læra að maður á að standa við orð sín, í fjármálum og öðru. Börn eiga rétt á því fé sem þeim var lofað. Foreldrar eiga ekki að stela af börnum sínum, og allrasízt risastórum fjárhæðum sem duga fyrir íbúðarkaupum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 143
  • Sl. viku: 726
  • Frá upphafi: 106808

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 524
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband