Vertu sælt verðleikasamfélag eftir Bob Dylan, túlkun á sjöunda erindinu.

Þessi umfjöllun mín er nú orðin býsna ýtarleg, enda hafa verk Dylans verið háskólaverkefni um víða veröld síðan hann varð frægur.

 

Hér mun ég túlka og fara yfir sjöunda og síðasta erindi kvæðisins, og hvað það kann að merkja, að öllum líkindum.

 

Þeir sem hafa lesið umfjöllun mína um fyrri erindi vita að þetta er mjög torrætt kvæði, ort á djúpu ljóðmáli líkinga og ljóðmynda, gnægð þeirra er yfirþyrmandi. Það eitt og sér sýnir snilld Bob Dylans, þótt ekki komi fleira til, eins og tónlistarhæfileikar. Margir hafa reynt að túlka kvæði hans og finna merkingu í þeim, og eru þau toguð í ýmsar áttir til þess. Hef ég reynt að rökstyðja þessa túlkun mína á þessu kvæði, og hef ég séð suma aðra á ensku fjalla um kvæðið nokkuð svipað, fara í þessa átt.

 

Finnst mér flest rök hníga til þess að Dylan sé að fjalla um brotthvarf sitt úr vinstrikreðsum og mannúðarkreðslum þess tíma sem hann gerði "Blowing In The Wind" og svipuð mannréttindalög í upphafi ferilsins, 1962 - 1963, jafnvel eitthvað 1964.

 

Einnig er hann að fjalla um þær róttæku og gagngeru breytingar sem verða á samfélögum þegar feðraveldið víkur fyrir jafnaðarstefnu, fjölmenningu og femínisma. Þeim breytingum er lýst sem heimsendi og gjöreyðileggingu, ef menn eru sammála þessum túlkunum, að minnsta kosti, sem ekki er sjálfgefið, en augljóst er að svona er vel hægt að túlka boðskapinn, boðskap þessa mikla skálds, sem vissi vel hvað var að gerast í kringum hann í samfélaginu á þessum tíma, svo hví skyldi hann ekki hafa fjallað um það með þessum hætti?

 

Þýðingin á sjöunda erindinu yfir á óbundna íslenzku er svona:

 

"Vélbyssurnar eru geltandi, (strengja)brúðurnar lyfta (eða varpa) björgum. Óvinirnir (djöflarnir, púkarnir, fíklarnir) negla tímasprengjur á vísa klukknanna. Kallaðu mig hvað sem þig lystir, ég mun aldrei afneita þeim nafngiftum, en vertu sæl Angelína, það gýs úr himninum og verð að fara þangað sem er hljóðlegt".

 

Þetta eru sterk orð og kröftugar lýsingar. Sumt af þessu eru náttúrulýsingar Vítis eða svipaðra staða, þar sem hrikalegar náttúruhamfarir verða, eins og til dæmis á okkar jörð. Lýsingarnar eru svo sundurlausar að ekki er hægt að taka þær bókstaflega sem lýsingu á einum stað, eða tæplega. Ljóst er að þetta er ljóðmál og líkingamál eins og annars staðar í kvæðinu.

 

Fyrsta spurningin sem verður fyrir okkur við túlkun á þessu erindi er, hvað eru vélbyssurnar, hvað merkja þær og hvað standa þær fyrir? Er hægt að taka orðið bókstaflega eða er það feluorð yfir eitthvað annað?

 

Vélbyssurnar eru ekki vélbyssur í venjulegum skilningi, alls ekki. Vélbyssurnar eru aðferðirnar sem eru notaðar til að útrýma mannkyninu á okkar tímum, mannúð, velmegun, leti, mannréttindi, jöfnuður, femínismi, þroskaleysi, ofdekur, agaleysi, upplausn, húmanismi, (sú sataníska stefna að setja manninn í öndvegi óháð öllu öðru, kallað mannhyggja á íslenzku yfirleitt), kapítalismi, kommúnismi, allt þetta sem er notað til að leggja náttúruna í rúst, sköpunarverkið og manninn, jörðina.

 

Vélbyssurnar eru sem sagt þetta sem er áberandi og vinsælt og veldur skaða, ekki aðeins eyðileggingu heldur gjöreyðileggingu. Hér er um að ræða viðurkennd fyrirbæri en ekki hötuð, eitthvað sem 99% allra berjast ekki gegn, þótt misjafnir hópar berjist gegn einhverjum fyrirbærum innan heildarinnar sem upp var nefnd, og flokkast undir þessar vélbyssur, eða það sem þær standa fyrir.

 

"Strengjabrúðurnar henda björgum" kemur næst. Væri þessi setning tekin bókstaflega stæðist hún engin rök, því strengjabrúður eru bókstaflega í hefðbundinni merkingu tuskudúkkur í barnaleikritum eða fullorðinnaleikritum sem eru mjög léttar og eru sízt færar um líkamleg þrekvirki.

 

Þetta er því ekki aðeins vísbending heldur sönnun þess að allt kvæðið er ort á dulmáli og þarf að túlka það eins og ég geri í þessari pistlaröð minni um það.

 

Strengjabrúða er orð sem hefur aðra viðurkennda merkingu, það er að segja manneskja sem hlýðir öðrum, ósjálfstæð manneskja sem hefur lítinn eða engan sjálfstæðan vilja, tízkuþræll eða tízkuambátt eða eitthvað slíkt.

 

Orðið er í fleirtölu og því er augljóslega verið að fjalla um alla þá sem taka þátt í samfélagsins hryðjuverkum gegn náttúrunni og feðraveldinu, þessu sem Guð hefur skapað, sköpunarverkinu. Einnig má telja að orðið vísi til 99% alls mannkynsins, syndarana, eða forhertu syndarana er réttara að orða þetta. Við erum nefnilega öll syndarar, en verst er með forhertu syndarana, sem vita um sannleikann, hlusta og sjá og skilja hvað er rangt, en hafa ekki kjark til að berjast gegn spillingunni, eða láta mútast eða eitthvað slíkt. Enginn er fullkominn, en munurinn er hvort maður reyni eða reyni ekki að berjast gegn syndinni og samsærisöflum í samfélaginu.

 

Guðjón E. Hreinberg hefur skrifað ágæta pistla um þetta efni og endurtekið þema hjá honum sem ég tel að sé alveg rétt túlkun hjá honum er að menningin sé hrunin, og siðmenningin í frjálsu falli. Hann skilur þetta og fjallar rétt um þetta, en mjög margir aðrir vita þetta einnig en þora ekki að tjá sig af ótta við að vera álitnir sérvitringar eða eitthvað svoleiðis.

 

Ég vil einnig staldra lengur við orðalagið að "lyfta björgum" eða "varpa björgum" (heave á ensku getur þýtt hvort tveggja).

 

Hér er greinilega átt við það sem tröll voru talin fær um í fornsögunum, kraftaverk, að vinna gegn lögmálum náttúrunnar. Er hér bæði átt við að nota gröfur og aðrar stórvirkar vinnuvélar til að mölva hús eða kletta, eða færa eitthvað þungt úr stað, en einnig um erfðafræðilegar breytingar á mönnum, jurtum og dýrum, og annað sem tilheyrir tækni og vísindum, sem áður var aðeins talið tilheyra mætti guða og djöfla.

 

Einnig skulum við skoða þversögnina í þessu orðalagi. Stengjabrúður eru máttlausar í eðli sínu, og þær hlýða. Að þær skuli hlýða Satan en ekki Guði er önnur þversögn, strengjabrúðurnar eru húmanistar, femínistar, vinstrisinnar og jafnaðarmenn, flokkaðar á pólitísku litrófi nútímans.

 

Hvaðan kemur þeirra mikli máttur? Frá Satan, ekki frá Guði, eða frá vísindum og tækni, öllu þessu sem táknað var með syndafallinu, þegar Adam og Eva bitu af ávexti Skilningstrés góðs og ills, og "urðu eins og Guð", en urðu dauðleg sannlega, þau og þeirra afkvæmi urðu ekki eldri en 100 ára í mesta lagi eftir nokkrar kynslóðir.

 

Næst kemur "óvinirnir negla tímasprengjur á vísa klukknanna".

 

Orðið "fiend" á ensku er norræna orðinn fíandi, eða fjandi á íslenzku. Það getur einnig merkt púka eða djöfla, eða fíkniefnaneytanda. Orðið hefur því mjög andlega merkingu, vilji maður túlka það þannig, og er vísbending í kvæðinu og merkingu þess.

 

Það er nákvæmlega þetta sem hefur verið að gerast síðustu áratugina eftir að kvenréttindi og mannréttindi hafa gegnsýrt okkar vestrænu samfélög í síauknum mæli. Tíminn hefur verið óvinur okkar, og ósýnilegar hættur birzt í tímans rás, eyðileggingaröfl og sundrunaröfl, hatursöfl, sem kölluð eru mannréttindi, framfarir, kvenréttindi, jafnrétti, góðmennska, og hitt er kallað hatur sem er íhaldssamt en hefur samt virkað og gengið upp í gegnum aldirnar.

 

Varla er betur hægt að lýsa lúmskum aðferðum Satans, því orð eins og mannréttindi, húmanismi og annað slíkt hljómar vel, eins og eitthvað sem nauðsynlegt sé að sækjast eftir og berjast fyrir. Með tímanum verða þessi fyrirbæri þó tímasprengjur sem valda engu nema eyðileggingu. Snilldarleg orðanotkun og lýsing í kvæðinu hjá Bob Dylans, eins og svo oft áður.

 

Metoobyltingin er sú tímasprengja sem var undanfari Covid-19 tímasprengjunnar, og rökréttur undanfari. Þannig kemur þetta í keðju heimskunnar og eyðileggingarstarfseminnar, helstefnunnar. Finna má tugi ef ekki hundruði annarra tímasprengja fyrr á öldum og áratugum, hvernig eyðileggingarstarfsemin hefur lengi átt sér stað undir öfugum formerkjum, að sjálfsögðu, eins og Satan vinnur alltaf.

 

Næst í kvæðinu kemur: "Kallaðu mig hvað sem þig lystir, ég mun aldrei afneita þeim nafngiftum".

 

Enskumælandi túlkandi taldi að kvæðið fjallaði um hermennsku og ókosti hennar. Sá túlkandi sagði að hér væri hermaðurinn að segja við unnustu sína að hann viðurkenndi að vera drápari, stríðsmaður, á erlendri grund, og að hann iðraðist gjörða sinna, og að hafa farið í herinn.

 

Þessi túlkun er ekki alröng eða úr lausu lofti gripin, en þó ekki nákvæmlega rétt, eins og ég vil túlka kvæðið.

 

Öllu heldur ætti að segja að hér sé húmanistinn og jafnaðarmaðurinn að viðurkenna að vera á valdi Satans, og hér er hann að viðurkenna þá eyðileggingu sem fylgir í kjölfar femínismans og jafnaðarstefnunnar.

 

Að lokum kveður hann "Englalínu" í síðasta sinn, sem gæti verið kirkjan, trúin, eða tákn fyrir eitthvað sem hann virðir og elskar í raun, ekki þetta syndum spillta samfélag sem hann neyðist til að taka þátt í og hlýða, til að vera eins og hinir.

 

Hann segir að himininn "gjósi" og að hann verði að fara á hljóðlátan stað.

 

Það gos er tákn um reiði Guðs, og sannleikann sem frá honum spýtist, iðrun sköpunarverksins yfir falli sínu. Hinn hljóðláti staður kann að vera limbóið eða hreinsunareldurinn, forgarður Helvítis, í kaþólskum fræðum.

 

Þannig er rétt að túlka þessar lokalínur kvæðisins. Í kjölfar ömurlegs lífernis, mistaka og synda er komið að sjálfskoðun og endurnýjun fyrri gilda, afturhvarfs til náttúrunnar, einfaldara lífs, hreinni trúar og trúarbragða.

 

Í hljóðlátum kringumstæðum fer þetta afturhvarf fram, þegar tími gefst til iðrunar, kannski í þessari innilokun sem heimsbyggðin hefur nú þurft að þola lengi og kvartað mikið undan.

 

Þetta er mikið kvæði og stórt, stórkostlegt, hvort sem maður er kristinnar trúar eða ekki, því boðskapur þess er sameiginlegur með eiginlega öllum þróuðum trúarbrögðum, siðfræðilegur boðskapur, og eitthvað slíkt.

 

Ég býst við að ég haldi áfram að fjalla um kvæði Bob Dylans, en fá þeirra eru svona safarík og innihaldsrík, því miður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Ingólfur Sigurðsson

Höfundur

Ingólfur Sigurðsson
Ingólfur Sigurðsson

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 32
  • Sl. viku: 481
  • Frá upphafi: 106464

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 344
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Leita í fréttum mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband