Þorláksmessuskatan og fleiri bernskuminningar

Það var ekki mikil skötuhefð á mínu bernskuheimili, en þó fékk ég bæði skötu hjá móðurfjölskyldunni og föðurfjölskyldunni nokkrum sinnum í bernsku minni, en ekki mikið eftir að amma dó þegar ég var 15 ára. Amma var svo metnaðarfull í eldamennskunni og vildi halda í svona hefðir, eða læra þær jafnvel. En ég var matvandur og vildi skötuna sjaldan, en ég lærði snemma að borða hákarl og hef alltaf kunnað vel við hann eftir það.

En ég man eftir því að helgi jólanna hófst á Þorláksmessunni hjá ömmu og afa. Frá og með Þorláksmessunni var hátíðin hafin og maður varð að vera stilltur.

Amma kunni skil á heilögum mönnum úr kaþólskunni enda svo mikil trúkona að hún vildi muna af hverju dagarnir voru helgidagar.

Mömmu hefur alltaf fylgt ofbeldi. Það var þó nokkuð sem aldrei gerðist hjá ömmu og afa, aldrei. Fyrir nokkrum árum ætlaði ég að skrifa ævisögu mömmu, en ég gerði bara uppkast að nokkrum köflum, og það er allt óklárað. En saga hennar er mjög merkileg, öll átökin sem hún hefur lent í, og átt sök á sjálf vegna innbyrðis átaka. Nema það að þesskonar saga sögð og skrifuð af mér passar ekki endilega inní fórnarlambavæðingu kvenkynsins, en þó mun hugsanlega síðar verða markaður fyrir þannig nálgun á þessi alþekktu þjóðfélagsvandamál sem femínistar þykjast hafa einkarétt á að skilgreina og túlka.

Mamma hefur trúað mér fyrir ýmsu og hún komst að því sjálf fyrir löngu með aðstoð sálfræðinga og geðlækna, hver væri sennilega ástæða erfiðleika hjá henni. Ég hef átt gott trúanaðarsamband við mömmu, og þó getum við ekki alltaf átt góð samskipti, það fer eftir tímabilum, eins og gerist hjá mörgu fólki sem er náið.

Einu sinni eftir erfiðan skilnað leitaði hún mikið til sálfræðinga. Hún hafði þörf fyrir að tala. Ég var nærstaddur og á unglingsaldri og einnig eftir tvítugt hafði hún þörf fyrir að ræða um þetta við mig, enda ég þá á viðræðuhæfum aldri. Það kom uppúr kafinu að samband hennar við ömmu er sennilega það sem gerði hana of vandláta á karlmenn, og kom af stað ýmsu erfiðu.

Hún hefur mjög viðkvæma skapgerð að upplagi. Hún var hrædd við fólk og grátgjörn í bernsku, hélt sér fast í ömmu en það breyttist þegar yngri systir hennar fæddist.

Afi var þannig gerður að hann beitti hinsvegar aldrei neinu ofbeldi. Ef hann rassskellti börnin var það þegar amma krafðist þess. Hann átti erfiða bernsku vegna vinnuþrælkunar og náttúru sem var óblíð, og hann þurfti snemma að vinna fyrir sér, hlýða foreldrum sínum. Hann flúði erfiðleika með því að sækja í vinnufíkn og neitaði yfirleitt að beita sér harkalega í uppeldi. Hann var gagnrýndur fyrir það af pabba. Ég hef kannski ranglega tekið undir það hjá pabba og sumum öðrum að hans mildilegu uppeldisaðferðir hafi verið gagnrýniverðar.

Að freudískum hætti rifjaði mamma upp bernskuna í smáatriðum til að skilja sín vandamál.

Hún sagði þessum sálfræðingum frá þessu og þeir komust að því að of náið samband hennar við móður sína of lengi hafi gert hana ofurviðkvæma fyrir gagnrýni og einhverju sem henni mislíkaði við karlmenn. Eða þá að ákveðin skapgerð sem er meðfædd býður upp á erfið samskipti síðar meir í lífinu án þess að við foreldrana sé að sakast um það.

Þetta er mjög merkileg niðurstaða en hún er kannski ekki vinsæl í dag, þegar allt á að vera körlum að kenna, feðrum og feðraveldinu.

En á þeim árum þegar mamma fluttist að heiman man ég líka eftir mörgum góðum minningum. Sérstaklega voru jólin 1978 merkileg. Um öll jólin lá ég yfir teiknimyndasögum sem ég fékk í jólagjöf frá ættingjum og hrifningin var ógurleg, ég las þær aftur og aftur sem ég fékk í jólagjöf. Síðar fór ég sjálfur að teikna og semja myndasögur og fékk mikið hrós frá bekkjarfélögunum. Það var gott fyrir mig félagslega, því ég var innhverfur og ekki nógu félagslyndur. Það var amma sem ól mig upp næstum alveg ein til 5 ára aldurs.

Amma kenndi mér að lesa þegar ég var 5 ára með því að benda á stafina á Mogganum og láta mig hafa orðin eftir. Mér fannst það auðvelt.

En snemma fékk ég áhuga á myndasögum Þetta var á þeim árum þegar bæði Iðunn og Fjölvi helltu sér útí þessa útgáfu af fullum þunga og þannig var það mörg ár á eftir.

Ég hætti að gera teiknimyndasögur árið 1989. Ég reyndi aftur að byrja 1992, en úr því varð aðeins ein blaðsíða.

Það var ekki fyrr en í kófinu, árið 2020 að ég byrjaði aftur að gera myndasögur. Að vísu lélegri teikningar en nokkrusinni fyrr, en handritin og sögurnar betri en nokkrusinni fyrr, vil ég segja, því ég bæti inní mínum pólitísku skoðunum og hef boðskap í þessu.

En það yrði allt að teikna upp aftur til að verða söluvænlegt.

Á jólunum hverfur hugurinn aftur til ömmu og afa. Ekki mátti taka upp pakka fyrr en rétt fyrir miðnætti á aðfangadag, til að kenna manni að forðast alla Mammonsdýrkun, sem er svo áberandi nú í nútímanum eins og svo oft áður. Maður varð að fara til messu eða hlusta á messuna í útvarpinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 92
  • Sl. sólarhring: 101
  • Sl. viku: 751
  • Frá upphafi: 107213

Annað

  • Innlit í dag: 68
  • Innlit sl. viku: 572
  • Gestir í dag: 61
  • IP-tölur í dag: 56

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband