André Franquin og þunglyndið

Snilldin og andleg veikindi fylgjast stundum að. André Franquin skapaði Viggó viðutan og Gorm, og gerði Sval og Val að stórveldi í myndasöguheiminum. Hann glímdi við þunglyndi seinni hluta ævi sinnar.

En það sem hægt er að lesa útúr ævistarfi teiknimyndasögusnillingsins Franquins er jafn mikil speki og í höfundarverki Halldórs Laxness, til dæmis, eða hvaða nóbelsverðlaunahafa sem er í bókmenntum.

Það sem er sérstakt við Franquin er að hann fjallaði um umhverfisvernd og mengun á sinn sérstæða en persónulega og beitta hátt talsvert á undan flestum öðrum. Sérstaklega blandaði hann saman fyndni og alvöru á einstakan hátt, sem gerir verkin hans ekki bara læsileg heldur stórskemmtileg, en um leið með ótrúlega sígildan boðskap.

Hann fæddist  3. janúar 1924 í Etterbeek í Belgíu. Hann fór snemma að teikna og vekja athygli á hæfileikum sínum. Þó fékk hann ekki formlega teiknimenntun fyrr en árið 1943, þegar hann var 19 ára. Það sýnir að hann hafði meðfædda hæfileika.

Hann var ráðinn til Dupuis fyrirtækisins árið 1945 með öðrum hæfileikamönnum, Morris til dæmis, teiknara Lukku Láka, sem einnig skapaði þá persónu.

Hann tók við Svali og félögum árið 1946 af Jijé, en Robert Velter, sem tók sér listamannsnafnið Rob-Vel, skapaði þær persónur upprunalega árið 1938, eða vikapiltinn Sval.

Evrópskar myndasögur voru á þeim tíma stæling á þeim bandarísku að miklu leyti.

Síðasta sagan sem Franquin teiknaði af Sval og félögum kom úr í tímaritinu Spirou árið 1968, Tembo Tabou, en síðar í bókaformi.

Það voru svo sem nokkrur risarnir í evrópskri myndasögugerð sem gnæfa yfir og gerðu evrópskrar myndasögur heimsfrægar, en Franquin var meðal þeirra fremstu.

Sem dæmi um þá virðingu sem Franquin nýtur og naut meðal kollega sinna má nefna það sem Hergé sagði um hann: "Miðað við Franquin er ég bara einfaldur teiknari." Það var að vísu hógværð sem var of mikil af Hergé, þar sem hann er einnig einn helzti snillingurinn í þessum geira á heimsvísu, en þetta er satt að vissu leyti, því dýptin í söguþræðinum hjá Franquin er meiri en hjá öðrum, teikningarnar eru meira lifandi en hjá flestum, og boðskapurinn um umhverfisvernd mjög sterkur.

Franquin átti sér mörg skeið, og þróaðist alla ævi. Fyrsta skeiðið er talið frá barnæsku hans til ársins 1951, þegar hann skilaði af sér fyrstu myndasögunni í fullri lengd.

Miðjutímabilið svonefnda er talið til ársins 1960, þegar þunglyndið fór að sækja á hann og afköstin minnkuðu, en þó má skipta miðutímabilinu niður í nokkur skeið einnig.

Frá 1946 til 1951 mátti þó vera ljóst að hann var að skapa sinn persónulega stíl. Fyrstu sögurnar hans um Sval og félaga bera sterk svipmót Disney teiknimynda um Mikka mús og fleiri slíkar persónur. Með starfsfélögum sínum fór hann til Bandaríkjanna frá 1948 til 1949 og ein bók um Sval og félaga varð til þar sem þeir eru í Bandaríkjunum. Sú bók kom út á íslenzku árið 1986 fyrst, númer 22 hjá Iðunni og hét "Í klandri hjá kúrekum". Hún kom út í upprunalegri og breyttri útgáfu árið 2015 hjá Froski útgáfu, undir heitinu "Svörtu hattarnir", í betri prentgæðum.

Strax í kjölfarið varð mikil þróun á þessum sögum og Franquin fór að nýta sér belgíska og franska staðhætti betur, og "Sveppagaldrar í Sveppaborg" ber þess merki árið 1951, fyrsta sagan í fullri lengd. Þar með var heimur Franquins skapaður að miklu leyti, hinn hrokafulli borgarstjóri, drykkjurúturinn herra Þamban, kjaftakerlingar í þorpinu og fjölmargar fleiri persónur, en þó var það Sveppagreifinn sjálfur, uppfinningamaðurinn snjalli, sem gerði margt fyrir bókaflokkinn.

Baráttan um arfinn var gerð alfarið af Franquin, og þar skapaði hann Gormdýrið, frá 1951 til 1952. Sú bók sýnir snilld hans mjög vel. Teikningarnar verða sífellt líflegri og litirnir, og söguþráðurinn sífellt áhugaverðari.

Um miðjan sjötta áratuginn voru teikningar Franquins farnar að endurspegla tízkuna nákvæmlega í húsagerð og innanstokksmunum, fatnaði og menningu. 

Bókin Hrakfallaferð til Feluborgar er kannski eitt bezta dæmið um þetta, sem kom út 1956 á frummálinu, en teiknuð og samin einnig 1955. Það var fyrsta bókin á íslenzku hjá Iðunni, 1977.

Snilldarlega er þarna fléttað saman njósnum, lífi fræga fólksins og mörgu öðru. Margt í bókinni minnir á James Bond og njósnamyndir fyrr og síðar. Teikningarnar eru raunverulegar og í takt við tímann algjörlega.

Með þessari bók er þróunin frá æsilegum barnabókum að þroskuðum bókmenntum fyrir fólk á öllum aldri búin að skila árangri. Bæði myndir og söguþráður hafa vísanir út fyrir Disneyheiminn og barnabókmenntir.

Þegar Franquin skapaði Zorglúbb árið 1959 má segja að hann hafi náð hátindi sínum sem höfundur Svals og félaga. Zorglúbb er flókin og margræð persóna sem minnir á einræðisherra mannkynssögunnar að hluta til, en er vorkunnarverður og einmana persónuleiki með minnimáttarkennd og mikilmennskubrjálæði þegar allt kemur til alls, með litla félagsfærni. Auk þess er hann vísindasnillingur sem á fáa sína líka.

Zorglúbb er raunar miklu meira en ein bókmenntapersóna. Hann er gagnrýni á samtíma Franquins, gagnrýni á tæknina, vísindin og hroka mannsins gagnvart náttúrunni, sem er þema sem gengur í gegnum öll beztu verk Franquins.

Á hátindi listamannsferils síns lenti Franquin í vandræðum, fyrsta taugaáfallið fékk hann vegna þunglyndis og álags.

Neyðarkall frá Bretzelborg var lengi í vinnslu, frá 1961 til 1963. Franquin ætlaði að hafa þetta enn eina Zorglúbb bókina, en útgefandinn neyddi hann til að hverfa frá því.

Svaðilför til Sveppaborgar gekk enn verr, og kom út sem tvær stuttar sögur frá 1965 til 1968. Þá tók nýr höfundur við bókaflokknum, Fournier, og Franquin einbeitti sér að Viggó viðutan, sem hann hafði skapað árið 1957, á kafi í öðrum verkefnum.

Viggó viðutan teiknaði hann næstum alveg þar til hann féll frá árið 1997 vegna hjartaáfalls, en mjög lítið teiknaði hann og samdi síðustu árin.

Þunglyndi Franquins varð mjög slæmt árið 1977 þegar hann fékk annað taugaáfall. Þá bjó hann til myndasögur undir heitinu "Biksvartar hugsanir", en þær hafa ekki komið út á íslenzku, en eru snilldarlegar samt, en á betur við eldri markhóp en unglinga og börn.

Frá 1978 til 1986 var hann hluti af höfundateymi sem bjó til ævintýri um Ísabellu, litla telpu í heimi norna og skrímsla, sem nefnd var eftir dóttur hans. Einnig tók hann þátt í að búa til sjálfstæðan bókaflokk um Gorminn frá 1987 til 1989, en aðrir höfundar hafa haldið áfram með þær bækur.

Frá 1990 til 1997 gerði hann aðallega fáeina brandara um Viggó viðutan, en mun færri en áður. Talið er að þunglyndið hafi hamlað mjög starfi hans á þeim tíma, auk þess sem sköpunargleðin er oft minni þegar fólk er orðið aldrað.

Hér er búið að greina frá ævisöguatriðum þessa meistara. Ekki allir gera sér þó grein fyrir því að snilld Franquins átti sér uppruna í sömu þáttum og gerðu hann þunglyndan.

Nóg er að minnast á brandarana í Viggóbókunum sem lýsa því hvernig uppfinningar Viggós fara útum þúfur, þær eiga sér skuggahliðar sem gera þær skaðlegar eða marklausar.

Þarna kemur snilligáfa Franquins fram í hnotskurn. Hann var ekki bjartsýnn á framtíð mannkynsins. Hann sá hvernig tæknin var að fara með náttúruna. Gormdýrið er kannski hans frumlegasta sköpun. Gormdýrið lýsir uppreisn náttúrunnar gegn manninum og sigri náttúrunnar á manninum, því Gormdýrið er eiginlega ósigrandi.

Í Viggóbókunum eru sorg og gleði systur. Sýndar eru tvær hliðar á sama málinu, eitthvað gleðilegt fyrst, sem síðan snýst uppí andhverfu sína. Þessir brandarar um Viggó viðutan eru heimsfrægir.

Franquin gerir stólpagrín að menningunni í þessum bókum. Hinar snjöllustu uppfinningar verða skelfileg vopn og flest allt fer útum þúfur sem Viggó viðutan ætlar sér.

Viggó viðutan er ábyrgðarlaus nútímamaður sem telur sér allt fært, en næstum öll hans bjartsýni endar með skelfingu.

Með Viggó viðutan bjó André Franquin til persónu sem lýsti ábyrgðarleysi nútímamannsins betur en langar og þungar bókmenntir frægra nóbelsrithöfunda. Persónan hefur bæði skemmtigildi og þroskunargildi, og er spegill á nútímann, mismiskunnarlaus eftir því sem lesandinn vill, eftir því hversu mikið hann pælir í efninu. Slíkt er aðeins á færi meistara og snillinga.

Ekki er ég frá því að Sverrir Stormsker sé slíkur snillingur sem við eigum, og marga fleiri væri hægt að minnast á í mörgum listgreinum frá mörgum tímum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Tinni, Kolbeinn kafteinn, Svalur og Valur, voru allir notaðir til að kenna ungum drengjum að langa til að verða kynvillingar.

Guðjón E. Hreinberg, 30.12.2022 kl. 18:36

2 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Það held ég ekki. Tinni er af sumum greinendum talinn samkynhneigður, en það eru ágizkanir miðað við ofuráherzlu nútímans á trans-allt, samkynhneigð og allt það. Kolbeinn kafteinn er ímynd karlmennskunnar, og bókmenntarýnendur hinseginleikans segja að andstæðurnar á milli þeirra bendi til samkynhneigs sambands. En það eru allt getgátur. Hergé var skáti og kaþólikki og Tinni er ímynd hreinleika í kynferðismálum, en ekki samkynhneigðar. Svalur er hótelþjónn og Valur er blaðamaður. Hvergi er ýjað að samkynhneigð - beint... hvað sem seinni tíma menn segja.

Samkynhneigða æðið og trans-æðið er alveg nýtt fyrirbæri á síðustu 20-30 árum, þótt það hafi eitthvað byrjað áður.

Höfundar þessara bóka voru gamaldags og íhaldssamir fjölskyldumenn allir. Þeir leiddu sennilega aldrei hugann að samkynhneigð. 

Ingólfur Sigurðsson, 31.12.2022 kl. 01:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 99
  • Sl. sólarhring: 107
  • Sl. viku: 758
  • Frá upphafi: 107220

Annað

  • Innlit í dag: 71
  • Innlit sl. viku: 575
  • Gestir í dag: 64
  • IP-tölur í dag: 59

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband