29.11.2022 | 02:02
Sjálfsgagnrýni, sé maður að fást við listir
Ég held að ég gagnrýni mína eigin tónlist harðar en tónlist annarra. Ég reyni sífellt að finna nýrri og fleiri fleti á því af hverju þessir 14 hljómdiskar sem ég gaf út 1998 til 2010 seldust lítið, og sumir nánast ekkert, sérstaklega þeir síðustu, þar sem ég tókst á við málefni samtímans og kom með tvo kristilega hljómdiska 2010 og kom þar með bókstafstrúarlegar kristilegar hliðar sem fæstir höfðu áhuga á að kaupa, en sem betur fer nokkrir kristnir einstaklingar. Ég gaf út 4 hljómdiska 2010, alla í litlu upplagi til að sjá hverjir myndu seljast og hverjir ekki. Ég hef engan hljómdisk gefið út eftir 2010, aðallega vegna gremju vegna þess að þetta er tap fjárhagslegt ef þetta selst ekki sómasamlega.
Ég gaf út 2 hljómdiska 2009 og þeir seldust bærilega. Sérstaklega diskurinn "Ísland skal aría griðland." Hann var hljóðritaður það ár, 2009. Hinn diskurinn sem kom út 2009 heitir "Það og það", og hann var hljóðritaður árið á undan, 2008, og fjallaði um hrunið, útrásarvíkingana og það allt.
Ég tók mér hlé frá útgáfu frá 2003 til 2009. Ekkert kom út á þeim árum. Fyrstu þrír diskarnir seldust langbezt. Sá fyrsti var gefinn út 1998, með Dylan ábreiðum. Á þessum árum var hægt að leita til fyrirtækja sem fjölfölduðu CD diska í eins litlu upplagi og maður óskaði fyrir mjög lágt verð. Þannig byrjaði ég á 20 eintökum, og þau seldust upp á tveimur árum.
Næsti diskur var um Nýalsstefnuna, sá fyrsti með efni eftir mig, "Hið mikla samband", árið 1999, til heiðurs dr. Helga Pjeturss, og um hans fræði, og undir sama heiti og hans frægasta og lengsta ritgerð sem kom út í fyrsta Nýalnum hans sem kom út í þremur heftum á árunum 1919 til 1922.
Þessi diskur var með frægasta laginu eftir mig, "Hvenær mun hér á Íslandi rísa stjörnusambandsstöð?" Hann var einnig gefinn út í litlu upplagi fyrst, en hélt áfram að seljast jafnt og þétt næstu árin í Japis, Skífunni og víðar, þannig að nokkrum sinnum var hann gefinn út í litlu upplagi, sem nú er allt búið.
Árið 2000 kom út "Blóm, friður og ást,", með umhverfisverndarlögum og sýrutónlist, og hann hefur líka selzt ágætlega.
Eftir það komu út diskar sem minna hafa selzt. Þeir þóttu mjög ruglingslegir, með lögum um femínisma og karlrembu til jafns, þríleikur, "Jafnréttið er eina svarið", 2001, "Við viljum jafnrétti" 2002 og "Jafnfréttið er framtíðin" 2003.
Ég skil ekki alltaf hversvegna ég valdi ákveðnar útgáfur laganna og því síður hversvegna ég valdi ákveðin lög fram yfir önnur.
Eitt sinn var ég beðinn um að spila í afmæli, og einhver hringdi í mig sem vildi heyra ákveðið lag um Grillarann af kristilegri plötu frá 2010. Þá var ég búinn að steingleyma að ég gaf þetta ákveðna lag út, og ekki nóg með það, heldur hafði ég gleymt því að ég samdi það! Síðan hugsaði ég mig um í mínútu í símanum og þá rifjaðist það upp hvaða lag þetta var. Þetta var einn blús af mörgum sem var spunninn upp snemma árs 2001 um Grillarann, þegar ég var að reyna að finna einhver lög á plötuna "Jafnréttið er eina svarið".
Það er ekki mjög traustvekjandi að heyra mig syngja, því ég þarf alltaf að hafa textana fyrir framan mig, kann þá yfirleitt aldrei.
Einstaka sinnum hef ég tryllt lýðinn og fengið frábærar viðtökur á tónleikum, eins og á Myrkramessunni í MK árið 1991, þegar ég frumflutti rokklagið "Náttúran", og svo á Litlu jólunum í Digranesskóla 1985, þegar ég kom fyrst fram og söng ástarlagi dularfulla, "Myrkur á morgun eða ekki", eða þegar ég frumflutti lagið "Engar umbúðir" árið 1993 einnig á Myrkramessunni í MK.
Langoftast hef ég þó sungið of lágt og óskýrt, og alltof oft spilað á pöbbum þar sem fólk hvorki þekkir lögin né sýnir þeim áhuga og heyrir ekki orðaskil, því miður.
Ég hef ekkert komið fram opinberlega síðan 2015, þegar ég spilaði á síðasta "Melodica Accoustic Festival" sem Svavar Knútur trúbardor skipulagði með fleirum. Þó var það með skástu tónleikunum þar, vegna þess að þá kunni ég næstum alla textana utanbókar og söng skýrar og hærra en áður. Ég safna þessu á myndbönd og dæmi hvernig mér tekst til og hvað má betur fara.
Sérstaklega finnst mér ánægjulegt að ég rifjaði upp lögin "Myrkur á morgun eða ekki" frá 1985 og "Náttúran" frá 1988, en flutt fyrst 1991. Þó má segja að flutningurinn á þessum tónleikum 2015 sé frekar lélegur, en þetta eru þrusugóð lög sem þola það alveg að vera spiluð óendanlega oft.
Hinsvegar finnst mér leiðigjarnt að syngja sum önnur lög sem eru þekkt eftir mig. Þau voru mörg hver samin í flýti og ekkert sérlega vönduð, finnst mér. En ef fólki líkar við þau neyðist maður til að flytja þau.
Tónlist á að vera eins og góð myndlist, tónlist sem er á vinylplötum, eða á netinu eða útgefin með öðrum hætti. Málverkið Mona Lisa eftir Leonardo Da Vinci er fullkomnun listarinnar, og tónlistarmenn ættu að sækjast eftir því sama. Einfaldleika en dulúð í senn. Sumum tónlistarmönnum hefur tekizt þetta. Sum lög eftir mig finnst mér ná þessu, en ekki endilega þau sem ég hef gefið út, eða í þeim útgáfum.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Nýjustu færslur
- Hvernig ætti að vera hægt að bjarga bandarísku þjóðinni undan...
- Er Samfylkingin lengra til hægri en Sjálfstæðisflokkurinn? Rá...
- Áfengisdrykkja tengist sjálfstæði einstaklinganna, manndómsví...
- Þeir flokkar sem nú eru í ríkisstjórn verða að hjálpa landbún...
- Í þessari frétt endurspeglast elítuviðhorf wóksins og svo frj...
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.1.): 1
- Sl. sólarhring: 156
- Sl. viku: 701
- Frá upphafi: 133247
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 504
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég er að bíða eftir að fram komi einhver sem getur spilað tóna Íslenskra fjalla. Það hafa margir komið fram sem fæddust með hæfileikann til þess, en hafa (að mínu mati) allir klúðrað því.
Guðjón E. Hreinberg, 29.11.2022 kl. 12:04
Já. Þeir sem heyra tóna íslenzkra fjalla spila ekki endilega á hljóðfæri. Það væri þá einn af þúsund, tónskáld sem myndi gera hljóðkviðu úr þessum skynjunum. Auk þess erum við fjær náttúrulegum hljómi en áður í menningunni, dynurinn frá satanískum tónum virkar hljómvillandi, þannig að fólk endurtekur villuhljómana sem boða vinsældir í stað þess að leita til hreinnar uppsprettu.
Ef maður hlustar á góð tónverk eru þar ein og ein hending sem fara nálægt því. Jafnvel í dægurtónlist þar er eins og örli á þessu einstaka sinnum.
Ég hefði þurft að læra tónlist og tónfræði til að túlka þetta. Til að ná þessu hreinu þarf mikla fínstillingu og þjálfun.
Takk fyrir góða athugasemd.
Ingólfur Sigurðsson, 29.11.2022 kl. 17:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.