Afmælið hans Jónasar í gær

Jónas Hallgrímsson átti afmæli í gær og dagurinn hans löngu orðinn hátíðisdagur sem er vel. Lítið fór fyrir dagskrárgerð að þessu sinni vegna dagsins, en endursýndur þáttur frá 1989 fannst mér helzt sæta tíðindum. Nafn hans er "Hrakar tungunni - íslenzk tunga". Eiður Guðnason þáverandi alþingismaður var þáttarstjórnandi, og fjórar manneskjur sem allar voru sammála um mikilvægi verndunarstefnu voru viðmælendur, Svavar Gestsson þáverandi menntamálaráðherra, Þóra Kristín Jónsdóttir kennari, Guðrún Kvaran orðabókarritstjóri og Valdimar Gunnarsson kennari.

 

Það gladdi mig að rifja upp þátt frá þeim tíma þegar fólk þurfti ekki að rífast um svona málefni, allir voru sammála um verndun íslendzkunnar. Fyrir okkar samtíma er svona þáttur gullkorn, því hann opnar glugga að tíma sem er eiginlega nýliðinn, en margt má læra af.

 

Árið 1989 er merkilegt að því leyti að þetta var korter í Alnetið. Enginn minntist þarna á Alnetið, enda voru örfá ár í að það fengi útbreiðslu. Aðrar ógnir var talað um. Þessu ágæta fólki varð tíðrætt um útlendar teiknimyndir og ógnina sem stafar af þeim. Voru allir sammála um að nauðsynlegt væri að talsetja slíkt barnaefni, og það gekk eftir árin í kjölfarið. Nú er barnaefni talsett langoftast, eins og það á að vera.

 

Annað sem vakti athygli mína var að allir fordæmdu búðir með útlend heiti, og var harkan mikil í þeirri fordæmingu og reiðin. Valdimar Gunnarsson kennari sagði að slíkt væri hlægilegt og eiginlega fyrirlitlegt, að verzlanir á okkar ágæta landi væru ekki með íslenzk nöfn. Þóra Kristín Jónsdóttir kennari færði umræðuna á plan samfélagslegra aðgerða og virkrar andstöðu og kom með þá tillögu að búðir með útlend heiti yrðu sniðgengnar af almenningi og samstaða yrði virkjuð til þess, hunzaðar, þannig að þær yrðu gjaldþrota. Fór svo talið út í annað, en ekki var þessu mótmælt, að vísu.

 

Var þarna minnzt á að í sambandi við búðir með útlend nöfn væri hægt að miða við mannanafnanefnd og setja álíka hörð lög til samræmis. Svavar Gestsson var helzt að efast um þetta, en þó ekki af neinni hörku.

 

Þetta tvennt er áhugavert. Annað hefur gengið eftir en ekki hitt. Búðum með útlend nöfn hefur fjölgað, þar hefur lausung og frelsi ríkt, en teiknimyndir eru næstum allar talsettar.

 

Annað atriði vil ég nefna, þetta almenna. Minni áherzla er í dag lögð á verndun íslenzkunnar en meiri ástæða er til þess þar sem við lifum í fjölþjóðlegra umhverfi. Það sem vantar er þessi einróma stuðningur við íhald í þessu efni.

 

Nokkur atriði í þessum þætti eru mikilvæg. Talað var um mikilvægi lesturs gamalla bóka til að efla orðaforðann, það á alltaf við. Svo var talað um að börnin umgengjust afa og ömmur, og það er enn í fullu gildi. Svo eru önnur atriði sem hægt er að deila um, eins og hversu mikil útlend áhrif eigi að leyfa eða hvort yfirleitt eigi að setja lög og reglugerðir um slíkt.

 

Að setja standardinn hátt, það er byrjunin, að vita við hvað er miðað, og síðan að ræða út frá því tilslakanir ef fólki finnst þær við hæfi.

 

Skemmtiþátturinn á föstudagskvöldum er mjög jákvæður sem byrjun í þessu efni undir stjórn Braga Valdimars og Bjargar Magnúsdóttur.

 

Auðvitað væri einnig hægt að vera með vikulega umræðuþætti um íslenzkuna á RÚV með alvarlegra yfirbragði, í sjónvarpinu frekar en útvarpinu, enda vekur það meiri athygli, og væri hægt að vera með skemmtiatriði á milli til að létta stemmninguna.

 

Það skýtur skökku við að hugmyndir séu uppi á alþingi um tilslökun í þessu og að dómsmálaráðherra vilji leggja niður mannanafnanefnd. Það virðist allra sízt eiga við á okkar tímum þegar þörf er á að grípa til verndaraðgerða og lagasetninga í því efni frekar en tilslakana, í ljósi fjölmenningarinnar sem ríkir nú en ríkti ekki áður nema mjög lítið.

 

Ráðherrarnir verða að gera sér grein fyrir því að þörfin fyrir þá hverfur um leið og sjálfstæðið hverfur. Án tungumálsins hverfur sjálfstæðið og þörfin fyrir þá um leið. Í kjölfarið verður krafan um inngöngu í ESB háværari, það hlýtur bara að vera óhjákvæmilegt, ef ráðherrarnir vilja leggja niður mannanafnanefnd. Þetta tvennt hlýtur að tengjast órjúfanlegum böndum. Annað er heimska, að ímynda sér að svo sé ekki. Þjóð sem gerir málvillur, týnir niður orðaforða og finnst auðveldara að tala ensku er að missa sjálfstæðið. Ég fagna því afmælinu hans Jónasar í gær og vona að það veki fólk til umhugsunar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 24
  • Sl. sólarhring: 70
  • Sl. viku: 702
  • Frá upphafi: 106896

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 502
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 17

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband