Þá er komið að því að túlka og fara yfir þriðja erindi kvæðisins eða söngtextans "Þú verður að þjóna einhverjum" eftir Bob Dylan frá 1979 af plötunni "Slow Train Coming". Sú plata er ekkert meistarastykki, en hún er vel hljóðblönduð og er fagnaðarefni fyrir þá aðdáendur Dylans sem eru kristinnar trúar að minnsta kosti, og suma fleiri, sem kunna að meta létt gospel, eða þennan gamalreynda poppara reyna sig í óvanalegri tónlist fyrir hann, gospelinu.
Eins og fram hefur komið í umfjöllun um önnur erindi er þessi texti eins og aðrir á plötunni taldir með því versta sem Dylan hefur látið frá sér fara. Þessi verk sýna sem sagt ekki tök hans á skáldamálinu eins og oft áður, en eru blátt áfram og einföld, barnalega einföld.
Svona er þýðingin yfir á óbundna íslenzku:
"Þú mátt vera riddaraliði ríkisins, þú mátt vera ungur Tyrki. Þú mátt vera yfirmaður einhverrar stórrar sjónvarpsstöðvar. Þú mátt vera ríkur eða fátækur, þú mátt vera blindur eða lamaður. Þú mátt lifa í öðru landi undir öðru nafni, en þú verður að þjóna einhverjum. Já það verður þú að gera, þú verður að þjóna einhverjum. Jæja, það má vera Djöfullinn eða það má vera Drottinn en þú verður að þjóna einhverjum".
Enn sem fyrr er hér ekkert um skáldleg tilþrif heldur venjulegt götumál. Allt auðskiljanlegt, einfalt.
Samt má velta upp ýmsum hliðum í svona ljóðaumfjöllun.
Af hverju minnist hann fyrst á riddaraliða ríkisins? Er það til þess að leggja áherzlu á að herinn sé einnig háður yfirjarðlegu valdi annars hnattar, Guði eða Djöflinum eða öðrum? Kannski. Erfitt að segja, kannski eitthvað sem honum fannst hæfa þarna án mikillar pælingar eða ígrundunar.
Næst kemur lýsandi setning miðað við mann kristinnar trúar. Þegar hann minnist á "ungan Tyrkja" er það engin tilviljun, miðað við deilurnar á milli múslima og kristinna manna sem eiga sér langa sögu. Hann er sem sagt að segja að í öllum trúarbrögðum séu þessi átök á milli misgóðra afla.
Síðan minnist hann á að hlustandinn megi vera yfirmaður stórrar sjónvarpsstöðvar. Hvers vegna kemur þessi upptalning á starfsheiti þarna næst?
Ja, kannski vegna þess að þetta var eitthvað umrætt á þessum tíma, fyrir tíma alnetsins, þá var áhorfið á sjónvarp mikið og þessir sjónvarpsstjórar drottnarar yfir stórum hluta frítíma fólks og fengu af því ágætar tekjur oft. Enn leggur Dylan áherzlu á það með þessari löngu upptalningu á starfsheitum að trúmálin komi öllum við, að ekkert sé trúmálunum óviðkomandi, að þau smjúgi inn í öll svið mannlífsins og jarðlífsins.
Næst kemur upptalning á ríkum og fátækum, mjög almennt orðað. Já, hér er aðeins verið að lýsa kjörum fólks, og næst er sagt að hvort sem hlustandinn sé blindur eða lamaður þurfi hann samt að velja á milli Guðs eða Djöfulsins. Já, rétt er að um blinda og lamaða er fjallað í Biblíunni, þannig að þetta fer nálægt því að vera Biblíutilvitnun, en samt er þetta ekki alveg Biblíutilvitnun því þetta er of almennt orðað til þess, myndi maður halda.
Síðan er sagt að jafnvel þótt hlustandinn búi í öðru landi undir dulnefni þurfi hann samt að trúa á annaðhvort Guð eða Djöfulinn, sumir myndu segja að valið standi um fleiri kosti, eins og John Lennon, sem bjó til svarsöng áður en hann var drepinn þess efnis að allir yrðu að þjóna sjálfum sér. Snjallt hjá honum og rétt. Sumir segja að þar sé vinstristefnunni rétt lýst og húmanismanum, en um það má deila.
Loks kemur viðlagið sem allir þekkja, þar sem þetta er endurtekið aftur og aftur.
Segir þetta erindi nokkuð umfram það sem hin gera? Nei, eiginlega ekki. Þetta er sami boðskapurinn aftur og aftur í örlítið breyttum myndum, nokkurnveginn alltaf nákvæmlega það sama.
Ég er helzt kominn á þá skoðun að Bob Dylan hafi samið þetta lag og þennan texta gagngert fyrir þessa plötu, til að kjarna grunngildi hins kristna öfgamanns myndu sumir segja, en þannig var boðskapur "Vineyard Fellowship", sértrúarsafnaðarins sem Bob Dylan fór í skóla hjá þegar hann var að taka kristna trú og henda gyðingdómnum tímabundið.
Það lítur út fyrir að hann hafi verið að útskýra einföldustu atriðin fyrir þeim aðdáendum sínum sem hann taldi minnst vita um kristna trú almennt. Eða, það er hægt að túlka þetta þannig að minnsta kosti. Af hverju var hann annars að semja svona sáraeinfalt lag og svona sáraeinfaldan texta sem margir kalla klisjukenndan úr hófi fram?
Ekki ósvipað var það árið 1964 þegar Bob Dylan hætti að búa til vinstrisinnaða mótmælasöngva um mannréttindi og fór að búa til eintóm ástarlög, á plötunni "Another Side of Bob Dylan", sem myndi útleggjast:"Önnur hlið á Bob Dylan". Fyrsta lagið á þeirri plötu heitir:"All I Really Wanna Do". (Is Baby Be Friends With You). (Allt sem ég vil í rauninni er að vingast við þig elskan).
Þar notaði hann fyrsta lagið á plötunni sem inngang fyrir hin lögin. Þannig er þetta fyrsta lag plötunnar "Slow Train Coming", það setur stemmninguna fyrir hin rammlega kristnu lögin, undirbýr hlustendur annarra trúarbragða eða efasemdarfólk.
Margt á plötunni "Slow Train Coming" hljómar eins og Dylan setji sig í stellingar, að trúarvissa hans sé frekar tilraun til að losna útúr dópheiminum og inní friðsælla líferni en algjör trúarvissa, nema í nokkrum lögum kannski. Þetta lag virðist ekki fullt af trúarvissu, þessi vélræna upptalning. Svo er merkilegt með önnur lög plötunnar, þar blandar hann saman ást til jarðneskra kvenna og trúnni á Jesúm Krist eða guð Biblíunnar, að því er virðist, eins og í "Precious Angel", til dæmis og "I Believe In You".
Í síðasta laginu virðist þó ósvikin og hrein trúarvissa, í laginu "When He Returns", (Þegar hann (Jesús Kristur) kemur aftur). Það er eitt helzta trúarstefið hjá mörgum sértrúarsöfnuðum að minnsta kosti.
Mér finnst áhugavert að setja svona plötu í rétt samhengi og fjalla almennt um hana og stöðu hennar.
Um þetta erindi er erfitt að fjalla meira. Eins og ég hef sagt um önnur erindi, það býður ekki uppá mikla túlkun, þetta er á svo gríðarlega almennu talmáli og óþvinguðu, hversdagslegu máli, og varla neitt hægt að túlka nema á einn og sama háttinn, sem þessi boðskapur að fólk verði að vera trúað eða sé alltaf trúað hvort sem það viðurkenni það eða ekki opinberlega, að trúin fylgi öllum, sé órjúfanlegur þáttur mannlífsins, að trúleysi sé líka trú, eins og vel má túlka innhald textans líka.
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.1.): 45
- Sl. sólarhring: 78
- Sl. viku: 892
- Frá upphafi: 131713
Annað
- Innlit í dag: 40
- Innlit sl. viku: 716
- Gestir í dag: 36
- IP-tölur í dag: 36
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.