Fyrsta erindi ljóðsins "Too Late/Foot of Pride" eftir Bob Dylan, túlkun, umfjöllun.

Þegar "Foot of Pride" kom út 1991 á Bootleg Series volume 1-3 fannst mér það strax með albeztu lögum eftir Dylan. Þegar "Too Late" kom út 2021 varð ég ringlaður því það lag er snemmborin útgáfa af sama lagi, og miklu síðri, í tveimur tökum með mismunandi textum.

Loksins með því að lesa bókina "Surviving in a ruthless world" frá 2020 fer maður að skilja hvernig snilldarverkið "Foot of Pride" varð til, og vinnubrögð Dylans talsvert betur. Sú bók er mjög góð og vönduð, og höfundurinn kominn yfir áttrætt, á svipuðum aldri og Bob Dylan, búinn að grúska í þessu lengi og rannsaka, þroskaður maður þar á ferðinni og vinnubrögðin frábær.

Fyrir um það bil þremur árum (janúar 2021) þegar ég skrifaði pistla um "Angelinu" eftir Dylan frá 1981 var ég með nokkurnveginn tilbúna pistla um þetta lag, og ljóð, þetta mikla snilldarverk. En þannig er það nú með ýmislegt hjá mér, of mikið að gera, maður er of upptekinn og gefur sér ekki tíma í að sinna öllu. Nú hyggst ég sinna þessu ljóði í nokkrum pistlum, eins og ég gerði við aðra texta Dylans sem eru svo þrungnir speki að einn pistill hæfir einu erindi.

Eins og ég skrifaði áður fékk Dylan sennilega upphaflegu hugmyndina að textanum og laginu haustið 1980, um svipað leyti og "Caribbean Wind", og fleiri lög voru samin. Ég þekki þetta sjálfur, að semja lög nokkrum árum eftir að lausleg grind að þeim skapast, eða ég fæ áhuga á að fjalla um eitthvað efni, og geri það svo ekki fyrr en síðar, og jafnvel nota efniviðinn í marga söngtexta og ljóð, eða handrit að bókum, sem oft eru ekki kláruð, en eru kláruð samt í einhverjum tilfellum.

Þannig eru ljóðin "Too Late" og "Foot of Pride" nokkuð ólík. Endanlega afurðin er stútfull af Biblíutilvitnunum og svo tilvitnunum í allar áttir.

Terry Gans skrifar um það í bók sinni að hann viti ekki hvað Dylan er að meina þegar hann syngur um það í viðlaginu... "Too late to bring him back..."

Mér finnst það nokkuð augljóst að þarna sé Bob Dylan að fjalla um endurkomu Krists þannig að af henni verði ekki. Sumir halda því fram að Adolf Hitler hafi verið Jesús Kristur endurfæddur, eða þá Baháula, sem stofnaði Bahaíatrúna, og er af fylgjendunum talinn spámaður Guðs Biblíunnar einsog Jesús Kristur og Múhameð, Moonistar trúa að Sun Myung Moon hafi verið Jesús Kristur endurfæddur, og hægt er að halda því fram að dr. Helgi Pjeturss hafi verið Jesús Kristur endurfæddur og Nýalar hans Þriðja testamentið, enda hélt dr. Helgi Pjeturss því fram í gríni og alvöru að á hann ætti að trúa, og að vísindamaður yrði Jesús Kristur endurfæddur, þannig væru trúarbrögð nútímans, og margt til í því.

Fríkirkjur, sértrúarsöfnuður, költ, margt er til. Yfirleitt eru svona gaurar nefndir falskristar af kristnu fólki, nema það sé hluti af svona költi.

Kristnin byrjaði nú samt sem svona költ, nema þá voru aðrir tímar og fólk hafði mun meiri þörf fyrir trú, og kannski er það ein af skýringunum á því að kristnin sló mun meira í gegn en flest síðari tíma költ. (Eintala og fleirtala, költ, óbreytt, hvorugkynsorð, myndi ég halda, og erfitt að finna nýyrði, enda gott mál að koma með tökuorð af þessu tagi inní íslenzkuna, sem hafa sértæka merkingu og sitt séreðli og einkenni).

Ég er ekki manna fróðastur um alla þá sem telja sig Krist endurfædda, eða töldu það, en listinn gæti orðið langur, væri vel leitað.

Maður lærir það einnig í Guðfræðideild Háskólans að strax eftir dauða Krists hafi lærisveinarnir talið heimsendi í nánd og hina síðustu tíma upp runna. Þannig að þetta er ekkert einfalt mál, þessi eskatólógísku fræði, heimsslitafræðin. Þau fléttast saman við samsæriskenningar fornar og nýjar, og sá snjóbolti sem byrjaði að rúlla fullur af samsæriskenningum krisnum fyrir 2000 árum er skiljanlega orðinn gígantískur núna, og sumir angar hans hundheiðnir, eins og gefur að skilja, enda búið að þenja hann út í allar áttir.

Þetta ljóð Dylans fjallar pottþétt um þetta efni eins og mörg af hans beztu kvæðum. Þetta er spádómskvæði án alls efa, og merkilegt.

En að kvæðinu sjálfu, og útgáfum þess.

Bob Dylan beinir athyglinni að einstaklingnum sjálfum í fyrsta erindinu af "Too Late". Vinur sögumannsins er í fangelsi, og sögumaðurinn segir frá því, með óljósum og mjög skrýtnum hætti. Segir hann frá á þá leið að hann viti ekki hvort morð var framið eða ekki. Allt sviðið er draumkennt og óljóst eins og mörg beztu verk Bob Dylans.

Hann segir frá tveimur konum sem urðu vitni að ódæðinu, og báðar höfðu þær slæðu fyrir andlitinu.

Nú veit ég ekki nákvæmlega um skoðanir Bob Dylans á múslimum og islam, en af minnsta kosti einum söngtexta hans að dæma er honum lítið um þá gefið og þeirra trú. Þannig lýsir hann heimsenda og spilltum nútíma í "Slow Train Coming" frá 1979, og eins og  múslimar séu að reyna að ná heimsyfirráðum, ("Sheiks walking around like kings..."), og þessi lína úr "Too Late" gæti verið túlkuð líka á svipaðan veg, að glæpir og islam fari saman.

En í textanum er lýsandi lína í þessu fyrsta erindi:"They said it was a natural situation..."

Nútími okkar er fullur af syndum og trúleysi, fólki sem fer viljandi gegn Biblíunni að því er virðist. Múslimakonurnar (fáar aðrar hylja andlit sitt og því sennilega rétt túlkun), eru því tákn fyrir nútímakonuna evrópsku, "Infidels", sem nafn plötunnar vísar í. Miðað við það að Bob Dylan gaf sig langmest að gyðingatrú á þessari plötu er mjög skiljanlegt að andúð hans á islam hafi þarna verið meiri en á öðrum æviskeiðum hans og þessi túlkun því rökrétt og passi vel við.

Þannig að sé þessi túlkun rétt setti Bob Dylan samasemmerki á milli trúleysingja Vestursins og islamistanna, og það er í raun réttri alger andstaða við harðlínutrú islamistanna. Núverandi stjórnvöld í Ísrael eru þó sennilega nokkuð sammála þessari túlkun. Þessi túlkun gerir ráð fyrir því að þeir séu trúleysingjar sem ekki iðka rétta trú forfeðranna.

Allt bendir til þess að Bob Dylan hafi fullkomlega yfirgefið þessa skoðun síðar. Ég veit ekki til að hennar verði vart á seinni tíma plötum hans eða neinsstaðar annarsstaðar. Aftur á móti má túlka margar línur og setningar frá honum sem áframhald á paranoiu samsæriskristlinga í sértrúarsöfnuðum, heimsendaspádómum og andúð á nútímanum, eins og á plötunni "World Gone Wrong" frá 1993, til dæmis, og í textabókinni eftir hann (liner notes).

En burtséð frá því er línan mjög góð, því hún bendir í sömu átt og "Blowing In The Wind", sem sé þar skrifaði Bob Dylan um það lag, að verstu glæpamennirnir væru þeir sem þættust ekki sjá samsærin og glæpina, horfðu framhjá, létu sér allt í léttu rúmi liggja. Það á víst við um 99% af fólki, en þetta er ævinlega hægt að virða Bob Dylan fyrir, að þora að gagnrýna 99% mannkynsins og komast upp með það, halda áfram að vera heimsfrægur samt, án þess að þola slaufun, útskúfun.

Viðlagið fjallar um að of seint sé að ná einhverjum til baka, (bring back) færa til baka, en þá línu er hægt að túlka í samræmi við endurkomu Jesú Krists sem trúaðir hafa beðið eftir í 2000 ár og rúmlega það.

Miðað við að "Infidels" er fyrsta veraldlega hljómplata Dylans eftir frelsunarþrennuna, þá gæti sú túlkun passað, að hann sé ekki lengur trúaður á að Jesús Kristur komi nokkurntímann aftur, að endurkoman sé blekking.

Nú fer ég yfir í "Foot of Pride".

"Eins og ljónið sem rífur holdið af manninum, þannig getur kona gert það sem þykist vera karlmaður."

Þetta er opnunarlína þessa stórkostlega ljóðs.

Klæðskiptingar voru til 1983 og einhverskonar kynskiptingar, en ég hef ekki kannað það vel, og er ekki vel inní því, en veit að það voru ekki óþekkt fyrirbæri, en mjög sjaldgæf, og mjög úthrópuð af "frelsuðu" fólki, sem yfirleitt leit á slíkt sem ýkt dæmi um synd.

Opnunarlínan hjá Bob Dylan virðist vísa í þessa þjóðfélagskima, enda fylgir allt kvæðið þessari "öfgakristni", eins og sumir myndu kalla þetta, heimsendaboðskapur og slíkt.

En ég verð að dvelja lengur við þetta, því líkingamálið er ekki auðskilið hjá Dylan, eftir tugi útstrikana og endurritana þegar þessum tímapunkti er náð.

Sem sé, varla hægt að finna dýrslegri og ómennskari grimmd en hjá villidýri sem flettir húð af manneskju, til að sýna vald sitt og klær, þessi vopn sem náttúran gaf dýrinu til að drottna yfir öðrum.

Að Bob Dylan skyldi líkja klæðskiptingi eða kynskiptingi við slíkt villidýr er mjög merkilegt, og lýsir andúð hans á hinseginleikanum, að minnsta kosti í þessu kvæði. Hann veitir raunar mjög fá viðtöl og er varfærinn í orðum, þannig að sennilega myndi hann segja nú til dags að ljóðmælandinn sé ekki hann sjálfur og hafi aldrei verið hann sjálfur, en svona kemur þetta fram í ljóðinu að minnsta kosti, og erfitt að túlka á annan hátt.

Líkingin er þó sterkari en þetta. Hún felur í sér miklu, miklu meira en einföld orðin gefa til kynna.

Þessa merkilegu línu væri hægt að túlka á breiðari grundvelli, "kona sem þykist vera karlmaður"... hvað á hann við nákvæmlega? Á hann við alla femínista? Á hann við allar útivinnandi konur? Á hann við allar konur sem læra í skólum og fara í karlastörf í framhaldinu? Það getur nefnilega alveg verið.

Minnumst þess að 1978 kom út lagið "Is Your Love In Vain?", þar sem skýrt kemur fram að hann telur að konur eigi að vera heimavinnandi allar, eins og hefðin býður. Það lag mætti túlka sem Guð sem talar við eina konu, og þær allar í senn.

Hann er í raun með þessari opnun að segja að útivinnandi konur séu að svíkja kynferðisskyldur sínar sem mæður, uppalendur barna. Hann er að segja að allt mannkynið sé fordæmt gjörsamlega, og slíkt má styðja með vísunum í Biblíuna vissulega.

Því næst koma línur sem fjalla um jarðarför, að þar hafi "Danny Boy" verið sungið. Ættjarðarkvæði í stað sálms, já kirkjurækið fólk hneykslaðist mjög á slíku 1983, en það er orðið svo algengt núna að langfæstir taka eftir því eða kippa sér upp við það að ráði.

Síðan kemur mjög háðugleg lína um að presturinn hafi fjallað um að Kristur hafi verið svikinn (af Júdasi sennilega).

Sú lína segir okkur að þau svik fari fram daglega á hverri stundu, og að syndugt nútímalífið sé beinlínis löðrungur í andlit Jesú Krists, öllum stundum. Þetta er sérlega falleg kristileg hugsun, og miskunnarlaus gagnrýni á syndugt nútímafólk.

Um hinn látna er sagt að svo virðist sem jörðin hafi opnazt og gleypt hann skyndilega.

Þetta eru dásamlega kristilegar línur, svo nístandi háðskar að það er engu lagi líkt.

Í einni línu tekst Bob Dylan að vekja upp hugrenningar um Helvíti og jarðskálfta og skrímsli sem gleypir fólk vegna synda þess. Ekki nóg með það, honum tekst að snúa helgislepju venjulegra jarðarfara uppí andhverfu sína. Ekki er skrýtið að hann þorði ekki að gefa þetta lag út 1983, það er svo fullkomin árás á lifnaðarhætti Bandaríkjanna og Vesturlanda.

Í þessari einu línu tekst Bob Dylan að segja okkur að líklegast sé að venjulegt fólk fari til Helvítis miðað við Biblíuna og túlkun margra sértrúarsöfnuða.

Fótur stoltsins er bæði fótur Guðs og mannanna í senn. "There ain't no going back when your foot og pride comes down." Það verður ekki aftur snúið þegar þú kemur aftur til jarðarinnar.

Stolt Guðs yfir sköpuninni kallar á refsingu Guðs samkvæmt þessu vegna syndanna. Óhlýðnin kallar á reiði Skaparans.

Stolt Jesú Krists yfir að vera sonur Guðs kallar á það sama.

Stolt mannanna er hinsvegar stoltið yfir því að fylgja Satani og að vera í uppreisn gegn Guði.

Viðlagið lýsir því með einföldum hætti hvernig skoðun hins sannkristna manns er.

 

Því er þetta sannkristilegt lag, og ljóð, en á sama tíma er það veraldlegt að hluta í lýsingum á heiminum. Heimsósómakvæði.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 102
  • Sl. viku: 657
  • Frá upphafi: 108413

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 522
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband