"Gleymd" eftir Avril Lavigne af plötunni "Under My Skin", þýðing og túlkun.

Mér finnst áhugavert að fjalla um söngtexta sem ljóð einstaka sinnum, athuga hvort þeir standast slíka rýni og séu nógu vandaðir til þess. Bob Dylan er verðugur enda búinn að fá Nóbelsverðlaunin.

Textarnir sem Britney Spears var látin syngja í upphafi eru taldir með því versta af dægurlagatextum frá upphafi, en eitthvað er hún farin að semja í seinni tíð sem sannar að hún er ekki jafn einföld og talið var. Þeir eru samt engin snilld, en alveg bærilegir sem kveðskapur, svona miðað við dægurlagatexta almennt.

Margar söngkonur herma eftir henni, eða eru taldar hafa notað hana sem fyrirmynd. Avril Lavigne er talin ein af þeim, þótt hún hafi komið fram fyrst um svipað leyti. Öfugt við Britney Spears samdi hún yfirleitt sína söngtexta sjálf og gerði bærilega vel og gerir enn.

 

Avril syngur um sjálfa sig, sína ást, sitt hatur eins og næstum allir popparar. Hún yrkir líka um sjálfa sig að því er virðist, en gerir það þokkalega vel. Textar hennar eru ekki fullir af líkindamáli eins og góð ljóð eiga helzt að vera, en þeir eru sjálfstjáning nokkuð heiðarleg og einlæg, og hún hefur því frá upphafi sýnt að hún er meiri pælari og vitsmunavera en til dæmis Britney Spears hefur gefið sig út fyrir að vera.

 

Í upphafi sungu konur og stelpur lög eftir karlmenn en sömdu lítið sem ekkert sjálfar. Nú orðið eru þær farnar að standa jafnfætis, að einhverju leyti, að minnsta kosti orðnar mun meira áberandi en áður og fjöldi söngkvenna jafnvel orðinn meiri, en þó er enginn kvenkyns Bob Dylan til, en Joni Mitchell kemst kannski næst því, eða Kate Bush, en samt ekki. Þar eru margar býsna hæfileikaríkar, en engin ein sem er drottning hæfileikanna. Okkar ágæta Björk er mjög framúrstefnuleg og hæfileikarík, en ekki slíkur ljóðasnillingur eins og Bob Dylan.

 

Svona er þýðingin:

 

"Æ, æ, æ. Ég er að gefast upp á öllu af því að þú ruglaðir mig í ríminu. Þú veizt ekki hversu mikið þú gerðir mig klikkaða. Þú hlustaðir aldrei á mig, það var bara ekki nógu gott, af því að ég tek næstu skref áfram. Ég mun ekki gleyma því að þú hafðir rangt fyrir þér. Ég veit að ég þarf nauðsynlega að stíga uppúr þunglyndi mínu og vera sterk. Ekki tala niður til mín. Jamm, jamm, jamm, jamm. Ertu búinn að gleyma öllu sem ég vildi? Gleymirðu því núna? Þú náðir því aldrei. Skilurðu það núna? Jamm, jamm, jamm, jamm. Ætla að koma mér í burtu. Það er tilgangslaust að hugsa um gærdaginn. Það er orðið um seinan núna, það verður aldrei samt aftur. Við höfum breyzt svo mikið núna. Jamm, jamm, jamm, jamm. Ég veit að ég vil flýja, ég veit að ég vil flýja... flýja. Ég sagði þér hvað ég vildi, ég sagði þér hvað ég vildi, hvað ég vildi, en ég var gleymd. Ég mun ekki gleymast... aldrei aftur... gleymd... jamm, jamm, jamm... gleymd... jamm, jamm, jamm."

 

Svo mörg voru þau orð.

 

Sennilega ort í flýti, þarna eru andstæðar kenndir, og ólíkar setningar allt í hrærigraut, en samt merking í þessu sem skilst nokkurnveginn.

 

Það er ekki bundið við kvensöngvara og konur að popparar vandi ekki til textanna. Það er almennt vandamál og hefur verið býsna lengi. Gömlu dægurlagahöfundarnir höfðu textana yfirleitt á vönduðu máli, en samt voru þeirra textar oft ekki háleitur skáldskapur, en þeir gátu verið góðir hagyrðingar, eins og sagt var.

 

Með pönkkynslóðinni varð þetta oft öskur með ekkert eða lítið innihald, og enn finnst poppurum oft slíkt sæma sér vel. Mættu þeir margir vanda sig betur.

 

Eitt er gott við þennan texta, að hann gefur manni innsýn inní líf kvenna og heimsmynd allavega býsna margra á aldri við Avril og yngri, jafnvel eldri. Ég held að þetta séu bara mjög almennar tilfinningar sem eiga við um stráka og karlmenn líka, svona pirringur með makann eða þann sem maður er með.

 

Samt er annað merkilegt við þetta líka, það er kynslóðabilið. Eldri konur voru af sómakærari kynslóðum, sem gerðu kannski meiri kröfur til sín, að standa með karlkyninu, þarna er talsvert mikil eigingirni, sem ekki er til bóta eða talin mikið þroskamerki.

 

"Þú hafðir rangt fyrir þér" syngur Avril, þetta endurómar í pólitíkinni í dag.

 

Svona dægurlagatexti varpar ljósi á það líka hvað pólitíkin er á lágu plani í dag, ekki er talað um prinsipp endilega, heldur verið að skammast út í persónur út af einhverju öðru oft.

 

Ekki þarf að túlka þennan enfalda og auðskilda texta neitt sérstaklega, frekar að draga út aðalatriðin og benda aðeins betur á þau, eða það sem gæti skipt mestu máli.

 

"Þú gerðir mig klikkaða"... syngur hún.

 

Þetta eru ýkjur og þekkt stílbragð. Frekar má umorða þetta og segja að hún hafi ekki haft þroska til að takast á við breytta heimsmynd sem birtist henni í samskiptum við makann sem var ólíkur henni. Hún var ekki nógu þolinmóð, eða hann var með skapbresti, sem ekki koma fram í textanum, eða þau bæði jafnvel.

 

"Ertu búinn að gleyma öllu sem ÉG vildi?"... syngur hún. Þarna kemur eigingirnin, hún spyr ekki hvað hann vildi, heldur hvað hún sjálf vildi. Þetta er ekki til að lengja líf sambandanna.

 

"Þú náðir því aldrei". Jæja, kannski var það satt, kannski var hann ekkert sérlega skarpur, en "sjaldan veldur einn þá tveir deila", segir máltækið. Að minnsta kosti lýsir hún vel og greinilega samskiptavandanum sem sýnir þroska hennar sem manneskju, og þá fer maður að halda að strákurinn hafi verið enn yfirborðskenndari en hún sjálf, og kannski ekkert reynt að skilja hana.

 

Þetta er sorglegur texti, og vissulega hefur maður meiri samúð með henni en stráknum eftir að hafa lesið hann, því hún reynir vissulega en það ber engan árangur.

 

Hann virðist vera skúrkur og tilfinningalega þunnur. Að vísu heyrir maður ekki hans hlið á málinu, þannig að þetta er ekki alveg hlutlaus lýsing hjá henni.

 

Það sem mér finnst lýsa veikleika í hennar persónuleika er að hún skuli kvarta yfir að hann hafi "ruglað sig í ríminu"... því það er engin afsökun. Það er einmitt áhugavert að vera í samskiptum við maka sem er ólíkur manni sjálfum, kennir manni eitthvað nýtt.

 

Sennilega er þessi persóna þó tillitslaus sem hún lýsir, og það er alls ekki kostur.

 

Það er nú eiginlega tilgangslaust að fjalla meira um þennan texta. Hann hefur vissulega ágætan boðskap. Hann er ekki vandaður, en innihaldsríkur, upp að vissu marki.

 

Sennilega eru langflestir dægurlagatextar svona, þokkalegir, en ekkert spes.

 

Ég vil sýna það að þó ég haldi mikið upp á Bob Dylan sýni ég söngkonum og kvendægurlagahöfundum einnig athygli, eins og þessari, til dæmis, og Britney Spears.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 72
  • Sl. sólarhring: 257
  • Sl. viku: 675
  • Frá upphafi: 106730

Annað

  • Innlit í dag: 61
  • Innlit sl. viku: 489
  • Gestir í dag: 60
  • IP-tölur í dag: 60

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband