Bloggfærslur mánaðarins, maí 2021
4.5.2021 | 23:29
Merking orðsins fen, ekki sama orð og mýri.
Ranglega hefur orðið Fensalir verið ættfært og Fenrisúlfur. Þeir sem mest vita um þetta viðurkenna að þessi orð eru ráðgátur. Ekki er hægt að trúa þeirri skýringu að hér gildi forliðurinn díki, vatnsbleyta, foræði. Fornindóevrópska orðið wyeh gæti hér verið gilt sem skýring, að hluta til, að vefja, hylja, umlykja, eða vindast um.
Orðið fáinn, skínandi, á íslenzku er hér einnig mikilvægt. Fan í merkingunni fjandinn á sænsku er einnig vísbending. Oft hafa slík orð víxlað merkingu, sbr dieu á frönsku, guð, djöfullinn í ýmsum öðrum tungumálum. Fan á sænsku þarf ekki að vera stytting úr fíandi. Annað orð kann að hafa verið til tengt átrúnaði, fen eða faen.
Faenus eða fen á latínu getur þýtt að gróði, lánsfé eða auðgun og skyld latnesk orð. Hey eða hlöðuloft er einnig þýðing á slíkum latneskum orðum og skyldum.
Það er mögulegt að ættrekja orðið fen til panka á fornindversku, það er eiginlega of auðvelt, því merking þess orðs er mýri.
Þessi opinbera og viðurkennda ættrakning orðsins er auðveld, en oft er auðveldasta leiðin ekki sú rétta.
Gísli Jónsson í "Íslenzku máli" 200. þætti þann 16. júlí 1983 í Morgunblaðinu er á réttri leið þegar hann segir að það brjóti gegn skynsemi að fen-hrís-úlfur sé rétt ættfærsla þessa orðs. Ásgeir Blöndal, blessuð sé minning þess ágæta fræðimanns, gerði finnst mér augljóslega ýmsar skyssur í bók sinni sem þó var og er grundvallarrit. Fleiri slíkar bækur þurfa að koma út.
Það vil ég segja um ættrakningu orða til sanskrít og fornindversku, að þau mál eru oft þannig að sama orðið hefur margvíslega merkingu, og því getur margt verið vafasamt þegar fullyrt er að orð komi nákvæmlega þaðan.
Segja má að 1% af þessari vinnu hafi verið unnin, og tæplega það. 99% á eftir að uppgötvast ennþá, svo mikið er eftir að enduruppgötva í þessum stórmerkilegu og mikilvægu fræðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2021 | 21:39
Við þurfum fleiri eins og Jón Valur Jensson var
Það er orðið langt síðan Gunnar Rögnvaldsson hefur bloggað, hann er einn af þessum mikilvægu bloggurum sem nú standa sjálfstæðisvaktina. Annars vil ég í þessum pistli rifja upp hversu áhrifamikill Jón Valur Jensson var sem lézt árið 2020. Hann var virkur í mörgum fjölmiðlum, alltaf vel máli farinn, rökfastur og sannur þjóðernissinni, vel kristinn að auki.
Sá maður hefði átt að komast inn á þing og verða alþingismaður, hann hefði unnið okkar þjóð mikið gagn. Hann var hluti af Íslenzku þjóðfylkingunni, og ef sá flokkur hefði fengið nægilegt fylgi á meðan hann var á lífi hefði hann vafalaust orðið þingmaður og staðið sig með prýði.
Það er nú svona réttlætið heimsins, það er oft í hæsta máta öfugsnúið. Ég segi það að þjóðin og landið hefur misst mikið að missa Jón Val Jensson. Þótt nú sé liðið rúmlega ár síðan hann lézt vil ég minnast á það fyrir hvað hann stóð. Hann stóð fyrir sjálfstæði, veru utan ESB, baráttu gegn fóstureyðingum, kristna trú og siðferði og margt fleira.
Hversu margir á aldri Áslaugar Örnu ráðherra hafa til að bera þroska á við hans og sýn yfir landsmálin og söguna? Ánægjulegt ef það væru sem flestir, en kannski ekki neinn. Það er auðvitað ekki vegna þess að þetta tvítuga fólk sé ekki jafn skynsamt og fólk af hans kynslóð, heldur hefur uppeldi þeirra verið fábreytnara að mínum dómi, og ofdekursuppeldi, þetta er forréttindalið. Að missa tengslin við aldamótakynslóðina er það sem veldur ákveðinni firringu og skorti á margskonar skoðunum og viðmiðum. Þessvegna hefur Áslaug Arna fengið á sig gagnrýni, Katrín forsætisráðherra og orðið ráðherrabörn verið notað.
Þrátt fyrir allt tek ég þó eftir að fólk á öllum aldri skrifar vel ennþá, vandar sig og leggur sig fram á ýmsan hátt. Jón Valur Jensson var bara perla og rétt að minnast hans þannig.
Ég ítreka það að ég skil ekki hvers vegna Íslenzka þjóðfylkingin fær svona lítið fylgi og þannig flokkar. Endurreisn hefst ekki fyrren slíkir flokkar komast til valda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þessi frétt hlýtur að gleðja alla sem berjast gegn einkaleyfastefnu lyfjastórfyrirtækjanna. Að vísu er þetta ekki enn komið í gegnum bandaríska þingið, en þetta finnst mér sýna og sanna að Joe Biden er mun betri forseti en ég bjóst við, og hefur lært talsvert af Donald Trump og andstöðu hans gegn stórkapítalisma og alþjóðavæðingu, fyrst hans stjórnvöld (Bidens stjórnvöld, það er að segja) eru með það til skoðunar að styðja tillöguna.
Ekki kemur nákvæmlega fram í fréttinni hvaðan þetta ákall um afnám bólusetningareinkaleyfanna kemur, en það hlýtur að vera að það ákall komi úr herbúðum Donalds Trump og Repúblikana, því þeir hafa barizt fyrir slíku og komið með slíkar áherzlur. Það hlýtur að vera að þetta sé öflugt ákall fyrst það lendir í heimspressunni sem er andvíg Donald Trump og hans sjónarmiðum mjög oft, því miður.
Margir af þeim sem barizt hafa gegn Bill Gates, George Soros og fleiri moldríkum mönnum og þeirra áhrifum sem hægt er að gagnrýna á ýmsa vegu, eru einmitt þeir sem mest hafa barizt gegn svona einkaleyfum, og segja að með erfðabreyttu lyfjunum sem verið er að dæla í fólk eignist fyrirtækin einkaleyfi á fólki, og eignist fólk, hvernig svo sem það virkar. Kannski í sambandi við læknisþjónustu og slík inngrip. Þessi gagnrýni á rétt á sér, því lyfjafyrirtækin hafa sett hömlur á frjálsan aðgang jurta og segjast hafa einkaleyfi á þeim ef þær eru erfðabreyttar. Afleiðingin er meiri gróði fyrir forríka einstaklinga fyrir. Þannig virkar þeirra brjálaða fégræðgi í ýmsar hrollvekjandi áttir.
Já, full ástæða til að stemma stigu við brjáluðum heimi. Donald Trump var einmitt beztur í því þótt hann væri sjálfur breyzkur maður mjög svo. Kostir hans voru og eru augljósir samt.
Burtséð frá því hvort samsæriskenningar um að Bill Gates vilji stórna mannkyninu og ná alræðisvöldum eða auðjöfrar af hans tagi eru réttar þá er það deginum ljósara að einkaleyfi og erfðabreytingar eru hrollvekjandi veruleiki. Stórgróðinn einn og sér ætti að sýna það, þótt hin siðferðilegu mörk væru ekki einnig til staðar og spurningar þess efnis.
Demókratar og Joe Biden þar með nálgast þetta helzt frá þeirri hlið að með afnámi einkaleyfa lyfjafyrirtækjanna verði auðveldara lagalega að bólusetja fátækar þjóðir, Demókratar nota mannréttindasjónarmiðin, og enn sýnir það fram á hversu mikilvægt þetta afnám bólusetningareinkaleyfanna er. Gallinn er sá að í fréttinni kemur fram að menn vilji gera þetta helzt tímabundið, til að hægt sé að bólusetja fátækari þjóðir á meiri hraða, en ekki algjört afnám bólusetningareinkaleyfanna.
Einnig kemur skýrt fram tregða og andstaða stórfyrirtækjanna, sem sumir kalla hryllingsstofnanir og ekkert minna.
Ákall um afnám bólusetningareinkaleyfa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég tek undir með þeim sem segja Alþýðufylkinguna þann flokk sem er arftaki hefðbundinna vinstriflokka sögunnar. Sósíalistaflokkurinn og stóru vinstriflokkarnir eru femínískir fjölmenningarflokkar með aðrar áherzlur.
Skafti Þ. Halldórsson Íslenzkukennari í Digranesskóla kenndi mér margt um gildi verkalýðsbaráttunnar.
Við vitum að allir flokkar spillast sem komast til valda. Það segir sagan. Lærdómurinn sem fólk getur dregið af samstarfi VG og Sjálfstæðisflokksins er að andstæðu pólarnir hægri og vinstri spillast af samstarfi, hrossakaupum fjölgar, kapítalisminn smýgur inní VG og alþjóðahyggjan smýgur inní Sjálfstæðisflokkinn.
Það er sem sagt gott að líta útfyrir hefðbundna vinstri/hægri póla, sem þó halda áfram að vera gildir. Píratar eru ágæt tilraun til að brjóta upp þá hefð, sem hefur eiginlega mistekizt, því Sunna dró flokkinn langt til vinstri á meðan aðrir skipstjórar þar í brúnni draga flokkinn eitthvert annað. Fólk veit ekki hvar það hefur þann flokk.
Hressilegur og ferskur andblær kæmi inní íslenzk stjórnmál ef Frelsisflokkurinn, Íslenzka þjóðfylkingin og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn kæmust inná þing. Allir þessir flokkar hafa áherzlur sem gætu gagnazt verkalýðsfólki. Sumir benda á það hvernig fjölmenningin er orðin að sjálfstæðu skrímsli sem er varasöm bæði fyrir norræna Íslendinga og hina sem koma frá öðrum svæðum, því kapítalisminn svífur yfir og undir í alþjóðamenningunni og alþjóðahyggjunni.
Ég spái því að ef við kjósum ekki þessa þrjá flokka inná þing muni ástandið bara versna, stöðnunin verður meiri, og sífellt meira verður kroppað af því sem lægst launuðu stéttirnar hafa.
Ég treysti að vísu Sósíalistaflokknum og Alþýðufylkingunni til að vilja bæta hag alþýðunnar, en voru þær aðferðir ekki fullreyndar í Sovétríkjunum sálugu?
Um leið og svona hægristefnusmáflokkar kæmust til valda yrðu stóru flokkarnir að bæta sig. Litlu hægriflokkarnir, örflokkarnir sem stundum eru nefndir hægriöfgaflokkar eða lýðskrumsflokkar - sem einnig á við um vinstriflokka - geta breytt stjórnmálaelítunni.
Örflokkarnir til hægri eru öðruvísi, hafa aldrei stjórnað Íslandi og það er orðið tímabært.
Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn jafnaðarflokkur. Þetta er allt sama tóbakið fyrir utan þessa litlu hægriflokka, örflokka, sem ekki mælast með stjórnartækt fylgi, því miður, og það er ógæfa íslenzku þjóðarinnar og heimska í senn.
Gefum þeim séns. Ég held að fólkið í þeim sé síður með áhuga á að hleypa hættulegum kapítalisma á landsmenn eins og einhverjum forndreka úr sögunum en fólkið í stóru flokkunum sem mælast með fylgi.
Það er nóg komið af hrossakaupum og spillingu. Framtíðin er öðruvísi pólitík.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þá er komið að því að túlka og fara yfir þriðja erindi kvæðisins eða söngtextans "Þú verður að þjóna einhverjum" eftir Bob Dylan frá 1979 af plötunni "Slow Train Coming". Sú plata er ekkert meistarastykki, en hún er vel hljóðblönduð og er fagnaðarefni fyrir þá aðdáendur Dylans sem eru kristinnar trúar að minnsta kosti, og suma fleiri, sem kunna að meta létt gospel, eða þennan gamalreynda poppara reyna sig í óvanalegri tónlist fyrir hann, gospelinu.
Eins og fram hefur komið í umfjöllun um önnur erindi er þessi texti eins og aðrir á plötunni taldir með því versta sem Dylan hefur látið frá sér fara. Þessi verk sýna sem sagt ekki tök hans á skáldamálinu eins og oft áður, en eru blátt áfram og einföld, barnalega einföld.
Svona er þýðingin yfir á óbundna íslenzku:
"Þú mátt vera riddaraliði ríkisins, þú mátt vera ungur Tyrki. Þú mátt vera yfirmaður einhverrar stórrar sjónvarpsstöðvar. Þú mátt vera ríkur eða fátækur, þú mátt vera blindur eða lamaður. Þú mátt lifa í öðru landi undir öðru nafni, en þú verður að þjóna einhverjum. Já það verður þú að gera, þú verður að þjóna einhverjum. Jæja, það má vera Djöfullinn eða það má vera Drottinn en þú verður að þjóna einhverjum".
Enn sem fyrr er hér ekkert um skáldleg tilþrif heldur venjulegt götumál. Allt auðskiljanlegt, einfalt.
Samt má velta upp ýmsum hliðum í svona ljóðaumfjöllun.
Af hverju minnist hann fyrst á riddaraliða ríkisins? Er það til þess að leggja áherzlu á að herinn sé einnig háður yfirjarðlegu valdi annars hnattar, Guði eða Djöflinum eða öðrum? Kannski. Erfitt að segja, kannski eitthvað sem honum fannst hæfa þarna án mikillar pælingar eða ígrundunar.
Næst kemur lýsandi setning miðað við mann kristinnar trúar. Þegar hann minnist á "ungan Tyrkja" er það engin tilviljun, miðað við deilurnar á milli múslima og kristinna manna sem eiga sér langa sögu. Hann er sem sagt að segja að í öllum trúarbrögðum séu þessi átök á milli misgóðra afla.
Síðan minnist hann á að hlustandinn megi vera yfirmaður stórrar sjónvarpsstöðvar. Hvers vegna kemur þessi upptalning á starfsheiti þarna næst?
Ja, kannski vegna þess að þetta var eitthvað umrætt á þessum tíma, fyrir tíma alnetsins, þá var áhorfið á sjónvarp mikið og þessir sjónvarpsstjórar drottnarar yfir stórum hluta frítíma fólks og fengu af því ágætar tekjur oft. Enn leggur Dylan áherzlu á það með þessari löngu upptalningu á starfsheitum að trúmálin komi öllum við, að ekkert sé trúmálunum óviðkomandi, að þau smjúgi inn í öll svið mannlífsins og jarðlífsins.
Næst kemur upptalning á ríkum og fátækum, mjög almennt orðað. Já, hér er aðeins verið að lýsa kjörum fólks, og næst er sagt að hvort sem hlustandinn sé blindur eða lamaður þurfi hann samt að velja á milli Guðs eða Djöfulsins. Já, rétt er að um blinda og lamaða er fjallað í Biblíunni, þannig að þetta fer nálægt því að vera Biblíutilvitnun, en samt er þetta ekki alveg Biblíutilvitnun því þetta er of almennt orðað til þess, myndi maður halda.
Síðan er sagt að jafnvel þótt hlustandinn búi í öðru landi undir dulnefni þurfi hann samt að trúa á annaðhvort Guð eða Djöfulinn, sumir myndu segja að valið standi um fleiri kosti, eins og John Lennon, sem bjó til svarsöng áður en hann var drepinn þess efnis að allir yrðu að þjóna sjálfum sér. Snjallt hjá honum og rétt. Sumir segja að þar sé vinstristefnunni rétt lýst og húmanismanum, en um það má deila.
Loks kemur viðlagið sem allir þekkja, þar sem þetta er endurtekið aftur og aftur.
Segir þetta erindi nokkuð umfram það sem hin gera? Nei, eiginlega ekki. Þetta er sami boðskapurinn aftur og aftur í örlítið breyttum myndum, nokkurnveginn alltaf nákvæmlega það sama.
Ég er helzt kominn á þá skoðun að Bob Dylan hafi samið þetta lag og þennan texta gagngert fyrir þessa plötu, til að kjarna grunngildi hins kristna öfgamanns myndu sumir segja, en þannig var boðskapur "Vineyard Fellowship", sértrúarsafnaðarins sem Bob Dylan fór í skóla hjá þegar hann var að taka kristna trú og henda gyðingdómnum tímabundið.
Það lítur út fyrir að hann hafi verið að útskýra einföldustu atriðin fyrir þeim aðdáendum sínum sem hann taldi minnst vita um kristna trú almennt. Eða, það er hægt að túlka þetta þannig að minnsta kosti. Af hverju var hann annars að semja svona sáraeinfalt lag og svona sáraeinfaldan texta sem margir kalla klisjukenndan úr hófi fram?
Ekki ósvipað var það árið 1964 þegar Bob Dylan hætti að búa til vinstrisinnaða mótmælasöngva um mannréttindi og fór að búa til eintóm ástarlög, á plötunni "Another Side of Bob Dylan", sem myndi útleggjast:"Önnur hlið á Bob Dylan". Fyrsta lagið á þeirri plötu heitir:"All I Really Wanna Do". (Is Baby Be Friends With You). (Allt sem ég vil í rauninni er að vingast við þig elskan).
Þar notaði hann fyrsta lagið á plötunni sem inngang fyrir hin lögin. Þannig er þetta fyrsta lag plötunnar "Slow Train Coming", það setur stemmninguna fyrir hin rammlega kristnu lögin, undirbýr hlustendur annarra trúarbragða eða efasemdarfólk.
Margt á plötunni "Slow Train Coming" hljómar eins og Dylan setji sig í stellingar, að trúarvissa hans sé frekar tilraun til að losna útúr dópheiminum og inní friðsælla líferni en algjör trúarvissa, nema í nokkrum lögum kannski. Þetta lag virðist ekki fullt af trúarvissu, þessi vélræna upptalning. Svo er merkilegt með önnur lög plötunnar, þar blandar hann saman ást til jarðneskra kvenna og trúnni á Jesúm Krist eða guð Biblíunnar, að því er virðist, eins og í "Precious Angel", til dæmis og "I Believe In You".
Í síðasta laginu virðist þó ósvikin og hrein trúarvissa, í laginu "When He Returns", (Þegar hann (Jesús Kristur) kemur aftur). Það er eitt helzta trúarstefið hjá mörgum sértrúarsöfnuðum að minnsta kosti.
Mér finnst áhugavert að setja svona plötu í rétt samhengi og fjalla almennt um hana og stöðu hennar.
Um þetta erindi er erfitt að fjalla meira. Eins og ég hef sagt um önnur erindi, það býður ekki uppá mikla túlkun, þetta er á svo gríðarlega almennu talmáli og óþvinguðu, hversdagslegu máli, og varla neitt hægt að túlka nema á einn og sama háttinn, sem þessi boðskapur að fólk verði að vera trúað eða sé alltaf trúað hvort sem það viðurkenni það eða ekki opinberlega, að trúin fylgi öllum, sé órjúfanlegur þáttur mannlífsins, að trúleysi sé líka trú, eins og vel má túlka innhald textans líka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.1.): 32
- Sl. sólarhring: 42
- Sl. viku: 607
- Frá upphafi: 132938
Annað
- Innlit í dag: 26
- Innlit sl. viku: 442
- Gestir í dag: 24
- IP-tölur í dag: 24
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar