Evrópa er komin áratugi aftur í tímann í friðarmálum með þessu stríði

Myndi Pútín virkilega halda áfram að gera árás á fleiri lönd ef hann næði yfirráðum í Úkraínu? Miðað við hvað stríðið gengur illa í Úkraínu finnst mér það ólíklegt, og fleiri ástæður tel ég fyrir því að hann myndi tæplega ganga lengra - í bili - hvað sem síðar gæti orðið.

Hættulegasti óvinurinn er sá sem er í hættu, afkróaður. Vilji menn forðast að Pútín beiti kjarnorkuvopnum með óafturkræfum afleiðingum er vitað mál að of mikil harka þegar kemur að honum er ekki rétta aðferðin. Virðist mér sem Rússar eigi í svo miklum vandræðum nú þegar að aðferðir Vesturlanda virki nú þegar. Dularfull dauðsföll hafa orðið í kringum hans innsta hring, samstarfsmenn og vinir hans hafa látizt, og DV hefur komið með þær fréttir. Auk þess hafa verksmiðjur í Rússlandi sprungið og brunnið, sem nauðsynlegar eru fyrir hernaðarframleiðsluna. Getgátur eru um skemmdarverk unnin af Úkraínumönnum, Rússum sjálfum eða útsendurum Vesturlanda.

Almennur olíulager brann í Rússlandi samkvæmt DV frétt, með 10.000 tonnum af eldsneyti, og síðan lager á vegum hersins með 5000 tonn af eldsneyti. Það er ekkert smáræði, og hefur valdið miklu vanda.

Sérfræðingar segja sumir að Rússar muni tapa þessu stríði, því stöðugt streyma nýtízkuleg hergögn til Úkraínu, en Rússar eiga í skriðdrekavandræðum, eftir að viðskiptahöftin fóru að bíta.

Þetta Úkraínustríð hefur verið hið mesta feigðarflan fyrir Rússa. Að líkja Pútín við Hitler og að líkja þessu við upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar er langt frá því að vera raunhæft samkvæmt mörgum. Þýzki herinn var gríðarlega sterkur, samstilltur og agaður, vel vopnum búinn, þegar seinni heimsstyrjöldin hófst, en rússneski herinn er greinilega letiher og margt fer þar úrskeiðis, og viðhaldi er ábótavant. Mannfall Rússa hefur verið gríðarlegt, og eyðilegging verðmæta, en það sama má auðvitað segja um Úkraínu. Þetta stríð hefur verið slæmt í alla staði.

Ég hef lesið fróðlegar greinar bæði á Stundinni og hér á blogginu um að allt þetta stríð sé sýndarleikur Bandaríkjanna, að veikja Rússa og reyna svo að veikja Kínverja. Sú samsæriskenning er ekki eins fáránleg og halda mætti. Zelensky er af mörgum talinn peð Vesturlanda, og trú hans á Vesturlönd virðist jafn ósvikin og trú hans á Úkraínu. Það styður þessa túlkun. Nóg er að hlusta á hann tala til að sjá hversu sigurviss hann er, og það er merkilegt út af fyrir sig. Hann hefur sterka bakhjarla, víða um heim, og hvort allt þetta stríð sé sviðsett er ekki útilokað, samkvæmt greinum sem sumir hafa skrifað.

Orðin sem þessi Nató-maður segir í þessari frétt eru gagnrýniverð, að hann tali um að "Pútín virði styrk".

Heimurinn er kominn áratugi aftur í tímann í friðarmálum. Ekki bara Pútín heldur Vesturlönd líka. Þegar stórveldin skiptast á hótunum er þetta þannig. Orð Shirreffs, fyrrverandi aðstoðaryfirmanns herafla Natós eru á þá leið að "Pútín virði styrk".

Er það svo víst og er það svo einfalt? Hver virðir gamaldags ofbeldi núorðið nema ofbeldisfólk?

Fyrir Pútín vakir að þenja út Rússaveldi, það er nokkuð ljóst. Fyrir femínistum Vesturs og djöflaelítunni vakir að það gerist ekki.

Pútín læzt virða styrk, og gerir það eins og aðrir, en hverskonar styrk? Styrkur er margskonar. Í bókinni um veginn eftir Laó Tse er spekin á þá leið að mýktin sigri hörkuna og friðurinn sigri ofbeldið. Þetta er nú skoðun margra sem vinna gegn ofbeldi í mörgum myndum, og er nauðsynlegt að virða og skilja þetta sjónarmið. Sumt sem haft er eftir Kristi í Biblíunni vísar í þessa átt líka, og kristilegt siðferði hefur verið talið svona, af ýmsum.

Styrkur felst frekar í herkænsku en gamaldags, áþreifanlegu ofbeldi. Styrkur felst til dæmis í rökvísi og jafnaðargeði frekar en hótunum, stríðum og ofbeldi.

Það er hugmyndafræðistríð á bakvið Úkraínustríðið, kalt, andlegt menningarstríð, þar sem femínismi Vesturlanda þolir ekki stórveldabröltið í Rússum sem kemur frá öðru tímaskeiði.

Enn og aftur efast ég um að nokkuð sé skynsamlegt við þetta, hvort mannfallið hefði ekki orðið minna í Úkraínu ef Rússar hefðu náð þar yfirhöndinni án mikillar mótspyrnu. Við á Vesturlöndum erum ekki sjálfstæð. Hollywoodmenningin ræður yfir okkur, hugmyndafræðilega erum við þrælar og ambáttir hugmyndafræði sem hér ríkti ekki fyrir miðja 20. öldina.

Vandi Vesturlanda leysist fráleitt með því að sigra Rússa, því fer fjarri. Mengunin hefur aukizt skelfilega með þessu stríði, og fjölmargar aðrar ógnir hafa stigmagnazt, eins og nóg sé ekki um þær.

Ég hef ekki nokkra trú á því að þetta mannréttindakjaftæði sé aðalmálið í þessu stríði, að verja mannréttindi og sjálfstæði Úkraínumanna. Mannréttindi eru mölbrotin daglega út um allt.

Engu að síður er þetta stríð algjör viðbjóður og eyðilegging á fögrum og frjósömum landsvæðum Úkraínu, eins og mannslífum. En lengi hefur verið stefnt að þessu stríði, og Vesturlönd bera ábyrgð, bæði með því að styðja sjálfstæði frá Rússum, og svo með því að hjálpa til við að koma Zelensky til valda, og loks að senda hergögn og fleira.

Ég vil endurtaka það og ítreka það enn, að það eina rétta fyrir heimsfriðinn er að Rússar verði samtaka Vesturlöndum, að skilningur ríki og samvinna. Mikið hefur vantað uppá að fordómaleysi gagvart Rússum hafi ríkt í Vestrinu.

 

Skrímsli eru oft búin til með röngum viðbrögðum.

 

Ef þessi stríðsátök magnast enn meira, eða þriðja heimsstyrjöldin brýzt út, gereyðingarstyrjöld og heimsendir, þá eru svona menn eins og Richard Shireff sekir um það.

 

Ætla þeir að berjast eins og smástrákar með vopnin sín og láta alla aðra bera af því tjónið?

 

Hvar er friðarstefna Vinstri grænna núna?

 

Það er forkastanlegt og óábyrgt að einhver Nató maður eins og þessi Richard Shireff haldi því fram að harka dugi í samskiptum við Pútín. Staðfesta er annað en harka.

 

Þetta er dauðans alvara fyrir alla jarðarbúa.

 

Það er ekki heimsendir þótt Pútín nái markmiðum sínum um stærra Rússland. Opið stríð Rússa og Vesturlanda gæti auðveldlega endað með heimsendi.


mbl.is „Versta útkoman er stríð við Rússland“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 33
  • Sl. sólarhring: 115
  • Sl. viku: 692
  • Frá upphafi: 107154

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 524
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 18

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband