"Morris Zollar", eftir Bob Dylan frá 1972, túlkun.

Þetta ljóð kom ekki út á neinni plötu Dylans, en er úr bókinni "Writings and Drawings" sem kom út 1973 en var unnin að mestu leyti 1972. Það er mál manna og Dylanfræðinga sérstaklega að þetta hafi verið ort 1972, þegar Dylan gaf ekki út neina plötu, og því er þetta eitt af fáu sem eftir hann liggur frá því ári, en þó er þetta stórmerkilegt kvæði og miklu merkilegra en "Lay, Lady, Lay" sem er næstum því það eina sem hann samdi árið 1968, svo dæmi sé tekið frá öðru "þurrkatímabilsári", þegar hann gaf ekki út neina breiðskífu (nema John Wesley Harding, tekna upp árinu á undan, 1967) og hafði hægt um sig.

Ég hef sérlega gaman af þessum hljóðu tímabilum Dylans, og það á við um þau sem Dylan sagði að skáld þyrftu ekki að yrkja, skáldskapur getur verið í smíðum á áhöldum og umhverfinu sjálfu, ljóðrænni náttúru, ósögðum orðum, ómáluðum málverkum, því ósagða og ógerða.

 

Svona er textinn þýddur á íslenzku:

 

"Morris Zollar vill vita hver-her-her Barry Goldsmith er og hversu langt er í næsta húðflúrsþén (stofu), (hopp). Gott og vel, segðu Morris Zollar að hann fái ekkert "kartöfluhús" en ef hann vill einhverja pönnuköku (jamm)... en hvað er hann vill pönnuköku? Gott og vel, svo segðu Morris Zollar að öllu sé lokað og skeinurnar séu orðnar óhóflegar. (Hvað?) Múr, múr, sérðu hversu lítil öll veröldin er orðin þegar allt þetta hefur verið sagt og gert? Þetta er gjörsamlega rökrétt, Morris".

 

Fyrir það fyrsta eru nöfnin áhugaverð í þessum texta og gefa margt upp um merkinguna, þau eru ekki valin af handahófi, heldur eru þau einna merkingaþrungnust af öllu sem í textanum er. Barry Goldsmith er sennilega gyðinganafn, hugsanlega einnig nafnið Morris Zollar. Zollar er þó kannski merkingaþrungnasta nafnið, Z er stafur sem stendur fyrir t, og skyldleikinn við toll, sem getur verið tollur, gjald eða fórn, eða klukknahringing, er mikill. Morris Tollari er því sennileg íslenzkun á nafni Morris Zoller.

 

Ef við berum þetta verk saman við "Lay, Lady, Lay" frá 1968 kemur í ljós að hér er á ferðinni miklu dularfyllra verk og torræðara, skáldlegra, merkilegra. Þessi ár eru sambærileg í lífi Dylans, 1968 og 1972, því talið er að hann hafi samið lítið bæði árin. Verkin sem hann samdi 1968 voru þó öll ljúf, en þetta er ekki ljúft. 1972 hefur því verið miklu merkilegra skáldskaparár hjá Bob Dylan en 1968, samkvæmt þessu.

 

Þetta minnir jafnvel á hrikaleg prósaljóð Arthurs Rimbauds, sem voru full af torræðum vísunum og nýstárlegu ljóðmáli.

 

Bob Dylan hefur alltaf verið andvígur húðflúrum og það má merkja af lögum hans þar sem þau koma fyrir. Gates of Eden ætti að heita Gates of Hell, því þar er Edengarðinum lýst sem hálfgerðu víti, og í slíkri lýsingu koma fyrir segl á skipi með húðflúr, eins og það er orðað þar. Í laginu "Shot Of Love" frá 1981 af samnefndri plötu er þetta þó skýrast fram, þar sem hann leggur að jöfnu að húðflúra börn og að nauðga konu og drepa föður.

 

Sem sagt allar lýsingarnar eru mjög skuggalegar í þessu ljóði, Dalur Zollar, sem er nafnið sem ég nota, en það er ónefnt í bókinni Writings And Drawings, og oftast er það nefnt "Morris Zollar", eftir fyrstu orðunum, nafni mannsins.

 

Þegar maður kafar dýpra og dýpra ofaní ljóðið verður manni ljóst að skuggalegri geta lýsingarnar varla orðið, þrátt fyrir hversdagslegt orðalag, en Bob Dylan er meistari í þessu, ógnvekjandi undirtónum, eins og í laginu "Moonlight" frá 2001, sem er rómantískt á yfirborðinu, en er morðballaða að öllum líkindum, sé kafað undir yfirborðið. Snilldarlegt hjá meistaranum.

 

Allt þetta ljóð er fullt af enskum slanguryrðum með sjaldgæfar merkingar og hálfkveðnum vísum. Aðeins góð skáld eins og Bob Dylan hafa slíkt á sínu færi.

 

Árið 1972 tengdust húðflúr glæpamönnum, vændiskonum og sjómönnum fyrst og fremst. Það er ein fyrsta vísbendingin um að þetta ljóð fjalli um skuggahliðar tilverunnar. Síðan eru það vísanirnar í bankaheiminn, og spillingu yfirstéttanna. Þarna er verið að yrkja um ríka menn sem eyða tíma sínum í glæpi og vændiskonur að öllum líkindum.

 

Vert er að minnast þess að djöfullinn Bafómet, sem tengdur er við Múhameð spámann, og hefur af ýmsum verið kallaður Satan sjálfur, en hefur aftur komið upp í umræðunni í seinni tíð út af útspilum kirkjunnar, kvennakirkjunnar sérstaklega, var í hugum fólks tengdur húðflúrum, enda á annan handlegg hans ritað "leysa upp" og á hinn ritað "staðfesta". Þaðan kemur þetta, en útí það verður ekki farið meira að sinni. Ég er ekki viss um að margir myndu skilja það eða meðtaka hvort sem er.

 

Orðið "nick" sem kemur fyrir í textanum gegnir lykilhlutverki. Það getur þýtt: Skora, skarð, smásár, skeina, tugthús, sekt, of hátt verð, svindlverð, okurverð, prangaraverð, handtaka, rán.

 

Í textanum stendur "The nicks are over the limit". Það mætti þýða sem svo:"Handtökurnar eru orðnar óhóflegar".

 

Sem sagt, í þessu ljóði er verið að lýsa annaðhvort sölu á vændi eða eiturlyfjum eða einhverju slíku. Leyniorð eru notuð eins og "kartöfluhús", "pönnukökur" og slíkt.

 

Þá er bara eftir að ráða í rúnirnar og fá merkingu í þetta sem passar og gæti staðizt.

 

"Múr, múr, sérðu hvað veröldin er lítil orðin" er setning sem á annaðhvort að vera sögð úr tugthúsi eða sem lýsing á þröngsýni fólks.

Staðir þar sem fólk var húðflúrað hér áður fyrr voru mjög oft staðir þar sem vændi, dóp eða vopn voru til sölu, eða algjör neðanjarðarstarfsemi af því taginu. Allt líkingamálið í þessu ljóði verður því að nálgast á þennan hátt ætli maður að fá skynsamlega merkingu í verkið.

 

"Gullsmiður" (Goldsmith) er svo engin tilviljum, að þetta eftirnafn er notað. Annað hvort er þarna lýsing á bankastjóra eða slíkum auðmanni sem hefur auðgazt á "löglegan" hátt umfram það sem aðrir eru færir um, eða þá að hér er um að ræða smákrimma eða eitthvað í þá áttina.

 

Hvað merkir þá orðið kartöfluhús, "potato house", annað en kartöflugeymsla?, en slíkar geymslur voru algengar áður. Augljóst er að ekki er hægt að selja slíkar geymslur því þær voru áfastar húsunum jafnan, og hér er ekki verið að tala um að selja hús, sýnist mér.

 

Ég hef leitað að slangurmerkingum og fundið nokkrar sjaldgæfar merkingar. Það lítur út fyrir að þetta merki pútnahús eða hóruhús í þessu samhengi, að konunum sé þar líkt við kartöflur, af einhverri ástæðu.

 

Um leið og þessi merking er komin verður það ljóst að þetta eru ríkir menn að tala saman, því mikla peninga þarf til að kaupa slíka starfsemi.

 

Pönnukaka í þessari merkingu mun vera grannvaxin kona með lítil brjóst, eða sú merking er gefin upp á netinu sem slangurmerking fyrir "pancake" að minnsta kosti, og passar fyrir samhengið í ljóðinu almennt, svo út frá þessu verður gengið.

 

Af öllu þessu er samhengið orðið ljóst og um hvað ljóðið fjallar.

 

Hins vegar les ég dýpri merkingu út úr þessu merkilega ljóði eftir Bob Dylan. Mér virðist hann vera að yrkja um bankakerfið í heild og hversu hætt því er við hruni vegna áhættufjármögnunar skyldri þeirri sem olli kreppunni 2008, til dæmis.

 

Þessi tengsl á milli nafna sem minna á bankastarfsemi og svo brasks og vafasamra fjármálagjörninga lýsa öll gríðarlegri spillingu, sem nær út fyrir fjármálakerfin, og nær inní öll svið þjóðfélagsins, sennilega.

 

Þetta ljóð er því byggt á sýnum og skynjunum sem Bob Dylan hefur fengið, eins og ég, um framtíðina og ýmislegt sem hefur átt sér stað eftir 1972 og á eftir að gerast enn. Ljóðið fjallar um helstefnuna, sem sífellt verður verri.

 

Nafnið Morris Zollar gefur það einnig í skyn að verið sé að láta venjulegt fólk borga of mikið fyrir eitthvað sem er einskisnýtt, þegar allt samhengi ljóðsins er skoðað, og merkingu orðsins Zollar, sem getur verið tollheimtumaður, svipaður faríseum þeim sem lýst er í Biblíunni, og þar með er þetta orðið mjög siðrænt ljóð, þegar vel er að gætt. Nöfnin eru svo vandlega valin að þau eru mjög merkingarþrungin og eru einna merkingarþrungnust af öllu í ljóðinu. Slíkt er snilldarlegt.

 

Þetta ljóð er því lýsing á heimi sem spilltzt hefur og fallið til glötunar, mannkyn sem tignar Satan fyrst og fremst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 45
  • Sl. sólarhring: 119
  • Sl. viku: 704
  • Frá upphafi: 107166

Annað

  • Innlit í dag: 28
  • Innlit sl. viku: 532
  • Gestir í dag: 28
  • IP-tölur í dag: 26

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband