Bloggfærslur mánaðarins, október 2021
3.10.2021 | 00:09
Frosin gríma eftir Bubba Morthens frá 1985, mín túlkun.
Söngtextar Bubba Morthens voru ljóðrænni áður en hann byrjaði að nota klisjur óhóflega, eins og hann hefur verið gagnrýndur fyrir síðastliðin 20 - 30 ár. Hér er einn söngtexti eða ljóð af einni af þeim plötum sem fengu bezta gagnrýni eftir hann, Konu, frá 1985. Allt er þetta kveðskapur um skilnaðinn við Ingu, sem var fyrsta eiginkonan hans, og einnig ort í meðferð við vímuefnaneyzlu. Ég kann ágætlega við nokkrar plötur eftir Bubba, mjög vel meira að segja, en þær eru margar og misjafnar, afköstin gríðarleg hjá honum.
Konuplötunni hans var líkt við gæðaplötuna "Blood On The Tracks" eftir Bob Dylan, báðar fjalla um vandræði í samskiptum við hitt kynið og á báðum plötum eru áhugaverðir textar og ljóð, og ágæt tónlist við.
Í textum Bubba kemur stundum fram ákveðinn klaufaskapur í framsetningu samhliða fallegri ljóðrænu og tilfinningasemi, þannig að úr verður sérkennileg en stundum áhugaverð blanda. Ég held mikið upp á þennan texta eftir hann, tel hann snilldarverk, því finna má duldar merkingar í honum.
Eins og oft í textum Bubba blandar hann saman setningum sem hann fær að láni og vitnar í. Í þessu ljóði er það vel heppnað og frumlegt, skáldlegt, ekki eins venjulegt og í seinni tíma verkum hans yfirleitt.
"Skömmu fyrir sólsetur sé ég miðnættið sigla að" er fyrsta línan.
Hér er miðnættinu líkt við skip sem leggst að bryggju, vel skáldlegt.
"Leita skjóls í minningum liðins tíma".
Hér veit lesandinn strax meira. Skáldið er að yrkja um sjálfan sig. Þetta sólsetur er sólsetur ástarinnar, og sólin er sól ástarinnar, eða hamingjunnar í samlífi parsins sem um er fjallað, söguhetjunnar og makans.
Miðnættið eru sambandsslitin, þegar þau hætta saman, skilja, eða eitthvað slíkt, eða þegar snurða hleypur á þráðinn einhversstaðar, ósætti verður á milli þeirra.
"Ég leita skjóls í minningum liðins tíma", er setningin að segja, og er orðin persónuleg. Annars væri r í enda orðins leita, ef það ætti við miðnættið eða sólsetrið.
"Varir mínar hreyfast, sérð þú það?"
Þessi setning lýsir tjáningarörðugleikum. Söguhetjan ætlar að segja eitthvað en megnar það varla vegna þess að sennilega er ástæðan ótti um að því verði ekki vel tekið.
"Andlit mitt sem frosin gríma".
Þetta minnir á svarthvítu hetjurnar eins og Humprey Bogart, og rám röddin og útsetningin sem er frekar djössuð gefur þessa sömu tilfinningu einnig, að Bubbi hafi leitað í tónlist millistríðsáranna eða gamla dægurtónlist allavegana.
"Úr tóminu heyri ég spámannsins orð: Dæmir þú aðra, er enginn tími til að elska?"
Þessum orðum er samtímis beint að makanum og skáldinu sjálfu, býst ég við. Allt mjög auðskiljanlegt.
"Ég spyr með augunum: Verð ég dæmdur fyrir morð? Á sjálfum mér taki ég enga sénsa?"
Hér fyrst verður ljóðið dularfullt og spennandi fyrir alvöru, því hægt er að túlka þessi orð á margvíslegan hátt.
Þetta ljóð fjallar um sektarkennd fyrst og fremst. Hér loksins kemur hún fram í allri sinni dýrð.
Hvaða morð er þetta sem skáldið fjallar um? Á barni sem aldrei var getið eða vegna fóstureyðingar eða eitthvað allt annað? Morð á sambandinu, ástarsambandinu milli þeirra tveggja? Eitthvað allt annað?
"Ef ég þyrfti ekki að gizka myndi ég glaður játa það sem ég gæti hafa gert".
Gizka á hvað? Þetta orðalag minnir á yfirheyrslur yfir dæmdum manni sem er í gæzluvarðhaldi út af einhverju afbroti. Eitthvað mun Bubbi hafa komizt nálægt því að komast í kast við lögin á þessum árum vegna fíkniefnamála og annarra atriða jafnvel.
En, sektarkenndin er allt um lykjandi í textanum. Hann telur sig hafa gert eitthvað en veit ekki hvað það er eða gæti verið.
Fyrri hluti setningarinnar er kannski áhugaverðastur og órökvísastur:"Ef ég þyrfti ekki að gizka". Ég túlka þá setningu þannig að hann verði að gizka á það hvort hann sé saklaus og verið sé að klína einhverju á hann saklausan.
"Ef ekki væri þessi vissa myndi ég glaður játa það sem ég hef ekki gert".
Þarna kemur þetta skýrt í ljós sem mér fannst liggja í hinum orðunum. Hann er þrátt fyrir allt viss um að vera saklaus ákærður.
"Frá angurværum skuggum til verksmiðjufriðar".
Þessi setning er ekki í samræmi við næstu setningu, hún stendur sjálfstæð og er skrýtin í ljóðinu og virðist helzt gegna hlutverki umhverfislýsingar.
Frá skuggum til friðar? Hvað á hann við? Verksmiðjufriður? Þetta er býsna óljóst. Hvaða angurværu skuggar eru þetta? Sennilega ósögð orð á milli þeirra tveggja, eitthvað sem aldrei kom í ljós en lá í leyni, gæti líka verið eitthvað skuggalegt og neikvætt, það sem stíaði þeim í sundur.
Verksmiðjufriður í þessu sambandi gæti vísað í kuldalegt viðmót samskipta pars þar sem áhuginn er dofnaður og samskiptin yfirborðsleg.
Þannig að þessi eina setning gæti lýst sambandi hans og Ingu, ef rétt er túlkuð. Þessi eina setning gæti sagt að þeim hafi ekki auðnazt að ná eins vel saman og hann hefði óskað, kannski vegna vímuefnaneyzlu hans.
"Eru fuglarnir frjálsir? spyr ég sjálfan mig, því þó vindar blási er eins og þeim ekkert miði með hlekki himins vafða um sjálfa sig."
Þessi lína er stolin úr ljóði Bob Dylans "Ballad In Plain D", frá 1964, sem einnig fjallar um sambandsslit.
En hvaða erindi á hún þarna? Hvað er verið að tjá? Bubbi lýsir ósýnilegum hlekkjum, með orðum Dylans þýddum af honum. Hann lýsir því hvernig sálin hlekkjar hann, eigin minningar, eigin fortíð, þótt hann finni sér aðra konu eða kærustu, farangurinn skilur hann ekki við sig, fortíðina.
"Þegar húma tekur spyr ég hjarta í trúnaði: Hver er tjáning ástarinnar? Og það svarar: Þögnin, vissirðu það ekki, að ástin er tjáning þagnarinnar?"
Hér er eins og hann sé í vafa um þessar fullyrðingar, setji þær fram til að sannfæra sjálfan sig og aðra. Það er að segja, hann veit að þau þögðu of mikið í sambandinu, en reynir að sannfæra sig um að hann hafi ekki átt sökina á að upp úr slitnaði. Fullyrðing hans um að ástin sé tjáning þagnarinnar er ekki staðreynd heldur tilraun hans til að réttlæta sig og samskiptaleysið á milli þeirra.
Í vissum tilfellum getur ástin verið tjáning þagnarinnar, en ekki alltaf og um það má vissulega deila. Þessi setning er þarna sögð þegar skáldið reynir að firra sig ábyrgð á að þetta hætti að ganga upp á milli þeirra.
"Ef ekki væri þessi vissa myndi ég glaður játa það sem ég aldrei hef gert".
Hér er endurtekning, aðeins hert á merkingunni með því að nota orðið "aldrei".
Í heildina litið er þetta ágætt ljóð og alveg prýðilegt, hæfilega torskilið, því sumum finnst of flókin ljóð leiðinleg, eða textar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarkonan Sóley fékk viðtali á Vísi í dag í tilefni nýrrar plötu, Mother Melancholia, með henni. Þetta viðtal hreyfði við mér vegna þess að þarna er tónlistarkonan ekki að taka undir grátkórnum í Metoo alveg samhljóða, heldur er hún að kalla hlutina sínum réttu nöfnum "djöfulleiknum þegar konur berjast gegn feðraveldinu". Að vísu er það djöfulleikanum, leikur og leiki er ekki það sama. -Leiki er viðliður en leikur er það sem gert er sér til skemmtunar.
Það er að vísu góð pæling að velta því fyrir sér hvort púkar séu að leika sér að okkur sér til skemmtunar eða hvort þeim er fúlasta alvara og að þeir séu að refsa okkur fyrir syndir okkar með því að láta okkur þjást og lenda í hremmingum.
Hvað um það. Það sem er merkilegt við þetta allt er að viðtalið sýnir finnst mér miklu vitsmunalegri svör hjá tónlistarkonunni heldur en gapandi jákórinn sem auðvelt er að sjá í gegnum sem hræsni, þegar kemur að femínisma almennt og yfirleitt. Þar er á ferðinni sýndarmennska, en hún leyfir sér að hugsa frjálst og tjá hugsanir sínar, sem millibilsástand, ekki alveg dofin og dáleidd heldur aðeins að pæla og efast um hlutina.
Að hún skuli kalla Druslugönguna og Metoo djöfulleik er stórkostlegur sigur fyrir hugsun og skynsemi í landinu (og þó það sé óvanalegt orðalag (djöfulleikur en ekki djöfulleiki) má rökstyðja að kannski séu djöflar að leika sér en ekki að refsa fyrir syndir), en hvort sem hún gerir það til að hæðast að þeim sem efast um þessi fyrirbæri eða í fullri alvöru þá eru það tíðindi að jákórinn sé ekki alveg sammála, þegar um er að ræða ungar stúlkur og þetta málefni.
Hún segist vera "uppfull af samvizkubiti yfir fréttum af hamförum og endalausri feðraveldispólitík", en útskýrir það ekki nánar, og eins og venjulega eru spyrlar og fréttafólk lélegt við að inna eftir skýrari svörum.
"Feðraveldið lítur oft á konur sem óstöðugar, hysterískar og ófyrirsjáanlegar", segir hún. "Konur eru annaðhvort bjargvættir okkar eða eyðileggjendur. Líka jörðin", segir hún enn fremur.
"Það er svo auðvelt að misnota jörðina, eins og feðraveldið hefur beitt konur ofbeldi alltof lengi, biðja síðan um fyrirgefningu og lofa að gera það aldrei aftur", segir hún einnig.
Síðasta tilvitnunin í hana er ekki alveg eins skynsamleg og hinar, býsna barnaleg án rökhugsunar og er svona:
"Þegar feðraveldið hefur étið konurnar og mannfólkið hefur blóðmjólkað jörðina." (Um það hvernig hljómplatan endar hjá henni).
Það gleður mig að komin sé fram á sjónarsviðið íslenzk tónlistarkona sem hefur skynsamlegan málflutning fram að færa en ekki bara miðjumoð og þvætting eða samsöng með sjálfmiðuðum og sjálfsvorkennandi grátkórum af ýmsu tagi.
Það eina sem ég óttast í því sambandi er að hún fari sömu leið og fjölmargir sem byrja með efnilegum hætti, að hún samsami sig lygaþvættingi vinstristefnufjöldans til að komast í sem flestar spilltar klíkur, og að þetta sé aðeins gert til að fá athygli svona á þessum tímapunkti.
En efnislega vil ég aðeins kommentera á þetta hjá henni, því það er svo skynsamlegt að það er athyglivert.
Hún talar um konur sem bjargvætti eða eyðileggjendur. Já, en er það bara feðraveldið? Að rífa sig úr tengslum við allar hefðir er skrímslaháttur, og nornir fyrri alda gengu sennilega aldrei eins langt og nornir nútímans hafa gert, sem kalla sig femínista.
Konur eru sannkallaðir englar þegar þær nota sömu andlegu hæfileika og "feðraveldisfólkið", og fara ekki eftir duttlungum sem eru hvorki skynsamlegir né lífvænlegir, púkaveldið er þar í allri sinni myrkvun, en ekki dýrð.
Feðraveldið ætlaði aldrei að éta konurnar og mun aldrei gera það. Þetta er misskilningur hjá henni og öðrum sem svona tala.
Feðraveldið elskar konur en hatar þær ekki, en gerir til þeirra réttlátar kröfur, sem eru studdar af trúarhefðum frá því menningin kom upp fyrir 8000 árum síðan í Babýlóníu og Súmer, og kannski enn áður jafnvel, eins og sumir halda fram.
Svo þessi ásökun um að feðraveldið misnoti jörðina. Ég hef lengi kafað ofaní heiðna trú, Ásatrú ekki hvað sízt. Þar er virðing fyrir jörðinni grundvallaratriði. Það er ekki hægt að kenna öllum trúarbrögðum um virðingarleysi gagnvart náttúrunni, öðru nær.
Það er þessi setning í Biblíunni um að drottna yfir jörðinni sem hægt er að túlka á þennan hátt. Slíkar setningar eru ekki í Ásatrú, og heldur ekki í drúízku eða öðrum norrænum, fornum trúarbrögðum, svo vitað sé.
Þetta er auðvitað mikið mál til að fjalla um, en ég vissi alltaf að íslenzkar stúlkur ættu til meiri skynsemi en birzt hefur í útlitsdýrkunarmenningunni þar sem allir eru sammála púkum. Þetta er kannski jafnvel upphafið að auknum áhuga á vitsmunalegri tónlist, þar sem Bob Dylan var einn helzti spámaðurinn, eins og var í tízku á hippatímanum, frá 1967 til 1976, og svo á árunum 1990 til 1994, þegar sú tízka átti endurkomu, til dæmis með Jet Black Joe, þeirri ágætu hljómsveit.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2021 | 00:38
Þolendur oftar karlar en konur í ofbeldismálum, þvert á staðalímyndir
Þessi frétt leiðréttir þær ranghugmyndir að konur séu þolendur frekar en karlar í ofbeldismálum. 56% brotaþola í ofbeldismálum eru karlar, en því miður eru þeir einnig 80% gerenda.
Helga Vala Helgadóttir kom með þessa fyrirspurn og var þetta vasklega gert af henni, og Samfylkingunni til hróss og henni sjálfri.
Það er ekki hægt að láta lítinn hagsmunahóp ráða umræðunni, hvort sem sá hópur nefnir sig Öfga, femínista, eða eitthvað annað.
Flestir brotaþolar ofbeldis karlar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Nýjustu færslur
- Það er sama hvað gerist, sjálfseyðing Vesturlanda er á sjálfs...
- Ekkert eða fátt breytt? Hlutverkaleikur? Inga Sæland í gervi ...
- Spænska veikin var af fuglaflensustofninum. Þessa sýkingu þar...
- Okkar vestræna þjóðfélag sem Nató-Kata og Nató-Þórdís Kolbrún...
- Eins og í Bandaríkjunum þarf stuðning þeirra sem ættaðir eru ...
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 2
- Sl. sólarhring: 150
- Sl. viku: 782
- Frá upphafi: 129954
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 591
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar