9.2.2024 | 23:20
Hvað má læra af eldgosi sem kom á versta tíma - í miðju kuldakasti vetrarins - og á afleitum stað - yfir Grindavíkurveg?
Verið er að vinna hættumat fyrir Reykjavík og nágrenni varðandi jarðskjálfta og eldgos í framtíðinni. Þetta má lesa um í Morgunblaðinu í gær.
Nokkur atriði eru augljós og blasa við.
1) Í fyrsta lagi geta atburðir orðið miklu verri en menn gera ráð fyrir. Þeir geta komið á óheppilegum tíma og óheppilegum stað.
2) Atburðir geta orðið stærri en talið er. Þeir geta einnig orðið minni að sjálfsögðu.
3) Það er ekki hægt að vera viss um að hraun renni ekki yfir lagnir eða önnur mikilvæg svæði enn nær þéttri byggð, á stór Reykjavíkursvæðinu.
4) Hraun getur runnið mjög hratt og komið upp á skömmum tíma. Það getur komið upp þar sem ekki eru taldar mestar líkur á að það komi upp.
5) Vísindamenn hafa talað um að virknin færist nær Reykjavík eftir því sem önnur kerfi virkjast þar í þessu ferli sem getur tekið 200 - 300 ár. Ekki er hægt að vita með vissu hvar virknin verður næst, og hvaða byggð sleppur og hvaða byggð ekki svo vel. Sumt er líklegra en annað, en óvissan er býsna mikil því frávikin eru mikil og stór. Eitt er þó víst, að til eru miklu fleiri svæði á landinu sem eru laus við svona virkni, eins og norðarlega og austarlega til dæmis.
6) Enginn bjóst við að Grindavík fengi svona hörmulegan skell og þar yrði erfitt eða ekki hægt að búa um ófyrirsjáanlega framtíð. Ef þessi reynsla úr Grindavík er heimfærð uppá jarðskjálftamatið fyrir Reykjavík og nágrenni kemur í ljós að það sem vísindamenn segja um stærð eða fjölda skjálfta þarf ekki að vera fullkomlega nákvæmt. Vel má vera að nokkrir býsna stórir skjálftar verði í nágrenni Reykjavíkur, milli 5 og 6, og síðan jafnvel einhverjir kannski stærri en það, því eins og ljóst er, frávik verða í náttúrunni og fullkomnar og ferkantaðar reglur eða fyrirsjáanleiki nokkuð sem sjaldgæft er. Sama gildir um eldgos í næsta nágrenni Reykjavíkur, þau gætu orðið margvísleg, en sennilega litlar líkur mjög nálægt þéttri byggð, án þess að það sé fullvíst, því nú er allt þetta svæði orðið mun þéttbýlla en áður. Hvernig er þá hægt að vita með vissu að öll svæði sleppi vel undan eldgosum? Það er ekki hægt að telja að það sé fullvíst.
7) Innviðir geta laskazt með fjölbreytilegri hætti en almennt er talið og á verri tíma, þegar kaldast er á landinu. Þetta þýðir að varaorkulagnir eru meira en æskilegar, þær eru nauðsynlegar í ljósi þessara atburða í gær og síðastliðna mánuði, og þessi fáeinu ár síðan ósköpin byrjuðu á þessu svæði.
8) Fjárhagslegt tjón af þessum atburðum er orðið miklu meira en flestir bjuggust við þegar spennandi túristagos fóru að láta á sér kræla í fyrra og hittifyrra.
9) Öll byggð á þessu stóra svæði hlýtur að vera í uppnámi, þrátt fyrir að fólk hafi flykkzt á suðvesturhornið og til Reykjavíkur frá sveitunum. Ekki er hægt að afneita þessari lexíu og að við erum í atburðarás sem er réttsvo nýbyrjuð en langt frá því að vera hætt.
10) Á sama tíma og þessi svæði eru gjöful uppá heitt og kalt vatn ásamt rafmagni gæti verið skynsamlegra að fólk búi annarsstaðar. Einhvernveginn þarf að finna hugvitssamlegar lausnir á því að leiða orkuna til annarra svæða landsins sem eru tryggari fyrir búsetu. Einnig þarf að gera ráð fyrir því að lagnir skemmist og finna því lausnir til að svona atvik komi helzt sem sjaldnast fyrir, að fólk verði án orkunnar og þegar mestur er kuldinn.
11) Við eigum uppfinningamenn, hönnuði og skipuleggjendur. Þetta hlýtur að verða verkefni framtíðarinnar.
Annað má læra. Í svona atburðarás er hentugast að margar fjölskyldur búi saman, og ylji sér. Þá þarf að láta feimni og viðkvæmni lönd og leið. Náungakærleikurinn fær tækifæri til að koma í öllu sínu veldi, neyðin veldur því.
Betra er að kynda fáein hús vel og að hafa þar marga en öll hús sæmilega eða illa og láta verða rafmagnslaust fyrir vikið.
Þetta rifjar upp gamla tíma þegar þörfin var mikil fyrir náungakærleikann, að hjálpa fólki sem ekki voru ættingjar eða vinir, nágrönnum og öðrum, bara vegna þess að ástandið er ekki gott.
Þessir atburðir sýna eiginlega hið raunverulega Ísland, ekki glansmyndina. Þetta er hið harðbýla land sem kallaði fram það bezta í þjóðinni í gegnum aldirnar, því það var nauðsynlegt að fólk hjálpaðist að, til að lifa af.
Hraun flæðir yfir Grindavíkurveg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Nýjustu færslur
- Syndafallið í Biblíunni - Aldingarðurinn Eden tilraunastofa, ...
- Líta femínistar í eigin barm? Er ástæða fyrir bakslaginu?
- Jahve er djöfullinn og hann stendur á bakvið öll stríð, og er...
- Sjálfstæðismenn þurfa að sinna menningarmálum meira
- Vinstrimenn ættu að skammast sín, en ekki hægrimenn. Mengun e...
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 40
- Sl. sólarhring: 121
- Sl. viku: 699
- Frá upphafi: 127242
Annað
- Innlit í dag: 26
- Innlit sl. viku: 529
- Gestir í dag: 23
- IP-tölur í dag: 23
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.