24.12.2022 | 20:29
Þeir varnarlausu geta átt meiri innistæðu í guðsríkinu en þeir sem eru sigurvegarar í þessum heimi - sígildur boðskapur jólaguðspjallsins er þannig
Jólaguðspjallið geymir þá merkilegu sögu að frelsarinn fæddist í fjárhúsi. Það er finnst mér nóg til að gera kristnina öðruvísi en ýmis trúarbrögð sem leggja áherzlu á guði sem eru yfirmannlegir og ósigrandi að Jesús er samkvæmt sögunni ofsóttur af Heródesi strax þegar hann fæðist. Það vekur samúð með honum og sannleikanum einnig, segir okkur að sannleikurinn er ofsóttur, það er regla frekar en undantekning.
Á sama tíma og Jesús Kristur er sagður ósigrandi og almáttugur guð eins og faðirinn birtist hann okkur í líki varnarlauss barns á sama tíma, sérstaklega á jólunum, þegar hann er sagður hafa fæðzt, þótt sumir efist um þá tímasetningu fæðingu hans.
Þetta finnst mér vera heillandi við jólaguðspjallið og tala til mín, boðskapurinn er sá að við getum tekið feil á þeim sem eru varnarlausir og lítils megandi í okkar samtíma, þeir geta átt innistæðu í guðsríkinu sem er miklu meiri og merkilegri en fólkið sem er mest metið og ræður yfir öðrum í þessum heimi.
Inni á Stundinni er einn í athugasemdum sem kallar guð Biblíunnar "fjallaklifrara" sem "sagði að konan ætti að vera manninum undirgefin", og "Jesús boðaði allt annað en stendur í Gamla testamentinu".
Já það eru víst engar ýkjur að Nýja testamentið er vinsælla en Gamla testamentið í nútímanum, og þó sagði Kristur að ekki félli stafkrókur úr gildi úr lögmálinu á meðan himinn og jörð stæðu uppi.
Í Lúkasarguðspjalli er tilvitnunin fræga, "að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina" að boði Ágústusar keisara. Margir hafa fært þetta uppá nútímann, að þau boð komu frá Bill Gates að bólusetja skyldi alla heimsbyggðina.
Eftir því sem bókmenntatextar verða frægari og útbreiddari er meiri hættan á að menn efist um þá og vilji skýra þá á sinn hátt. Þannig er auðvitað um þessa texta, að margir telja sig vita betur um þá en fólk sem vill einfalda barnatrú.
Hvort sem þessir textar eru sagnfræðilega réttir eða ekki eru þetta fallegir textar að mörgu leyti og fullir af mannúð. Það eitt gefur þeim gildi, þeir gefa fólki von og góða trú sem hægt er að byggja á. Nema hvað að heimurinn er ekki algóður, og því er þörf að leggja út af öðru einnig.
Gleðileg jól og farsælt komandi ár til allra!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.12.2022 | 01:15
Þorláksmessuskatan og fleiri bernskuminningar
Það var ekki mikil skötuhefð á mínu bernskuheimili, en þó fékk ég bæði skötu hjá móðurfjölskyldunni og föðurfjölskyldunni nokkrum sinnum í bernsku minni, en ekki mikið eftir að amma dó þegar ég var 15 ára. Amma var svo metnaðarfull í eldamennskunni og vildi halda í svona hefðir, eða læra þær jafnvel. En ég var matvandur og vildi skötuna sjaldan, en ég lærði snemma að borða hákarl og hef alltaf kunnað vel við hann eftir það.
En ég man eftir því að helgi jólanna hófst á Þorláksmessunni hjá ömmu og afa. Frá og með Þorláksmessunni var hátíðin hafin og maður varð að vera stilltur.
Amma kunni skil á heilögum mönnum úr kaþólskunni enda svo mikil trúkona að hún vildi muna af hverju dagarnir voru helgidagar.
Mömmu hefur alltaf fylgt ofbeldi. Það var þó nokkuð sem aldrei gerðist hjá ömmu og afa, aldrei. Fyrir nokkrum árum ætlaði ég að skrifa ævisögu mömmu, en ég gerði bara uppkast að nokkrum köflum, og það er allt óklárað. En saga hennar er mjög merkileg, öll átökin sem hún hefur lent í, og átt sök á sjálf vegna innbyrðis átaka. Nema það að þesskonar saga sögð og skrifuð af mér passar ekki endilega inní fórnarlambavæðingu kvenkynsins, en þó mun hugsanlega síðar verða markaður fyrir þannig nálgun á þessi alþekktu þjóðfélagsvandamál sem femínistar þykjast hafa einkarétt á að skilgreina og túlka.
Mamma hefur trúað mér fyrir ýmsu og hún komst að því sjálf fyrir löngu með aðstoð sálfræðinga og geðlækna, hver væri sennilega ástæða erfiðleika hjá henni. Ég hef átt gott trúanaðarsamband við mömmu, og þó getum við ekki alltaf átt góð samskipti, það fer eftir tímabilum, eins og gerist hjá mörgu fólki sem er náið.
Einu sinni eftir erfiðan skilnað leitaði hún mikið til sálfræðinga. Hún hafði þörf fyrir að tala. Ég var nærstaddur og á unglingsaldri og einnig eftir tvítugt hafði hún þörf fyrir að ræða um þetta við mig, enda ég þá á viðræðuhæfum aldri. Það kom uppúr kafinu að samband hennar við ömmu er sennilega það sem gerði hana of vandláta á karlmenn, og kom af stað ýmsu erfiðu.
Hún hefur mjög viðkvæma skapgerð að upplagi. Hún var hrædd við fólk og grátgjörn í bernsku, hélt sér fast í ömmu en það breyttist þegar yngri systir hennar fæddist.
Afi var þannig gerður að hann beitti hinsvegar aldrei neinu ofbeldi. Ef hann rassskellti börnin var það þegar amma krafðist þess. Hann átti erfiða bernsku vegna vinnuþrælkunar og náttúru sem var óblíð, og hann þurfti snemma að vinna fyrir sér, hlýða foreldrum sínum. Hann flúði erfiðleika með því að sækja í vinnufíkn og neitaði yfirleitt að beita sér harkalega í uppeldi. Hann var gagnrýndur fyrir það af pabba. Ég hef kannski ranglega tekið undir það hjá pabba og sumum öðrum að hans mildilegu uppeldisaðferðir hafi verið gagnrýniverðar.
Að freudískum hætti rifjaði mamma upp bernskuna í smáatriðum til að skilja sín vandamál.
Hún sagði þessum sálfræðingum frá þessu og þeir komust að því að of náið samband hennar við móður sína of lengi hafi gert hana ofurviðkvæma fyrir gagnrýni og einhverju sem henni mislíkaði við karlmenn. Eða þá að ákveðin skapgerð sem er meðfædd býður upp á erfið samskipti síðar meir í lífinu án þess að við foreldrana sé að sakast um það.
Þetta er mjög merkileg niðurstaða en hún er kannski ekki vinsæl í dag, þegar allt á að vera körlum að kenna, feðrum og feðraveldinu.
En á þeim árum þegar mamma fluttist að heiman man ég líka eftir mörgum góðum minningum. Sérstaklega voru jólin 1978 merkileg. Um öll jólin lá ég yfir teiknimyndasögum sem ég fékk í jólagjöf frá ættingjum og hrifningin var ógurleg, ég las þær aftur og aftur sem ég fékk í jólagjöf. Síðar fór ég sjálfur að teikna og semja myndasögur og fékk mikið hrós frá bekkjarfélögunum. Það var gott fyrir mig félagslega, því ég var innhverfur og ekki nógu félagslyndur. Það var amma sem ól mig upp næstum alveg ein til 5 ára aldurs.
Amma kenndi mér að lesa þegar ég var 5 ára með því að benda á stafina á Mogganum og láta mig hafa orðin eftir. Mér fannst það auðvelt.
En snemma fékk ég áhuga á myndasögum Þetta var á þeim árum þegar bæði Iðunn og Fjölvi helltu sér útí þessa útgáfu af fullum þunga og þannig var það mörg ár á eftir.
Ég hætti að gera teiknimyndasögur árið 1989. Ég reyndi aftur að byrja 1992, en úr því varð aðeins ein blaðsíða.
Það var ekki fyrr en í kófinu, árið 2020 að ég byrjaði aftur að gera myndasögur. Að vísu lélegri teikningar en nokkrusinni fyrr, en handritin og sögurnar betri en nokkrusinni fyrr, vil ég segja, því ég bæti inní mínum pólitísku skoðunum og hef boðskap í þessu.
En það yrði allt að teikna upp aftur til að verða söluvænlegt.
Á jólunum hverfur hugurinn aftur til ömmu og afa. Ekki mátti taka upp pakka fyrr en rétt fyrir miðnætti á aðfangadag, til að kenna manni að forðast alla Mammonsdýrkun, sem er svo áberandi nú í nútímanum eins og svo oft áður. Maður varð að fara til messu eða hlusta á messuna í útvarpinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2022 | 02:38
Kostnaður Vesturlanda við Úkraínustríðið gæti verið nauðsynlegur í annað, eins og að stuðla að friði í Serbíu og Kósovó.
Það er víðar en í Úkraínu sem allt er á suðupunkti. Serbía og Kósovó eru þannig, og víðar er ástandið þannig.
Með því að styðja Úkraínu hafa Vesturlönd veikt sig, í stað þess að hjálpa Rússum að innlima héruðin eða Úkraínu alla.
![]() |
Serbía og Kósovó á barmi vopnaðra átaka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég vil benda á merkilega grein í DV sem heitir "Dauðalistinn og tjáningarfrelsið".
Þar kemur margt fram. NATÓ byrjaði að móta vestrænan áróður í Úkraínu strax 1997, með undirritun sáttmála NATÓ og Úkraínu um samstarf.
Önnur DV grein um þetta er einnig merkileg: "Enn einn rússneskur oligarki bættist á dauðalistann". Hún fjallar um hvernig ríssneski olígarkinn Dmitry Zelenov dó á dularfullan hátt og var á dauðalista sérsveita í Úkraínu.
Í DV greininni eru samsæriskenningar viðraðar um að Pútín hafi látið drepa hann og fleiri úr liði Rússa sem þannig hafa dáið með voveiflegum hætti. Líklegra er þó að Zelenskí hafi gert það eða aðilar á vesturlöndum. Um 15 rússneskir olígarkar hafa dáið síðan stríðið byrjaði, segir í fréttinni. Svo virðist sem eitrað hafi verið fyrir honum og hann síðan rotaður til bana eða hrint niður stiga.
Darina Dugina, fréttakona og nátengd valdhöfum Pútíns var drepin með bílasprengju 21. ágúst á þessu ári.
Azov nazistarnir eru taldir standa fyrir þessum drápum á háttsettum Rússum og dauðalistinn nær yfir fólk af mörgum þjóðernum. Evrópusambandið hefur verið máttlaust í gagnrýni á þetta.
200.000 eru taldir á þessum dauðalistum, og Úkraínumenn sem standa fyrir þessu eru í samvinnu við aðila útum allan heim í tengslum við upplýsingaóreiðu.
Það skuggalegasta er að þetta er samvinnuverkefni víða um heim. Í tenglum DV fréttarinnar er því lýst að Göbbels hafi kennt þessar aðferðir, og baráttan gegn upplýsingaóreiðu sé jafn fasísk og baráttan gegn óvinum Þriðja Ríkisins var.
Þessi stórmerkilega DV grein setur Úkraínustríðið í alveg nýtt ljós. Hallur Hallson hefur fjallað um þetta á Útvarpi Sögu, og eitthvað örlítið vissi ég um þetta frá öðrum bloggurum, en hér er myndin gerð fyllri, og það er rökstutt þannig að ekki verður um villzt að vestræn áhrif í Úkraínu byrjuðu mun fyrr en 2014, jafnvel 1997 eða enn fyrr, sem setur þetta allt í nýtt ljós.
Vestrænn stuðningur við Úkraínu hlýtur að virka vafasamur í þessu ljósi.
Baráttan gegn upplýsingaóreiðunni er hluti af málflutningi Demókrata í Bandaríkjunum. Nú er verið að reyna að dæma Donald Trump og sem flesta sem með honum hafa starfað, og þær ásakanir virðast þó á veikum grunni byggðar þegar svona fréttist og kemur uppá yfirborðið, sem lætur mann finnst Demókratar natzistar nútímans en ekki Repúblikanar, því ef það er rétt að fólk sé í alvöru drepið fyrir það að breiða út svonefndar falsfréttir, þá er það annað og meira en að gera tilraun til valdaráns, eins og Donald Trump og hans fólk er sakað um.
Í DV greininni er minnzt á Birgi Ármannsson sem virðist gera sér ljóst að íslenzkir ráðherrar þurfa að gera sér grein fyrir því að hér er lýðræðið í hættu, og af fleiri aðilum en Donald Trump og Repúblikönum.
Loksins er DV með tímamótagrein um þetta. RÚV ætti líka að fjalla um þessa hlið málsins. Það hefur þá skyldu gagnvart sínum áhorfendum og hlustendum.
![]() |
ESB búið að minnka gasnotkun um 20% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.12.2022 | 00:40
Aldrei kemur annað efnahagshrun, ljóð frá 27. janúar 2002.
Eitt sinn fannst mér þessi texti ónothæfur því hann rættist ekki, það er að segja að einmitt það þveröfga kom í ljós 2008. Nú er ég kominn á þá skoðun að "ignorance is bliss", fávizkan er gleðin.
Þetta var tekið upp fyrir hljómdiskinn "Við viljum jafnrétti", en ekki notað.
Of margir jazzhljómar.
Næstum engin laglína.
En samt er þetta það sem maður ætti að keppast að, bara að trúa á jafnaðarboðskapinn án gagnrýni. Að telja RÚV alheiminn.
Ef maður trúir þessu getur maður látið sér standa á sama um veruleikann.
Það hlýtur að vera takmarkið.
Ég er ánægður með þennan texta vegna þess að hann passar við nútímann, löngunina til að vera einsog fjöldinn. Það hlýtur að vera takmarkið.
Maður þarf engan veruleika, engan sannleika, ef maður bara er hlýtt og gott barn þeirra sem maður á að trúa á, þeirra sem redda heiminum, koma á réttlæti og jafnrétti.
Ég vil verða einsog Bubbi Morthens. Ég vil vinsældir frekar en eitthvað annað, og lifa af listinni. Það þýðir að maður verður að syngja svona söngva.
Aldrei kemur annað efnahagshrun.
Jafnréttið breytti þessu öllu.
Nú vinna
kommúnistar
með kapítalistum
og allt er gott.
Engin vandamál
eru til lengur.
Þetta er fullkomið.
Og þú sérð það líka,
og þú fattar það líka.
Endalok sögunnar.
Engin vandamál
lengur.
Jafnréttið
sigraði
allt.
Jafnréttið
bjargaði
heiminum.
Fullkomið fólk,
hamingjusamt fólk
og enginn þarf
að kvarta.
Ekki lengur
að minnsta
kosti.
Og þú segir það sama og allir aðrir,
og hún er óeigingjörn.
Hún hefur engan áhuga á öfgum,
hún hefur engan áhuga á neinu slíku.
Hún er algjör húmanisti
einsog allir aðrir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.12.2022 | 05:48
Áður voru ADHD einstaklingar bara duglegir einstaklingar. Nú er tilhneigingin að dópa niður dugnaðinn.
Samkvæmt nýlegum pistli frá Guðjóni Hreinberg er allt ADHD ruglið runnið undan rifjum marxista og heimskúgura af því taginu, mannfjandsamlegum vinstrifasistum, sem vilja horfa á fólk njörvað niður í hólf og dópað í deyfð frekar en að leyfa því að blómstra og leika frjálst. Wikipediagreinin sem hann vísar í staðfestir þetta.
Nú er það svo að það þykir sjálfsagt að lyfin skuli eiga sér þessa fortíð, marxískar rannsóknir og slíkt. Það er við almenning að sakast, sem étur uppí sig skort á gagnrýnni hugsun og þiggur af elítunni norm sem aldrei hefði átt að verða neitt norm og er ekki normalt.
Hinn umdeildi en landsfrægi Óttar Guðmundsson hefur þó getið sér orð fyrir það að gagnrýna of miklar flokkanir og lyfjanotkun íslenzku þjóðarinnar. Þannig að sérfræðingar eru misjafnir, sem betur fer.
Börn eru þannig að þau trúa yfirleitt gagnrýnilaust. Þannig að þetta er þeirra leikvöllur eins og hinna fullorðnu, að trúa á þessar greiningar, hvort sem þær eru um líkamlega eða andlega heilsu. Einhvernveginn komust samt fyrri kynslóðir vel af og blómstruðu án greininga og lyfjanna, nema lyfjagrös voru notuð, sem teljast náttúruleg.
Það er varla í sjónmáli að fólk sé að fá nóg af þessari heimsmynd. Ekki er úr vegi að kalla þetta gorgónur og medúsur, sýndarveruleikapúka sem þannig leika með fólk.
Mér finnst ein staðreynd gnæfa yfir allar: Að fólki fækkar á Vesturlöndum. Það sýnir hversu villt unga fólkið er í frumskógum staðleysanna.
![]() |
Byrja með námskeið fyrir krakka með ADHD |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.12.2022 | 06:15
Er ekki Bob Dylan eitt mesta atkvæðaskáld fyrr eða síðar?
Einn af mínum uppáhaldsbloggurum, Magnús Sigurðsson, skrifaði nýlega um kraftaskáld og atkvæðaskáld. Tónlistarmaðurinn Bob Dylan sem hefur verið í uppáhaldi hjá mér síðan ég var 12 ára hlýtur að teljast kraftaskáld og atkvæðaskáld. Hann hefur breytt heiminum, hvorki meira né minna. Hann gerði það að tízku hjá ungum mönnum að koma með eigið efni í stað þess að treysta á lög eftir aðra. Því miður átti hann einnig einhvern þátt í því að gera eiturlyf vinsæl, eða sumir segja það.
Það er svo merkilegt að lesa ævisögurnar um Bob Dylan. Hann var eins og ég, hætti í skóla. Nema hann náði vinsældum talsvert snemma sem tónlistarmaður, skömmu eftir tvítugt. Í New York kynntist hann Woody Guthrie, átrúnaðargoðið sitt, sem þá var á spítala vegna Huntingtonveikinnar sem hann erfði, og hann söng fyrir Woody Guthrie.
Hann kynntist mörgum helztu kaffihúsatrúbadorunum, og kom oft og mikið fram. Rödd hans þótti ekki ómþýð og í fyrstu fékk hann ekkert of góðar viðtökur. Það var ekki fyrr en 1961 0g 1962 þegar hann fór að semja eigin lög af alvöru sem hann fékk athygli, virðingu, vinsældir og viðurkenningu. Fyrsta platan hans þótti ekkert sérstök, en hann sló í gegn 1963 með "Blowing In The Wind" og fleiri lögum á annarri plötu sinni.
Bob Dylan hafði sérstakt lag á kvenfólki frá upphafi. Í fyrstu vakti hann móðurlegar tilfinningar og samúð, en Suze Rotolo sem var fyrsta alvöru kærastan hans hjálpaði honum mikið að komast áfram, enda með sambönd í listalífinu víða, og vakti athygli hans á mannréttindum, mótmælasöngvum og slíku. Án hennar hefði hann sennilega aldrei samið "Blowing In The Wind", enda samdi hann næstum alla mótmælasöngva sína undir áhrifum frá henni, á meðan ástarsamband þeirra stóð yfir, til ársins 1964.
Joan Baez var í hans huga nokkurskonar eldri systir og fyrirmynd, sennilega, en lagið "Visions of Johanna" er talið samið til hennar, eða kannski, það er dularfullt lag og ekki alveg ljóst um hvað það er. Það er súrrealískt, dóplag kallað af mörgum.
Sara Lownds Dylan var stóra ástin í lífi hans, en þau voru hjón frá 1965 til 1977. Sagt er að hann sé enn að semja tregablandin og beizkjufull lög til hennar, og kenni henni um skilnaðinn.
En hvernig gat Bob Dylan galdrað sig til vinsælda sem kraftaskáld og atkvæðaskáld sem breytti heiminum?
Ég tel að svarið sé að hann var réttur maður á réttum tíma. Réttindabarátta blökkumanna hafði kraumað undir niðri í bandarísku samfélagi áratugum saman 1962. Blowing In The Wind var lag sem næstum allir gátu heimfært uppá sín baráttumál því það var og er nógu loðið til þess, almennt orðað.
En það var þannig með dægurlög sem voru of beinskeytt um slík vandamál að þau urðu ekki vinsæl nema í frekar fámennum hópum og kimum samfélagsins eins og til dæmis meðal harðra kommúnista, sem voru ofsóttir í Bandaríkjunum á þeim tíma.
En Bob Dylan náði tengingu við allskonar fólk. Sem maður af gyðingaættum náði hann hylli þess hóps, sem hafði mikil ítök í þjóðfélaginu og hefur enn. Menntaelítan tók hann einnig uppá sína arma að miklu leyti, og stór hluti almennings.
Auk þess var hann augljóst skáld, rödd sinnar kynslóðar, eins og hann hefur verið kallaður allar götur síðan. Með spámannlegum ljóðum eins og "Tímarnir eru að breytast", (The Times They Are A-Changing) tókst honum að stimpla sig inn sem táknmynd þjóðskálds Bandaríkjanna og hefur staðið undir þeim væntingum allt sitt líf, en samt á köflum mjög átt í vök að verjast, þegar fólk hefur sagt hann vera andlausan og útbrunninn, gamlan og útjaskaðan. Þó hefur hann náð að endurnýja sig reglulega með nýjum sólóplötum sem hafa fengið nokkuð góða dóma, þótt langt líði á milli.
Bob Dylan varð órjúfanlegur þáttur af húmanismahreyfingunni og mannréttindahreyfingunni, sem aðalskáld þjóðfélagsbreytinganna sem vinstrimenn stóðu fyrir á þessum tíma í Ameríku, og ekki nóg með það, hann var einn af guðfeðrum 68-kynslóðarinnar og LSD sumarsins 1967, því platan Blonde on Blonde frá 1966 hafði þau áhrif textalega og tónlistarlega.
Þótt Bob Dylan hafi gert sitt ítrasta til að afneita því að hann sé einhver sérstakur kommúnisti eða mannréttindafrömuður síðan hann varð rokkari 1965, þá er þetta sá orðstír sem hefur dugað honum lengst og lifir enn.
Atkvæðaskáld fyrri tíma á Íslandi held ég að hafi orðið fræg vegna þess að þau voru tákn fyrir Endurreisnina, jafnvel löngu áður en hún kom. Þau héldu heiðnum siðvenjum lifandi, ásamt fleirum.
Þannig að atkvæðaskáld eru hluti af menningunni, og undir réttum kringumstæðum eru þau nokkurskonar brennisteinn sem kveikir uppreisnarbálið og umbyltinguna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.12.2022 | 04:24
Erfðasyndin getur verið svo margt
Mannkynið er á gjöreyðingarbraut. Það þarf ekkert að ræða það. Áhugavert er hvernig þetta byrjaði allt. Hvað er líf? Er hægt að skilgreina líf? Hafa ríkir jarðarbúar rétt og mátt sem manni virðist?
Margt fróðlegt tilheyrir kristinni trú, bæði í hefðum og bókmenntum. Erfðasyndin finnst mér áhugavert hugtak. Ég hef lengi velt því fyrir mér hvort eitthvað sé hæft í slíku eða ekki.
Ég trúi ekki endilega þeirri skýringu á erfðasyndinni að hún sé fall Evu og Adams. Eða öllu heldur, ég held að það sé einföldun og þarfnist frekari og vísindalegri skýringa við, en ég held að eitthvað sé hæft í slíkum mýtum.
Hin raunverulega erfðasynd átti sér stað í alheiminum takmarkaða sem nefndur er Mú. Þar endurfæddust forfeður okkar og formæður þar til hann leið undir lok. Þá tók við líf í Le, öðrum takmörkuðum alheimi, eða búlgi, eins og ég vil orða það. Þar urðu syndir mannanna meiri og verri, þeir vikust enn meira undan vilja guðanna.
Sagan um Ask og Emblu tel ég að sé raunveruleg sköpunarsaga sem átti sér stað á Mú. Aðrar sköpunarsögur eru eftirmyndir.
Mú var fyrsti alheimurinn, þar sem við urðum til, eða forfeður okkar og formæður. Þar átti sér syndafallið, án efa.
Takmark hverrar sköpunar er að verða sköpurunum til dýrðar, að fjölga sér og fullkomnast.
Erfðasyndin var sem sagt óhlýðni við guðina og gyðjurnar í Valhöll, að sköpunin fór að tigna tröll, það er að segja önnur goð, eða djöfla.
Kynþáttahyggjan er eitt það heilagasta í sköpuninni, að virða útlit sem gefið var upphaflega af guðunum, hvernig svo sem það er, og það getur verið margvíslegt. Þetta var eitt af því fyrsta sem þessi mannkyn gerðu sem voru ófullkomin, að fjölga sér með dýrum og öðrum tegundum mannapa og mannvera. Það var erfðasyndin.
Le var annar takmarkaður alheimur. Þar voru refsingar teknar upp með skipulegum hætti af sköpurunum, það er að segja að lífið á Mú var paradís, án sjúkdóma og ósamstillingar, án erfiðleika, fyrr en eftir brotin gegn vilja guðanna.
Lemúra var þriðji takmarkaði alheimurinn. Þar varð helstefnan jafnvel enn verri.
Atlantis var fjórði takmarkaði alheimurinn. Fleiri skrímsli komu til sögunnar og ógnir, meiri helstefna, ólíkari tegundir sem börðust um lífsrýmið, meiri kvalir, meiri refsingar, meiri óhlýðni, en samt eins og frá upphafi, það kom í bylgjum, góðir tímar og vondir tímar, refsingar og umbunir.
Þennan takmarkaða alheim veit ég ekki hvað á að kalla. Ætli hann sé ekki kallaður Armageddon, eftir þeim fyrirframgerðu örlögum sem stefnt er að?
Í gegnum alla mannkynssöguna höfum við fengið tækifæri og alltaf fallið á prófunum að lokum, en náð einhverjum stigum um stundarsakir og þá hefur birt til og nokkur gæfa fallið okkur í skaut af margvíslegu tagi.
Hvernig er hægt að sanna þetta? Hvar eru vísbendingarnar? Þetta er eitthvað sem er hvíslað að manni. Það er stundum réttara en það sem hrópað er á torgum eða auglýst sem sannleikur af vísindasamfélaginu eða hefðbundnum trúarbrögðum sem eru gróðabraskmaskínur að hluta til.
Eitt atriði er mjög sláandi og til að sannfæra mann um að þessi veruleiki okkar sé ekki allur sem hann er séður, sem allir lesendur þessa pistils geta rannsakað af eigin rammleik. Það er þetta: Fólk hlustar yfirleitt ekki á rök. Það skiptir ekki hvort eitthvað sé vel rökstutt heldur hver segir það, og einnig hvort nógu margir öskri það sama hversu mikið sem búið er að afsanna það af fáeinum útvöldum.
Þetta eitt segir manni býsna margt.
Fólki er ekki sjálfrátt. Fólk er leitt áfram eins og fyrir annarra vilja. Það er að segja, frjáls vilji ræður ekki.
Til dæmis. Ef þú bendir fólki á að mengun sé ekki góð fyrir umhverfið þá fer það eftir stjórnmálaskoðun hvort viðkomandi felst á það eða ekki, en það ætti að segja sig sjálft.
Ef þú bendir fólki á að ótakmarkaður innflutningur á fólki sem tilheyrir framandi menningu gerist það sama, það fer eftir hvort viðkomandi er til hægri eða vinstri hvort undirtektir verða góðar eða slæmar eða engar. Það er sem sagt ekki hægt að rökræða við fólk. Það er fast á básum og er ekki hreyfanlegt. Það minnir meira á beljur í fjósi en frjálsar verur sem hreyfa sig af eigin rammleik.
Að sama skapi hugsar vinstrisinnað fólk meira um hollnustu en hægrisinnað, það er hluti af þeirra pólitísku rétthugsun og innrætingu.
Allt þetta og meira til sannfærir mig um að frjáls vilji sé varla til í þessum heimi. Jú, hann er til, en hann bærir varla á sér og kemst sjaldnast til framkvæmda. Áður en fólk nýtir hann eru allskonar rimlar hugans sem stöðva hina frjálsu ákvörðun og hegðun.
Sumir sem skrifa blogg vekja sérstaka athygli hjá mér þannig að boltar sem þeir henda á loft grípa aðrir, til dæmis einhver annar pælari eins og ég.
Guðjón Hreinberg er sannur heimspekingur, til dæmis. Hann fer útfyrir meginstrauminn og vekur undrun.
Hann hefur spurt að því "Hvað er líf?" Er hægt að skilgreina líf?
Fyrst þarf að skilgreina andann. Hvað er hann, eða hvað er sálin?
"Önd gaf Óðinn,
óð gaf Hænir,
lá gaf Lóðurr
ok litu góða."
Þetta stendur í Völuspá.
Önd er þýtt sem lífsandi eða líf. Það þýðir í raun sál eða það sem tengt er guðunum eða einhverjum almáttugum guði.
Óður er vitsmunir, skynsemi, eðli, lífsandi, það sem greinir manninn frá dýrum.
Lá er bæði orð yfir sjó og blóð eða ætt, kynstofn, fjölskyldu.
Hænir og Lóðurr eru dularfullir guðir. Sumir telja að Lóðurr sé annað nafn á Loka en það er ósannað.
Líf líkamans er eitt og líf andans er annað. Svo virðist sem líf líkamans sé einhverskonar heild eða samansafnaður efna sem eru skipulögð til starfsemi. Líf andans er fólgið í innsæi og tengingu við aðrar lífverur og æðri mátt, guði eða einhvern almáttugan guð, eða samkvæmt eiginlega langflestum trúarbrögðum að minnsta kosti, og eitthvað mark verður að taka á þeim.
Ef við værum frjáls og eins og fólkið sem Sókrates ræddi á sínum tíma í Grikklandi til forna og ef við gætum tekið mark á fólki sem vill frelsa okkur undan Bill Gates og slíkum auðrónum þá værum við með frjálsan vilja, eða virkan frjálsan vilja, ekki andsetin, eins og ég tel að fjöldinn sé. Að vinstrimenn þurfi að taka það sem geðbilun eða móðgun að benda á slík samsæri sýnir mjög vel að mannkyninu er ekki viðbjargandi.
Eitt það merkilegasta sem dr. Helgi Pjeturss sýndi fram á í ritum sínum er að helstefnan getur haldið áfram næstum endalaust. Það þýðir að fólk getur orðið þjáðara og kvaldara ótrúlega lengi eins og á okkar jörð. Það er engin eða lítil von fyrir fólk sem er með fólk í valdamiklum stöðum haldið ofsóknaræði. Slíkt ofsóknaræði hjá valdhöfum brýzt ævinlega út í ofsóknum í garð þegnanna.
Einnig er það svo að þegar lög landsins eru orðin í andstöðu við lögmál Gamla testamentisins, til dæmis þegar bann við samkynhneigð er hunzað þá er komin upp gjá á milli vilja Guðs og vilja mannanna. Syndin er orðin kerfisbundin. Einnig ef líkamar manna eru notaðir sem vígvöllur fyrir gróðabrall, hvort sem það eru lýtalækningar, líkamsskraut eins og húðflúr eða bóluefni sem eru skaðleg eða óþörf, þá er musteri Guðs orðið að ræningjabæli, eins og haft er eftir Kristi. Þén en ekki stofa er slík stofnun, þén beygist eins og lén, hvorugkynsorð, eins og mörg vond orð.
Eyðileggingarstarfsemi femínisma felur meðal annars í sér að útrýma karlkynsorðum og gera þau hvorugkyns einsog mannkynið allt.
Ef fólkið tekur ekki völdin í eigin hendur og gerir uppreisn þá heldur það áfram að kveljast. Eiga yfirvöld að raska allsherjarreglu og leyfa þrýstihópum að hafa forgang, hvort sem þeir vilja engin landamæri eða eitthvað annað? Sjálfsblekkingar og dáleiðingar innsettar af valdhöfum vinstrisinnuðum skapa einnig óhamingju að lokum, þótt þær stefni að værðarmóki sem lengst.
Yfirvöld sem fremja glæpi og stunda hryðjuverk geta haft á sér blæ heilagleika og réttlætis, sérstaklega ef sama ástandið er ríkjandi um allan heim.
Slík yfirvöld geta kallað önnur yfirvöld fasísk, sem reyna að starfa í samræmi við aldagamlan boðskap trúarbragðanna, islam og kristninnar og fleiri trúarbragða.
Almenningur ætti ekki að láta blekkjast. Kosningar eru rétti staðurinn til að gera breytingar. Heimskulegt er að ætla að keyra bíla inní skrúðgöngur til að mótmæla eða eitthvað slíkt.
Það er skelfilegt þegar málefni þjóðfélagsins eru komin af samræðustiginu yfir á ofbeldisstigið. Það sýnir helstefnu verri en hún var áður.
Það er hætt við því að refsingar í garð þeirra sem hyggja á afbrot eða láta verða af þeim dugi ekki til í raun til að afstýra óhæfuverkum. Óhamingjan sem liggur til grundvallar er ástæðan.
Af hverju þarf íslenzk menning að fylgja nákvæmlega sama fordæmi og evrópska og bandaríska menningin?
Af hverju þurfum við alltaf að vera 20 - 30 árum á eftir? Af hverju getum við ekki verið sjálfstæð þjóð sem hafnar mistökum annarra landa og þjóða, eins og ýmsir stjórnmálamenn í örflokkum hafa kallað eftir? Til dæmis er Íslenzka þjóðfylkingin með slíka stefnu, Frelsisflokkurinn og Lýðræðishreyfing Guðmundar Franklíns, eða Flokkur fólksins og Miðflokkurinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
16.12.2022 | 00:26
Útvarp Saga er mikilvægari en RÚV, og þarf að vera studd rækilega
Inni á steinsofandi fjölmiðlum vinstristefnunnar eru nokkrir sem beita athyglisgáfu sinni og sjá að ýmislegt má gagnrýna við samtímann. Snorri Másson á Stöð 2 er einn af þeim. Hann er ekki bara vel máli farinn heldur vel skynsamur og sýnir það. Á fimmtudaginn, í gær, var hann umsjónarmaður Íslands í dag, og þar fjallaði hann um óréttlæti sem Útvarp Saga verður fyrir.
N4 hneykslið er alfrægt orðið, en Ísland í dag fjallaði líka um að Útvarp Saga var einn af þremur fjölmiðlum sem fékk ekki styrk af 28 sem sóttu um. Eins og Snorri benti réttilega á var Útvarp Saga eini landsþekkti fjölmiðillinn af þessum þremur sem njóta talsverðra vinsælda og er ekki að þjónusta lítinn hóp.
Það er alveg augljóst að andúð á sannleikanum eða önnur spilling býr þar að baki. Hversvegna er ekki Lilja Alfreðsdóttir búin að gera eitthvað í þessu? Alltaf er hún kurteis við Arnþrúði þegar hún mætir þangað í viðtöl á stöðina og hljómar sannfæradi og alúðleg. Hvaða skuggalegu öfl eru þar að verki sem skemma fyrir Útvarpi Sögu?
Snorri Másson spurði Arnþrúði hvort Djúpríkið væri þarna að verki. Arnþrúður svaraði ekki spurningunni en vék sér að öðru, eins og til að forðast að vera stimpluð sem samsærlingur, loksins komin í viðtal á svona almennri stöð. Hún hefði alveg mátt svara játandi, því Djúpríkið teygir anga sína víða, það fyrirbæri spillingarinnar.
En spurningin sýndi þó að Snorri er einn af fjölmörgum sem laumast til að hlusta á Útvarp Sögu, sem af einhverjum pólitískum andstæðingum er talið vera útvarp fyrir eldra fólk með fordómafullar skoðanir, sem er alrangt.
Útvarp Saga gegnir mjög mikilvægu menningarlegu hlutverki, og kannski eða tvímælalaust stærra menningarlegu hlutverki en RÚV, sem hefur varpað frá sér menningarlegri ábyrgð og skyldu, fyrir fjölmenningu og lýðskrum.
![]() |
100 milljónir eigi ekki að fara alfarið til N4 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.12.2022 | 15:14
Mengun í borginni í stillum og endurskoðun á afstöðu til borgarlínu Dags B. Eggertssonar
Ég hef stundum skrifað um efasemdir gagnvart borgarlínu Dags B. Eggertssonar. Eitt kvöldið nýlega þurfti ég að erindast og þá var mikil stilla eins og hefur verið að undanförnu og mikil umferð í bænum. Mengunin var mjög mikil og loftið næstum eins slæmt og á gamlárskvöldi bara útaf bílareyk. Þetta var ekki þessi gamalkunna benzínstybba af útblæstri sem ég þekkti frá minni bernsku á verkstæðinu hans afa, sem var alveg þolanlega ljúf, þetta var samþjappaður eiturreykur úr hvarfakútum þessara nýju bíla sem skila af sér samþjöppuðu eiturlofti.
Þessi upplifun lét mig endurskoða afstöðu mína til borgarlínunnar. Hún er kannski ekki svo slæm eftir allt saman, mikil þörf að minnka mengun í miðbæ Reykjavíkur, losna við tafir í umferðinni og fækka einkabílum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.5.): 64
- Sl. sólarhring: 69
- Sl. viku: 561
- Frá upphafi: 147108
Annað
- Innlit í dag: 51
- Innlit sl. viku: 464
- Gestir í dag: 49
- IP-tölur í dag: 49
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar