"Jafnréttið er framtíðin" eftir mig frá 2003, Alcoa, Kárahnjúkavirkjun, sagan endurtekur sig, hinn græni flokkur getur bæði verið Framsókn og Vinstri grænir.

Fyrsti hljómdiskurinn eftir mig tilbúinn fyrir endurútgáfu er "Jafnréttið er framtíðin" frá 2003. Það var býsna tímafrekt að hanna það sem gæti verið bakhlið á vinylútgáfu í framtíðinni, ég var búinn að gera þrjár tilraunir, og það tók mig viku. Upprunalega efnið á bakhliðinni á CD disknum var ekki nógu spennandi fyrir stækkun, stafir og upptalning.

Fyrsta tilraunin var að búa til "línunótur", eða baksíðutexta, eins og íslenzka heitið myndi vera, eða ljóð á baksíðuna eins og Bob Dylan gerði fyrir fyrstu plöturnar sínar. Ég notaði gömul prósaljóð frá þessum tíma og setti þetta upp á tölvu með stóran skjá, en mér fannst þetta ekki nógu heillandi og söluvænlegt.

Tilraun númer tvö var að hafa ljósmynd og bókstafi með nöfnum laganna. Það kom skár út. Umslagið var nokkuð líflegt, samt frekar venjulegt, og það fannst mér ekki nægja.

Ég er ekki nema þokkalegur teiknari, en var talinn góður teiknari sem unglingur, enda  var ég þá í þjálfun, og gerði myndasögur fyrir skólafélagana á þeim tíma. Þriðja tilraunin og sú sem ég er ánægður með fólst í að búa til nýja teikningu, tölvuteikningu, og nota hana.

Teikningin er af konu sem horfir á ský þar sem orðið "jafnrétti" stendur og því er þetta listræn mynd, næstum eins og málverk, fullt af táknum sem þarf að túlka, eða nokkur einföld grunntákn.

Síðan setti ég inn letrið með nöfnum laganna og upplýsingum um upptökur og annað slíkt og er ánægður með útkomuna.

Það er auðvitað ákveðinn galli að skanna ljósmynd og stækka, en í góðri upplausn virkar það alveg ágætlega. Þá er ég að tala um forsíður gamalla CD diska stækkaðar upp í stærð hæggengrar hljómplötu. Þegar notuð er drjúg bitadýpt og mikil upplausn og ljósmyndir gamlar stækkaðar með þessum hætti koma fram ýmsir skemmtilegir gallar á ljósmyndinni sem sáust ekki fyrr, og einnig ryk á gleri skannans. Raunar finnst mér það bara fyndið og sjarmerandi, því það minnir á enn eldri ljósmyndir, frá upphafi 20. aldarinnar, og gefur öllu saman miklu fornlegri blæ.

En tónlistin sjálf skiptir samt auðvitað mestu máli, nema umbúðirnar verða að hæfa og vera helzt þannig að þær veki áhuga.

Ég fer mjög nýstárlega leið að endurútgáfu þessara platna, ef af henni verður, sem sennilega verður, kannski ein á þessu ári, það kann að verða þessi. Það sem er nýstárlegt við fyrirhugaða endurútgáfu hjá mér á þessum plötum er að ég mun nota annað lagaval, stundum sömu lögin og stundum önnur, ég sem sagt nota frekar demóútgáfur en endilega það sem ég taldi endanlegar útgáfur. Oft voru svokölluðu prufuupptökurnar miklu betri.

Ég hef lesið nokkrar ævisögur um Bob Dylan og í mörgum þeirra kemur fram að menn eru sammála um þetta sama þegar hann var með hljóðverið "Run Down Studios" frá 1977 til 1982, eða Ræksnishljóðverið. Það var hans eigið hljóðver, og þá var hann mjög iðinn við að sleppa lögum sem hann kallaði demó, en í ljós hefur komið að þau eru ekki síður spennandi en þau sem komu út.

Allar mínar plötur eiga sér hljóðritunarsögu. Plöturnar í þríleiknum um jafnréttið eftir mig voru upphaflega skipulagðar árið 1997. Þær áttu að sýna baráttu kynjanna í sama ljósi og á leiksviði, sem baráttu upp á líf og dauða með allskyns öfgum. Þannig má segja að þetta sé leikritatónlist, upp að vissu marki. Síðan bættust við miklu fleiri lög sem ekki komust á plöturnar, því ég hélt mig við upprunaleg lög þegar kom að útgáfu, ekki því sem nýlegra var. Með því að endurskoða það atriði verður heildarmyndin önnur.

Ég hlustaði á ýmsar upptökur frá árinu 2003, sumt af því sem ég kallaði demó fannst mér gott og annað verra. Að mestu lausar við suð, en sumsstaðar bjögun, og nokkrir diskar skemmdust í sólarljósi, en sem betur fer fáir. Síðan eru fáeinar upptökur gallaðar, þar sem laus tenging fyrir hljómborðið kemur af stað lélegum hljómi. Engu að síður, mér fannst beztu upptökurnar frá einum sólarhring, 4. júní 2003, þegar ég tók upp alla 24 tíma sólarhringsins án svefns, fjölmarga diska, um það bil 10 talsins, ný lög ekki síður en gömul, og hljómgæðin fín.

Tvö lög munu verða á endurútgáfunni um Kárahnjúkavirkjun. Síðasta lagið hét upphaflega: "Hinn græni flokkur virkjar vonzku sína", og er svolítið fyndið hvernig sagan endurtekur sig í ljósi sögunnar og nútímans, en þetta var samið um Valgerði Sverrisdóttur og Framsóknarflokkinn og Alcoa, en hún var kölluð Álgerður á þessum tíma vegna stóriðjustefnunnar. Síðar var lagið endurskírt og kallað "Og Kárahnjúkar drukkna, foldin fögur". Það er hlutlausara nafn, en hið fyrra er svo sem hnyttið og skemmtilegt líka.

Það sem er svo skrýtið við þetta allt saman er að þarna var átt við Framsóknarflokkinn sem "hinn græna flokk", út af litnum í merki þeirra, en nú hafa Vinstri grænir fengið gagnrýni frá eigin fólki, þannig að þetta á enn við. Og enn eru vinstrimenn og hægrimenn í samstarfi og menn telja kreppu teiknast upp með þungum skýjum.

En jafnvel þótt allt sé tilbúið er það markaðsfræðingurinn og kaupsýslumaðurinn sem kemur upp í manni, og maður spyr sig hvort þetta muni seljast. Þegar maður var ungur lét maður bara gossa og lét það koma í ljós.

Sennilegasta svarið er það að þetta mun seljast eitthvað en ekki nóg, ekki nóg til að græða á því. Maður er farinn að hugsa um gróða núna, að koma út í plús í svona útgáfu, og það þarf sérstakar aðstæður til þess.

Löngunin til að láta eitthvað eftir sig sem gæti staðizt tímans tönn verður þó sennilega öðru yfirsterkari að lokum, þegar maður er búinn að hlusta á þetta nógu oft og sannfæra sig um að gallarnir séu færri og minni en kostirnir.

Ég er nefnilega farinn að komast á þá skoðun að eigulegur gripur af þessu tagi skipti máli fyrir marga, og að þessi endurútgáfa sé þörf og tímabær. Gömlu diskarnir eru næstum alveg uppseldir, en þeir síðustu eru til í Lucky Records.

Hinir diskarnir eru líka nokkurnveginn tilbúnir til endurútgáfu, nema ég hef ekki gefið mér tíma fyrir umslögin, og þarf að huga að öllum smáatriðum þar líka.

Árið 2019 gerði ég upptökur og var tilbúinn með breiðskífu undir nafninu "Kata rokkar". Nú gætu margir haldið að þar væru á ferðinni slagarar frá sjötta áratugnum, þar sem þetta er gamalt rokklag, en ég er eins og Megas og fleiri með það að endurnýta gömul dægurlög og fá hugmyndir úr þeim, en auðvitað var þetta um pólitíkina og forsætisráðherrann okkar, Katrínu Jakobsdóttur og ráðherra í þeirri stjórn og önnur pólitísk mál frá 2019.

Ég held að það sé ekki úr vegi að leggja áherzlu á eitthvað eins og þessa endurútgáfu, "Jafnréttið er framtíðin". Það eru nokkur lög þarna sem gætu passað við erkifemínistana. Ég raunar skil ekki hvernig ég gat samið þau, en þau eru grípandi og í samræmi við margt í nútímanum.

Ég lærði þetta af beztu skáldum okkar Íslendinga og af skáldum annarra þjóða, að yrkja í orðastað annarra. Þetta hafa sumir popparar gert líka, og oft með góðum árangri.

En við þessa endurútgáfu hafði ég það í huga að sem flestir gætu fundið þarna eitthvað við sitt hæfi, sem sagt, að boðskapurinn sé frekar óljós og margræður, en reyndar var leitun að þannig lögum eftir mig, en þau fundust þó.

En útgáfa er alltaf happdrætti. Jafnvel þegar fólk reynir sitt bezta að vanda sig og að viðhafa bæði markaðslegan og listrænan metnað getur allt farið í handaskolum og ekkert selzt, eða umfjöllun verið neikvæð og sala lítil.

Síðan þegar menn eru ekkert að reyna og eru bara þeir sjálfir, vanda sig jafnvel ekki neitt geta þeir hitt á algjöra metsöluplötu eða metsölubók. Merkilegt er þetta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 32
  • Sl. viku: 482
  • Frá upphafi: 106465

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 345
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband