Bloggfærslur mánaðarins, maí 2022

Að kynnast viðhorfum þjóðhöfðingja er mikilvægt, einnig viðhorfum þeirra sem hafa framið voðaverk.

Það var hátíðleg stund þegar Zelensky ávarpaði okkar alþingi. Raunveruleikasjónvarp í beinni útsendingu. Til að jafnréttis yrði gætt ætti Pútín að ávarpa vestrænar þjóðir á sama hátt og útskýra afstöðu sína. Hann er vissulega hataður á Vesturlöndum, en það yrði spor í friðarátt ef fleiri myndu skilja hans röksemdafærslu og ástæður fyrir voðaverkunum.

En ég ber meiri virðingu fyrir Zelensky eftir að hafa hlustað á ræðu hans. Hann virðist venjulegur strákur af minni kynslóð, fæddur á áttunda áratugnum, og með sömu áhugamál og annað vestrænt fólk. Aðdáandi bandarískra bíómynda og Hollywoodmenningarinnar.

Sagt var að þetta væri í fyrsta skipti sem erlendur þjóðhöfðingi ávarpaði þannig þingið með fjarskiptabúnaði.

Þetta minnti mig á fundina hjá Félagi Nýalssinna. Ekki eru það miðilsfundir, heldur sambandsfundir, því þar fáum við samband við aðrar stjörnur og önnur mannkyn.

Stjörnusambandsstöðin að Álfhólsvegi 121 er því merkileg bygging, og minnir á alþingi, því þar hefur fengizt samband við þjóðhöfðingja annarra ríkja, með sambandsfólki, eða miðlum sem svo eru nefndir einnig.

Sitjarar hafa tekið þessum erlendu þjóðhöfðingjum vel sem hafa talað fyrir miðilsmunn. Auðvitað er algengast að venjulegt fólk komi fram á sambandsfundum og miðilsfundum, ættingjar og annað fólk, en merkileg eru þau sambönd þegar fram koma fyrrverandi eða núverandi þjóðhöfðingjar.

Tekur maður eftir málfari þessara einstaklinga, og er það merkilegt, hvort sem þeir koma í gegnum mig eða aðra sem þarna starfa eða hafa starfað, að talað er af virðingu við okkur Íslendinga og við ávarpaðir sérstaklega, eins og sá tæplega tíu manna hópur sem hlustar sé virðulegt fólk sem er í forsvari fyrir þjóðina alla, eða mannkynið.

Fólk sem er á miðilsfundum lærir að sýna þeim sem tala fyrir munn miðilsins virðingu, eða reynt er að brýna þetta fyrir sitjurum að minnsta kosti, og yfirleitt tekst það.

Alþingismennirnir í dag minntu mig á sitjara á miðilsfundi, og Zelensky minnti á framliðinn mann sem talar fyrir munn miðils með aðstoð fjarfundarbúnaðs. Þetta var vissulega merkilegt.

Ég er sannfærður um það að kenningar dr. Helga Pjeturss verði vísindalega sannaðar með tímanum, enda stefndi hann að því markmiði að eyða allri dulrænu varðandi þessa hluti, og hefja þá á stig vísindanna. Framfarir gera þetta mögulegt í  vísindaefnum. Ingvar Agnarsson frændi minn var mikill snillingur að kynna þetta fyrir fólki og skilja það betur en flestir á þeim tíma sem hann var uppi.

Við þurfum ekki að líta á fjarfundabúnað öðruvísi en miðla yfirleitt. Allir eru gæddir miðilshæfileikum og eru miðlar, nema hæfileikar flestra eru bældir og ónotaðir af flestum. Í svefni þegar okkur dreymir komast þeir hæfileikar þó í gagnið, hjá öllum, vissulega.

Einhvernveginn fannst mér alþingi Íslendinga hafa þroskazt af þessum viðburði, og mér fannst skilningurinn á sambandsmálum hafa aukizt.

Það er mjög leiðinlegt að sennilega eru flestir ungir Íslendingar fullir af kaldhæðni gagnvart miðlum og sambandsmálum. Talið er að þetta sé uppspuni, skáldskapur og bull úr miðlunum, eða illir andar, en sumir segja þó góðir andar, en það er auðvitað nóg af hvoru tveggja í gangi.

Eldri árgangar Íslendinga hafa þó margir áhuga á spíritisma, eða andatrú, en sú kynslóð er sennilega að mestu komin undir græna torfu sem hafði lifandi kynni af forvígismönnum Nýalsstefnunnar, eða byrjaði á þessu starfi um miðja síðustu öld.

Vísindalega þarf að líta á þessi mál, og vita það að andleg áhrif, utanaðkomandi raddir og slíkt þarf að vega og meta, og rannsaka, taka ekki öllu sem gefnu eða sannleika. Það er ævilangt verkefni og vel það.

En aftur að Rússlandi og Úkraínudeilunni. Það er vissulega rétt að norrænir menn og Slavar hafa lengi átt samleið, og var ánægjulegt að hlusta á skýra íslenzku Zelenskys, og heyra hann nota orðið Kænugarður.

Menning Rússlands er nú að verða mörgum Íslendingum og öðrum Vesturlandabúum meira framandi, því fólki er innrætt slíkt viðhorf í gegnum fréttir.

Til að stuðla að friði þarf að minnka menningarmun, en ekki auka hann.


mbl.is Beint: Selenskí ávarpar Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reynsla og þekking sem tapast. Afi minn kunni endurnýtingu betur en flestir.

Nýlega var verðbólgufrétt á RÚV sem vakti áhuga minn. Þar var talað um gildi sparnaðar og endurnýtingar þegar kreppir að. Þar var einnig talað um mikilvægi þess að fara með hluti á verkstæði í staðinn fyrir að kaupa nýjan varning.

Mér varð hugsað til afa míns og verkstæðisins að Digranesheiði 8. Hann var mikill snillingur í því að gera við hluti og ekki aðeins bíla. Verkstæðið hét "Véla og bifreiðaverkstæði Jóns Agnarssonar", enda gerði hann við næstum hvað sem var, vélar og hluti af ýmsum tegundum.

Hann var þekktur og annálaður fyrir færnina, og margir sögðu að einungis tveir menn gætu gert við allt á landinu, Jón í brekkunni og Stjáni meik. Báðir eru þeir nú dánir.

Það var ekki mjög sniðugt að rífa verkstæðið hans afa. Þar hefði verið hægt að kenna ungum nemendum í verkgreinum að gera eins og afi gerði, að nýta allskonar járnbúta, trébúta og önnur efni til að smíða úr, hugsa út fyrir boxið í verkgreinum. Ég veit ekki hvort þetta ert kennt í verkmenntaskólum, en náttúrutalent eins og afi vinna hlutina á annan hátt en þeir sem fara eftir stöðluðu námi. Ekki þar fyrir að hann var með góð og nægileg réttindi, hefði jafnvel geta unnið á sjónum sem vélstjóri, eða í verksmiðju, hér eða annarsstaðar. Nema, hann var farinn að gera við hluti strax í barnæsku, hann hafði þetta í sér.

Ég er svo hlynntur því að virða arfleifð fyrri kynslóða, að alþýðuhetjur gleymist ekki, að bæjarfélögin láti minningu þeirra lifa sem voru góðir við alla, vel liðnir og skildu eftir sig gott fordæmi.


mbl.is Allir þurfa að leggjast á árarnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytingar liggja í loftinu hjá RÚV, og kannski það hverfi af auglýsingamarkaði

Spilling þrífst á RÚV eins og annarsstaðar. Samstarf RÚV, Stundarinnar og Kjarnans er nokkuð sem margir myndu kalla spillingu, eða jafnvel samsæri. Stór hluti landsmanna hneykslast á spillingu í stjórnmálum. Það sýna mótmælin um helgar gegn bankasölunni. Hvað með spillinguna á RÚV? Á RÚV að stunda vinstrisinnaða æsifréttamennsku frekar en að sýna hlutleysi?

Þóra Arnórsdóttir er fjarskyld mér í gegnum afa og ættina hans Jóns Baldvins. Ég hef átt erfitt með að trúa einhverju sökóttu uppá hana því ég kann ágætlega vel við hana og þekki nokkra bræður hennar, heimsótti Kjartan nokkrum sinnum og Hrafn er skólabróðir minn úr Menntaskólanum í Kópavogi.

En það er oft stutt á milli þess að sýna dugnað og hæfni í starfi og að fara yfir strikið. Hún er mjög dugandi og áberandi, hefur verið það í störfum sínum, en skæruliðadeildin á RÚV hefur þarna heldur betur orðið umdeild.

Ekki veit ég hvort atgervisflóttinn af RÚV tengist þessu, en merkilegt að hann skuli hafa byrjað um svipað leyti og þetta komst í hámæli.

Það sem ég hef gagnrýnt er að greinilegur áróður fyrir fjölmenningu og vinstrigildum er viðhafður á RÚV. Erlendar heimildamyndir og áróðurmyndir hafa verið sýndar síðla kvölds þar í um 20 ár, sem allar stefna að sama pólitíska markmiðinu, að styðja sjónarmið Sósíalistaflokksins og Pírata, en skylda RÚV er að sýna hlutleysi eins og þekkt er.

Auk þess er fréttavalið með þessum hætti. Allar fréttir um Donald Trump hafa verið neikvæðar, allar fréttir um Joe Biden hafa verið jákvæðar. Þetta er ekki eðlilegt. Íslenzkt ríkissjónvarp á ekki að taka afstöðu í alþjóðastjórnmálum, hvað þá afstöðu í bandarískum stjórnmálum. Þetta sýnir að Hollywoodáróðurinn er farinn að gera fólk ósjálfstætt.

Þetta er ekki allt upptalið hvað varðar pólitíkina á RÚV. Gríðarlegum fjármunum er eytt í heimildamyndir til að upphefja konur, þeirra list og menningu, og eitthvað sem tengist vinstriflokkum og jafnaðarflokkum, fjölmenningu og annað. RÚV er rammpólitísk sjónvarpsstöð, en ætti að vera hlutlaus, eða jafnvel þjóðleg, íhaldssöm, eins og hún var áður, með réttu.

Svo er það stríðsreksturinn gegn Samherja og öðrum fyrirtækjum sem tengd eru með röngu eða réttu við Sjálfstæðisflokkinn.

Fræðimenn hafa fjallað um það nokkuð réttilega hvernig Framsókn og Sjálfstæðismenn höfðu tök á íslenzku þjóðlífi og menningu um langt skeið á síðustu öld. Hvað er langt síðan þetta breyttist, síðan Vinstri grænir og Píratar komu sér upp skæruliðadeild sem stjórnar mótmælum og mótmælendum, og síðan þeir náðu tökum á RÚV og fleiri fjölmiðlum?

Hlutlausir eftirlitsaðilar ættu að hafa rétt af stefnuna á RÚV fyrir löngu og þeir ættu að hafa gert hana hlutlausa.

Verður þetta mál til þess að kúrsinn á RÚV og fleiri fjölmiðlum verður réttur af og gerður hlutlaus? Vonandi.


mbl.is Boðinn friður gegn því að draga í land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétturinn til að fæðast - fagnaðarefni kristinna manna

Jón Valur Jensson hefði orðið glaður að frétta af þessu, væri hann á meðal okkar enn. Skammast menn sín fyrir að kalla þetta "réttinn til lífs" vegna valda femínista? Þannig hef ég heyrt þetta orðað í fríkirkjum - sértrúarsöfnuðum, og er það ágætlega orðað.

Hin umdeilda lagabreyting sem Svandís Svavarsdóttir stóð fyrir á síðasta þingi, og Katrín forsætisráðherra studdi með róttækum orðum og hætti, um þungunarrof fyrr í þunguninni, hún kann að enda með að breytast til baka, og ekki gott að segja hvernig slík endurskoðun verður, og hvort hún verði endilega femínistum í hag.

Eitt má fullyrða. Ef spár rætast um fleiri náttúruhamfarir og hörmungar, drepsóttir, jarðskjálfta og eldgos, stríð og fleiri hörmungar, þá er líklegra að mannkynið fari aftur til fortíðarinnar í allskyns réttindamálum, svokölluðum. Þannig eru dæmin. Menn leita í það sem hefur virkað, feðraveldið, gömlu kristnina og allt það.


mbl.is Dregið verði úr rétti kvenna til þungunarrofs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfund Íslendinga

Íslendingar kunna þann löst skammarlega vel að öfundast útí ríka samlanda sína. Í tilfelli bankasölunnar eru vissulega margt gagnrýnivert, og er sáttur við að aðrir gagnrýni hana, en almennt séð er það gott að Íslendingar verði ríkir og komist á lista Forbes yfir ríkt fólk, ríkir Íslendingar sem hér hafa lögheimili borga háa skatta, og það styrkir íslenzka þjóðerniskennd að vita til þess að hæfileikar séu hér til að auðgast.

Hvað varðar bankasöluna, hefur ekki Sjálfstæðisflokkurinn alltaf verið svona, er þetta nokkuð til að undrast?

Sumir segja að allur gróði sé ránsfengur og kapítalisminn glæpastarfsemi frá upphafi til enda. Að minnsta kosti er hann samfélagslega viðurkenndur og það nægir flestum.

"Mér finnst spillingin góð" væri hægt að syngja með Helga Björnssyni í staðinn fyrir "Mér finnst rigningin góð", þetta lag með Grafík ætti að vera með þessum texta. Ákveðin innlend spilling sem ver gegn heimsvaldastefnunni, fjölmenningunni, getur verið góð.

En þetta er eins og með svo margt, hin fína og mjóa lína sker úr um það og þarna eru margvísandi atriði, sum jákvæð og önnur neikvæð fyrir almenning.

Sú menning er þó jákvæð sem var til um miðja tuttugustu öldina, að ríkt fólk var kristilega þenkjandi og oft tilbúið að hjálpa fátækum.

Með því að ríkisvæða samúðina og aumingjahjálpina er einnig búið að aftengja mennskuna, og gera hana að kerfislægri svörun, þrælslund, sem þornar út með kynslóðunum og verður að engu.

Kirkjan verður kannski aldrei aftur það afl sem veitir siðferðislegt aðhald, eða kristnin, ef fjölmenningin heldur áfram að eflast. Islam hefur aðrar áherzlur, eða heiðin trúarbrögð.

En hægt er að kenna fólki aftur að það sé dyggð hinna ríku að hjálpa fátækum. Dyggð, eitthvað sem maður vill sjálfur, er ekki neyddur til með lögum landsins, eða alþjóðalögum.


mbl.is Davíð fallinn af lista Forbes
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyðing Amazonfrumskógarins er ekki réttlætismál fyrir Bolsonaro, heldur glæpur gegn mannkyninu og plánetunni allri, lífinu öllu á jörðinni.

Það er mjög slæmt þegar menn nota gild rök til að afsaka eitthvað sem er óafsakanlegt, þegar notuð eru dæmi sem passa að einhverju leyti en eru samt að skekkja og skæla það sem þarf að koma á framfæri. Frá sjónarhóli Bolsonaros finnst honum eyðing Amazonfrumskógarins réttlætanleg, hann snýr sannleikanum á hvolf þegar hann talar um þetta. Hann hugsar um að fá atkvæði kjósenda, því fólk er víðast hvar eins, það hugsar fyrst um eigin hag, svo um umhverfið eða annað fólk.

Ég var unglingur þegar National Geographic tímaritið fjallaði um það hvernig eyðing frumskóganna ógnaði lífi og mannréttindum indíana Brazilíu, það mun hafa verið fyrir 1990. Það hafði mikil áhrif á mig. Þegar menn tala um mannréttindi verða oft og einatt árekstrar, og einnig þegar talað er um náttúruvernd gagnvart mannréttindum. Ég forðast að nota orðið "versus", því íslenzka orðið gagnvart er frábær þýðing á þessu orði. Að vísu örlítill blæbrigðamunur og nýlegri merking, en mun betra en að nota enska orðið "versus".

Ég er almennt séð ekki hrifinn af alþjóðastofnunum eða alþjóðlegum lögum. Þarna er þó svið sem mér finnst undantekning.

Jörðin er heimkynni okkar allra. Alþjóðalög þurfa að vera ströng þegar kemur að umhverfisglæpum, mengun sem ógnar lífi allra jarðarbúa.

Alþjóðastofnanir eru samtaka í því að berjast gegn Pútín og Úkraínustríðinu. Alþjóðastofnanir þurfa að berjast gegn Bolsonaro og eyðingu Amazonfrumskógarins.

Frekar ætti að taka við Brazílíumönnum en öðrum, ef lög verða sett sem hamla þeirra lífsviðurværi, eða gera þá landflótta vegna harðra umhverfisverndarlöggjafar á alþjóðavísu.

Alþjóðastofnanir hafa EKKI staðið sig í þessu máli. Þetta er skelfilegt ástand, bæði með eyðingu Amazonfrumskógarins, útblástur, plastmengun og allt mögulegt annað hvað varðar mengun.

Á Íslandi er endalaust pláss, segir góða fólkið, og engin takmörk fyrir því hversu mörgum flóttamönnum er hægt að taka við. Ég er ekki endilega sammála því, en þetta finnst mér brýnt, að taka við flóttamönnum sem þurfa að flýja land sitt, ef þeim er bannað að stunda mengandi landbúnað og eyða frumskógum Amazonsvæðisins eða annarsstaðar.


mbl.is Bolsonaro svarar gagnrýni DiCaprio
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 114
  • Sl. viku: 655
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 520
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband