Ég var brautryðjandi í kynhlutlausu máli, Sonnetta eftir mig frá 1990 sýnir þetta.

Pælingar 19 ára ungmennis um kynhlutleysi máls eru sennilega ekkert einsdæmi. Býst ég við að fleiri en ég hafi gert svona máltilraunir annaðhvort meðvitaðar eða ómeðvitaðar, og sennilega er þetta til á prenti frá ýmsum tímum eftir ýmsa höfunda, að nota orðið "þau" en ekki "þeir", eins og rétt er, þar sem karlkynsmynd orðanna er frekar ráðandi en kvenkynsmynd þeirra eða hvorugkynsmynd þeirra samkvæmt íslenzkum málreglum, sem nú fyrst er farið að draga í efa hvað þetta varðar. Þetta kvæði hér fyrir neðan er þó 100% eftir mig.

Ég var 19 ára þegar ég orti þetta, á 20. ári, þann 7. janúar 1990. Ég var einfaldlega að leita að hentugum söngtexta til að syngja, því mig langaði að verða frægur poppari, og það hefur fylgt mér lengi.

Þegar Megas og Bubbi gáfu út hljómplötuna "Bláir draumar" árið 1988 fékk ég hana í jólagjöf, og mér fannst hún flott og finnst enn. Þar sungu þeir aðallega sínar eigin tónsmíðar og textasmíðar, en sonnettan fræga eftir Jónas Hallgrímsson og Inga T. Lárusson fékk að fylgja með:"Ég bið að heilsa".

Þannig að undir árslok 1988 fékk ég æði fyrir sonnettum og fór að æfa mig í þesskonar kveðskapargrein. Ég sýndi Ingvari frænda jafnvel vikulega afurðirnar og hann fór yfir þær, afabróðir minn. Hann var sérstakur kennari minn í íslenzku og fleiri fögum, en áhugi minn mismikill og ég lærði yfirleitt aldrei heima í skólanum.

Eftir um það bil ár sagði hann að ég væri búinn að ná miklum framförum og þótti honum þessi sonnetta hér fyrir neðan næstum fullkomin. Ekki vissi ég af því að Bubbi Morthens gaf út slíka sonnettu einnig sama ár, 1990, á plötunni "Sögur af landi", ekki fyrr en um jólin 1990 þegar ég hlustaði á plötuna hans. Mín kom ekki út fyrren 10 árum seinna, á plötunni "Blóm, friður og ást", árið 2000.

En ég man eftir því að ég reifst við hann Ingvar frænda minn svolítið út af þessu sem var sjaldgæft. Hann sagði mér að nota "þeir eigin krenkja auðnu helzt með því" og "svo eru þeir sem elska lífið nóg", og "þeir aldrei missa gæzku í hildargný", þar sem þannig væri verið að vísa í orðið halir. Þeir halirnir. Fyrir þá sem ekki vita það merkir orðið halur maður, og oft hefur þetta verið notað í merkingunni drengur, til dæmis í sálminum eftir Matthías Jochulmsson "Ó farið gjör mig lítið ljós"... "til verndar hverjum hal og drós sem hefur villzt af leið". Þarna er halur andheiti við drós, sem sagt drengur og stúlka.

En orðabókin gaf upp merkinguna maður, og þar sem aukamerkingin var frjáls maður heillaðist ég enn meira af orðinu og fannst þetta svo fallegt orð að ljóðið spratt upp úr því.

Þar með spurði ég frænda minn og fleiri hvort orðið gæti þýtt kona líka, og hann viðurkenndi það, en sagði hefðina síður hafa verið skapaða þannig, en það væri mögulegt að nota og túlka orðið þannig.

Maður merkir nefnilega mjög margt, konur eru líka menn eins og sagt er, nema það getur líka þýtt einungis karlmaður. Það sama á við um orðið halur, þótt það hafi miklu sjaldnar verið notað eins og ég nota það í þessu kvæði, sem samheiti yfir mannfólk í staðinn fyrir orð yfir drengi eða karlmenn eingöngu.

En þegar ég orti kvæðið fannst mér orðið halur gefa aukamerkingu, að fólk hefur frelsi til að velja en boðskapur og innihald verksins er þannig.

Síðan man ég að ég notaðu upphaflega "þeir" í staðinn fyrir "þau", þegar ég orti þetta notaði ég "þeir" en ekki "þau". Svo þegar ég las þetta yfir breytti ég "þeir" í "þau" því ég vildi að allir skildu að hér væri átt við bæði kynin.

Ég tel að þetta kvæði sé jafn gott og "Ég bið að heilsa" eftir Jónas Hallgrímsson. Vandinn er sá að kveðskaparlistin er á slíku undanhaldi að kvæði fá ekki slíka athygli og hrós sem þau fengu á öldum áður, því miður.

Í kveðskap má nota ýmis brögð, eins og að punktur merki rof í frásögninni, og í þögnum á milli erinda sé ósögð saga, eða þá að sagan sé sögð afturábak, eða engin saga sé sögð og allt sé ljóðræna.

Þannig að lesandinn verður að staldra við ef hann telur að kynhlutleysið sé truflandi þarna. Eru halirnir aðrir en þessi "þau" sem fjallað er um? Hluti af leyndardómi kvæðisins.

 

 

Hér sumir halir sjaldan finna ró,

og sóa jarðarlífi vonzku í.

Þau eigin krenkja auðnu helzt með því,

en einnig hinna lukku skaða þó.

 

Svo eru þau sem elska lífið nóg,

þau aldrei missa gæzku í hildargný,

en lina þrautir lakra æ og sí,

þótt launin séu aðeins sálarfró.

 

En gjörðir allar góðar borga sig;

að greiða flækjur, vísa rétta leið.

Á bjartri stjörnu er borgun allra vís.

 

Þá lyftumst við á lífsins hærra stig;

ef læknað höfum annars þraut og neyð.

Með gæzku einni gæfa okkar rís.

 

Þetta er fallegt ljóð og gefur öllu fólki sem starfar á spítölum sérstaka virðingu. Annars er ég þannig að ef ég verð ekki heimsfrægur eða landsfrægur strax fyrir það sem ég gef út fer ég í andstöðu við þann boðskap sem ég þar boða, því ég er ofurviðkvæmur.

Þessvegna hef ég mjög oft í lífinu verið mjög í andstöðu við þennan boðskap sem ég boðaði þarna. En það dregur ekkert úr því að þetta er snilldarkvæði, og verk sem stendur gjörsamlega sjálfstætt af eigin rammleik. Nema hver sem er fær hvorki hylli né auð fyrir störf sín. Sverrir Stormsker vitnaði í Stein Steinarr sem orti að fólki sé greitt í öfugu hlutfalli við verðleikana og störfin sem unnin eru.

Það eru félagsleg lögmál og slíkt sem ráða því hverjir verða frægir, ríkir og vinsælir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 77
  • Sl. viku: 659
  • Frá upphafi: 108415

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 524
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband