Færsluflokkur: Bloggar
18.6.2025 | 01:43
Halla forseti fellur mér vel í geð miðað við þjóðlega en hófstillta ræðu hennar í gær
Margt hefur maður nú heyrt og lesið neikvætt um Höllu forseta, eins og að hún sé kapítalisti og WEF sendiboði (World Economic Forum). Mér er svo sem sama um það og ræðan sem hún flutti í gær fannst mér betri en ræður margra annarra forseta.
Það skal ég útskýra svona:
Ég skal upplýsa það að ég kunni aldrei mjög vel við Vigdísi Finnbogadóttir, fyrsta kvenforseta okkar og einn frægasta kvenforseta heims. Mér fannst hún uppskrúfuð, snobbuð og stíf, svo formföst að það var óþægilegt að hlusta á hana.
Ég man ekki mikið eftir Kristjáni Eldjárn, og hafði engar skoðanir á honum því ég held ég hafi varla haft skoðanir á pólitík þá, ég var svo ungur þegar hann hætti.
Það sem litaði skoðanir mínar á Kristjáni Eldjárn og Vigdísi forseta var það sem amma sagði, Sigga amma, Sigríður Tómasdóttir. Ég man bara að hún hrósaði Kristjáni mikið og sérstaklega þó eftir að Vigdís var kosin. Ég fann andúðina á Vigdísi forseta frá fólkinu sem ég ólst upp hjá, því hún er kona og þótti til vinstri, en það þótti sjálfsagt á mínu æskuheimili að Albert Guðmundsson yrði forseti eða Guðlaugur, en allra sízt kona, það þótti bara ekki hæfa, og enn verra var að hún var einhleyp og vinstrisinnuð. Þetta hafði vissulega mótandi áhrif á mínar skoðanir.
En mig rámar í ræðurnar hans Kristjáns, og þær voru hlutlausar eins og ræðan hennar Höllu var í gær, ef ég man þetta rétt. Hann talaði um náttúruna, sjálfstæðið og þjóðleg gildi, hefðirnar og trúna. Þessvegna minnti hún mig á Kristján sem mér fannst gott og mikill kostur.
Þá kem ég að þeim forsetum sem flestir muna eftir ennþá og voru á undan Höllu, það er að segja Ólafur Ragnar og Guðni.
Guðni er ágætisnáungi, en ég þoldi ekki hvernig hann tönnlaðist á því í ræðum að hér væri allt fullt af rasistum og óþolandi fólki, þegar það var alls ekki vandamál. Mér fannst hann leggja þennan hluta þjóðarinnar í einelti sem hefur sterkari þjóðerniskennd en aðrir og tjáir hana.
Halla forseti hefur því miður stundum minnt á Guðna með þetta, en í gær fannst mér ræðan hennar fullkomlega laus við þetta rugl, hún var almenn, hún talaði um kærleika og þjóðleg gildi eins og forsetar eiga að gera, og Halla forseti lagði engan þjóðfélagshóp í einelti, hvorki útlendinga né (sanna eða ímyndaða) rasista né aðra.
Að lokum á ég eftir að bera Ólaf Ragnar Grímsson saman við Höllu forseta. Auðvitað er Ólafur Ragnar Grímsson stórveldi í íslenzkri pólitík og það er ekkert einfalt að fjalla um hann. Hann hefur átt mörg skeið og mörg andlit rétt eins og Bob Dylan eða Bubbi Morthens og Megas.
En mér fannst það fyndið hvernig hann mærði útrásarvíkingana um 2007, því mér fannst það fyndið að hann sem vinstrimaður var þá ekki hrifinn af kapítalisma.
Annars var Ólafur Ragnar kannski okkar bezti forseti, þegar hann hjálpaði til við sjálfstæðið og baráttuna við óréttláta Icesafesamninga og slíkan ömurleika.
En ræðurnar hans voru held ég misjafnaðar að gæðum. Þær voru oft staðlaðar, oft útblásnar af þjóðrembingi, stundum með vinstristefnuívafi, en oftast bara mjög góðar.
Halla forseti er venjuleg og alþýðleg. Það finnst mér mjög skemmtilegur kostur við hana.
Aðeins Ástþór Magnússon hefði verið betri forseti, nú á þessum stríðstímum, þegar hans boðskapur er brýnni en nokkrusinni fyrr.
![]() |
Katrín Halldóra er fjallkonan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2025 | 16:33
Umbúðir og innihald
Að þessu sinni tek ég ekki þátt í neinum hátíðahöldum valdaræningja. Íslands hrun hefur verið lengi að eiga sér stað og birtist bezt í þeim skorti á uppeldi sem börn hafa fengið, skorti á aga, sérstaklega reglum feðraveldisins.
Kvennakirkjan reis til sigurs með samstöðu kvenna sem hafði þróazt vegna samstillingar þeirra sem er þeim meðfædd, eða áunnin í gegnum alda og aldatuga kúgun. Sigur karlaveldisins verður því aðeins tryggður að nýju með samstöðu karla sem byrjar í þögn inni á heimilunum og blómstrar svo opinberlega í æðstu stöðum eins og vera ber.
Það er fyrir löngu búið að eyðileggja 17. júní og gera innihaldslausan, umbúðirnar einar og ekkert innihald. Í staðinn er Satan fagnað í öllum hans myndum eins og við vitum.
Maður á ekki að taka þátt í því sem er skrumskælt. Það er hægt að láta eins og það sé ekki til, eins og það sé loftið tómt, sem það auðvitað er.
En beztu og stærstu sigrana vinnur maður með kærleika og með því að fyrirgefa óvinunum eins og Kristur sagði.
Bandaríkin sem eru svo oft á undan, þau hafa sýnt með Trump stjórninni að maðurinn rís upp eftir að hafa verið barinn með Metoo, femínisma og wók-barefli.
Næsta skref er að Vesturlönd klofni endanlega, segi sig úr ýmsum samtökum, gangi í BRICS, eða eitthvað álíka.
Þannig verða skörp skil.
![]() |
Veröldin er svo sannarlega ekki fullkomin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimildin segir frá því að fjölgun Covid-19 smita fari fjölgandi og minni á fyrri bylgju. PCR prófin leiða þetta í ljós.
Bent hefur verið á að þetta staðfestir enn að bóluefnin gerðu ekkert gagn, fyrst þessar bylgjur Covid-19 smita halda áfram.
Ég missti vini á Fésbókinni þegar ég fór að eignast bóluefna-andstæðinga-vini hér og tjá mig um þetta. Það fannst mér hart og óréttlátt. Ég er einfaldlega þannig að ég tek sjálfstæðar ákvarðanir og hneigist að samsæriskenningum. Hjarðhegðun er mér lítt að skapi.
Kúgun ríkir í þessu þjóðfélagi fyrst fólk hræðist valdið.
Mafíur eru margar á Íslandi og þær tengjast erlendum mafíum. Vil ég minnast á menningarmafíuna, skólamafíurnar, og allskyns snobbstéttamafíur.
Er það skrýtið að þjóðin sé klofnari eftir allt þetta? Og heimsbyggðin öll líka?
![]() |
Tvöföldun á Covid-19 greiningum milli vikna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2025 | 00:29
Hells Bells, það eru kirkjuklukkurnar í nútímanum
Ég las um það í DV að kvenprestur einn í Svíþjóð vildi taka niður krossa til að þóknast múslimum.
Vesturlönd eru 100% úrkynjuð. Þór stendur á bakvið þessa aðgerð. Við erum tröllabeita. Fólk fer til Helvítis og til sífellt verri víta, og til þess er þetta að gerast, því að lokum deyr út sjálfur lífsviljinn í framlífinu og fræði dr. Helga Pjeturss hætta að virka, þegar lífsviljinn þurrkast endanlega út, fólk vaknar í myrkri og eignast ekki börn.
Hversvegna hætta konur á Íslandi að vilja eignast börn?
Sjálfsfyrirlitning þeirra er orðin 100%. Sálirnar dauðar, allt lagt í rúst og Háskólarnir taka þátt í því, félagsfræðin, skólarnir.
Annars nenni ég ekki að ræða þetta lengur. Ég vildi bjarga heiminum, en gafst upp á því, ég fæ hvorki vinsældir né ríkidæmi til að verða sá frelsari sem þarf.
![]() |
Varar við boðun villutrúar biskups |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2025 | 00:31
Ég gleðst þegar konur eins og Jóhanna Jakobsdóttir, höfundur góðrar Vísisgreinar vaknar af uppvakningastefnu wóksins.
"Þeir vökulu og tungumálið" er snjöll og góð grein um wók-sýkinguna sem herjað hefur á heimsbyggðina allnokkuð lengi, og mætti telja þá heimsfarsótt ekki skárri en cóvíðshryllinginn.
Höfundurinn er Jóhanna Jakobsdóttir MPM verkefnastjóri með meiru og greinin birtist á Vísi, en ég frétti um hana þegar DV fjallaði um þau hörðu viðbrögð sem hún fékk, bæði stuðning og óánægju þeirra sem enn hengja sig í þessa hugmyndafræði.
Eins og Jóhanna fjallar um þá á wók uppruna sinn í "bakherbergjum félagsfræðideilda bandarískrar akademíu" og er um 50-60 ára gömul. Bloggarinn og sálfræðingurinn ágæti Arnar Sverrisson hefur þó skrifað enn meira og jafnvel betur um þetta efni, en grein Jóhönnu er þó alveg prýðileg og tekur mjög vel á þessu líka.
En eins og stendur í grein Jóhönnu þá átti þessi vitleysa aldrei að sleppa útúr háskólunum bandarísku, það stóð ekki til, en gerðist út af því að Netið kemur ýmsu á flot sem átti ekki að fljóta upphaflega.
Já, wók er mikið stjórnlyndi, Jóhanna fjallar vel um það.
En ég hef þó samúð með Hallgrími Helgasyni rithöfundi og öðrum sem hafa tekið ástfóstri við wókið, því það var auðvitað í góðri trú. Það er alltaf svo óþægilegt þegar maður uppgötvar að það sem maður hélt að væri rétt það byggðist á einhverri vitleysu eða hafði miður góðar afleiðingar og er því ekki réttlætanlegt við nánari skoðun.
Ég held að ég hafi þroskazt með aldrinum. Það merki ég á því að mér finnst ég minna dómharður en áður, en samt er ég reiðigjarn og get verið hvass.
En ég merki þetta á því að ég vil ekki lengur taka harða afstöðu þegar stríðsátök geisa, ég er farinn að átta mig á að það breytir voðalega litlu þótt maður tjái sig, og maður vissulega ekkert betri einstaklingur fyrir vikið.
En finnst engum það skrýtið að fleiri en 100 hafa fallið í Íran en einungis rúmlega 10 í Ísrael, ef RÚV hefur réttar tölur á hreinu? Er þá rétt að tala um stríðsátök? Er hér ekki um að ræða yfirgang Ísraels? Nema er hægt að sanna þessa kjarnorkuhættu frá Íran?
En aftur að wókinu.
Skyldi það vera rétt sem margir halda fram að wókið hafi komið Donald Trump til valda, því demókratar hafi wókað yfir sig?
Já, ég held að ýmislegt sé hæft í því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.6.2025 | 00:39
Að skima fyrir bönnuðum hugsunum er eins og að skima fyrir vondum veirum, eða hvað?
Aðferðir Ölmu Yfirgestapófasista eru einsog í kófinu. Ég hlustaði á viðtal við hana í Kastljósinu, eða fréttunum í vikunni, man ekki hvort það var.
En ég man að ég hugsaði hversu innilega firrt þetta væri, að ætla að uppræta ofbeldi áðuren það á sér stað.
Fyrst á að yfirheyra börnin og síðan á að senda útvalin í sálfræðimeðferð og endurhönnun. Jafnvel fannst mér vera ýjað að fjölskylduráðgjöf í gestapóskum stíl og frankfúrtskóluðum stíl.
Börn eru ekki vélar sem hægt er að endurprógrammera eins og tölvur, kannski næstum því, en þó ekki alveg. Þau eru dálítið flóknari og óútreiknanlegri.
Þessum fíflum dettur aldrei í hug að þau séu hluti af vandanum en ekki lausninni, þessum femínísku og fasísku greyjum.
![]() |
Skima fyrir ofbeldi í skólum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.6.2025 | 02:37
Það hvernig Esus er guð fyrirgefningarinnar.
Íranir og Ísraelsmenn eru þeir sem flestir hugsa um núna, en þessi eilífi hringur hefndarinnar verður að hafa sinn gang. Þessar þjóðir eiga sér trúarbrögð þar sem auga fyrir auga og tönn fyrir tönn er lögmálið frekar en fyrirgefningin sem Kristur bauð. Það er stór hluti vandans fyrir þá og heimsbyggðina.
Ég tel að ég sér búinn að leysa gátuna um Esus í eitt skipti fyrir öll, í megindráttum að minnsta kosti.
Ég vil forðast að taka of sterka afstöðu hvorki gegn Ísrael né Íran, því tíminn mun leiða það í ljós hvernig þetta fer. En ég endurtek það sem ég hef sagt í athugasemdum, að það er of lítið gert af því að setjast niður og semja. Ég hef vissulega takmarkað álit á Netanyahu fyrir að vera stríðsherra frekar en friðarins maður, en þannig eru líka múslimarnir sem stjórna svo oft og múslimaheimurinn.
Ég blogga kannski síðar betur um þessi hryllilegu stríðsátök sem ógna tilvist og lífi jafnvel mjög margra eða allra.
En trúarbrögðin eru næst hjarta manns og hjálpa oft mest þegar á móti blæs en eru líka leiðarvísir þegar vel gengur.
Ég er að skrifa bók um Esus og aðra gaulverska guði eins og ég hef lýst áður í pistlum. Verkefni mitt við að skrifa þessa bók felst meðal annars í því að finna goðsagnir sem passa við hann, þar sem ritaðar heimildir skortir en nafn hans er vitað um með vissu og að hann var einn af meginguðum Kelta og Gaulverja, enda þýðir nafn hans "Drottinn" og "Herra", og meira hrós er varla til sem guðanafn, og vísbending um að hann sé eða hafi verið einn af þeirra helztu guðum.
Gelískar, írskar og welskar goðsagnir eru þær sem skyldastar eru hinum týndu og fornu frá meginlandinu, því keltnesk telst sú menning einnig vera og tungumálin, welska og fornírska, gelíska.
Þessvegna hef ég leitað nokkuð vel í þessum fornu goðsögnum sem oft voru skráðar sem hetjusagnir en ekki goðsagnir af munkum kristnum á Írlandi, Wales og í Bretlandi.
Ég rakst á welska guðinn Lleu Llaw Gyffes, vegna þess að hann var krossfestur eða um það bil og bendir það bæði á Esus og Jesúm Krist og reyndar líka á Óðin sem gerir myndina enn fyllri og trúlegri.
Til að hrapa ekki að ályktunum hef ég verið að velta þessu fyrir mér lengi, en ég tel að þetta passi þótt margt komi á óvart í þessum rannsóknum.
Llew Llaw Gyffes þýðir "Hinn bjarti og skínandi með fima hönd". Því minnir hann á Lugh eða Lug, sem talinn er sólarguð af mörgum. En það passar, því ég tel að Lug sé í raun holdgervingur og birtingarmynd Esusar meginguðs keltnesku goðafræðinnar.
Keltneskar og gaulverskar sögur eru ævafornar. Skráðar seint, en lifðu um hundruð og þúsundir ára án efa næstum óbreyttar. Þær hafa því yfir sér annan blæ en bókmenntir gyðinga eða Rómverja eða Forngrikkja. Munurinn felst í því að siðalögmálin eru ekki til staðar í hinum keltnesku sögum um þeirra guð, eins og sett voru inní Gamla og Nýja testamentið.
Þar af leiðandi er keltneska og gaulverska goðafræðin nokkuð lík okkar norrænu goðafræði, þetta eru yfirlætislausar sögur sem þarf að túlka alveg frá grunni og álykta út frá þannig. Við höfum ekki boðorðin tíu þarna, heldur hegðun guðanna og gyðjanna og þurfum að draga ályktanir af slíkum einföldum atriðum.
Nú var mér það ljóst að Esus er hluti af heilagri þrenningu Kelta og Gaulverja. Þessvegna trúði ég því alls ekki í fyrstu að í sögunum um Llew Llaw Gyffes sé að finna kjarninn í goðafræði Esusar.
Sögurnar um Llew Llaw Gyffes verða að teljast yfirlætislausar. Enda skráðu munkar þær eða kristnir menn og gerðu lítið úr heilagleika hinna heiðnu guða, gerðu þetta mennska einstaklinga með ofurgáfur sem sagðar voru furðusögur um, þjóðsögur nokkurskonar, enda ævafornar.
Það sem maður rekst á einna fyrst við sögurnar um Llew Llaw Gyffes er að hann er allrasízt almáttugur og óskeikull guð sem skipar fyrir og er með læti og frekju. Hann er miklu frekar misheppnaður og tapari, þótt undarlegt megi virðast. Hann lýtur auk þess kvennavaldi, móður sinnar Arianrhod, þótt eitthvað sé það óljóst með tenginguna við hana.
Ég varð að stíga til baka og efast mjög um að ég hefði dregið réttar ályktanir með því að tengja goðsagnirnar um Llew Llaw Gyffes við hinn mikla guð Esus. Ég hef þó sannfærzt um að þetta er einmitt málið og þetta er rétt.
Nýlega keypti ég bókina "The druids" eftir Peter Berresford Ellis. Hún leiddi mig á réttar brautir, þar sem hann leggur áherzluna á gyðjudýrkun til forna meðal Kelta og Gaulverja.
Sá sem trúir á guðina lifir eiginlega í gegnum þá. Þetta þýðir að goðsagnirnar endurspegla mannlega eiginleika, en mannfólk þarf einnig að tileinka sér eiginleika guðanna til að verða betri manneskjur.
Þessar heiðnu goðsagnir ganga ekki útá að benda á náungann og skamma, heldur að lýsa eiginleikum, guðdómnum.
Spurningin er þessi:
Getur það verið að klerkarnir og munkarnir kristnu sem komust yfir þennan heiðna menningararf hafi breytt honum og gert lítið úr Llew Llaw Gyffes og öðrum keltneskum guðum og gyðjum?
Svarið er: Já, það má gera ráð fyrir því, samt, ekki endilega að öllu leyti. Í sögunum ætti að vera hinn sanni kjarni sem geymir guðdóminn.
Hvers vegna ætti heilagur guð að vera klaufabárður, óheppinn og tapari eins og Llew Llaw Gyffes?
Jú, þannig geta heilagir guðir verið. Þeirra helzta hlutverk er að reyna, að tapa, að deyja, eins og Baldur ás er dæmi um. Þetta eru guðir einsog og Ósíris, sólarguðir sem deyja, hverjum er fórnað, og sem rísa upp aftur.
Eftir að hafa skoðað þetta vel og lengi passar hér um það bil allt saman á skynsamlegan og rökvíslegan hátt.
Esus er ekki sá guð sem skipar fólki eða ráðleggur að fyrirgefa eins og Jesús Kristur. Nei, hann gerir það með örlögum sínum og lífi.
Í fornu textunum sem finnast á öðrum hnöttum þar er Esus bæði tré sem er hoggið og einnig fugl sem flýgur. Þar deyr hann daglega og fer til Heljar en rís aftur að morgni sem sólin, eða dögunin.
Í fornu textunum er að vísu ekki að finna mikla fyrirgefningu hjá Esusi, því meginguðirnir þrír eru daglega að drepa hver annan og rísa upp aftur, lifna við að nýju.
Þetta er auðvitað býsna fjarlægt nútímafólki.
En í textunum sem fjalla um Llew Llaw Gyffes er að finna þessa fyrirgefningu ef vel er að gáð.
Arianrhod er greinilega sama gyðja og Sirona meðal Gaulverja. Sirona er þó kona Esusar en Arianrhod er móðir Llew Llaw Gyffes, enda skilja kannski 1000 ár þessar goðsagnir að og ekki hafa þær heldur alveg verið eins á Bretlandi og í Frakklandi í upphafi, og orðið enn ólíkari með tímanum og heiti guðanna ekki þau sömu.
En hér er að dragast upp merkileg mynd af Esusi sem guði.
Svo virðist vera sem hann sé sífellt undir kvennavaldi, annaðhvort eiginkonunnar eða móðurinnar og að hún beri ábyrgðina.
Þó eru þarna miklar þversagnir því hann er mikill og heilagur guð samkvæmt öðrum heimildum, og jafnvel sá sem leiðir sálir til ríkis dauðra og dæmir þar.
Einhversstaðar mun standa í heilögum textum að allt sem Esus geri á jörðu niðri sé dæmt til að mistakast á sama hátt og allt sem hann gerir í Himnaríki sé dæmt til að vera heilagt og heppnast vel. Þetta minnir á það sem dr. Helgi Pjeturss skrifaði um Hinn mikla verund og hinn mikla verðund, að guðdómurinn þurfi að laga sig að ófullkomleikanum til að þroska það og bæta.
Þarna nákvæmlega sjáum við Esus í allri sinni dýrð og breyzkleika í senn.
Þetta eru miklar táknmyndir að auki.
Arianrhod mun vera tákn fyrir lögmál náttúrunnar og Sirona að auki. Henni er lýst sem stærðfræðisnillingi, sú sem reiknar út vegalengdir stjarnanna á milli og sú sem kemur á jafnvægi þannig að lífið fái þrifizt. Einnig er henni lýst þannig að í hennar vagni fari guðirnir á milli hnattanna.
Þetta passar við þekkingu vísindamanna nútímans. Esus er meira andinn.
Eða svo þetta sé orðað á máli nútímavísindamanna:
Aðeins þegar lögmálum efnisheimsins er fylgt 100% þá verða geimferðir mögulegar, en lögmál efnisheimsins, miskunnarlaus, þau birtast í gyðjunni Arianrhod, sem nefndist Sirona meðal Gaulverja, Forn-Kelta, sem merkir einfaldlega Stjarna!!!
Hinn mikli skapari og guð Esus þarf sem sagt að fara í gegnum völundarhús náttúrulögmálanna til að koma til jarðarinnar.
Þetta er svolítið annað en kristnin kennir að Guði sé ekkert ómögulegt! Já, keltneska og gaulverska goðafræðin er miklu meira í samræmi við veruleikann og náttúruvísindin!
Hjónaband Llew Llaw Gyffes mislukkast og svo er hann drepinn að lokum, honum er fórnað, hann er krossfestur, að öllum líkindum, þótt sögurnar segi að hann lifi þá krossfestingu af og rísi upp frá dauðum sem fugl, sem ugla. Vel má vera að krossfesting Krists sé eftirherma af þessari goðsögn, sem þá var goðsögnin um Esus, sólarguðinn sem var drepinn en reis alltaf upp frá dauðum að nýju.
En það er í þessu sem VIÐ fylgjendir Esusar eða Llew Llaw Gyffes getum fyrirgefið okkur sjálfum.
Þetta er jafnvel boðskapur sem er passar betur við okkar nútímalíf heldur en fyrirskipanir Krists um að elska náungann og fyrirgefa.
Það er vegna þess að boðskapurinn á bakvið goðsagnirnar um Esus þær rista dýpra, því þær koma inní okkar eðli; hann lifir í gegnum okkur og við lifum í gegnum hann - en þetta er nokkuð sem lengi hefur verið sagt um Jesúm Krist bæði í sértrúarsöfnuðum og Þjóðkirkjunni, án efa kemur þetta frá trúnni á Esus, hinni fornu trú á hann.
Esus kennir okkur sem sagt að við megum vera ófullkomin og við getum ekki annað en verið ófullkomin en það er allt í lagi.
Vegna þess að Esus reynir alltaf aftur, þannig fyrirgefur hann okkur, því hann er mitt á meðal okkar eins og sagnirnar herma.
Sögurnar um Cernunnos fjalla um nokkuð svipað, og samt er þar munur.
Ég verð seinna að fjalla um önnur atriði. Hvernig er hægt að samræma karlmennskuhugsjónirnar sem finnast í sumum þessara goðsagna og svo að Esus hlýðir konu sinni Sironu kannski að mestu leyti?
Ennþá leiðir þetta okkur að nútímanum og kvennaveldinu sem ríkir á Vesturlöndum.
Innan Ásatrúarinnar hafði þetta breyzt. Þar var Frigg hin auðmjúka eiginkona, enda Ung-Frigg svipuð og Eva Biblíunnar, sú sem syndgaði og BER ALLA SÖK ALHEIMSINS.
Stórmerkileg er gaulverska og keltneska heiðnin. Hún geymir þessa ævafornu mynd þegar skilin á milli þess ranga og rétta eru enn óljósari en síðar varð. Ég fjalla um það væntanlega síðar.
Hinsvegar, þar sem Esus á í sífelldum erjum við Taranis þá sjáum við átökin þar, sem birtast í kristninni sem fordæmingin á Evu, til dæmis.
Taranis er vissulega þessi feðraveldisguð.
En þetta er nóg í bili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.6.2025 | 05:15
Heimurinn er að stefna í æ meiri auðhringjaeinokun. Endalok Stöðvar 2 virðast steinvala á þeirri leið
"Áfram verða sýndar kvöldfréttir", segir í þessari frétt, en það liggur í loftinu að það sé ekki sjálfgefið. Miðað við þróunina má búast við því að þetta fyrirtæki verði eingöngu með netsjónvarp í framtíðinni og netfréttir og eitthvað annað sem tæknin mun heimta í breytinganna nafni á næstum 20 árum eða svo, og ekki er hægt að sjá auðveldlega fyrir.
RÚV mun hinsvegar lifa sem sjónvarpsstöð næstu 20 árin sennilega, sem risaeðla gamalla tíma.
Kannski munu þó sjónvörp enda eins og fótanuddtækin á söfnum eingöngu eftir það.
Hvert erum við að stefna í okkar snjallframtíð? Munum við sækja fréttir í símana eingöngu eftir 30 ár? Verða allir í sínum sýndarveruleika með hjálm á hausnum eða gleraugu sýndarveruleikans?
Ég man þá tíð að þegar Ragnheiður frænka mín varð sú fyrsta í móðurættinni til að verða áskrifandi að Stöð 2, það þótti merki um ríkidæmi og glæsileika, metnað og nýjungagirni.
Ég man að Spaugstofan gerði grín að sjónvarpsstöð sem hét Sýn þegar þeir voru dæmdir fyrir guðlast, 1997, en ákærurnar felldar niður í ágúst 1997. Brandarinn var á þá leið að Kristur hefði gefið blindum Sýn, (sjónvarpsstöðina Sýn). Sú sjónvarpsstöð (Gamla Sýn) var víst að sýna mikið frá hnefaleikakeppnum. Þetta er víst sameiginlegt fyrirtæki Fjölmiðlunar hf, sem Stöð 2 var undir einnig. Svo mikið hefur verið um samruna og allskonar víxlsameiningar að erfitt er að fylgjast með þessu.
Lögin um bann við guðlasti voru felld niður 2. júlí árið 2015 og það var Píratinn Helgi Hrafn sem stóð fyrir því og allur þingflokkur Pírata og var það vel gert.
Almennar reglur um meiðyrði ættu að nægja í stað þeirra laga sem nú gilda til að sérvernda hópa og einstaklinga.
Hvað þessa breytingu varðar er ég ánægður með að notað er gott og rótgróið íslenzkt orð sem er Sýn, en mér finnst samt vafasamt að nota svona almennt orð yfir fyrirtæki með allskonar starfsemi.
Stöð 2 var svo frægt vörumerki.
Ég er hræddur um að þetta geti leitt til þess að sjónvarpsstöðin verði lögð niður í núverandi mynd.
Þá verður RÚV einrátt á markaðnum.
Vill fólk það?
Sú einokun verður ekki eins og í gamla daga, þegar sátt ríkti um RÚV. Það fyrirtæki heldur áfram að vera taglhnýtingur peningavaldsins í heiminum sem eiginlega er að verða óvinsælla.
![]() |
Stöð 2 og Vodafone kveðja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.6.2025 | 03:33
Afabróðir minn sem sagði mér sögur um það þegar skáldin voru einskonar spámenn á 19. öldinni og fyrr á öldum
Þegar amma og afi voru að alast upp snemma á 20. öldinni voru bækur sjaldgæfar og dýrmætar. Á okkar tímum er til slík ofgnótt lélegra bóka að þeim er fleygt og aðrar keyptar í staðinn.
Ég hlustaði á eldhúsdagsumræðurnar í gær. Þær voru hefðbundnar og ekkert meira um þær að segja. Nema þetta, að einhver minntist á Jónas frá Hriflu og áherzlur hans á þjóðerniskennd og menntun, og á Samvinnuskólann, eða samvinnu almennt.
Ég bloggaði um Ingvar Agnarsson afabróður minn nýlega. Hann lærði í Samvinnuskólanum, og tók þaðan með sér ýmsar hugsjónir góðar og merkilegar sem veganesti í lífið - ef hann lærði þær ekki annarsstaðar líka.
Hann kunni sögur frá föður sínum og afa og hvernig það var þegar íslenzka þjóðin var að berjast fyrir sjálfstæði. Hann kenndi mér að yrkja hefðbundið eins og ég hef áður skrifað um.
En hann gaf mér líka tilfinningu fyrir liðnum tíma, hvernig það var að alast upp snemma á 20. öldinni, og svo seint á þeirri 19. í gegnum minningar og frásagnir eldra fólks sem hann þekkti.
Við Ingvar frændi áttum náið vináttusamband þrátt fyrir aldursmuninn. Kannski vegna þess að ég lærði Nýalsfræðin hjá honum betur en nokkurt barnabarn sem hann átti sjálfur, en samt veit ég að hann kenndi þeim líka, en ég varð mikill vinur afabróður míns, því báðir höfðum við mikinn áhuga á skáldskap og heimspeki og fleiri málum.
Eitt af því sem var sérkennandi fyrir Ingvar Agnarsson frænda minn var hversu mikla virðingu hann bar fyrir kvæðum. Hann orti sjálfur, en fór ekki að yrkja fyrr en hann var kominn yfir miðjan aldur, nema fáeinar vísur sem strákur, eins og hann sagði mér frá.
Hann sagði mér að eitt sinn var þetta þannig að kvæði höfðu gríðarleg áhrif á fólk og landsmenn lærðu vísur og kvæði utanað, og þau bárust í munnlegri geymd landshornanna á milli! Hann fæddist 1914 þannig að þetta hefur verið fram að 1924 og ábyggilega lengur.
Ingvar frændi kenndi mér að góð kvæði um þjóðerniskennd og frelsi væri eitt af stóru atriðunum til að gera stjórnmál góð og til að almenningur í landinu hefði áhuga og tilfinningu fyrir sjálfstæði!
Ég drakk þetta í mig, þessa sannfæringu hans fyrir gildi kvæðanna, að þau væru meira frelsandi fyrir fólk heldur en laust mál sem myndi gleymast meira.
Þetta er því miður nokkuð sem okkar íslenzka þjóð virðist alveg hafa gleymt og týnt niður fyrir utan örfáa sem kunna að yrkja og sem kunna AÐ META hvað kveðskapur er og hvað hann er ERFIÐUR, að setja saman góðan kveðskap!
Hann minntist á Hannes Hafstein og Jónas Hallgrímsson. Fólkið í landinu lærði vísur og ljóð eftir þessa menn eins og þeir væru ROKKARAR eða POPPSTJÖRNUR þess tíma!
Þegar Davíð Stefánsson gaf út bækur voru þær geymdar undir koddanum!
Hugsið ykkur, fólkið í torfbæjunum og torfkofunum hafði brennandi áhuga á menntun og fréttum að utan! Fólkið í torfbæjunum sem var bláfátækt á Íslandi, það drakk í sig bækur og fróðleik, og það stefndi beint uppávið og framávið!
Ég vil draga þetta fram til að benda á andstæður.
Þær eru kannski mest æpandi í Bandaríkjunum.
Sagt er að fólk í Bandaríkjunum í fátækrahverfum og jafnvel á millistéttarsvæðum eða úr ríkum fjölskyldum viti ekki hvar Ísland er eða hvað það er, og viti næstum ekkert.
Ég er ekki að segja þetta til að halda því fram að Bandaríkin skeri sig úr hvað menntunarskort varðar. Bandaríkin eru bara á undan á svo mörgum sviðum.
Ég er að segja að sama þróun er að verða á Íslandi og víðar.
Mér skilst að á Ströndum hafi ættingjar afa búið mann fram af manni, allavega í nokkur hundruð ár. Þetta var heimur þessa fólks, að lifa af landsins gæðum og sækja kirkjur og prestar komu og fermdu börnin og komu með bækur sem voru lánaðar í Bókafélagi, og fólk lærði þær næstum utanað!
Engu að síður er mjög langt frá því að segja að þetta hafi verið ómenntað fólk.
Langafi minn kunni að leggja klósett og útikamra fyrir nágranna sína, hann fór á hákarlaveiðar, hann veiddi fisk, var með kindur og kú, og hann kunni sitthvað í eðlisfræði og stærðfræði, íslenzku og fleiri greinum.
Auk þess var hann með örlitla smiðju við bæinn sinn Hraun, sem fór í eyði og hrundi loks, eða var rifinn. Þetta var timburbær, sem voru sjaldgæfir á þeim tíma. Eitt timburskýli var þessi smiðja og verkfærin voru handborvél, fótstiginn rennibekkur og annað slíkt. Já, fólkið kunni að bjarga sér á þessum tíma.
En að segja að fólkið í torfbæjunum hafi verið menntunarsnautt það er fjarri öllu lagi!
Ég hef stundum birt kvæði hér á blogginu. Það er hætt að valda mér vonbrigðum hvað þau fá lítinn lestur, en það er hneykslanlegt, og það sem meira er, það ber vott um að þjóð okkar hefur farið aftur.
Mér skildist á Ingvari frænda að pabbi hans og fyrri kynslóðir voru á þeirri skoðun að bundið mál væri æðra en það lausa.
Einnig lærðu þessar kynslóðir að ákall í kvæðum væri sterkara en í lausu máli og því bæri frekar að hlýða.
Þar af leiðandi, frelsishvöt og sjálfstæðishvöt Einars Benediktssonar, Hannesar Hafstein, Jónasar Hallgrímssonar og fleiri, hún hafði gríðarleg áhrif á þjóðarsálina. Síðan komu lög við sum þessara ljóða og þá hreinlega brenndu þau sig inní þjóðarsálina og urðu samofin henni.
Við lifum í heimi þar sem ofgnótt er til staðar á öllum sviðum.
Þá þarf að greina kjarnann frá hisminu.
Kvæði eru góð leið til þess. Þau eru oftast fremur stutt og hnitmiðuð.
Allskonar fólk vill hafa áhrif á mann. Jafnvel vélvit og gervigreind, gott er nýyrðið hjá Birni Bjarnasyni, að tala um vélvit í þessu sambandi.
Sérhver manneskja þarf að stíga til baka og taka eigin ákvörðun.
Ég er ekki dómbær á eigin kveðskap. Það sem mér finnst gott einusinni finnst mér kannski ekki gott seinna. Mér finnst þetta eins og að skrifa dagbækur að búa til ljóð og söngtexta. Mér finnst bara skemmtilegra að glíma við þrautir eins og rímið, skemmtilegra að það sé áskorun þannig og erfiðara.
En ég veit með 100% vissu að það voru betri tímar þegar allir Íslendingar elskuðu kveðskap og hlustuðu eftir kveðskap með ákafa og brennandi áhuga.
Já, sá tími þarf að koma aftur, þegar fólk ræðir saman um hversu góð kvæði eru sem koma fram og hvort vit sé í þeim, og jafnvel eitthvað sem getur hjálpað fólki í daglega lífinu, hvatt áfram ef þjóðerniskennd og frelsisvitund skortir, til dæmis, sem skáldin veita og bjóða.
![]() |
Hagræðingu skortir í hrúgu þingmála |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.6.2025 | 01:25
Mistök Katrínarstjórnarinnar tekur enn fylgi af þeim flokkum sem voru þar innanborðs
Alþjóðastofnanir, baráttusamtök og þjóðir hafa öll brugðizt í því að stemma stigu við hamfarahlýnun og loftslagsbreytingum.
Ég er sjálfum mér samkvæmur í því að sumt finnst mér gott í stefnu Trumps og annarra hægrimanna en annað ekki.
Það finnst mér lýðskrum og alrangt hjá Trump að efast um kenningar um hamfarahlýnun og draga þjóðina úr alþjóðlegri samvinnu til að vinna gegn mengun.
Það er nú einmitt þessvegna sem vinstrið og hægrið þarf að tala saman á nýjan hátt og að hinar hefðbundnu átakalínur þokist og aðrar komi í staðinn.
Samt, samstarfs Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins var EKKI gott. Það vita allir og nóg er að sjá fylgishrun flokkanna til að sannfærast.
Hvað var það sem brást í samstarfs VG og XD?
Jú, málið var það að þau vildu sanna að þau væri frjálslyndari en Andskotinn og pólitískir andstæðingar til samans. Það eina sem þau uppskáru var minnkandi fylgi og andúð fyrrverandi stuðningsfólks.
Síðan voru ýmsir ráðherrar í sóló og einkaflippi í stað þess að láta af öfgadillum. Undir merkjum frjálslyndis voru búin til ömurleg lög um leigubíla og það kerfi gefið nokkuð frjálst, en afleiðingin varð Kaos, stjórnleysi. Áslaug Arna, ungur og óreyndur ráðherra Sjálfstæðisflokksins var þar í fararbroddi.
Fóstureyðingalöggjöf Svandísar og VG var síðan blautur draumur gamalla Kvennalistakvenna, eitthvað sem átti ekki að rætast og var ekki nauðsynlegt að verða að lögum.
Allskonar öfgar og vitleysa varð að lögum í Katrínarstjórninni.
Kristrúnarstjórnin finnst mér skárri enn að minnsta kosti.
Það særði þann sjálfstæðismann sem er í mér hvernig stefnan var.
Það særði einnig þann umhverfisverndarsinna og vinstrimann sem í mér er að áherzlurnar voru aðrar en ég vonaði hjá VG.
Kjósendur VG voru sammála mér. Flokkurinn var ekki að vinna fyrir alþýðuna, heldur fyrir öfgafemínista fyrst og fremst, að óþörfu.
Sjálfstæðisflokkurinn finnst mér að ætti að vera sú breiðfylking sem Samfylkingin er núna, flokkur sem inniheldur jafnaðarmenn og hægrimenn, en með samt áherzlu á hægrimennskuna, sem sagt, óbeit á reglugerðum, óbeit á sköttum, frelsi á sem flestum sviðum, en EKKI ÖLLUM sviðum.
Fyrst og fremst ætti þó Sjálfstæðisflokkurinn að efla atvinnulífið.
Tökum tvö dæmi:
Flugvélögin, fjölmiðlarnir.
Ef Sjálfstæðisflokkurinn væri í ESSINU sínu, þá væri flokkurinn eitthvað að gera til að bæta stöðuna þarna. Uppsagnir og minnkandi umsvif, þetta er það sem sjálfstæðismenn ættu að vinna bug á!!!
Sjálfstæðisflokkur sem HJÁLPAR ekki atvinnulífinu, hann hefur brugðizt!!!
Fólk kýs aðeins Sjálfstæðisflokkinn, ef hann er leiðandi og drífandi, í að skapa venjulegu fólki betri skilyrði og kjör!!!
![]() |
Önnur eins bráðnun aldrei mælst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Ingólfur Sigurðsson
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.7.): 12
- Sl. sólarhring: 37
- Sl. viku: 629
- Frá upphafi: 153099
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 476
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar