8.3.2023 | 06:30
Dagstofuannáll frá 1983 eftir Megas, túlkun.
Hvaða persóna er Gaddavírsrafmennið í ljóði Megasar, frá þessari plötu Tolla Morthens frá 1983? Þetta ljóð var samið snemma af Megasi, og þá var hann nýkominn úr menntaskóla, enda er í því þýzk tilvitnun, eða textabrot á þýzku. Samkvæmt Óttari Guðmundssyni og hans bók er þetta gamalt kvæði, eða var gamalt þegar það var flutt 1983, og þá þykir mér líklegt að það sé frá 1966 til 1976, og sennilega frá 1966 til 1967, miðað við formið, sem er ekki ósvipað ýmsu eftir hann frá þeim tíma, án viðlags.
Í samskiptum mínum við Megas spurði ég hann ekki útí þetta lag. En ég man að hann svaraði oft óljóst og einkennilega, og sagði eitt sinn við mig að honum fyndist alltaf gaman að heyra nýjar túlkanir á sínum verkum.
Nöfn eru notuð í þessu kvæði til að bera merkingu. "Ef Guðsteinn hann hefði ekki glapizt við gatnamót sannleikans", er ein merkileg lína þarna. Mér virðist margt benda til að þetta sé ort um svipað leyti og "Þóttú gleymir guði", 1968 eða svo.
Nafnið Guðsteinn er tákn fyrir kristna menn.
Veraldarflotgengið er einnig orð sem þarf að túlka. Það hlýtur að vera gengið sem heldur veröldinni á floti. Í kvæðinu stendur að Lísa viti hversu valt það reynist, veraldarflotgengið.
Þetta kvæði jafnast á við beztu kvæði Bob Dylans eða annarra stórskálda, eftir T.S Eliot, til dæmis, eða John Clare.
Hver er Lísa? Kannski Lísa í Undralandi? Fyrir hvað stendur hún?
Sumir bókmenntagagnrýnendur lýsa Lísu í Undralandi sem yfirstéttarstúlku sem er spillt af ofdekri og í sínum draumaheimi, og því nokkurskonar nútímakona í þeim skilningi að kynjafræðin hefur komið inn þeim hugmyndum hjá fólki og stúlkum eða konum ekki sízt að veruleikann megi sveigja að vilja hinnar kvenfrelsuðu konu.
En Lísa í Dagstofuannál veit eða þykist vita. Það sem sú Lísa veit er því nokkuð sem jafnvel börn geta vitað, ef um er að ræða Lísu í Undralandi.
Þegar jafnvel sú Lísa veit hversu valt veraldarflotgengið er, þá hlýtur það eiginlega að vera á allra vitorði einnig.
Í þessu stutta og hnitmiðaða kvæði Megasar er að finna róttækari gagnrýni á kristilegt siðferði og siðferði vinstrimanna eða jafnaðarmanna en í miklum doðröntum um þetta efni.
"Ósérplægnin skal einatt uppskera ad adsurdum", stendur þar, og í þeim orðum finn ég umrædda gagnrýni. Latínan er notuð til að leggja enn sterkari áherzlu á þetta, og gera þetta fræðilegra.
Ósérplægnin er jú eitt helzta einkenni kristinnar siðfræði, sem hefur leitt af sér jafnaðarstefnu og vinstristefnu, í sögulegu samhengi, að öllum líkindum. Eins og Megas yrkir um, þá er sú uppskera ekki alltaf í samræmi við það sem búizt er við.
Í þessu kvæði er þar með gagnrýni á nútímann, nútímamenninguna.
En hverjar eru hænurnar sem veitast að Lísu og gjóa að henni heiftbólgnum Glámsaugum?
Hvað tákna hænur? Í draumafræðum tákna þær farsæld og frið oft og einatt, en Megas hefur tjáð að í hans fræðum tákni þær eitthvað válegt.
Gaggandi hænur geta táknað slúður, samkvæmt sumum draumafræðum. Hópur af hænum getur þýtt mannfjölda eða gnægð tækifæra. Hani sem tínir uppí sig korn getur þýtt að á einhverju þurfi að byrja að nýju.
Hávaði í hænum getur táknað ógæfu, samkvæmt sumum draumaráðningum.
Hæna sem situr á eggjum sem klekjast út merkir heilsu og lækningu á sjúkdómum og kvillum, samkvæmt sumum ráðningum.
Dráp á hænu getur þýtt tap á peningum.
Dökkleit hæna getur þýtt ógæfu en í ljósum litum boðar hún gæfu samkvæmt draumaráðningabókum.
Á ensku þýðir chicken einnig hugleysingi, eða stelpa. Mér finnst líklegt að neikvæð merking hjá Megasi hafi eitthvað með það að gera.
Hugleysi er eitt stærsta vandamál nútímans, að hlaupa til Satans og þora ekki að meðtaka guðina eða gyðjurnar, eða Guð Biblíunnar, þegar hann vill kenna eitthvað, aga eða tyfta, eða koma fram með eitthvað nauðsynlegt.
Hænurnar sem veitast að Lísu geta því táknað ýmislegt. Þær geta táknað jákvætt foreldravald, eða þá neikvæða jafningja, öfundsjúkar manneskjur sem eru neikvæðar útí hana að ósekju.
Það er ekki af engu sem Megas notar orðið "Glámsaugu". Það er komið úr Grettis sögu eins og margir vita, og að upplifa slíkt lýsir samvizkubiti þess sem verður fyrir því mögulega, ellegar þá að aðsókn sé á ferðinni frá illum öndum.
Ljóðlínan í heild gefur þá merkingu að fólk uppskeri ekki eins og það sái. Það er nú kannski einmitt ein af skýringunum fyrir því að fólk hefur skráð sig úr Þjóðkirkjunni í stórum stíl og er utan trúfélaga eða í öðrum trúfélögum.
Rafmennið er tákn fyrir nútímamanninn sem er ekki lengur mennskur heldur geimvera, eða að breytast í geimveru, með ígræðslu í líkamana, mengun og tækni, smám saman.
Vítislýsingarnar í þriðja erindi eru mjög orkumiklar og lifandi, eiga við um nútímann. "Aumt er að sjá hið innra þar sem hið ytra var gróin tótt."
Sálarlaust fólk ráfar um, en er búið að snyrta sig og bæta útlitið með lýtaaðgerðum og öðrum ráðum sem peningar og nútímasamfélag býður uppá, er merkingin.
Veraldardaggengið er svo annað merkilegt orð í kvæðinu og ekki án merkingar.
Skyldi hér vera framtíðarvísun í Dag B. Eggertsson og stjórn Reykjavíkurborgar? Skáldin geta verið forspá og séð fram í tímann vissulega, og stórskáld sem Megas ekki sízt.
Nei, veraldardaggengið merkir einfaldlega það gengi sem stjórnar veröldinni hverju sinni, á daginn, þegar syndirnar vaka en sofa ekki.
Hvað þýða upphafslínurnar, "grimmari er gjólan í flóa en Gaddavírsrafmennið?"
Jú, lífið í sveitunum er raunverulegt og harðneskjulegt en ekki gervilegt eins og í borgunum.
En orðið Gaddavírsrafmenni segir þó sína sögu. Fólk særist líka þar sem tæknin er til staðar, og verður að gaddavírsrafmennum.
"Allt er fullt af ógeðslegum pöddum og eilíf ríkir þar sótt.", stendur í þriðja erindinu, stórkostlegt eins og annað í kvæðinu.
Hér er vítislýsing. Pöddur eru tákn fyrir það sem ekki verður ráðið við, og þær eru tákn um stjórnleysi, upplausn, og sóttin sem ríkir samkvæmt kvæðinu.
Síðan kemur fram ný persóna, Gunnsteinn, sem hopar á hæli og fellur í trans. Hann á setur og er vandlátur. Þar er þó ekkert til sölu, af einhverjum ástæðum og það er harmað.
Gunnsteinn er tákn fyrir þann sem berst í nútímanum. Byssukúla gæti verið merking nafnsins Gunnsteinn. Í kvæðinu er hann því tákn fyrir venjulegan mann, sem berst eins og drukknandi maður, en nær ekki árangri. Við flest erum Gunnsteinn, tel ég, í kvæðinu, þarna undir lokin, í fjórða erindinu.
Þegar Megas orti þetta hefur það verið háðsk ádeila á spíritismann sem var áberandi á þeim tíma, en í dag mætti túlka orðið trans sem gagnrýni á allskonar transmennsku, handanmennsku, allt sem er handan þess sem náttúran skapaði eða Guð eða guðir og gyðjur.
Ljóðmælandinn kvartar undan því í fjórða erindinu að hann heyri sjúklega sungið um sumar og gaddavír. Það held ég að sé ádeila á ástarvæmnina í dægurlögum hippamenningarinnar, en gaddavír gæti verið tákn fyrir nauðgunarmenninguna svo sem, eða ofbeldisbirtingu í menningunni, í kvikmyndum ekki hvað sízt, Hollywoodmenningunni.
Lokalínurnar fjalla um Rafmennið, sem er þarna orðið öllu rúið, og það rekur upp vein og flýr, eftir að hafa snúið við, og það ratar ekki þangað sem það býr. Það flýr ins Unbekannte, í hið óþekkta.
Þannig að ljóðinu lýkur í miklu spurningarmerki, framtíðin er óráðin en með hliðsjón af hryllingi nútíðar og fortíðar varla hægt að búast við paradís.
Í þessu ljóði er því spá um að tæknivæddur nútímamaðurinn, Rafmennið, muni snúa aftur í faðm náttúrunnar, eða reyna það, en ekki takast. Allt hefur þetta ræzt.
Stórkostlegt ljóð, stórkostlegur kveðskapur. Megas ætti skilið að fá Nóbelsverðlaunin í bókmenntum ekkert síður en Bob Dylan, en til þess þarf íslenzkt fólk að meta hann að verðleikum, til jafns við Halldór Laxness, því þannig myndu augu heimsbyggðarinnar beinast að landinu aftur, og skáldinu sem þetta orti, sem of lengi hefur verið lágt skrifaður vegna Metooómenningarinnar og ofstopanum í nútímanum, sem vill þurrka út menningu fortíðarinnar, því miður, í mörgum tilfellum.
Hér er á ferðinni vandað ljóð þar sem hvert orð er á réttum stað, og nafnið er vísun í bók eftir Halldór Laxness.
Þjóðin fer á mis við mikla hæfileika, að aðrir en Megas og slíkir höfundar fái mesta athygli á okkar tímum.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.1.): 9
- Sl. sólarhring: 64
- Sl. viku: 613
- Frá upphafi: 132066
Annað
- Innlit í dag: 9
- Innlit sl. viku: 507
- Gestir í dag: 7
- IP-tölur í dag: 7
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.