Færsluflokkur: Bloggar
25.2.2024 | 01:00
Bashar Murad: Sigurmöguleiki Íslendinga í JÚRÓVISJÓN í ár.
Bashar Murad komst áfram í gær í Söngvakeppni Sjónvarpsins. Eins og ég skrifaði um þegar ég frétti fyrst að hann myndi keppa býst ég við að hann sé sigurstranglegur, því keppnin er rammpólitísk. Það sem kom mér þó á óvart þegar ég hlustaði á lagið í gær var að mér skyldi líka það svona vel.
Alvarlegir tónlistarmenn og lagahöfundar komast ekki lengur áfram í forkeppninni hér á Íslandi. Magnús Eiríksson er og verður góður lagahöfundur og textahöfundur. Gleðibankinn sem sigraði 1986 er í raun ekki hans alvarlegasta lagasmíð, en samt er það lag ekki flatneskja og yfirborðslegt, það er perla. Sókrates eftir Stormsker er heldur ekki hans dýpsta lag, en perla samt, leikandi létt og fullt af háði og gagnrýni, ef vel er að gáð.
En þetta lag er alvarlegt og skemmtilegt í senn. Snilld, ekkert annað.
Lagið Vestrið villt er gott.
Mér finnst MJÖG heillandi að Palestínumaður frá Jerúsalem, einu stríðshrjáðasta svæði í heimi syngi á skemmtilega bjagaðri og krúttlegri íslenzku! Hann syngur mjög vel og lagið er fullt af háði en er samt grípandi og flott en ekki þungt. Textinn er gagnrýni á Vesturlönd, og þetta er svo snjallt að senda svona boðskap.
Höfundur textans er snillingur. Þetta er það sama og ég hef reynt að gera í mínum textum, að gagnrýna með tvíræðni og samt að hafa textana skemmtilega. Textinn lýsir einnig vel hlutskipti Palestínumanna, "að veði legg mína sál", "svo er bara að taka sénsinn", (sem hlýtur að vera mikilvægt þegar maður er alltaf í lífshættu), "vestrið villt þar sem mild og tryllt eru kaup og skipti", (svo rétt og satt), "í vestrið villt þar sem illt og spillt er besta fólkið", (snilldarleg gagnrýni og rétt), "er ég aldrei hólpinn", (einnig gott að fá svona alvöru pólitík í froðukeppnina Júróvisjón). "Hamra járnið, þarna er það - tækifærið" (beitt háð í svona keppni), "þú færð einn séns" (já einnig rétt, því fólki sem er slaufað fær ekki aftur tækifæri).
Textinn virðist sérsaminn fyrir Bashar, en ég er bæði hrifinn af lagi, flutningi og texta. Ferskur og lifandi flutningur, lagið er grípandi og textinn einstaklega beittur miðað við svona væmna keppni og slepjulega.
En eins og alltaf finnst mér hin lögin líka skemmtileg. Þau eru bara án brodds og gagnrýni, og hafa ekki sama boðskap og lagið sem Bashar flytur.
Í alvöru, þá er ég viss um að Ísland á loksins möguleika á AÐ SIGRA JÚRÓVISJÓN úti í löndum!!!!!!!!
![]() |
Myndasyrpa: Gleði og glimmer í Söngvakeppninni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.2.2024 | 21:17
Gæsahegðun og mannahegðun
Ég fylgdist með gæsahópi þar sem ég var gestkomandi við heimahús í dag. Var það merkilegt að fylgjast með hegðun fuglanna sem minnti mig á mannlega galla og lesti. Húsmóðirin var með tvo poka af gömlu brauði sem hún dreifði á stéttina að húsabaki. Eins og menn vita þekur snjór jörð nú um stundir.
Sumt fannst mér bráðfyndið við hegðun fuglanna. Um það bil 6 gæsir söfnuðust þarna saman að húsarbaki.
Fuglarnir létu ekki sjá sig fyrr en klukkustund eftir að brauðinu var dreift, en eru þeir næstum daglegir gestir þarna þar sem þeir vita að brauðs er von.
Fyrst voru þeir smeykir við að nálgast húsið. Þá var það ein gæsin sem gerðist hugrakkari og vakkaði nær unz hún greip brauðbita í gogginn, en hrökklaðist til baka af ótta við mannfólkið og hjó með goggi svo brauðið fór í smærri bita. Samstundis sáu hinar gæsirnar þetta að ein hafði náð í bita og fóru að elta þessa hugrökku með skrækjum og vængjablaki. Sú hugrakka tók á rás með brauðbita í gogginum með hinar allar á eftir.
Þetta fannst mér það fyndnasta, hvernig þær glefsuðu í fjaðrirnar á henni og tíndu svo upp brauðbitana sem hún missti á flóttanum.
Í stað þess að þora að leita til uppsprettunnar, í brauðið næst húsinu, réðust þær á einu gæsina sem hafði kjark og dug til að finna fyrsta brauðbitann og reyndu að ná honum af henni.
Minnir á hugleysi okkar mannanna og hvernig við ráðumst á þann sem segir sannleikann og skarar framúr oft, þótt sá geri mest gagn og hjálpi mest.
Þegar þessi fyrsti biti var uppétinn af gæsahópnum fóru þær að svipast um betur. Að þessu sinni var sú hugrakka enn fyrst til að finna næsta bita. Munurinn var sá að tvær aðrar voru farnar að verða eins skynsamar og hugrakkar og hún og fóru að snusa á svipuðum slóðum og horfa með gaumgæfni á snævi þakta jörðina.
Þannig að þær átu fylli sína af brauði næsta hálftímann eða svo. Veizluborðið var svo ríkulegt að þær urðu frá að hverfa þegar talsvert var eftir af brauði, enda hafði húsmóðirin þarna dreift úr tveimur pokum af gjafmildi og hjálpsemi sinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2024 | 10:25
Sem umhverfisverndarsinni vonaði ég að rafbílar myndu vera lausn á mengun benzínbíla
Kannski er eitthvað til í því að rafbílatæknin muni ekki alveg taka við af benzínbílunum. En ef eitthvað land hentar fyrir rafbíla er það Ísland, út af okkar fallvötnum og raforkuverum.
![]() |
Hrun í sölu nýrra rafbíla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2024 | 02:07
Snúum öllu á eina veginn, ljóð frá 6. apríl 2017.
Snúum öllu á eina veginn,
ástin bíður þolinmóð.
Hjálpum svo makanum móða,
mey, vörpum ei fyrir róða
því sem getur blómstra betur ætíð,
bara hina réttu þarna fæ tíð.
Endum svo elskunnar megin,
alveg nú sammála, skiljum allt góð!
Ennþá höllin er að standa,
ævintýrin gerast þar.
Verð að fá athygli og ástir,
aðrir svo þykist ei skástir.
Hún er feimin, masar óstyrk meira,
mína dýrkun vill ei nú um heyra.
Erum við aftur í vanda?
Aðeins það stúlkunafn virðist rétt svar!
Kaffihúsið, kvöldsins milda
kyrrð og það sem lærum við.
Finnum við straumana sterku?
Stöndum hjá verkunum merku?
Fæ ég kannski að lýsa mínu lífi?
Langar helzt að dvelja meður vífi.
Menntskælingsmorið að gilda?
Mun nýja parið svo upplifa frið?
Ein er hér sem yndi vekur,
útlit hefur býsna frítt.
Miðaldra, gömul og guggin,
girndalaus, fagmannleg, hnuggin.
Aldrei kemst ég að, vil tala núna,
elska pínulítið réttu frúna.
Hefði ég hitt þessa frekur,
heimurinn virkar enn, segðu það grýtt!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég hef lengi haft áhuga á pólitík, og ég man þá tíð þegar Frjálslyndi flokkurinn setti þessi mál á dagskrá þannig að eftir var tekið og fékk gagnrýni frá ýmsum, að Þórunn Sveinbjarnardóttir, Kvennalistakona og Samfylkingarkona var oft mjög hvöss í því efni. Ég hélt að hún væri óforbetranleg í sinni röngu stefnu, en í seinni fréttum RÚV talaði hún um "mál málanna" (flóttamannamálin) og "fjórði hver maður á vinnumarkaði kemur frá öðrum löndum", "gríðarleg fólksfjölgun síðastliðin 10 ár hið minnsta", "stjórnvöld ekki hafi sinnt því hlutverki að styrkja innviðina í takt við nýjar þarfir", og fleira af því tagi.
Mér finnst þetta stórmerkilegt að þessi kona sem var mjög hvassyrt gegn þeim sem ekki vildu fullkomna mannúð og allt að því opin landamæri skuli nú vera farin að tala eins og Sjálfstæðisflokksmanneskja, lætur rökvísina ráða!
Enn fremur var Arndís Anna ekki sama gribban og hún stundum virðist. Það má með sanni segja að Eiríkur Bergmann hafi rétt fyrir sér þegar hann lýsir því að allt samfélagið er búið að skipta um skoðun í þessu máli, þeir vinstriöfgafyllstu hafa mildazt gegn "hægriöfgafólkinu" og þeirra málflutningi, og fleiri viðurkenna þá stefnu en áður.
Sem sé, Þórunn, Arndís og fleiri viðurkenna hluta af þeim rökum sem notuð eru og voru notuð fyrir 30 árum og þóttu þá hinir mestu öfgar af þessu sama fólki (Arndís var að vísu heldur ung þá til að tjá sig mikið).
Já, svo sannarlega samfélagsbreyting, og fyrirsjáanleg, með gjörbreyttu samfélagi og samsetningu þjóðarinnar, sem er nú fjölbreytilegri en nokkrusinni fyrr.
Ég tek þó undir orð Þórunnar í RÚV að stefnu Samfylkingarinnar er opinberlega breytt á landsfundi þeirra, og að hér er verið að setja mál á dagskrá. Þó má tala um stefnubreytingu, eða stefnumótun, því formaður flokksins dregur vagninn, ekki satt, og leggur línurnar?
![]() |
Ætti að vera hægur vandi að hafa fulla stjórn á landamærum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Já, slakur árangur í PISA könnun veldur mikilli sölu á barnabókum. Það er ágætt. Annars vil ég segja það að áhugi minn á zetunni vaknaði þegar ég las barnabækur með zetunni. Mér fannst hún svo flott og leiðinlegt að hún var horfin að ég vildi læra hana, sem ég gerði auðveldlega.
Það voru Bob Moran bækurnar og bækurnar eftir Enid Blyton sem án efa vöktu áhuga minn á zetunni.
Eitt sinn kom það í fréttum að bækurnar eftir Enid Blyton voru þýddar á ný og gefnar út, því þær voru sagðar á "stirðu máli". Þessu er ég gjörsamlega ósammála.
Þeir sem eru svo heppnir að eiga bækur sem eru 40 ára gamlar eða meira geta séð af eigin raun hvernig mikill orðaforði hefur fallið niður í dag sem til var þá.
Þessvegna legg ég til að þetta verði næsta átak í íslenzkunni, að hefja hana aftur til vegs og virðingar með því að orðaforðinn hjá fólki verði bættur, með því að það kynni sér eldri bækur og tali meira við eldra fólk.
Það geta allir lært zeturegluna. Hún er einfaldari en yfsilonreglan og reglubundnari að mun. Komið+sig (sik) verður komizt, verð+slun verður verzlun, ytarst (utarlegast) verður yzt, benjoin acid verður benzín. Merkilegt er að svo virðist sem framburðar d í erlendum málum hafi leitt af sér alþjóðlega zetu þar.
Zetureglan er tiltölulega auðveld ef maður lærir hana almennilega. Síðan er það hinn almenni orðaforði sem var án efa meiri hjá fólki snemma á 20. öldinni, þegar skáldskapur var elskaður, dýrkaður og dáður, en þar eru notuð sjaldgæf orð einatt. Auk þess voru starfsstéttirnar með sinn orðaforða á íslenzku og tökuorð í bland, en í dag eru ensk orð næstum allsráðandi víða þegar kemur að starfsstéttum og gúgglað er á netinu.
Málræktarátak er því alveg nauðsynlegt, að byrja aftur að búa til orð og nota þau.
En það er spor í rétta átt að sala á nútímabarnabókum taki kipp, því betra er að börnin lesi en séu í tölvunum bara og læri þar flest á ensku.
![]() |
Sala á barnabókum tók kipp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2024 | 00:22
Hinn kúgaði Egill sem ekki stjórnar Silfrinu lengur en skammast útí pólitíkusa á Fésbókarsíðu sinni í staðinn
Ekki fannst mér það trúverðugt þegar Egill lýsti því yfir í viðtali í fyrra eða þar um bil að RÚV væri svo góður vinnustaður að þar væri honum ekki ritstýrt, heldur hafi það frekar gerzt á Skjá einum eða Stöð 2. Hversvegna stjórnar hann þá ekki lengur Silfrinu heldur bara Kiljunni, og verður lélegri með hverjum þætti þar? Eitthvað við þetta gengur bara ekki upp, og segir manni að hann hafi ekki verið hreinskilinn í þessu viðtali þar sem hann lýsti RÚV sem fyrirmyndarvinnustað og engri kúgun eða ritstýringu.
Annað svipað fyrirbæri er þegar sem flestir fyrrverandi og núverandi áhrifamenn (og konur) innan Samfylkingarinnar afneita því að þetta sé einhver stefnubreyting hjá Samfylkingunni, og Kristrún sjálf vill nota orðið stefnumótun, sem jú er nákvæmara orðaval, en er jafnan undanfari stefnubreytingar, sé eitthvað mark á þeim takandi í Samfylkingunni, sé þetta annað og meira en tímabundið og ómarktækt lýðskrum í þeim.
Egill Helgason er stundum mjög leiðinlegur vinstriíhaldspjakkur og hræddur um að vera kallaður rasisti þegar hann ræðst á aðra fyrir slíkt, eins og Ingu Sæland. Enda er það algengt að þeir sem ala í brjósti sér leyndan rasisma saki aðra um það af mestum ákafa.
Skemmtilegustu viðtölin í Silfrinu hafa verið þegar hann hefur espað fólk til að tjá sig á öfgafenginn hátt. Ég man efnislega þegar hann sagði í Silfri Egils fyrir meira en 10 árum að áhugi hans á öfgastefnum í pólitík (hægriöfgum og vinstriöfgum) væri fyrir honum jafn mikil fíkn og klám er fyrir öðrum. Hann sagði þetta vissulega í einum þætti í lok viðtals, þótt orðalagið hafi ekki verið nákvæmlega svona. Það er einmitt þessi áhugi sem gerði hann að góðum þáttastjórnanda sem fór ekki nákvæmlega alltaf eftir pólitískri rétthugsun, heldur ýtti fólki lengra, lengra, lengra.
En aftur að spurningunni, hversvegna er Egill ekki með Silfrið lengur?
Er það ekki augljóst að reynt hefur verið að milda Silfrið og eyðileggja það allan þann tíma sem það hefur verið á RÚV?
Er það ekki augljóst að dagskrárstjórarnir á RÚV eru með eitraða vinstriöfga yfir sér hangandi sem skemma vinnubrögð þeirra?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2024 | 00:21
Sigmundur Davíð ætti kannski aftur að verða forsætisráðherra, hann virðist með fæturna fasta í raunveruleikanum öfugt við marga aðra sem hafa völdin
Stefnubreyting Samfylkingarinnar kemur ekki á óvart ef þessi frétt er að lýsa því að Ísland sé að verða eins og önnur Norðurlönd með svipuð eða sömu vandamál og sömu tegundir af flokkum sem berjast gegn upplausn í samfélaginu þar af leiðandi.
Margir höfðu bent á þetta en fengu bágt fyrir að miklu leyti.
Ég tel svona fréttir eiga erindi við fólk. Hér með er ekki sagt að allir palestínskir flóttamenn séu svona, en varlega þurfi að fara í flóttamannamálunum eins og til dæmis Sigmundur Davíð hefur sagt. Fréttir eiga að lýsa því sem gerist án því að fela, fegra eða ýkja atburðina. Mér virðist þessi frétt lýsa veruleika, sem þó þarf ekki að vera orðið normið. Málið er að ef Ísland tekur á móti einhverjum flóttamönnum sem önnur lönd taka ekki við er vel hægt að búast við að þar sé misjafn sauður í mörgu fé, þótt ekki sé nú meira sagt. Sumir stjórnmálamenn hafa talað um stjórnleysi í þessu, og ef það er rétt er þetta ekki skrýtið.
En ef hræðsluumræða skapast eigum við nóg af fólki sem vill segja að allt sé vondum rasistum að kenna og ekkert þeim sem fremja verknaðina, því það séu bara vondar félagslegar aðstæður sem valdi þessu.
Ennþá er Ísland ekki orðið eins og Svíþjóð eða slík lönd. Til þess að forðast slíkt þarf að taka meira mark á þeim sem vara við - slíkt eru ekki fordómar ef það er rökstutt, en mikið ber á því eins og í Vikunni hjá Gísla Marteini að hinir fái aðeins að tjá sig sem vilja sem mesta alþjóðahyggju.
Athugum það að aldrei hefði komið til þess að ungir menn hefðu skipulagt hér hryðjuverk ef umræðan hefði ekki verið að skapast um að stjórnvöld ynnu gegn rótgrónu skipulagi.
![]() |
Báðir stungumennirnir palestínskir flóttamenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.2.2024 | 16:31
Allskonar öfgar sig hefja, ljóð frá 1. janúar 2009.
Ég efast meðan aðrir hrópa og kalla,
ég áður sá og heyrði skrílinn tapa.
Bráður kappi fer að falla,
forsjálnin slíkum er gleymd.
Gildrurnar úti þig gleyptu,
geðinu upp víða hleyptu.
Spyrðu þig að grunnsök glapa,
gráðug var þjóðin í rökleysu teymd!
Nú logar þetta land í reiði og gremju,
og lætin mikil, pottar eru barðir.
Virðulegur vill þó hemju,
vaknar nú baráttan týnd.
Allskonar öfgar sig hefja,
enginn vill stríðshrópin tefja.
Hægrisinnar hrópa skarðir:
"Heyrið ei þjóðrækniskylduorð brýnd?"
Reiðin er líka í mér, rauð eru blómin,
réttlæti vil ég sem hinir.
Nazíska byltingin, klanska og klára,
kemur ei hingað án baráttu og tára.
Oft eru viðsnúnir vinir.
Vargarnir umsnúnu brýna svo róminn!
Þeir kúga margir, drepa og dæma úti,
menn dreymir um að fátt sé þannig nærri,
og þókt ég ófætt ennþá súti,
aðrir það skilja lítt, vei!
Valdir þá vegferð og liðið?
Víst kemur líka þar ryðið...
Verður ekki af því stærri,
eftir slík vonbrigði kveða þau: Nei!
Úrkynjuð menning vill ekki sig bæta,
með upphlaupi slíku hvar skortir mark.
Því er víða þræta,
þjark...
Hvað falið bíður fæstir vilja um ræða,
og flóttaleiðir ríkis, þegna duldar,
en annar guð vill engan hræða,
allt er þar sannleikur skír.
Fótboltaleikurinn fúli,
fletin þókt margskemmdu spúli,
óskir kvenna allar muldar,
ekki var þetta, fljóð dagur manns nýr.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.2.2024 | 00:02
Kristrún Frostadóttir færir Samfylkinguna nær Sjálfstæðisflokknum í landamæramálum og flóttamannamálum - að evrópskri fyrirmynd jafnaðarmannaflokka nútímans
Samfylkingin er stærsti flokkur landsins samkvæmt könnunum, með 31% fylgi. Kristrún Frostadóttir var gestur í hlaðvarpinu "Ein pæling" hjá Þórarni Hjartarsyni og þar kom þetta fram sem RÚV sagði frá í seinni kvöldfréttum í gær. Eiríkur Bergmann stjórnmálaprófessor útskýrði hversu markvert þetta er.
"Klár og skýr stefnubreyting", sagði hann. "Vill herða tökin á landamærunum", "takmarka frekar fólkið sem kemur", "gera umhverfið strangara, meira í takt við til dæmis það sem gerist í Danmörku", sagði hann ennfremur.
Með þessum orðum má vera að Kristrún innsigli gott samstarf með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum þegar næst verður kosið, hvenær sem það nú verður. Einnig er ljóst af þessari stefnubreytingu að Samfylking nútímans er að fiska á sömu miðum eftir kjósendum og Sjálfstæðisflokkurinn, og nú eru öfgavinstrisinnaðir andstæðingar þessarar rökréttu stefnu í landamæramálum hættir að tala um að "fiska í gruggugu vatni" þegar svona er talað, því ljóst er að allur almenningur er nokkurnveginn á þessari skoðun, þótt það sé orðað með misjöfnum hætti.
Þetta eru góð tíðindi fyrir Sjálfstæðisflokkinn, að því leyti að þarna er samstarfsflokkur sem ætti að vera nokkuð auðvelt að vinna með. Fátt skilur á milli þegar hér er komið sögu, nema fyrrverandi áhugi á aðild að Evrópusambandinu, sem enn er til staðar, en ofaní skúffu að mestu leyti.
Þetta kemur ekki á óvart, því vaxandi þungi er í almenningi að þessu leytinu til, sérstaklega núna þegar verðbólgan er vandamál og kjörin í lakari kantinum. Þá er vitað að atvinnuleysið bítur og kostnaður af þessu tagi er ekki það sem margir telja gott fyrirbæri, við flóttamenn.
Það eru Vinstri grænir sem verða illa úti eftir þetta stjórnarsamstarf, því nú er ljóst hvert fylgi Sjálfstæðisflokksins fór, til Samfylkingarinnar, sem komin er jafnvel með svipaða afstöðu í landamæramálum. Gleymum því ekki að skiptar skoðanir eru um þetta líka innan Sjálfstæðisflokksins, þannig að samstarfið ætti að ganga vel.
Píratar, Vinstri grænir og Sósíalistaflokkurinn, þetta eru þeir flokkar sem stilla sér upp sem andstæður við borgaraleg gildi af þessu tagi. Viðreisn sveiflast sennilega til eins og Samfylkingin eftir því sem vindar blása og eftir því hverjir eru áhrifamestir þar inni.
Með þessari stefnubreytingu Samfylkingarinnar höfum við Íslendingar færzt 5-10 ár nær norrænu flokkunum í Skandinavíu og er það gott mál, en það neikvæða er að við höfum einnig færzt nær Skandinavíu hvað varðar vandamál í undirheimunum, aukna tíðni á sumum afbrotum, miðað við fréttir, eða tilkynningar á þeim, um hitt má deila.
En skoðanakannanir hafa einnig sýnt að Íslendingar eru opnari fyrir því að ganga í ESB, og það kæmi mér ekki á óvart að það yrði ofaná eftir 10 ár eða svo, því ef það kemur vel við efnahaginn og budduna þá vilja Íslendingar það einatt.
Gömlu kynslóðirnar hafa æ minni áhrif, sem héldu í prinsipp eins og sjálfstæði, eins og afi minn og amma sem bæði eru látin. Reyndar er mamma þannig líka og margir aðrir sem ég þekki á ýmsum aldri.
En pabbi og margir í föðurætt minni eru jafnaðarfólk, og ég hef oft deilt við þau um þetta. Ef ég þekki þau rétt þá sætta þau sig við stefnubreytingu síns forystufólks. Ég var bara á undan samtímanum.
En ég hef oft tjáð mig um það að kannski muni þjóðin fara í ESB að lokum.
Eitt það skemmtilegasta við Samfylkingu nútímans er að óþolandi femínískar áherzlur fortíðarinnar eru ekki í forgrunni, heldur kjör almennings og hagfræði, efnahagur og réttlæti, hvernig svo sem verkin verða, þegar þau loksins komast í ríkisstjórn, sem ég efast ekkert um að gerist næst þegar verður kosið, sennilega með Sjálfstæðisflokknum.
Þetta eru frábærar fréttir fyrir norrænt og evrópskt samstarf og aukinn skilning á milli landanna og betri samskipti. Evrópusambandið er mjög gott að mörgu leyti. Samt eru gallarnir þar líka gígantískir. Ef danskar áherzlur fá að ráða eykst ánægja mín með Evrópusambandið.
Nú er jafnvel svo komið að innan tveggja meginstoðanna er farið að bera á stefnubreytingu í landamæramálum. Þýzkaland og Frakkland standa á þeim tímamótum að þar eru stórir flokkar sem ýta á þær breytingar.
Ef Evrópusambandið kemst þannig í innra jafnvægi við evrópskar og menningarlegar rætur sínar getur verið að áherzlan á einstaklingsfrelsið aukist einnig og áherzla á minna regluverk.
Þá gæti ESB orðið almennilega fýsilegur kostur fyrir Íslendinga.
En þetta er óvíst.
![]() |
Kristrún: Það eru verkin sem tala |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Nýjustu færslur
- Þegar konur stjórna, þá er móðursýki og klikkun afleiðingin
- Aðeins kærleiksrík vera gat keppt við Krist um vinsældir, ekk...
- Ástandið á Gasa sem ekki er bara Hamas að kenna er undirrót s...
- Svaraverðir menn, þeir sem styðja lífstefnu en ekki helstefnu
- Sókn er bezta vörnin - það er sú stefna sem hjálpar mest ísle...
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.10.): 61
- Sl. sólarhring: 82
- Sl. viku: 646
- Frá upphafi: 159935
Annað
- Innlit í dag: 36
- Innlit sl. viku: 500
- Gestir í dag: 35
- IP-tölur í dag: 35
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar