Þú verður að þjóna einhverjum eftir Bob Dylan, túlkun á öðru erindinu

Þá er komið að öðru erindinu á þessu kristilega lagi eftir Dylan. Eins og fram hefur komið er það af plötunni "Slow Train Coming" frá 1979. Nafnið merkir hægfara breytingar, titill plötunnar, og er vísun í eldri dægurlög frá fyrri hluta 20. aldarinnar, þegar lestir voru algengar og orðtök urðu til út frá þeim.

 

Af hverju bjó Dylan til svona einfalt lag og byrjaði plötuna á því? Var það fljótfærni og ekkert annað? Undarlegt ef sú er skýringin, því hann tók um það bil alla fyrstu 5 mánuði ársins 1979 til að semja nýtt efni, kristilegt, og þurfti því ekkert að flýta sér.  Skýringin hlýtur að vera önnur er fljótfærni. Kannski leti og áhugaleysi, metnaðarleysi?

 

Svona er þýðingin yfir á óbundna íslenzku:

 

"Þú mátt vera vaggs og veltu fíkill sprangandi um sviðið. Þú mátt hafa yfir fíkniefnum að ráða, konur í búri. Þú mátt vera viðskiptajöfur eða einhver háklassaþjófur. Þau mega kalla þig lækni eða þau mega kalla þig stjórnanda. En þú verður að þjóna einhverjum. Já, þú ert þannig að þú verður að þjóna einhverjum. Jæja, það má vera Djöfullinn og það má vera Drottinn, en þú verður að þjóna einhverjum."

 

Þetta segir sig allt sjálft, þetta er almennt málfar og ekki torskilið, en samt þarf að fara yfir þetta, úr því að maður tók sér þetta verkefni fyrir hendur og Dylan er slíkt stórskáld að hann ber að taka alvarlega, ekki sem venjulegan textasmið innihaldslauss efnis.

 

Er hann að lýsa sjálfum sér, þar sem árið á undan, 1978, var hann dæmigerður "vaggs og veltu fíkill?" (Vagg og velta er rokk og ról, alþýðutónlist, hryntónlist, dægurtónlist).

 

Fíkill, já, annar Dylan aðdáandi íslenzkur sagði mér það, sem heitir Halldór, að 1978 hafi hann neytt mikilla fíkniefna, og ég trúi honum, enda er hann mikill safnari gagna um Bob Dylan og hefur lesið margar bækur um hann, tímaritagreinar og hvaðeina.

 

Það er óvenjulegt af Bob Dylan að draga upp mynd af sjálfum sér í textunum og jafnvel göllum sínum. Þannig virðist þetta samt vera. Kannski var hugmyndaflugið ekki meira á þessum tíma eða sköpunargáfan. Fólk í sértrúarsöfnuðum sem ég hef talað við á leið minni um slíka söfnuði hefur sagt mér að stundum glati fólk hæfileikum sínum sem "frelsast"... að það hafni fyrra líferni sínu algerlega. Kom eitthvað slíkt fyrir Bob Dylan? Hann hætti að minnsta kosti að syngja veraldlega söngva sína á tónleikum á þessum tíma og notaði einungis þetta kristilega efni, þar til efagirnin fór aftur að sækja að honum, seint á árinu 1980, og árið 1981. Almenn ánægja ríkti með það meðal almennra aðdáenda hans.

 

Sérstaklega eftirtektarverð er setningin um að geyma konur í búri, (women in a cage), og þeirri setningu hefur ekki verið veitt nógu mikil athygli.

Nú er það svo að Bob Dylan gagnrýndi múslima og þeirra menningu annarsstaðar á þessari sömu plötu, og það þarf svo sem ekki að vera skrýtið, þar sem hann er Gyðingur og þeir hafa lengi eldað grátt silfur saman, múslimar og Gyðingar. Þessvegna kann það að skjóta skökku við að í þessari upptalningu þess sem virðist vera það sem hann telji eðlilegt líferni talar hann um menn sem geyma konur í búrum, eiga kvennabúr sem sagt, en slíkt hefur aðallega verið tengt við múslima, kalífa, og fáeina trúarhópa, mormóna jafnvel, en frekar í fortíðinni.

 

Reyndar er hann af sumum talinn dæmigerður maður af gamla skólanum, Bob Dylan, það er að segja, og Gyðingar almennt, miðað við femínista að minnsta kosti. Engu að síður er þessi setning sláandi fyrir suma, svona innanum lýsingar á eðlilegu nútímalíferni, sem eru miklu fyrirferðarmeiri. Ég veit ekki hversu algengt þetta er eða var í Bandaríkjunum, en einkvæni hefur verið tengt við Biblíuna og kristnina sem þar er algeng, ekki fjölkvæni, svo þetta er rannsóknarefni hví hann hefur þetta þarna í textanum. Er það til að sýna umburðarlyndi sitt, og til að upptalningin eigi við sem flesta, og sé án takmarkana? Helzt hallast ég að því, auk þess sem þetta kann að vera hans eðli, að honum finnist þetta sjálfsagt mál. Ýmsir eru á því að kvennabúr séu hið bezta mál.

 

Orðalagið að hafa vímuefnin "á valdi sínu" (at your command) er einnig áhugavert. Þar virðist hann telja það sjálfsagt að fólk neyti vímuefna, en annað mál sé hvort vímuefnin stjórni neytendunum eða neytendurnir stjórni sér og fíkn sinni. Hann er nú einu sinni maðurinn sem kenndi Bítlunum að nota gras og samdi viðlagið "Everybody must get stoned" (Rainy Day Women nos 12 and 35).

 

Síðan talar hann um að hlustandinn geti verið viðskiptajöfur. Jú, það er starfsgrein sem kannski stóð honum nærri, fyrst hann nefnir hana. Síðan nefnir hann háklassaþjóf í framhaldi af því, og er rökrétt. Þannig setur hann þetta einnig fram í kvæðinu.

 

Einhvernveginn vaknar sá grunur að hann sé að tala um læknadóp þegar hann nefnir að hlustandinn megi vera læknir. Í þessu samhengi, eftir orð eins og "addict" og "drugs". Ekki kannski alveg hentugasti félagsskapurinn, eða hvað?

 

Síðast nefnir hann höfðingja eða stjórnanda. Allt saman frekar tilviljanakennt og eins og mælt af munni fram frekar en vandað kvæði eða ljóð eða söngtexti.

 

Í viðlaginu kemur "en", og er það örlítil breyting. "Yes you are" í staðinn fyrir "vissulega". Að öðru leyti er viðlagið óbreytt.

 

Hver er hin almenna tilfinning hlustandans eða lesanda textans, ljóðsins? Allt er þetta mjög augljóst og skýrt, krefst ekki yfirlegu eða gáfna. Hver er þá tilgangurinn með þessari þulu og þessum endurtekningum? Að kristna fólk? Hugsanlega. Tekst það með svona romsu? Ég veit það ekki, endurtekningar eru mikið notaðar í kirkjum og sálmum.

Sögnin að þjóna er síendurtekin. Hún getur þýtt að vera þræll líka, því hluti af þrælahaldi er að telja ambátt eða þræli trú um undirgefni og hlýðni, gera viðkomandi viljug verkfæri í höndum eigandans. Ég er að reyna að sjá fleiri hliðar á þessu, eins og maður verður að gera ef maður er að stunda ljóðarannsóknir og ljóðaskýringar. Það er að vísu erfitt að sjá margar hliðar á einhverju sem er á svona almennu máli.

 

Yfirleitt tekur það meira pláss að fjalla um þessi erindi, en varla er hægt að segja meira um þetta erindi. Orðin eru ekki notuð í óvenjulegu samhengi og orðin eru ekki sjaldgæf eða skáldleg. Þetta eru venjulegar setningar, fyrir utan setninguna um að eðlilegt sé fyrir vestræna karla að eiga kvennabúr, eða þannig má túlka þetta.

 

Dylan var að vísu gagnrýndur fyrir að vera eins og soldán með kvennabúr á þessum tíma, því hann hélt við bakraddasöngkonurnar og var nýlega fráskilinn, og hafði nýlega samið lagið "Is Your Love In Vain?", þar sem hann lýsir því að kunni viðhaldið ekki að sauma og matreiða sé lítið eða ekkert gagn í henni og ást hennar. Þar var því lýst að í því lagi væri hann að fjalla um að safna konum í kvennabúr. Gagnrýnendur fjölluðu um það lag, á hinni firnagóðu plötu "Street Legal", frá 1978, sem kannski er hans bezta hljómplata.

 

Svona er annað erindi þessa kvæðis stórskáldsins Bob Dylans. Almennt er talið að textarnir verði ekki góðir fyrren 1981 eða 1983 aftur, þegar kristilega tímabilinu lýkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.5.): 106
  • Sl. sólarhring: 133
  • Sl. viku: 680
  • Frá upphafi: 107338

Annað

  • Innlit í dag: 70
  • Innlit sl. viku: 516
  • Gestir í dag: 63
  • IP-tölur í dag: 61

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband