Hvalveiðar

Ef hvalveiðar verða stöðvaðar aftur mun það væntanlega gleðja hann Ingvar Agnarsson frænda minn sem er á framlífsjörð. Hann var dýraverndunarsinni, Nýalssinni og mikill snillingur að mörgu leyti.

Hann var á undan sinni samtíð og stórmerkilegur meistari. Vegna þess að ég þekkti tvo menn sem drógu mig í tvær áttir hvað varðar hvalveiðar langar mig að rifja upp kynnin við þessa menn. Annar var Ingvar frændi, sem var á móti hvalveiðum vegna dýraverndunarsjónarmiða, en hinn, Guðmundur Sighvatsson, aðstoðarskólastjóri við Austurbæjarskóla og seinna skólastjóri þar fór á hverju ári á sumrin, það var aukavinna hjá honum, að skera hval uppi í Hvalfirði. Hann veiddi ekki hvali en verkaði þá og vann í hvalstöðinni. Það var kallað að flensa hval og er víst kallað enn, eða flá hval.

Hann var kvæntur Ragnheiði, sem er systir mömmu. Hann ræddi reyndar aldrei skoðanir sínar á hvalveiðum svo ég muni til, en þetta var að minnsta kosti hluti af minni bernsku, því hann gaf ömmu oft hvalkjöt til að matreiða og hvalspik, og maður borðaði þetta oft um langt árabil og þetta er góður matur, ekki spurning um það.

Ég bjó hjá afa og ömmu frá 10 ára aldri, og svo fram að 5 ára aldri þar áður. Í þá daga heyrði ég engan tala á móti hvalveiðum, nema Ingvar frænda, eða ekki fyrr en 1986, þegar Sea Shepherd unnu hér skemmdarverk og Paul Watson komst í fréttirnar fyrir hryðjuverk. Ég man að sá atburður olli miklu fjaðrafoki á Íslandi og þessi samtök voru úthrópuð af næstum öllum, enginn sem ég þekkti sem skildi þau eða stóð með þeim, Ingvar frændi vildi friðsamleg mótmæli, þannig var nú almenningsálitið þá, en vissulega voru einhverjir harðlínukommar verið til sem voru á móti hvalveiðum, eins og lag Bubba Morthens sýnir og sannar frá sama ári, 1986, "Er nauðsynlegt að skjóta þá?"

Amma mín Sigríður Tómasdóttir hafði skoðanir á öllu og tjáði sig mikið. Hún var líka sannkristin eins og afi. Aldrei hvarflaði það að henni að neitt væri rangt við hvalveiðar og alltaf var hún þakklát þegar þessar gjafir komu.

Hún hafði svo sterkar skoðanir og fylgdist svo vel með tónlist og menningu að hún varaði mig við að hlusta á Bubba Morthens og Megas, og sagði að það væri andkristilegur boðskapur í popptónlist yfirleitt. Ég reyndar tók ekkert mark á henni í því og mörgu og var kominn á uppreisnaraldur þá, um fermingu.

Nú er RÚV komið í herferð á móti hvalveiðum, enda er þar reynt að fara eftir kommúnistatrúboðinu í hvívetna, því miður.

En hvaða skoðun ætti ég að hafa á hvalveiðum?

Ég vil rifja upp fleiri skemmtilegar minningar og ljúfar.

Oft þegar ég kom í heimsókn til Ingvars og Heiðu á Hábraut 4 fór afabróðir minn yfir kvæðin mín og hvað mætti betur fara. Hann vissi að ég vildi verða frægur poppari, og hann sagði að enginn tæki poppara alvarlega sem ekki kynni að yrkja rétt og búa til góða popptexta. Ég tók mark á því.

En oft leiddist talið að öðru. Ég bar mikla virðingu fyrir honum, fjölfróður var hann og góður maður. Ástæðan fyrir því að hann var harður dýraverndunarsinni var æska hans í sveitinni, fyrir norðan. Þau höfðu verið fátæk, foreldrar hans, og átt fá dýr sem þau tóku ástfóstri við. Hest höfðu þau átt sem þau urðu að selja vegna fátæktar þegar hann var strákur í sveitinni. Seinna fréttu þau að hinn nýi eigandi hestsins hafði ekki farið vel með hann, og það nísti þau sárt, sérstaklega Ingvar frænda, samkvæmt endurminningum hans og frásögn.

Þetta mótaði skoðanir afabróður míns og einnig kvæði Jónasar Hallgrímssonar um rjúpuna, Óhræsið. Hann tók skoðanir um dýravernd lengra en flestir á þeim tíma og vildi að þær næðu yfir sem flestar tegundir, og skynsamleg yrði nýtingin og hófleg, ekki ósvipað og ungt fólk nú til dags upp til hópa, sérstaklega hvað varðar hvalveiðar. Þó er ég sannfærður um að þessi hvalbannsáhugi hjá ungu fólki kemur frá Bandaríkjunum og alþjóðasamfélaginu, sem er búið að ala upp svona, og kannski jafnvel ranglega, þetta er notað á smáþjóðir til að minnka sjálfstæði þeirra.

Ég man eftir þessum ræðum sem Ingvar frændi hélt á heimili sínu og ég hlustaði heillaður. Það er alltaf heillandi fyrir unga menn að hlusta á sér eldri menn sem eru fróðir um allt mögulegt og mælskir. En seinna myndaði ég mér sjálfstæðar skoðanir sem mótuðust einnig af skoðunum ömmu, sem var hörð sjálfstæðismanneskja og fannst það mesta kommavilla að hlusta á slíkt.

En aðallega finnst mér það grunsamlegt að Bandaríkjamenn sem veiða mikið af hval skuli vera að skipta sér af hvalveiðum Íslendinga. Mér finnst það enn eitt dæmið um þeirra nýlendustefnu, að búa hér til sína nýlendu, og að okkur beri að hlýða þeim.

Síðast þegar ég vissi var veitingastaðurinn Laugaás með ljúft og gott hvalkjöt á boðstólnum, ef hann er enn opinn, en fréttir voru um að hann hefði lokað, en svo var staðurinn opnaður aftur.

Það hefur fylgt manninum frá upphafi að veiða dýr og það hefur alltaf þótt sjálfsagt. Öfgakommúnistar vilja breyta því. Mér finnst það hluti af svipuðum boðskap og kemur frá Davos-liðinu, sem vill stjórna öllu fólki, og koma með Endurræsinguna miklu, sem hljómar eins og fullkomin kúgun á fólki.

Nú er Sjálfstæðisflokkurinn við völd ásamt Vinstri grænum og Framsóknarflokknum. Á þetta að verða enn eitt málið sem Sjálfstæðisflokkurinn gefur eftir til að halda friðinum innan ríkisstjórnarinnar?

Að vísu er þetta álitamál og ég er svolítið tvístígandi í þessu, en mér finnst bara svo sláandi að þegar ég var strákur var ALDREI efazt um þetta, ALDREI (af almenningi, það er að segja). Það var algjör minnihlutahópur á móti hvalveiðum þá á Íslandi.

Mér finnst það skuggalegt að fólk láti erlend áhrif stjórna sér svona mikið, sérstaklega að menntskælingarnir þurfi að vera þannig.

En mér finnst gaman að lýsa reynslu minni og hvernig ég hef upplifað breytt almenningsálit í þessu og samt er ég ekki svo gamall.

Ef hvalveiðar verða aftur stöðvaðar ætla ég að vona að það verði til marks um það að önnur stefnumál Ingvars Agnarssonar komist til framkvæmda einnig síðar, eins og að Íslendingar verði allir Nýalssinnar, að hér verði reist stjörnusambandsstöð stór og mikil og annað slíkt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Einlægur og góður pistill Ingólfur.

Versta meðferð á dýrum, sem hægt er að hugsa sér er verksmiðjubúskapur þar sem dýrin fá aldrei að fara út í náttúruna, og ætti fólk að forðast að kaupa þannig mat.

Því miður eru fá dýr til manneldis, sem fá orðið að fara út í dagsljósið, ef frá er talin íslenska sauðkindin sem er nú á hverfanda hveli.

Magnús Sigurðsson, 20.5.2023 kl. 05:46

2 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Takk fyrir það Magnús. Alþjóðastofnanirnar sístækkandi hafa nægt fjármagn til að minnka frjálst land og náttúrulegt. Mjög áhugavert myndband horfði ég einnig á eins og þú á síðu Tómasar Ibsen og það er mjög fróðlegt um þetta.

Ég tek undir svar þitt, það er hyggilegt og rétt.

Ingólfur Sigurðsson, 21.5.2023 kl. 01:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 81
  • Sl. viku: 659
  • Frá upphafi: 108415

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 524
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband