18.11.2023 | 19:12
Viðtengingarhátturinn
Maður veltir því fyrir sér hvað valdi því að til er ungt fólk sem notar kerfisbundið ekki viðtengingarháttinn, eins og það vilji eyðileggja íslenzkuna viljandi. Kom þetta fram þegar Sigríður Hagalín frænka mín kynnti sína nýjustu bók og lætur eina persónuna tala þannig, sem er ung að árum.
Hér er um tízkufyrirbæri að ræða, en ekki vantkunnáttu - nema í sumum tilfellum kannski, því villurnar smitast á milli einstaklinga og skorturinn á máltilfinningunni sem þarna er á ferðinni. Hvorki foreldrar né skólar ráða við þetta (í tilfellum þeirra sem temja sér þetta mállýti viljandi að því er virðist), enda kannski ekki reynt að ráði ef brotaviljinn er mikill eða þekkingarleysið. (Brotavilji að brjóta málreglur viljandi?) Metnaðarleysi eða dugleysi, eða hvað er um að ræða?
Hægt er að spyrna við fótum og kenna þetta rétt, en þá verður að vera meðvitað átak um það. Eða er þetta einskonar unglingaveiki kannski, til að sýna "feðraveldinu" andstöðu á þennan hátt?
Sérstaklega er talið að viðtengingarháttur þátíðar sé orðinn lítið notaður. Kappsmál á RÚV í umsjá Bjargar og Braga vekur athygli á þessu, þar sem þessi þraut er höfð síðust og því talin einna erfiðust. Þetta er þó spurning um þjálfun og notkun eins og svo margt.
Mjög fallegt og kurteislegt gamalt mál er nú orðið sjaldgæft og heyrist varla, "mætti ég"... "gæti ég"... "kynni þetta að ganga"..."ef það hentaði yður"... en viðtengingarháttur þátíðar tengist þarna samskiptum sem þekktust áður fyrr en fer lítið fyrir núna. Að kunna skil á þessu getur þó verið gott í bókmenntum og sýnt stéttamun eða eitthvað annað sem rithöfundar vilja gera.
Aðrar þjóðir sem misstu föll og beygingar hafa sennilega fyrst misst viðtengingarhátt og aðra hætti. Til dæmis á það við um Englendinga, Bandaríkjamenn og Dani. Við megum vera heppin að hingað hefur komið fólk frá Póllandi og öðrum austurevrópskum löndum, því af þeim getum við lært. Þarna eru á ferðinni jafnvel enn meiri málfallaþjóðir en við, þar sem föll geta verið 6 eða fleiri. Hvernig yrði íslenzkan með staðarfalli og tækisfalli til dæmis?
Undrast ég á því að ekki séu sýndir pólskukennsluþættir í sjónvarpinu fyrir norræna Íslendinga, eða þá fleiri orðabækur en fyrir algengustu málin.
Í einhverju sinnir RÚV skyldum sínum eins og að benda á þetta með viðtengingarháttinn og skortinn á honum stundum.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.1.): 88
- Sl. sólarhring: 148
- Sl. viku: 506
- Frá upphafi: 132419
Annað
- Innlit í dag: 49
- Innlit sl. viku: 395
- Gestir í dag: 47
- IP-tölur í dag: 47
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Nýlegar fréttr segja mér að verið sé að vinna við útgáfu íslensk pólska orðabók.Nefndir voru 4 Pólverjar og a.m.k.2 Íslendingar og von væri á henni fljótlega.
Helga Kristjánsdóttir, 18.11.2023 kl. 23:21
"ungt fólk sem notar kerfisbundið ekki viðtengingarháttinn" --> "ungt fólk sem kerfisbundið notar ekki viðtengingarhátt" -- en hvað er viðtengingarháttur, spyr sá sem ekki kann Isslenzku?
Guðjón E. Hreinberg, 19.11.2023 kl. 01:41
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að kenna eigi Pólsku og Tælensku í grunnskólum, en er að snúast til þess að kenna frekar Rússnesku og Han/Mandarin í staðinn.
Guðjón E. Hreinberg, 19.11.2023 kl. 01:47
Góð áminning Ingólfur, -ég hef reyndar ekki orðið mikið var við þessa viðtengingarháttar vöntun, enda hlusta ég hvorki á útvarp né horfi á sjónavarp nema fyrir algjöra slysni, og á þar að auki ekki snjallsíma.
Í kringum mig er töluð kjarnyrt íslenska upp á gamla mátann, sé hún á annað borð töluð, eða þá spænska, enska, pólska, rúmenska og ungverska svo eitthvað sé talið. Enda er ég eins og hver annar álfur út úr hól í málfræði.
En það mættu sjálfsagt fleiri isslendingar slökkva á símanum og síbyljunni og hlusta þess í stað á álfana tala í viðtengingarhætti.
Ekki hef ég samt trú á að isslendingar töluðu betri pólsku en ensku, -og þegar isslendingar, sem þykja þeir svo gasalega flinkir í ensku, læra hana af því að hafa vit fyrir pólverjum þá er um hreint hrognamál að ræða.
Magnús Sigurðsson, 19.11.2023 kl. 07:33
Það gleður mig að fá svo góð viðbrögð við þessum pistli.
Hvernig er hægt að útskýra viðtengingarháttinn á einföldu máli? "Ég kæmi", viðtengingarháttur nútíðar frekar en "ég kem", (framsöguháttur), og "mætti ég", viðtengingarháttur þátíðar.
Málið yrði litlausara án þessara möguleika og þá værum við komin næstum alveg að því að missa alla málfræði eins og Englendingar, Danir, Norðmenn og fleiri hafa gert, næstum því.
Takk fyrir upplýsingarnar Helga um þessa orðabók sem er á leiðinni. Það kemur mér ekki á óvart að fleiri en ég hafi áhuga á því.
Já, Guðjón, maður spyr sig hversvegna er verið að eyða tíma og peningum í mikla enskukennslu úr því að allir fá hana úr Hollywood, sjónvarpi, tölvum, osfv?
Einmitt Magnús, þessi vöntun á viðtengingarhætti er alls ekki nema sumsstaðar. Þetta er unglingabóla sem heyra má í grunnskólum og leikskólum og ekki þarf annað en öfluga menntastefnu til að bæta úr.
Já, ég hef orðið var við kjarnyrta íslenzku í þínum pistlum og trúi því að menn tali gott mál nálægt þér. Tek undir það að með því að slökkva á símunum og tala við fólk augliti til auglitis (eða álfana) lagast málvitund talsvert.
Já, mikið er um hrognamálið einnig.
Takk fyrir innlitið og athugasemdirnar öll.
Ingólfur Sigurðsson, 19.11.2023 kl. 16:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.