Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2021
27.2.2021 | 19:20
Vertu sælt verðleikasamfélag, eftir Bob Dylan, túlkun á fyrsta erindinu
Sumir halda að þetta kvæði sé um Joan Baez, en það stenzt þó tæplega, því Bob Dylan söng með henni á tónleikum stóran hluta ársins 1965, þegar þetta var hljóðritað, þannig að ekki var sambandi þeirra lokið þá.
Þetta kvæði var að öllum líkindum sett saman árið 1964, um sama leyti og "Mr. Tambourine Man", sem talið er frá febrúar 1964. Það lýsir þeim breytingum sem urðu á Bob Dylan um þetta leyti, þegar hann var að kveðja þjóðlagatónlistina og verða rokkari. Það lýsir þó þjóðfélagsbreytingum sem urðu síðar og hefur forspárgildi eins og kemur fram í þessum ritdómi og túlkun.
Svona er þýðingin yfir á óbundna íslenzku, á fyrsta erindinu:
"Vertu sæl Angelína, bjöllum ríkisins hefur verið rænt af glæpamönnum, ég verð að fylgja hljóðinu. Þríhyrningurinn gellur og lúðrarnir blása hæglátlega. Vertu blessuð, Angelína, himininn logar og ég verð að fara."
Það er ekki hægt að flokka þetta sem venjulegt ástarljóð eða skilnaðarljóð til konu eða stúlku. Það lýsir þjóðfélagsbreytingum, samvitzkubiti og stríði, menningarstríði, hruni menningar og heimsendi. Þetta er eitt fyrsta og bezta spádómsljóðið sem Bob Dylan hefur sett saman.
"Bjöllur krúnunnar, bjöllur kóngsríkisins... "the bells of the crown", þetta líkindamál hefur vafizt fyrir mörgum, en er þó vel hægt að útskýra.
Fyrstu drögin að textanum "Chimes of Freedom" voru samin eftir morðið á John F. Kennedy, og lýsa jarðarför hans, þar sem svipað orðalag kemur fyrir. Öllum Dylanfræðingum ber saman um það að morðið á Kennedy hafði mjög djúpstæð áhrif á Dylan, og varð til þess endanlega að hann hætti að samsama sig mannréttindahreyfingunni vinstrisinnuðu og uppreisnarliðinu vinstrisinnaða í þjóðlagatónlistinni. Að minnsta kosti í bili eða á yfirborðinu, hvað svo sem deila má um í raun, en hvernig geta menn verið sammála um eitthvað eins og þetta sem er tilfinningamál og stjórnmálalegs eðlis mjög svo mikið?
Hitt er staðreynd, að hann hætti að semja svona baráttusöngva vinstristefnunnar undir lok ársins 1963 og fór að snúa sér að almennari málum, fór að hunza þessar vinstriáherzlur sterku sem höfðu einkennt hann í upphafi. Þetta lag er því um þessar breytingar að miklu leyti, samið 1964, sennilega, frekar en 1965, þegar það var hljóðritað, einungis einusinni.
Fleira má segja um orðalagið "bells of the crown", það er mjög lýsandi og hefur víðar skírskotanir. Kirkjuklukkur koma upp í hugann, kirkjur feðraveldisins, vald hægrisinnuðu yfirstéttanna, sem Dylan var ekki eins andvígur og sumir hafa haldið, enda þáði hann frá þeim ríkidæmi sitt og völd, og hafði samvizkubit þessvegna og hefur kannski enn.
Þetta kvæði er miklu skiljanlegra nú en þegar það var samið. Þá var það flestum óskiljanlegt, en ekki lengur. Af hverju gaf Bob Dylan út allar þessar plötur þar sem hann söng lög sem Frank Sinatra hafði gert vinsæl? Af hverju snéri hann baki við vinstrielítunni að miklu leyti árið 1964? Bob Dylan er tvíburi eins og Bubbi Morthens, gleymum því ekki, og sama kamelljónseinkennið er sagt hluti af persónuleika tvíburanna.
Af hverju sleit Bob Dylan tengslin við margt af þessu fólki sem gerði hann vinsælt, þjóðlagatónlistarfólkið og fór að umgangast rokkara og æ ríkari yfirstéttir? Að vísu sleit hann ekki alveg tengslin við þetta fólk, en hann hann hætti að vera fátækur á árunum 1963 og 1964 og varð nokkuð vel stæður, sérstaklega vegna greiðslna fyrir lög sem aðrir gerðu vinsæl, en voru eftir hann sjálfan, eins og "Blowing In The Wind".
Bob Dylan stóð því með annan fótinn í hægrinu og hinn í vinstrinu. Hann var maður tveggja tíma, kynslóða einnig. "Farewell Angelína" lýsir þessu og mörgu öðru einnig.
Í "Farewell Angelína" lýsir Dylan viðbjóði sínum á vinstraliðinu og afhelgun á feðraveldinu. Enda söng hann þetta aldrei á tónleikum.
Dylan var alltaf utangarðsmaður, meira að segja í þjóðlagakreðslunni 1962 og 1963. Hann var þó eini nemandi Woody Guthrie sem fékk hreina 10 úr hans skóla, ef svo má segja, enda er Dylan afburðagáfaður eins og ekki er hægt að neita.
Fyrst þegar ég heyrði viðtölin við Dylan frá 1965 voru þau mér nokkur ráðgáta, hvernig hann snéri útúr spurningum blaðamannanna í sífellu og engu vildi svara. Samt eru þau svör skiljanleg ef betur er að gáð.
Dylan vildi ekki vera í þessari stöðu, vildi ekki vera gerður ábyrgur fyrir þessum þjóðfélagsbreytingum, vildi ekki bera þessa ábyrgð, að vera málsvari sinnar kynslóðar, eða vinstraliðsins alls. Hans samúð var meira á miðjunni, bæði með hægrinu og vinstrinu, og þessvegna stimplaði hann sig snemma útúr því sem aðrir gátu túlkað sem eitthvað öfgakennt, eða reyndi það að minnsta kosti, þótt ákveðinn kommastimpill hafi að vísu aldrei losnað af honum, eins og gerist og gengur um samfélagsstimpla og þjóðfélagsstöðu sem fólk kemst í óviljandi eða viljandi.
Þegar hann lýsir arðræningjunum vinstrisinnuðu sem "rangeygum pírötum" seinna í þessu kvæði er ekki hægt að lýsa því öðruvísi en sem andúð og viðbjóði á þeim. Hins vegar er þetta túlkunum háð og þetta kvæði hefur verið túlkað á margvíslega vegu.
Bara þessi tvö orð eru upplýsandi, "bjöllur ríksins", "bells of the crown". Bjöllur krúnunnar væri enn nákvæmari þýðing.
Nú vill svo til að orðið krúna hefur sérstaka merkingu í enskunni, sem konunglegt vald, keisaradæmi eða einveldi. Við erum eiginlega komin aftur í frönsku byltinguna, muninn á þeim eðalbornu og lýðnum. "Crown" þýðir kóróna fyrst og fremst, en hefur svo afleiddar merkingar margar. Þetta er raunar norrænt orð, sama orðið og kóróna eða krúna, nema stafavíxl hefur orðið.
Bjalla eða klukka er hins vegar tengt við kirkjuna, kirkjuklukkur, jarðarför Kennedys. Enda er lag um drápið á Kennedy á nýjustu plötu Dylans, frá þessu ári. Það sýnir hversu mikil áhrif morðið á Kennedy hafði á Dylan, meðal annars.
Þannig að orðalagið "bells of the crown" er lýsing á feðraveldinu, annað orðið lýsir kirkjunni, (bells) og hitt lýsir hvítri yfirstétt vestrænna karlmanna (crown), konungsríkið.
Hitt fjalla ekki allir um, að samúð Dylans liggur með krúninni, eða feðraveldinu, eða yfirstéttinni vestrænu og karllægu í kvæðinu. Það vilja vinstrimenn síður viðurkenna.
Angelína þessi er ekki fallinn engill eða fallinn kvenengill eins og í "Angelína" frá 1981 sem ég hef nýverið lokið við að fjalla um. Dylan ber lotningu fyrir þessum kvenengli, í þessu kvæði, og hann er að afsaka sig allan tímann fyrir vinstrisinnaðar áherzlur sínar í fortíðinni, að því er virðist.
Þessi Angelína er tákngervingur fyrir feðraveldið, fyrir kirkjuna, hefðina, virðuleikann og heilagleikann, eða hægristefnuna, fjármagnið, völdin, sem Dylan telur allt farið að rýrna með mannréttindahreyfingunni, sem hann er hluti af, en er ekki sáttur við þá hlutdeild, samkvæmt því sem margir hafa túlkað, og er sennilega alveg rétt.
Þessi Angelína er Verðleikasamfélagið, verðleikar karlmanna metnir sem gildir.
"Bjöllum ríkisins hefur verið rænt", segir hann og gefur út þessa tilkynningu sem öllum ætti að vera ljós, en kannski ekki, því þarna standa menn í hringiðu viðburðanna. Tilkynningin er því stærri en hún gefur til kynna, úr því að hún er yfirleitt gefin og í samhengi viðburðanna og hvaða hlutverki Dylan gengdi í mannréttindahreyfingunni og mannúðarhreyfingunni, vinstribylgjunni.
"Have been stolen by bandits", segir reyndar í frumtextanum, þannig að hann lýsir sér sem ræningja og sjóræningja, og öllu þessu vinstraliði raunar.
"Ég verð að fylgja hljóðinu" kemur næst. Sumir telja að ljóðmælandinn sé hermaður, en ekki nema í þessu menningarstríði, segi ég.
Sem sagt, virðingin er að hverfa frá kirkjunni og elítunni sem stjórnað hefur heiminum lengi, þessu klukknahljómur eða bjölluhljómur sem hann verður að fylgja er tákn um heilagleika og vald, sem fluzt hefur frá hægrisinnaða feðra- og -kirkjuveldinu yfir á jafnaðarmenn og mannréttindafrömuði þessa tíma, og framtíðarinnar. Svipaðar hugleiðingar eru á ferli í laginu "The Times They Are-A Changing", þar sem kynslóðabilinu er reyndar betur lýst.
Á sama tíma er þessi klukknahljómur stolni tákn um andlegt vald, trúarlegt vald, sem femínisminn hefur yfir sér, húmanisminn og jafnaðastefnan. Eins og á endurreisnartímanum og miðöldum er þetta vandlætingarvald, refsingarvald og ofbeldisvald, pyntingavald.
"Þríhyrningurinn gellur og lúðrarnir blása hæglátlega"... Jarðarför feðraveldisins, kirkjunnar, vestræna heimsins og Kennedys um leið.
Vertu sæl Angelína (Vertu sælt Verðleikasamfélag), himininn logar og ég verð að fara". Þannig lýkur erindinu.
Verðleikar karla eru ekki lengur metnir í gildi nema að litlu leyti, sem undaneldisdýr og hlýðnir vinir, kjölturakkar og eitthvað slíkt.
"Himininn logar", hér eru myndir úr hugmyndaheimi sértrúarsöfnuðanna og kirkjunnar, heimsendalýsing, þessi kröftugi endir á erindinu sýnir hvar samúð Dylans liggur, með feðraveldinu, og hann er sár yfir þátttöku sinni í mannréttindahreyfingunni og hvernig margt í þeim efnum finnst honum oftúlkað öðrum í hag.
"Og ég verð að fara"... þá á hann bæði við að yfirgefa friðarhreyfinguna, vinstrihreyfinguna, og svo er hann að tala um heimsendann sem er í nánd út af öllu saman, raunverulegan, sem hann trúir á, sem kristinn einstaklingur jafnvel svo snemma sem þarna, með rætur í Gyðingdómnum, trúarbrögðum foreldra sinna og ættar, sem aðeins dýpkar skilning hans og þekkingu á Biblíunni og myndmáli hennar.
Þetta er samt veraldlegt kvæði, með trúarlegar og kristilegar skírskotanir. Það lýsir þjófélagsbreytingum sem honum geðjast ekki að. Ég mun reyna að útskýra önnur erindi síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2021 | 21:04
Með sama sniði (ljóð).
með sama sniði
liljur vallarins tala eða þegja
en meðfram gerðinu vex það sem deyr
& þörfin er meðfram venjubundnu fólki
en sársauki þess gamla
verður aldrei endurtekinn
mun það fólk kynnast hans lífi
eða hans afrekum
eða verður það allt með sama sniði?
hvar er óttinn?
hvar er skelfingin?
19. október 2016.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2021 | 19:56
Er núverandi ríkisstjórn sú skásta í stöðunni?
Málamiðlunarstjórnmál eru raunstjórnmál en ekki loforðastjórnmálin fyrir kosningar, eða ídeulógíustjórnmálin í loftköstulum draumóramanna einsog Gunnars Smára Egilssonar erkikomma. Í öllum flokkum er eitthvað eftir af ídeulógíustjórnmálum eða draumórastjórnmálafræðinni, en hvernig eru verkin sem eftir standa?
Hvað er átt við þegar sagt er "börn á ráðherrastóli?" Er þá átt við ungan aldur ráðherranna, reynsluleysi þeirra eða barnaskap í ákvarðanatöku og einfeldni eða allt þetta? Sérstaklega þetta tvennt síðarnefnda myndi ég halda.
Mín draumaríkisstjórn yrði sú þjóðlega þjóðernisjafnaðarstjórn sem fæstum myndi hugnast, þannig að ég verð að sætta mig við það sem er í boði. Björn Ingi sagði í nýlegu viðtali einhversstaðar að kosningasigrar ynnust frá miðjunni, og þetta er að því leytinu satt að þar er oft almenningur.
Samfylkingin hefur verið að sækja í sig veðrið, en nýleg innkoma og valdataka Rósu Bjarkar sem í hugum margra er tengd við öfga og uppnám hefur sennilega valdið fylgishruni hjá flokknum, í skoðanakönnunum. Eru það brjóstgæðin óhóflegu sem eru að fella Samfylkinguna einusinni enn?
Í Silfrinu síðast kom fram áhugaverð umræða um það hvort Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn ásamt Framsókn gætu endurnýjað umboðið og önnur alveg eins ríkisstjórn tekið við eftir kosningar? Þrátt fyrir öll gremjuefnin hjá mér með stjórnina á kjörtímabilinu finnst mér þetta ekki alveg fráleitt.
Hvað annað er í boði? Miðflokkurinn er beittur félagslegu ofbeldi af vinstriflokkunum og því litlar líkur á að hann geti haft áhrif í ríkisstjórn eða utan hennar. Þar með er hann úr leik, eins og Flokkur fólksins, sem nær ekki nægilegri stærð til að hafa mikil áhrif.
Píratar, Viðreisn, geta svona flokkað gert eitthvað gagn? Kannski. Alla vega er það mjög rétt hjá Styrmi Gunnarssyni að hættan á hreinni vinstristjórn er mjög mikil núna. Í því ljósi er kannski endurnýjun þessa stjórnarsamstarfs einn skásti kosturinn í stöðunni. Samt eru þessir flokkar ekki nema svipur hjá sjón, og órafjarri sínum upprunalegu stefnumálum og hugsjónum, sem er dapurlegt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.2.2021 | 11:16
Við erum á landi mikilla jarðskjálfta
Þegar Suðurlandsskjálftinn árið 2000 kom var sagt að enn stærri skjálftar gætu komið síðar
Flestir núlifandi Íslendingar muna eftir Suðurlandsskjálftanum árið 2000. Þá sögðu fræðimenn að fjórðungur orkunnar hefði losnað úr læðingi og óvíst væri að vita hvort hitt myndi losna í mörgum smáum skjálftum eða jafnvel nokkrum býsna stórum.
Við á Suðvesturhorninu vitum að þetta er happadrætti, hvort þeir verða nálægt byggð og svo hversu sterkir þeir verða. Annars er mikilvægt að halda ró sinni og fylgja fyrirmælum.
Ég man þegar skjálftarnir komu í fyrra gat ég verið rólegur yfir þeim og hugsað að eitthvað væri þó venjulegt, og að almættið gæti sent fleiri hörmungar en bara farsótt, og mér varð hugsað til ársins 1918, þegar margt hörmulegt gerðist í einu, en það ár var eitt stærsta sjálfstæðisár þjóðarinnar samt.
Það er margt sem bendir til þess að það erfiðleikatímabil sem hófst í fyrra sé ekki að baki enn fullkomlega.
Gott er að róa sig við orð afa, sem lýstu miklu æðruleysi, en hann var vanur að segja þegar eitthvað bjátaði á: "Þetta fer allt einhvernveginn".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2021 | 22:28
"Vafasöm líknandi meðferð" - úr kvöldfréttum RÚV
Áhugaverð frétt í kvöldfréttum RÚV, lækni á Suðurnesjum hefur verið sagt upp fyrir að vera grunaður um að hafa stytt sjúklingum sínum aldur (beitt líknandi meðferð á vafasömum forsendum, sem er sami hluturinn dulkóðaður í skrúðmál). Þetta er eins og í reyfurunum, en vinstrimenn sem segja "við erum of mörg" geta gripið til svona aðgerða til að laga mengunina og umhverfisvandamálin, eða telja sér trú um það. Auðvitað ýmsir aðrir, en þarna er komin stjórnmálaleg afsökun að minnsta kosti sem getur auðveldað samvizkunni að gera slíkt.
Áhugaverð var einnig fréttin frá Bandaríkjunum í gær, yfir hálf milljón Bandaríkjamanna hafa dáið vegna veirunnar, fleiri en í heimsstyrjöldunum báðum til samans og Víetnamstyrjöldunum.
Ef þetta er sett í rétt samhengi kemur margt áhugavert í ljós. Anders Tegnell sóttvarnarráðherra Svíþjóðar hefur réttilega verið kallaður fjöldamorðingi af mörgum, meðal annarra Ómari Geirssyni og Evu Hauksdóttur, og spurning hvor er verri, Anders Tegnell eða Anders Breivik sem situr inni.
Svo er spurningin, hvers vegna voru vinstrimenn að mótmæla mannfallinu í Víetnamstríðunum ef þeirra eigið fólk sendir á þá veiru sem er margfalt skæðari og veldur meira mannfalli?
Hvers vegna mótmæla sumir eins og ýtt sé á takka, út af sumu óréttlæti en ekki öðru? Fólki er stjórnað frá öðrum hnöttum, það hlýtur að vera skýringin.
Hrunið 2008 var sennilega viljandi sett af stað af auðjöfrum heimsins, til að endurræsa kerfið, og til að láta venjulegt fólk tapa og til að láta þá ríku verða enn ríkari.
Þessi endurræsing sem á sér stað núna er auðvitað engin tilviljun, hún er gerð í því skyni að gera hina fávísu ennþá fávísari og hina óupplýstu ennþá óupplýstari, til að gera hina kúguðu ennþá kúgaðri... og svona mætti lengi halda áfram. Opinberlega eru þó þulur lesnar upp sem réttlæta allt saman og eins og páfagaukar trúa flestir þeim þulum eða þykjast trúa þeim, til að taka þátt í leiknum, því þeir sem valdið hafa stjórna öllu, og síðan eru mannréttindabrotunum gefin þau nöfn að þau séu einmitt mannréttindi.
Raunar er óþarfi að hafa í þessum sprautum eitthvað efni til að gera fólk hlýðnara, því þrælslundin er algjör fyrir og varla örlar á sjálfstæðri hugsun, hvað þá samtökum til mótvægis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2021 | 09:05
Útlendar fyrirmyndir stráka og brottfall þeirra úr skólum
Hvaða fyrirmyndir hafa ungir drengir núna, þessum sem gengur illa í skólum? Eru þessir strákar aðallega að hugsa um starf innan kerfisins sem nám í skólum býður uppá? Nei, sú tíð er liðin. Eitt af því sem strákar á þessum aldri hugsa mest um eru stelpur og að fá drátt. Þeir vita að það er ekki hipp og kúl að lokast inní stofnunum að námi loknu. Rapparar eins og Kanye West hafa mikil áhrif. Hvítir karlmenn hafa allir breyzt í "kerlingar" að þeirra mati, býst ég við. Fyrirmyndarnir fást því úr glæpahverfunum í útlöndum að einhverju leyti, þar sem rótleysi og menntunarleysi eru ríkjandi þættir.
Fjölmenningin hefur þessi áhrif, að táningar sem eru að alast upp á okkar landi bera sig saman við útlendar fyrirmyndir ef þær íslenzku eru ekki nógu flottar eða spennandi að þeirra mati.
Raunveruleikastjarnan Kim Kardashian, sem lengi hefur verið konan hans, hefur líka mikil áhrif. Hjónaskilnaðir, hjónabönd og slúður um svona fólk er það sem margir líta á sem aðalfréttaefnið, sérstaklega af ungu kynslóðinni.
Stúlkur eru samvizkusamari í eðli sínu en strákar, en þessir tízkustraumar hafa líka áhrif á þær. Annað sem veldur brottfalli drengja úr námi er femínisminn, og margir eru sammála um það, strákarnir sjá nefnilega kvenkennarana síður sem hvatningu fyrir sig að halda á menntabrautina, og hið ofurkvenlega umhverfi allra menntastofnana landsins, stelpur í meirihluta sem nemendur og konur sem kennarar. Auðvitað hefur þetta áhrif.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2021 | 19:19
Ofbeldið sem pabbi beitti mig þroskaði mig
Ekki get ég státað af góðum eða þægilegum fjölskylduaðstæðum. Ein ágæt kona hefur hér á blogginu fjallað um raunir skilnaðarbarna, en mínir foreldrar voru raunar aldrei giftir, en ekki var skemmtilegra að alast upp við þær aðstæður, svo ég flúði til ömmu og afa.
Mínar skoðanir mótast mikið af þessu uppeldi. Faðir minn, fæddur skömmu eftir stríðslok, er í anda sínum mjög gamaldags sveitamaður sem trúir á hörku við uppeldi, aga og leiðindi við sín börn ef hann getur gagnrýnt þau. Móðir mín er ofdekruð, misþroska frekjudolla, eigingjörn, sjálfhverf og ófær um að ala upp börn, með lítið sem ekkert raunveruleikaskyn, lifir í draumaheimi sem breytist í martröð í veruleikanum.
Afi minn og amma í móðurættinni voru samt gott fólk og gallalaust sem ég get ekkert neikvætt sagt um, frá mínum bæjardyrum séð. Þar fékk ég gott uppeldi og þau komu mér í foreldrastað. Þar lærði ég líka góða íslenzku.
Um páskana 1985 fór ég í heimsókn til pabba og stjúpmömmu til Akureyrar, þar sem þau bjuggu þá. Ég dvaldi þar í um það bil viku. Pabbi bjóst við því að ég væri að hjálpa honum á verkstæðinu, en það gerði ég ekki. Ég fór varla útúr húsi, var að teikna myndasögur, búa til ljóð, lesa bækur og hlusta á spólur eða plötur. Fyrir þetta fékk ég endalausar skammir alla dagana sem ég var þarna. Hann sagði að ég hefði ekkert gagn af því að koma á nýjan stað ef ég færi aldrei út og kynntist fólki eða skoðaði bæinn. Mér var sama hvað hann sagði. Ég hafði mín áhugamál og nóg að gera.
Hann sagði að ég léti stjórnast af mömmu, og hennar fyrirætlunum að gera úr mér listamann. Þetta var ekki alveg satt hjá honum, þetta var minn áhugi. Þegar maður fékk hrós fyrir eitthvað eins og listastörf fékk maður auðvitað meiri áhuga á þeim. Það var ekki mamma sem stjórnaði því, allt mitt félagslega umhverfi miklu frekar.
Hann talaði af fyrirlitningu um listamenn og sagði að þeir væru aumingjar sem ekkert gæfu til þjóðfélagsins, að allir listamenn væru helvítis sníkjudýr á þjóðfélaginu. Hann vildi að ég ynni verkavinnu eins og hann, eða eitthvað vel launað. Hann vildi senda mig á sjóinn til að kenna mér að vinna, eins og hann orðaði það. Auðvitað tók mamma það ekki í mál, enda voru þau sjaldan sammála um neitt.
Hann talaði um bóknám af fyrirlitningu, því sjálfur var hann ekki langskólagenginn, og kunni illa að stafsetja og skrifa hlutina. Hann talaði um Ólaf bróður sinn, sem alltaf væri í Háskólanum, en ekkert yrði úr, hann væri að vísu eitthvað að vinna hjá Sjónvarpinu (RÚV) við prófarkalestur, en fengi lítil laun fyrir það.
Hann vildi að ég færi á sjóinn eða að vinna við höfnina, fengi mér vel launaða verkamannavinnu, sjálfur vann hann við bílaviðgerðir á vöruflutningaverkstæði.
Faðir minn er samt innmúraður og innvígður í Samfylkinguna og Alþýðuflokkinn þar áður, fæddist inní þá klíku og þekkir ekkert annað. Þeir örfáu hægrimenn sem voru og eru í minni föðurætt fengu eða fá ekki alltaf góðar viðtökur hjá honum og krataklíkunni í ættinni.
Það var um þessa páska árið 1985 sem ég heyrði fyrst talað um Hitler. Pabbi, hinn mikli jafnaðarmaður, talaði lengi um Hitler af virðingu, sagði hann að vísu hafa verið samvizkulausan fjöldamorðingja, en aginn hafi aldrei verið eins mikill og í Þriðja Ríkinu. Hann sagði að þessi agi gerði börn dugleg. Þetta mótaði mig mikið, þessi orð jafnaðarmannsins mikla, sem hatar Hitler á yfirborðinu en ber ómælda virðingu fyrir honum innst inni.
Löngu seinna áttaði ég mig á því að auðvitað hafði ég verið beittur ofbeldi um þessa páska, andlegu ofbeldi, því þetta var stöðugt niðurrif alla þessa daga. Það beit svo sem ekkert á mig á meðan á dvölinni stóð, ég fór ekkert að gráta eða neitt slíkt, enda orðinn 14 ára, á 15. ári, en rótfestist í sálinni, efasemdir um sjálfan mig, móðurættina, og uppeldisaðferðir mömmu, mín áhugamál og margt þar fram eftir götunum.
Engu að síður er ég ekkert að kvarta yfir þessu sérstaklega, en þetta má bara koma í ljós eins og annað. Þetta var bara svona, og þetta þroskaði mig. Ég sá hlutina á nýjan hátt eftir þetta, en það sem mér sárnaði var hversu skilningslaus og takmarkaður hann var. Okkar samskipti urðu þó skárri eftir að ég gaf út hljómdiskana mína, því þá fór hann að virða mig og hélt sig til hlés, viðurkenndi að ég hafði afrekað eitthvað í lífinu þrátt fyrir allt.
Þess vegna finnst mér það koma úr hörðustu átt þegar jafnaðarmenn og Samfylkingarfólk telur rasista annars flokks mannverur. Pabbi, sem aldrei hefur kosið annað en Samfylkinguna og Alþýðuflokkinn, býst ég við, vakti áhuga minn á þjóðernisjafnaðarstefnunni og öllu slíku. Ég var svo mikið barn að ég þekkti ekki fortíðina og menninguna.
Ekki fannst mér heldur skemmtilegt að alast upp hjá mömmu. Hún varð bitur femínisti með aldrinum sem kenndi körlum um allt sem hún gat fundið til að kvarta undan. Hjá ömmu og afa leið mér vel, þau voru regluföst, öguð, kurteis, vel kristin og góð að öllu leyti. Amma vildi kenna mömmu móðurlegar dyggðir og gildi feðraveldisins, en mamma lét aldrei að stjórn með það.
Mamma hefur ekki verið hamingjusöm kona, og ég verð að vera pabba fullkomlega sammála með hans túlkun á henni, að ef hún hefði hætt að berjast við karlmenn og hætt að heimta völd og sinnt sínum kvenlegu skyldum hefði hún orðið hamingjusamari. Auk þess er mamma haldin kaupfíkn, og hefur lent í skuldum við fjölskyldumeðlimi og aðra nátengda. Hún neitar alltaf að eitthvað sé að sér andlega, og kennir öðrum um allt. Ef hún er gagnrýnd snýr hún því strax upp á aðra. Sem er ástæðan fyrir því að hún hefur verið beitt ofbeldi, en hún kippir sér aldrei upp við það, heldur bara þetta andlega, að vera ekki virt nógu mikið, að fólk sé ekki sammála henni og eitthvað slíkt.
Í öllum femínistum og femínísku tali sé ég mömmu fyrir mér, konuna sem kennir alltaf öðrum um, sér aldrei vandann hjá sjálfri sér. Konunni sem vill ekki vera eins og "gömlu góðu húsmæðurnar" (eins og hún orðar það) en hefði samt gott af því að lúta slíkum aga og taka sér þær til fyrirmyndar, ömmu og konur af hennar kynslóð. Þær konur voru og eru yndislegar, góðar við börn og alla.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.2.2021 | 17:58
Angelína eftir Bob Dylan, túlkun á níunda erindinu
Þá er komið að því að fjalla um níunda erindi kvæðisins Angelína eftir Bob Dylan. Þar með er ég kominn allan hringinn og lýk umfjöllun minni um þetta merkilega spádómskvæði, leiðslukvæði. Ég byrjaði á tíunda erindinu þannig að ég hef gert þeim öllum góð skil með því að fjalla hér um það níunda, og öll hin búin.
Eins og nafnið gefur til kynna er hér verið að fjalla um kvenengil, eða fallinn kvenengil, eins og sumir túlkendur hafa viljað túlka þetta, og aðrir kvenpersónu venjulega og jarðneska, synduga og breyzka.
Í minni túlkun á kvæðinu hef ég gengið út frá því að þessi Angelína sé táknmynd fyrir mannkynið allt, og vísa ég í umfjöllun um fyrri erindi, til að fá frekari útskýringar á þeirri túlkun.
Þýðing á níunda erindinu er svona, lausleg og yfir á óbundna íslenzku:
"Ég sé parta af mönnum þramma í hergöngu, sem reyna að taka Himnaríki með valdi. Ég get séð óþekkta riddarann, ég get séð föla, hvíta hrossið. Í Drottins sannleika segðu mér hvað þú vilt, og þú færð það að sjálfsögðu, aðeins með því að stíga inn á vígvöllinn (leiksviðið)."
Eins og í fyrri erindum er hér fullt af vísunum, biblíulegum ekki hvað sízt.
Byrjum á tilvitnunum, til að hafa það á hreinu og koma því frá, óljósum og skýrum tilvitnunum í Biblíuna eða eitthvað annað.
"Óþekkti riddarinn", flestir telja þetta tilvitnun í Opinberunarbók Jóhannesar 19.6-21. Þar er reyndar minnzt á hvítan hest og einhvern sem á honum situr og heitir Trúr og Sannorður.
Einnig kann að vera átt við Opinberunarbók Jóhannesar 9.17, eða þá eitthvað allt annað, jafnvel ótengt Biblíunni. Ekki ætla ég að telja það allt upp hvað gæti verið mögulegt, en Dylan er þekktur fyrir að vísa í verk úr dægurmenningunni líka, bíómyndir, söngtexta, myndasögur, skáldsögur, leikrit og hvað eina annað.
"Föla, hvíta hrossið" er sennilega tilvitnun í Opinberunarbók Jóhannesar líka, 6:8, "bleikur hestur" í sumum íslenzkum þýðingum, eins og þeirri frá 1968.
Um 1980 var mjög vinsælt í kirkjum og á samkomum sértrúarsafnaða að vitna í Opinberunarbókina, og vera með heimsendaboðskap í kirkjunum. Ég man eftir þessu sjálfur er ég sótti samkomur um þrítugt, í kringum 2000. Þá hafði fátt breyzt í þeim efnum, en nú þegar heimsendirinn er kominn og menningarkúgunin vinstrisinnaða er viðkvæm fyrir sannleikanum er búið að bæla slíkt tal niður býsna mikið.
Það er áhugavert þegar Dylan talar um "parta af mönnum", eins og í hryllingsmynd. Hvað skyldi hann eiga við með þessu, eða ljómælandi hans, skyngjafinn á öðrum hnetti sem blæs honum þessu í brjóst?
Ef skyngjafinn á öðrum hnetti og ljóðmælandinn er Lýtir, hinn heiðni guð, vill hann koma fram upplýsingum eins og hans er von og vísa, til hjálpar og bjargar mannkyninu. Þá er þetta framtíðarspá eins og svo margt annað í kvæðinu.
"Partur af mönnum", þetta er auðvitað vísun í líftæknina og lífvéltæknina, geimverutæknina sem nú er komin fram á jörðinni og orðin hluti af mannkyninu, enda er þetta mannkyn að breytast í geimverur, þær eru að gleypa okkur með tækni sinni og öðrum aðferðum.
Hluti af þessu eru áætlanir um að setja kóða undir húðina, smám saman verður mönnum breytt í vélmenni á þessari helstefnubraut, og margir kristnir menn vita þetta, enda fjallað um þetta í ýmsum launhelgum, þar sem sannleikurinn kemur í ljós.
Orðið "march" á enskunni, í frumtextanum gefur margvíslegar vísbendingar, en við eigum ekki svona margrætt orð á íslendzku, marsera kemst næst því. Þetta er orð sem er tengt hernaði, og er dregið af guðinum Mars, sem meðal Rómverja var tignaður sem hernaðarguð, talinn samsvörun Týs í norrænni goðafræði. Eftir honum er stjarnan Mars nefnd, sem nýlega var verið að heimsækja af okkur hér á jörðinni, eða tæki frá okkur.
Augljóst er að Dylan á við Vítisherinn sem nú er kominn fram á jörðinni (umbreyttir menn, með anda geimvera, mannréttindaliðið húmaníska). Þegar hann skrifar um að taka Himnaríki með valdi á hann bæði við um þá femínísku og húmanísku yfirtöku sem fram hefur farið á kirkjunni sem allir þekkja, og sömuleiðis stríð í himingeimnum af sama eða svipuðu tagi.
Svo er hann einfaldlega að geirnegla merkingu sína með talinu um riddarann óþekkta og föla, hvíta hrossið. Þar tekur hann af öll tvímæli með það að kvæðið fjallar um heimsenda, þetta er heimsendakveðskapur, leiðslukvæði, eins og ég hef margsinnis tekið fram áður í umfjöllun minni.
Með orðinu "óþekkta" vísandi í riddara Heljar gefur hann merkilega og góða vísbendingu, að um hvern sem er getur verið að ræða, að erfitt er að treysta ýmsu á hinum síðustu og verstu tímum.
"Í Drottins sannleika segðu mér hvað þú vilt"... þetta er sterkt til orða tekið, og gefur það sterklega til kynna að Angelína (mannkynið) hafi umvafið sig lyginni og blekkingunum, þessu sem fylgir heiminum á okkar tímum, og ýmsum tímum.
"Og þú færð það að sjálfsögðu..." hér er ekki aðeins verið að vísa í miskunn og gjafmildi Guðs, heldur að hver dregur sig upp til síns himnaríkis af eigin rammleik eða varpar sér niður í sína helju, samkvæmt kenningum guðfræðinga sumra, eða þannig má vel túlka þetta og réttilega sennilega.
Þetta kvæði er svo rammlega innblásið af guðlegum anda og sannleika, biblíulegum fróðleik og kristnum kenningum að maður verður að fylgja hinum kristilegu túlkunum til að gera þessu góð skil, eða reyna það.
"Stígðu bara inn á vígvöllinn" er margrætt boð. Arena getur einnig þýtt svið, leiksvið, bardagasvið, orðið er einnig vísun í rómverska heimsveldið og latínuna.
Þýðir þetta að mannkynið feli sig, eðli þess, eða sál þess? Hvaða leiksviði er það ekki á, eða vígvelli? Er það vígvöllurinn sem birtist þegar allt hefur verið gert opinbert og rétt andlit koma á gestina og réttir líkamar þeirra koma í ljós, þegar innrásin hefst af fullum þunga?, en flestir tala um þegar en ekki ef í þessu sambandi, sem til þekkja.
Rétt er að geta þess að annar meginskóli er einnig til í túlkun þessa kvæðis, en það er fólkið sem vill túlka allt með veraldlegum hætti, einnig það kristilega. "Arena" eða vígvöllur væri þá vígvöllur ástarinnar, eða sú nánd sem býður uppá sammskipti sem bæði geta sært og veitt gleði.
Margir segja að bezti kveðskapurinn sé svona margræður, og það má vel til sanns vegar færa.
Að lokum vil ég hvetja fólk til að gera betur, ef það hefur áhuga, túlka þetta kvæði á sinn hátt. Þetta er aðeins ein tilraun af mörgum til að túlka þetta verk, og hér er farið fremur hefðbundnar slóðir í túlkuninni, en það er nú kannski vegna þess að Dylan var þarna ennþá á kristilega skeiðinu sínu, árið 1981.
Þetta er samt eitt albezta kvæðið hans og verkið frá þessum tíma, erfitt er að véfengja það, sérstaklega vegna þess hversu margrætt kvæðið er og þrungið af speki, líkingum, lýsingum, merkingum og vafasömum atriðum, margræðum.
Eins og fram hefur komið í þessumm túlkunum er hér farið inná margskonar launhelgar kristninnar og annarra trúarbragða. Textinn gefur það til kynna, og sennilega hefur Bob Dylan kynnt sér þannig fræði þegar hann orti kvæðið eða haft áhuga á þeim lengi jafnvel.
Að vísu er það rétt eins og fram hefur komið að margt af þessu hefur verið í almennri umræðu í sértrúarsöfnuðum, heimsendafræði af ýmsu tagi.
Þetta skýrir að mörgu leyti átökin í bandarískum stjórnmálum og gjána á milli Trumps og Bidens og þeirra sem fylgja þeim, þar sem fylgjendur Trumps eru frekar kristinnar trúar en fylgjendur Bidens frekar húmanistar, á veraldlega sviðinu fyrst og fremst.
Þessi hugmyndafræði er svo sem alþjóðleg, í kirkjum og sértrúarsöfnuðum áberandi, en inni á heimilunum líka og einskorðast ekki aðeins við kristna söfnuði og hópa eða einstaklinga, enda flæðið mikið á milli allskonar trúarhópa og einstaklinga.
Á þetta við um okkar tíma? Margt bendir til þess.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.2.2021 | 23:12
Mikil snilld í austrænum fræðum
Mér finnst ég oft hafa gott af því að lesa það sem konur skrifa. Hvort sem það er út af þeirra uppeldi, eðli eða menningu koma þær oft með nálgun á hlutina sem ég er kannski ekki alltaf sammála, en finnst áhugaverð engu að síður, gott að kynnast mismunandi skoðunum.
Kynjafræðingar telja ekkert rangt við það að tala um mismunandi menningu kynjanna og uppeldi, en síður er af þeim viðurkennt að eðlið sé ekki það sama hjá kynjunum. Þó get ég ekki varizt þeim grun að sú áherzla sé tízkusveifla sem kannski ekki endilega mark sé takandi á. Svo lengi hefur verið alið á mismunandi staðalmyndum að vel getur verið að sumt sé orðið rótgróið eftir mörg þúsund ár, frá því að ísaldarmennirnir fóru að nota verkaskiptingu í kynjahlutverkum.
Í dýraríkinu geta orðið til hópar og mismunandi tegundir, með svipað eða næstum sama erfðamengi en samt ólíka hegðun. Það er merkilegt hvernig félagsleg mótun sérstaklega á hundruðum eða þúsundum ára getur breyzt í eitthvað rótgróið í erfðamenginu.
Ég held að viðleitni kynjafræðinga til að breyta þessu sé svolítið tilgangslaus eða skaðleg.
Eitt verð ég þó að viðurkenna að er lærdómsríkt hjá andlega sinnuðum konum (og körlum) sem fjalla um sjálfsrækt og annað slíkt, að þótt maður geti verið gramur útí heimsmálin verður maður að sætta sig við það sem ekki er hægt að breyta.
Of langt gengið er vissulega að segja að öll gagnrýni sé byggð á sálrænum kvillum og vandamálum, eða líkamlegum, að þetta byrji allt og endi hjá manni sjálfum - því utanaðkomandi ástæður geta verið virkilega nauðsynlegar að fjalla um - en vel má vera að maður geti verið sáttari í eigin skinni með sjálfsrækt, og með því að hlúa meira að henni, ef manni er það unnt.
Þarna er mikil snilld í austrænum fræðum. Menningarheimur búddista, jógaiðkenda og annarra áhugamanna um austræn mál er auðugur og býr að mikilli reynslu og þekkingu. Eins og sagt var um þetta, austræn og vestræn vísindi fóru sitthvora leiðina.
Einhverra hluta vegna sækja gamlir hundar oftast í sama farið, kvenkyns eða karlkyns, lengi býr að fyrstu gerð, eins og ágætt íslenzkt máltæki segir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2021 | 18:39
Varla (Ljóð)
varla (ljóð)
að einhver girnist femínista
ofmælt, ímyndun, skekkja
jólatré frá síðustu öld
sakleysið ekki lengur til
hvað vildi hún þá?
hún talaði af sér, ásta
hver nennir að taka lengur myndir?
það er allt bannað
betzt að sitja heima
hitta aldrei neinn
kófið hitti í mark
aðeins hápunktur undangenginnar löngunar hennar
einsemdin eykst
er það þetta sem var svona eftirsóknarvert?
21. september 2020.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Nýjustu færslur
- Það er sama hvað gerist, sjálfseyðing Vesturlanda er á sjálfs...
- Ekkert eða fátt breytt? Hlutverkaleikur? Inga Sæland í gervi ...
- Spænska veikin var af fuglaflensustofninum. Þessa sýkingu þar...
- Okkar vestræna þjóðfélag sem Nató-Kata og Nató-Þórdís Kolbrún...
- Eins og í Bandaríkjunum þarf stuðning þeirra sem ættaðir eru ...
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 38
- Sl. sólarhring: 165
- Sl. viku: 722
- Frá upphafi: 129837
Annað
- Innlit í dag: 34
- Innlit sl. viku: 545
- Gestir í dag: 31
- IP-tölur í dag: 31
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar