Að nota minni samskipti og heimilisdvöl til að þroskast

 

Á tímum farsótta eykst kvíðinn, skelfingin og margt það neikvæða í mannssálinni. Eðlilegt er að meiri hætta sé þá á átökum utan og innan heimila. Hér vil ég gera að umtalsefni hræðslu við hitt kynið sem getur birzt á ýmsan hátt, til dæmis sem feimni eða stefnum sem ala á tortryggni gagnvart hinu kyninu. Kynjahyggja er það kallað á íslenzku. Maður væri að afneita veruleikanum ef maður neitaði því að alið hafi verið á andúð gegn konum lengst af í mannkynssögunni en eitthvað kann það að hafa breyzt á síðastliðnum áratugum og kannski þannig að alið hafi verið á andúð gegn körlum, af harðlínuvinstrimönnum og mannréttindafrömuðum ekki sízt. Ég vil rifja upp mína æsku og unglingsár í menntaskóla þegar ég var feiminn við stelpur sem mér leizt vel á. Ég hræddist að gera mistök. Ég setti þær á stall sem guðdómlegar verur, sem ég var hrifnastur af. Svo ef eitthvað gekk ekki gat ég fyllzt af kvenhatri um stundarsakir vegna beizkju og óánægju. Ég var reiður út í sjálfan mig að klúðra málunum, en það er sálfræðilegt að manni finnst auðveldara að beina reiðinni að öðrum. Það gekk þó yfir.

Ég vil taka það fram að hugtakið kvenhatur er algjörlega misskilið af of mörgum. Einhver aðili sem hreyfir mótbárum við öfgafullri meginstraumspólitíkinni sem gengur út á jákvæða mismunun í æ ríkara mæli ætti ekki að þurfa að sitja undir áfellisdómi um kvenhatur. Það finnst mér allt annað fyrirbæri.

Mér finnst hatur einkenna nútímann, hatur á náunganum, lítið er um kynþáttahatur miðað við fyrr á tímum eða hatur á milli þjóða sem birzt getur í stríðsrekstri ekki hvað sízt.

Öll þessi óhamingja, þunglyndið, kvíðinn, þetta sem herjar á fólk sem aldrei fyrr, þetta á rætur að rekja til vandræða í samskiptum að miklu leyti, og helzt til erfiðleika við að umbera hitt kynið. Ég legg mig stundum fram við að lesa það sem konur skrifa eða blogga um til að reyna að skilja þær. Sérstaklega finnst mér áhugavert að lesa skoðanir þeirra sem eru ósammála mér.

Aðalpunkturinn í þessari grein er að reyna að koma til móts við konur sem þola ekki feðraveldið. Gjána sem myndazt hefur á milli kynjanna verður að brúa, annað er ómögulegt. Það væri hægt að skrifa mikla doðranta um þetta og hefur vissulega verið gert, en gjáin hefur dýpkað en sízt minnkað. Það er vegna þess að viðhorfin hafa breyzt. Óbilgirnin hefur aukizt á báða bóga, en þó langmest kvennamegin.

Ég ólst upp hjá afa og ömmu mest. Amma var heimavinnandi húsmóðir til æviloka, en þótt femínistar fullyrði að konur af hennar kynslóð hljóti að hafa verið óhamingjusamari og kúgaðri en konur eftirstríðsáranna sem ólust upp við kvenréttindi er ég ekki svo viss um það.

Mamma hefur mér sízt virzt hamingjusamari en amma og ekki tollað lengi með hverjum manni vegna óraunhæfra væntinga til karlmanna. Ég hef rekið mig á þetta sama, að verða ástfanginn þýðir ekki paradís, ólíkar skoðanir eða eitthvað valda vanda.

Fólkið fyrir tíma kvenréttindaheimsstyrjaldarinnar var raunsætt; það gerði með sér sáttmála sem dugði og sem byggður var á Biblíunni, sem byggist á mjög gamalli hefð og reynslu kynslóðanna. Þessar gömlu kynslóðir afrekuðu stórkostlega hluti við miklu óblíðari aðstæður en við hin höfum lifað við sem yngri erum. Án samheldninnar hefði það aldrei tekizt sem þessar kynslóðir tóku sér fyrir hendur.

Blaðamaðurinn Eiríkur Jónsson er einn af þeim sem stundur talar í spakmælum, sem eru eins dýrmæt og speki Konfúsíusar. Ég hef þann hæfileika að muna ævilangt þær setningar efnislega sem mér finnst kenna mér eitthvað, þótt ég muni þær ekki endilega orðréttar. Einhverju sinni skrifaði hann eitthvað á þá leið að femínisminn hefði kostað meiri sársauka og hörmungar en báðar heimsstyrjaldirnar til samans. Hann gefur sig þó út fyrir að vera mikill femínisti, en í þessari setningu hans er svo mikill sannleikur fólginn að vel mætti skrifa um hana þykkan og mikinn doðrant sem myndi varpa ljósi á samtíma okkar og menningu.

Vegna þess að þarna var nákvæmlega hitt á réttan punkt bjó ég til orðið kvenréttindaheimsstyrjöldin, og fullyrði að kvenréttindaheimsstyrjöldin sé þriðja heimsstyrjöldin og að hún standi enn yfir, og að henni muni ekki ljúka fyrr en kynin hafa sættzt að nýju, búið til slíkan samfélagssáttmála að frjósemi aukist að nýju og ástir blómstri sem aldrei fyrr. 

Þessi ótti við hitt kynið veldur útskúfun sem karlar verða fyrir og hann veldur þunglyndi og kvíða hjá mörgum konum. Þessi ótti við hitt kynið veldur sem sagt ómældum þjáningum, og kostnaðurinn sem fylgir honum í formi sálfræðiþjónustu og lyfjanotkunar er gríðarlegur.

Þess vegna vil ég leggja það til að þroskað fólk stígi til baka og athugi hvort fyrri kynslóðir geti ekki kennt og þroskað okkur sem yngri erum, þetta fólk sem komið er á annan hnött eða hvar sem við viljum trúa að það sé í framlífi sínu.

Kynþáttahyggjan var svo vinsæl á fyrri hluta 20. aldarinnar að hún litaði allar þjóðir, ekki bara þá þýzku og japönsku. Kynjahyggjan er vandamál og böl okkar tíma og hún á eftir að hljóta dóm sinn á sama hátt, er ég viss um. Hún er ekkert til að hreykja sér af, þótt ráðherrar geri það, því miður.

Hér í kreppunni er tími til að hugsa og þroskast. Í kreppunni er tækifæri til að vera ekki einstrengingslegur heldur láta af sínu ef skynsemi og rök hníga til þess.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 16
  • Sl. sólarhring: 136
  • Sl. viku: 739
  • Frá upphafi: 106821

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 531
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband