Bloggfærslur mánaðarins, maí 2020
21.5.2020 | 09:06
Kata rokkar - kvæði - ljóð - söngtexti
Til er gamalt dægurlag undir þessu heiti. Hér er ljóð frá 2019 undir sama heiti sem ég setti saman til að fjalla um atburði líðandi stundar. Miklu efni komið saman í stuttan texta.
Ef ég nú samþykki eitrið að taka,
aðrir þá mótmæla stjórninni grimmu.
Vil ég vaka
og veiðast þeim af?
Dæmast menn í dimmu
dauðahaf?
Komast í rauðflekki kvöldrifnir sokkar?
Kata rokkar.
Skessa með ofbeldi aðra nú kúgar,
einbeittur viljinn og hryðjuverk fremur.
Þingið þrúgar.
Þar ýmis hljóð.
Rembur rýgur temur,
roluþjóð.
Kvartandi greyin, ó kvennanna flokkar...
Kata rokkar.
Beitir hún fyrir sig böðlanna venju,
bryðjandi klettana tröllskessan fláa.
Fylgjum frenju!
Furðulegt líf, steikt!
Horfið hafið bláa,
það hýrt er, bleikt.
Karlræfill margbrotinn kaghýddur brokkar...
Kata rokkar.
Krakkaleg vexti en klækina þekkir,
kann þessi stóra að lemja og brjóta.
Búra blekkir,
bragðvísin þar er.
Kann með hroka að hóta,
frá honum fer.
Kýrljóst að verndast ei kyrrlátir stokkar.
Kata rokkar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2020 | 03:55
Evrópsk og bandarísk menning, dægurmenningin
Almenningur í Svíþjóð virðist hlynntur viðbrögðum yfirvalda sinna við kreppunni og farsóttinni, virðist segi ég, því ég efast um það. Á sama tíma virðist almenningur styðja einræðisherrann Kim Jong Un í Norður-Kóreu og fagna endurkomu hans í sviðsljósið eftir að getgátur voru uppi um hugsanlegt fráfall hans nýlega.
Það er viðurkennt að eftir sum áföll festast yfirvöldin í sessi, það er sálrænt viðbragð þjóðanna, að halda fast í það sem fyrir er, og að trúa að allt fari vel, og vera ekki að krefjast breytinga eða byltinga rétt á meðan ástandið er hörmulegt.
Mér finnst þetta mjög áhugavert viðfangsefni, hvað vill fólk í raun og veru þegar svona áföll dynja yfir? Er hægt að telja manni trú um það að unga fólkið í Svíþjóð sem segist styðja sín yfirvöld sjái ekki á eftir öfum sínum og ömmum, eða þeim sem hafa undirliggjandi sjúkdóma? Mér finnst eitthvað bogið við þetta allt saman, og sérstaklega þá fullyrðingu að ekki kraumi þarna undir gremja með áherzlur og afrek yfirvaldanna. Að sumu leyti er ég ekkert svo mjög hissa á því þótt Bandaríkjamenn reyni að sætta sig við þetta mikla mannfall, því þeirra þjóðarvitund hefur verið lýst öðruvísi en þjóðarvitund Evrópubúa, að hetjuímyndin sé þar sterkari, og að menn sætti sig þar meira við hörmungar lífsins, og að mikil byssueign þar vestra sé til marks um þetta, meðal annars. Þó ber að taka þessu með fyrirvara, en þetta er nokkuð sem birtist í dægurmenningunni, og munurinn á bandarískri kvikmyndagerð og evrópskri endurspeglar þetta kannski einna bezt.
Ég tek kannanir á skoðunum fólks og viðhorfum almennt ekki mjög alvarlega. Þær skoðanir og viðhorf sem fólk gefur upp er oft ekki í miklu samhengi við það sem fólk kýs í raun í kjörklefanum eða heldur sjálft, eða segir í ýmsum hópum, litlum eða stórum.
Það hlýtur að vera sárt og erfitt að búa í landi þar sem velferðin fer meira eftir ytra árferði en raunverulegum innri styrk kerfisins. Jón Baldvin hélt því fram nýlega í útvarpsviðtali að kommúnisminn væri hruninn, en hvað með jafnaðarstefnuna? Er hún ekki alveg jafn hrunið hugmyndakerfi, í ljósi þeirra hörmunga sem dunið hafa á heiminum á þessu ári? Að minnsta kosti víða í Evrópu, þar sem menn styðja sig við Evrópusambandið meira en eigin styrk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2020 | 03:50
Viðbrögð í Bandaríkjunum og Svíþjóð
Ég hlustaði á símaviðtal við Jón Baldvin á útvarpi Sögu nýlega og var það nokkuð fróðlegt eins og oft áður. Enn sem fyrr talar hann um norræna velferðarmódelið sem hið fullkomna kerfi, sem ekki geti brugðizt eða kollvarpazt, en þegar betur er að gáð vita margir að brestir eru komnir í þá heimsmynd. Mér þykir fróðlegt að bera saman Bandaríkin og Svíþjóð þegar kemur að þessari miklu heimskreppu og farsótt nútímans. Viðbrögð sænskra jafnaðarmanna, sem eru þar við völd núna, finnst mér bera vott um að þeir hafi yfirgefið jafnaðarstefnuna, sterkt heilbrigðiskerfi, að verja þegnana sem bezt og annað slíkt, en innleitt þá stefnu að reyna að koma landinu sem ódýrast í gegnum hörmungarnar sama hversu mörg mannslíf það muni kosta.
Á hinn bóginn er augljóst að Noregur, Finnland, Danmörk, Ísland og Færeyjar hafa enn ekki gefizt upp á þeirri stefnu, með ágætum árangri, enda eru jafnaðarmenn skástir í þessu. Mikil þrjózka er það að vilja ekki viðurkenna það að varla er hægt að tala um jafnaðarstefnu í Svíþjóð lengur. Ofurkapítalismi blasir þar við manni, alþjóðahyggjufasismi, öfgafemínismi, og þessi stefna hefur valdið miklum hörmungum víða, ekki sízt á okkar landi.
Það sem alltaf hneykslar mig jafn mikið er þegar jafnaðarmenn tala um að eina svarið við vandanum á því hvernig þjóðirnar hafa elzt og úrkynjazt úr hófi fram í Evrópu sé að taka við fleiri flóttamönnum og innflytjendum frá fátækari löndum. Þetta er mjög einfeldningslegt viðhorf, því hvað gerist þegar aðrar þjóðir hafa að sama skapi elzt og úrkynjazt með sama hætti? Þá deyr mannkynið út hægt og rólega, eða hratt, með svona áföllum. Að öllum líkindum mun fjórða iðnbyltingin leysa þetta vandamál að einhverju leyti, en hver veit hvaða vandamál framtíðin mun bera í skauti sér?
Í stað þess að berjast gegn samtökum sem hafa þjóðerniskennd að leiðarljósi ættu hin úrkynjuðu yfirvöld Evrópu að fagna því að ennþá skuli finnast lífsneisti í sumu ungu fólki, og verðlauna það eða auðvelda þeim þeirra framgöngu. Það er beinlínis hlægilegt og hættulegt að halda því fram að hægriöfgaflokkar séu raunveruleg hætta fyrir Evrópu, eins og þriðja heimsstyrjöldin upphefjist fyrir þeirra tilverknað, þegar augljóst er á okkar dögum að ótalmargar aðrar hættur virðast augljósari og verri. Þeir sem halda því fram eru fastir í fortíðinni, í þeirri heimsmynd sem uppi var fyrir miðja síðustu öld.
Ólaf Ragnar fyrrverandi forseti átti líka góðan leik í Silfrinu síðasta sunnudag, og þá söguskýringu hans að Asía sé að sækja í sig veðrið sem aldrei fyrr tel ég rétta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 34
- Sl. sólarhring: 117
- Sl. viku: 771
- Frá upphafi: 127467
Annað
- Innlit í dag: 23
- Innlit sl. viku: 551
- Gestir í dag: 21
- IP-tölur í dag: 19
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar